Vinstrimenn skilja ekki frjálsa hugsun
21.10.2012 | 17:25
Nú keppast vinstrimenn við að fagna "sigri" sínum, bæði í bloggheimum og opinberlega. Ráðherrar láta hafa eftir sér að þetta sé ósigur stjórnarandstöðuflokkanna, sérstaklega Sjálfstæðisflokksins.
Þar kemur til að formenn stjórnarandstöðuflokkanna mæltust til að fólk mætti á kjörstað og kysi NEI við fyrstu spurningunni. Ljóst er að margir þeirra sem fylgja stjórnarandstöðuflokkunum hafa ekki farið að þessum tilmælum. Þetta sést af því að fylgi stjórnarflokkanna er minna en svo að það eitt kæti náð þeirri niðurstöðu sem skoðanakönnunin gaf.
Þetta er vinstrimönnum óskyljanlegt, þeir skylja ekki frjálsa hugsun. Þetta gæti aldrei gerst í þeirra flokkum. Þar er einræðishugsunin við völd og þeir sem voga sér að óhlýðnast foringjanum eru samstundis úthýstir. Jafnvel þó það kosti að úthýsa nánast öllum kjósendum flokksins, eins og VG hefur tekist. Foringinn ræður!!
Sú frétt sem þetta blogg er tengt við er fyrir margt merkileg. Jóhanna segist stolt af þjóðinni, einkum vegna þess hversu afgerandi sigur hennar tillaga fékk. Henni til fróðleiks er nokkurn veginn sama hlutfall þjóðarinnar sem sagði JÁ við fyrstu spurningu könnunarinnar og mælist gegn aðild að ESB. Aldrei hefur hún talað um að það væri neinn sérstakur sigur, að eftir því skuli tekið.
Þá segist hún ætla að beyta sér fyrir því að samstaða náist milli allra flokka á Alþingi, ekki um efni nýrrar stjórnarskrár, heldur þann tíma sem taka skuli í samþykkt hennar. Samþykkt stjórnarskrár sem byggð skuli á tillögum stjórnlagaráðs, með "smá" breytingum sem henni einni þóknast.
Þá hælir Jóhanna sér af því að hafa áður viljað breytingu á stjórnarskránni. Það eru fleiri sem slíkar breytingar hafa viljað, reyndar allir flokkar sem nú eiga fulltrúa á Alþingi. Það er hins vegar aðferðin sem menn deila um, hvort breyta átti núgildandi stjórnarskrá eða skrifa nýja frá grunni.
Það er þó einungis eitt atriði sem Jóhanna setur á oddinn og reyndar eina atriðið sem henni þykir þurfa að breyta, það er framsal lýðræðisins til annara landa eða sambanda. Þetta atriði er henni nauðsyn að koma í gegn til að ESB aðild geti orðið. Nú hefur henni tekist það ætlunarverk sitt. Sú leið sem hún valdi til þess, hefur kostað þjóðina langt á annan milljarð króna og þann pening hefur þurft að taka að láni erlendis.
Þetta mál er allt hið undarlegasta. Í hinni svokölluðu búsáhaldabyltingu var krafa fólksins varðstaða um fjölskyldur landsins. Einstaka maður, gjarnan einhverjir betur stæðir innan menntaelítunnar, nefndi í sínu riti kröfu um nýja stjórnarskrá. Engin krafa um þetta koma frá fólkinu sem stóð í baráttunni. Samt er þetta nú allt í einu eignað því fólki.
Haldinn var þjóðfundur. Þar kom saman nærri þúsund manns, valið af handahófi. Inn á þeim fundi var þessu fólki svo listilega stýrt af þessari sömu menntaelítu og þannig séð til að ein af tillögum fjallaði um nýja stjórnarskrá. Þannig var búið að eyrnamerkja þá kröfu Þjóðfundinum.
Þarna var farið fram með sögusmíði af hálfu nokkurra einstaklinga. Það var engu fólki í hug ný stjórnarskrá í búsáhaldabyltingunni. Þar var hugurinn allur við það að fjölskyldur landsins fengu um sig einhverja vörn gegn þeim fjármálaöflum sem höfðu leikið það svo grátt. Þar átti stjórnarskráin engann þátt.
Það hefði betur farið ef stjórnvöld hefðu hlustað á kröfur fólksins, hlustað á hvað raunverulega var verið að biðja um. Þess í stað var skellt skollaeyrum og snúið sér að fjármagnsöflunum, þeim hinum sömu og hér höfðu kollkeyrt öllu, örfáum mánuðum áður. Hinir snildar sögusmiðir voru svo fengnir til að hamra á kröfu nýrrar stjórnarskrár, þeir urðu þó að láta líta svo út að sú krafa væri frá sveltandi fólkinu. Þetta var nauðsynlegt til að koma þar inn afsalsheimild Jóhönnu, enda var sérstaklega kveðið á um það í þeim lögum sem síðar voru gerð til handa stjórnlagaþingi, sem Hæstiréttur svo úrskurðaði ólöglegt.
Enn hefur ekkert verið gert til hjálpar fjölskyldum landsins, skjaldborgin sem lofað var fór annað. Sá fjöldi manns sem flúið hefur land er nær því að vera hlutfallslega sá sami og héðan flúðu náttúruhamfarir af öllu tagi, seinni hluta nítjándu aldar. Aldrei hefur önnur eins holskefla fjölskyldna verið borin úr húsum sínum, sem nú. Atvinnuleysið hefur verið með því allra mesta sem þjóðin þekkir og fjöldi starfa langt undir því sem þykir ásættanlegt.
Það voru einmitt þessi atriði sem fólk var að berjast fyrir í búsáhaldabyltingunni, berjast fyrir því að halda húsum sínum og atvinnu. Berjast fyrir því að fá að búa áfram í landinu. Ný stjórnarskrá var víðsfjarri huga þessa fólks á þeim tíma.
Sá "sigur" sem vannst í gær er vissulega sigur Jóhönnu, hún tryggði sér auðveldari inngöngu í ESB. En fyrst og fremst var þetta sigur menntaelítunnar. Hún mun opna sínar kampavínsflöskur.
Þetta var ekki sigur búsáhaldabyltingarinnar, ekki sigur fjölskyldna landsins. Ný stjórnarskrá mun ekki gefa því húsin sín aftur, vinnuna eða borga af stökkbreyttum lánum þess.
Er afskaplega stolt af þjóðinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Vertu nú kátur nafni minn. Ný stjórnarskrá getur skilað okkur betri stjórnmálamönnum sem eru meira í takt við þjóðina. Afgerandi stuðningur við tillögur stjórnlagaráðsins, ekki síst persónukjörið, ætti að landa því. Og þá mega nú allir þessir sem þú minnist á fara með bænirnar sínar!
Gunnar hinn (IP-tala skráð) 21.10.2012 kl. 18:02
Þeir sem studdu tillögurnar voru rétt um 30% atkvæðisbærra manna (sumir gleyma að taka auðu seðlana út þegar þeir reikna) eða um 70 þ. manns. Það er rétt rúmlega fylgi ríkisstjónarflokkanna og næstum örugglega mest sama fólkið.
D og B tapa ólíklega einu einasta atkvæði á andstöðu við tillögurnar og næsta þing þarf að samþykkja þær til að breytingar verði á stjórnarskrá.
Eins verður að hafa í huga að þátttakendurnir í þjóðaratkvæðagreiðslunni í gær vildu ákvæði um þjóðkirkju og þ.a.l ekki efnislega óbreyttar tillögur stjórnlagaráðs.
Vilji það fólk ekki efnislega óbreyttar tillögur er erfitt að vita hverjar af þeim sem ekki var kosið um það var að styðja í gær.
Niðurstaðan er sem sagt að 70 þ. manns styðja tillögurnar að óþekktu marki.
Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 21.10.2012 kl. 18:05
Stórfín samantekt Gunnar,
Friðrik Már , 21.10.2012 kl. 21:27
Gunnar hinn, tillögur stjórnlagaráðs um persónukjör heimila það, skipa ekki. Spurningin, sem þú væntanlega svaraðir játandi á laugardaginn, um þetta mál, var hins vegar svo opin að útilokað er að átta sig á hvað hún raunverulega þíðir.
Ef tillaga stjórnlagaráðs fær að ráða mun það verða þingmenn sem taka ákvörðun um aukið persónukjör. Það sér hver maður að erfiðlega mun að koma því áfram. Svo er líka spurning hvaða trygging fyrir heilbrigðari þingmönnum við fáum með persónukjöri. Pólitíkusar eru alltaf pólitíkusar, hvort sem þer eru kjörnir í persónukjöri eða sem hluti framboðslista stjórnmálaflokks. Í öllu falli voru kjósendur plataðir þarna, þar sem ákvörðunin mun alltaf verða þingmanna, hvort sem heimild til þess verði sett í stjórnarskrá eða ekki.
Það er rétt Hans, hugsanlega hafa bara kjósendur stjórnarflokkanna svarð játandi. Þó efast ég um að þeir hafi slíkt fylgi. Sú staðreynd að skoðanakönnunin leiddi í ljós andstöðu við stjórnlagaráð varðandi þjóðkirkjuna, veldur því að tillögur þess erða ekki settar óreyttar fram. Þar með er í raun fyrsta spurningin fallin.
Takk, Friðrik.
Gunnar Heiðarsson, 22.10.2012 kl. 07:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.