RUV Speglar tvo "höfðingja"

Enn heldur fréttastofa RUV uppi áróðri sínum fyrir ESB. Í gærkvöldi voru tveir gamlir "höfðingjar" dregnir í viðtal. Báðir eru fyrrverandi þingmenn, ráðherrar, sendiherrar og annar þeirra fyrrverandi samningamaður fyrir ríkið á erlendri grund, en hinn núverandi. Þessir "heiðursmenn" voru Svavar Gestsson og Þorsteinn Pálsson, tveir pólitíkusar sem voru á sitthvorum enda hins pólitíska landslags hér á landi meðan þeir sátu á þingi, annar fulltrúi afturhaldsins og hinn íhaldsins. Þessir tveir "höfðingjar" voru þó ótrúlega sammála, sérstaklega þegar talið barst að ESB.

Þorsteinn er enn haldinn þeirri blindu að telja hér á landi mikinn stuðning fyrir aðild að ESB, sérstaklega innan Sjálfstæðisflokks. Hann kýs að hundsa allar skoðanakannanir um þetta mál, bæði er varðar vilja Sjálfstæðismann og einnig vilja þjóðarinnar. Þá kýs hann að hundsa samþykktir flokkss síns einnig. Helstu rök hans gegn því að draga til baka aðild og færa þjóðinni það vald að ákveða hvort haldið verði áfram, eru að þá sé verið að brjóta allar brýr að baki sér. Þessi málflutningur er glórulaus. En þeim sem rölta með Þorsteini á hverjum laugardagsmorgni upp á hans Kögunarhól, kemur þessi málflutningur hans ekki á óvart. Hann er fyllilega trúr sinni sannfæringu, hversu gáfuleg eða skynsöm hún svo er.

Svavar Gestsson átti þó örlítið erfiðara með vik. Hann skrifar ekki vikulega pistla í Fréttablaðið um hina "guðlegu dýrð" í ESB, eins og Þorsteinn, þá er Svavar í þeim eina flokki sem einlæga afstöðu hefur lýst gegn aðild að ESB, en á hinn bóginn hefur hann formann sinn og samstarfið við Samfylkingu. Hann þurfti því að reyna að haga sínu máli þannig að enginn muni styggjast, hvorki flokksfélagar né formaðurinn. Þetta er auðvitað ekki hægt, annað hvort eru menn með eða á móti aðild og ljóst að Svavar metur formann sinn meir en flokkinn.

Þó hann reyndi að gera lítið úr þessu stóra máli og taldi það ekki hafa nein áhrif á myndun næstu ríkisstjórnar, taldi hann að þetta mál muni verða eitt það stæðsta í pólitískri umræðu í vetur og fram að kosningum. Hann taldi fráleitt að næsta ríkisstjórn muni draga umsóknina til baka eða leggja hana til hliðar. Hann taldi fráleitt að gera slíkt, að betra væri að klára viðræðurnar. Samt bennti hann á þá augljósu staðreynd að einungis einn stjórnmálaflokkur á Alþingi hefði þessa stefnu á sinni könnu, allir aðrir flokkar vildu ýmist draga umsóknina endanlega til baka, eða draga hana til baka og láta þjóðina ákveða hvort haldið skuli áfram. Það er auðvelt að vera bæði með og á móti, segja bæði já og nei, en slíkir menn eru sjaldnast taldir áreiðanlegir eða traustvekjandi.

Það sem kannski helst greindi á milli skoðanna þessara tveggja "heiðursmanna" var að Þorsteinn sá fyrir sér að sinn flokkur myndi "vitkast", myndi sjá hina "guðlegu dýrð". Þó hann segði það ekki berum orðum, mátti lesa út úr hans málflutningi að hann sæi fyrir sér að hrunstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar yrði mynduð næsta vor, með Samfylkingu sem leiðandi flokk þeirrar ríkisstjórnar. Svavar sá hins vegar fyrir sér að núverandi stjórnarflokkar myndu geta myndað ríkisstjórn með Framsóknarflokki og hugsanlega einhverjum nýjum flokki og að sú ríkisstjórn yrði undir leiðsögn Samfylkingar.

Þó þarna hafi kannski verið einhver skoðanamunur milli þessara tveggja "heiðursmanna", voru þeir ótrúlega sammála um nauðsyn þess að klára viðræðurnar og grundvöllur þess væri að Samfylking leiddi næstu ríkisstjórn.

En þetta er ekki í fyrsta skiptið sem þessir fyrrum andstæðingar á Alþingi snúa bökum saman. Eftir að Svavar kom heim, vorið 2009, með samning sem sumir kalla Svavarssamniginn en aðrir Landráðasamninginn, varð einn hellsti baráttumaður þess að sá samningur yrði samþykktur, Þorsteinn Pálsson. Þeirri baráttu hélt hann áfram, jafnvel eftir að þjóðin hafði hafnað þeim samning tvisvar. Þá stóðu þessir tveir menn saman sem einn. Það eru litlar líkur á að þeirra spádómsgáfa sé betri nú en þá.

RUV er duglegt í baráttunni fyrir aðild að ESB. Þar er einskis svifist og er þetta viðtal einungis eitt dæmi þess. Fréttastofan er þar sérstaklega iðin og notar þá einkum tvo daglegu þætti sína sem kallast Morgunútvarpið og Spegilinn til þessa verks. Þegar fréttir berast af vandræðum evruríkja, eða skoðanakönnunum hér innanlands um vilja fólks til aðildar, sem eru allar á einn veg, eru þessir þættir undirlagðir áróðri. Þess á milli fá hlutlausari mál örlitla umfjöllun.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 Eiríkur Bergmann hefur verið vant við látinn....

GB (IP-tala skráð) 29.12.2012 kl. 09:53

2 Smámynd: Jónatan Karlsson

Sæll Gunnar

Ég held að nú hafir þú sannarlega hitt naglann á höfuðið. RÚV (ræsi útrásar víkinganna) er að öllu leyti til skammar, allt frá því að vera rekið eins og lítið fjölskyldu fyrirtæki, upp í rotið áróðurs útibú ESB, reyndar auk Fréttablaðsins, hér á Íslandi. Þá er skemmst að minnast, hlutdrægri og skammarlegri aðkomu RÚV að forsetakosningunum. Hvað þessa berleggjuðu og gegnsæju fyrrv. stjórnmálamenn varðar, þá get ég aðeins rifjað upp máltækið, sem hljómar eitthvað á þá leið, að enginn virkisveggur sé svo hár og rammgerður, að asni klifjaður gulli komist ekki yfir hann.

Jónatan Karlsson, 29.12.2012 kl. 11:05

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Eiríkur Bergmann var Speglaður í fyrrakvöld GB, svo fréttastofan hefur talið sig þurfa einhvern annan til að Spegla í gærkvöldi.

Ég hef alla tíð verið hlyntur því að þjóðin eigi sinn eigin ljósvakamiðil, Jónatan. En þegar viðhorf þeirra sem þar starfa eru á þann veg að keppast eins og rjúpan við stein við stæðsta einkarekna ljósvakamiðilinn um að dásama hina "guðdómlegu dýrð" í ESB og hversu lánsöm þjóðin yrði ef sjálfstæðinu yrði fórnað, hallast ég að því að ljósvakamiðill í eigu þjóðarinnar sé kannski tímaskekkja. Auðvitað mætti skipta út þeim sem þar stjórna. Brot þeirra á þeim lögum sem þeim ber að vinna eftir eru mýmörg og því næg efni til uppsagna. En það mun þó ekki verða gert.

Máltækið um asnan og gullið á vel við um þessa gömlu stjórnmálamenn, það er rétt hjá þér. Þeir hafa lokið sínu starfi á sviði stjórnmála, með miður góðum árangri og eiga að láta þar við sitja. Það eiga þeir líka sameiginlegt. Það er ekkert sem þessir menn geta sagt eða gert til að bæta fyrir fyrri mistök sín, en alger óþarfi fyrir þá að bæta á þau. Nóg er samt.

Gunnar Heiðarsson, 29.12.2012 kl. 12:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband