Hvers vegna ?

Þessi könnun er nokkuð takmörkuð. Einungis er spurt hvort krónan eigi að halda sér, ekkert hvað þeir sem vilja fórna henni vilja fá í staðinn.

Það er auðvelt að afneita hlutum, en þá verða þeir sömu einnig að benda á aðra lausn. Því átti að sjálfsögðu að kanna vilja fólks til þess hvaða gjaldmiðil ætti að koma í staðinn. Hversu stór hluti þjóðarinnar vill taka upp evru, hversu stór dollar og hversu stór hluti vill einhvern annan gjaldmiðil og þá hvaða.

Það er reyndar merkilegt að enn skuli vera til fólk sem telur gjaldmiðil hafa sjálfstæða tilveru, með ákvarðangetu og jafnvel vald. Auðvitað er ekki svo, gjaldmiðillinn er í raun einungis mælikvarði á getu þeirra sem stjórna landinu. Annað ekki. Undantekning er á þessu þegar þjóð tekur upp gjaldmiðil annars lands eða ríkjasambands. Þá færist þessi mælikvarði yfir á það land sem hefur stæðsta hagkerfið en hin sem minni eru verða að láta sér það gott líka. Því ætti ekkert ríki að sækja um aðild að gjaldmiðli annars ríkis eða ríkjasambands, nema að vera fullviss um að hagkerfi þess sé svo sterkt að það muni geta haft áhrif. Það á vissulega ekki við um Ísland.

Niðurstaða þessarar könnunar hlýtur þó að vera áfall fyrir Árna Pál, hins nýja formann Samfylkingar. Í öllum hans málflutningi hefur upptaka evru verið megin þema. Hann sér ekki aðra lausn. Það er því ljóst að hans hugmyndir eiga ekki upp á pallborð þjóðarinnar.

Eftir sem áður liggur ekkert fyrir hver vilji þeirra 46% sem kasta vilja krónunni er. Ekkert vitað hvað þeir vilja í staðinn. Það er ekki víst að evran sé þar ofarlega á blaði.

 


mbl.is Meirihlutinn styður krónuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eins og þú nefnir þá er gjaldmiðill mælikvarði á getu stjórnvalda, m.a. getu til að halda stöðugleika. Það er eitthvað sem íslenskir stjórnmálamenn fá falleinkunn í.

Ef Íslendingar ætla sér að taka þátt í evrusamstarfi þá þýðir það ákveðnar skuldbindingar í efnahagsmálum svo hér haldist stöðugleiki. Það virðist vera sem margir séu hræddir við að geta ekki hringlað með gjaldmiðilinn eftir hentugleika.

Vissulega hefur það sennilega hentað okkur vel í þessu ástandi að vera með sjálfstæða mynt, en vera kann að óstöðugleiki síðustu áratuga hefði orðið mun minni ef íslenskt stjórnvöld gætu ekki hlaupið til með gengið eftir eigin hentugleika, oftast eftir eigin óráðsíu.

Krónan eða annar gjaldmiðill er ekki svarið, heldur að ná hér stöðugleika og halda honum.

Guðmundur (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 10:38

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Ef tekst að ná þeim stöðugleik og halda honum í þann tíma sem þarf til að eiga möguleik á aðild að evrunni, hefur verið sannað að krónan er ekki ónýtur gjaldmiðill.

En til að ná þessu marki, þarf strax að fara að vinna að því og fyrsta skref þess er að þeir stjórnmálamenn sem vilja láta taka sig alvarlega hætti að níða niður krónuna. Árna Pál mun aldrei takast að koma evru á sem gjaldmiðli hér, jafnvel þó þjóðin stæði öll að baki honum, ef hann níðir krónuna við hvert tækifæri sem gefst. Þá mun hann aldrei ná þeim markmiðum sem þarf til að uppfylla evruaðild.

Ef hann heldur að Ísland geti fengið einhverja sérlausn eða eftirgjöf á því sviði, er hann á röngu róli. ESB mun aldrei aftur gefa eftir í þeim viðmiðum, eftir að hafa gert slíkt gagnvart t.d. Grikkjum. Frekari og harðari takmörk eru líklegri.

En fyrst og fremst þarf að ná stöðugleika, ná jafnvægi milli tekna og gjalda. Þegar því hefur verið náð má skoða hvort annar gjaldmiðill hennti okkur frekar.

Gunnar Heiðarsson, 4.2.2013 kl. 11:46

3 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Ég er sammála þér en bendi á að KRÓNAN gæti alveg verið lausnin.Ef við tökum upp annan gjaldmiðil eru við bundin af því efnahagsástandi sem er í öðrum ríkjum .Ef við höldum krónunni erum við frjáls til að bæta efnahagsástandið hér nú eða öfugt.Þetta er alltaf spurning um stjórnun.Ég vil að við gerum meiri kröfur til stjórnunar.Hættum að skipa flugfreyjur og jarðfræðinga í ráðherrastöður.

Jósef Smári Ásmundsson, 4.2.2013 kl. 11:59

4 Smámynd: Samstaða þjóðar

Barnaleg spurning og ómarktæk svör.

Könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2 er gott dæmi um hvernig EKKI á að gera kannanir. Niðurstaðan er sögð vera:

»Alls sögðust 52,6 prósent þeirra sem afstöðu tóku vilja að krónan verði framtíðargjaldmiðill á Íslandi, en 47,4 prósent sögðust ekki vilja krónuna áfram.«

Þar sem »krónan« er bara nafn á gjaldmiðli en ekki nafn á peningastefnu, þá eru svörin marklaus. Alvöru spurningar hefðu til dæmis verið:

1.     Hvort viltu fremur að gjaldmiðill Íslands sé háður »fastgengi« eða »flotgengi« ?

2.     Hvort viltu fremur að peningastefna landsins sé »torgreind peningastefna« (discretionary monetary policy) eða »reglu-bundin peningastefna« (rule-bound monetary policy) ?

Loftur Altice Þorsteinsson.

Samstaða þjóðar, 4.2.2013 kl. 13:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband