Einræðisherrann
20.10.2012 | 09:29
Félagafrelsi á að heita hér á Íslandi. En er það svo? Sannarlega ekki!
Þegar kemur að stjórnmálafélugum er vissulega félagafrelsi, hagsmunafélög ýmiskonar eru í flestum tilfellum frjáls, þó sum setji skorður við inngöngu. Það eru einungis hagsmunasamtök launþega sem setja kröfur um inngöngu, þar er hið dásamlega félagafrelsi enn langt utan seilingar.
Að vísu má segja að ákveðið frelsi ríki þar einnig, að því marki að í flestum tilfellum getur launþeginn valið sér stéttarfélag. Það er einungis í þeim tilfellum þegar um er að ræða lögverndað starf sem ekki er alltaf um slíkt val að ræða. Launþeginn getur því valið sér það stéttarfélag sem hann telur best verja sína hagsmuni og ef hann vill getur hann komið sínum skoðunum á framfæri þar. Reynist honum það örðugt, hefur hann alltaf val um að skipta um stéttarfélag og sýna með því í verki andstöðu sína við störf stjórnar.
Þegar kemur að ASÍ snýr málið hins vegar öðru vísi við. Þar er ekki neitt félagafrelsi, heldur verða allir þeir launþegar sem eru í þeim stéttarfélögum landsins sem aðild eiga að sambandinu, að lúta því að teljast meðlimur ASÍ. Þar er ekkert val. Af þessum sökum eru nú um 105.000 manns nú taldir félagar ASÍ, eitthundrað og fimm þúsund manns, algerlega óháð því hvort það fólk vill eða vill ekki! Þetta er stór hópur landsmanna, nærri þriðjungur allra íbúa landsins! Það skýtur því skökku við að svo stór samtök, samtök sem fólk er nauðugt til að tilheyra, skuli vera stjórnað af 300 manna hóp og að einungis þurfi samstöðu 150 þeirra til að taka hinar ýmsu ákvarðanir, jafnvel færri, er varða 105.000 manns. Þetta minnir nokkuð það stjórnarfar er ríkti í föllnu stórveldi í austri. Kannski er tengingin þangað enn meiri en gott þykir.
Því er sú undarlega staða hér á Íslandi að við búum í lýðræðisríki, en einn þriðji landsmanna býr síðan við einræði innan þess lýðræðis. Svolítil öfugmæli en þetta er sú staðreynd sem við blasir.
Nú síðustu daga hefur staðið yfir árþing ASÍ. Á þesu þingi hafa komið fram nokkrar athyglisverðar tillögur, tillögur sem að flestu eru til þess fallnar að auka eylítið á lýðræðið innan sambandsins, til þess fallnar að brjóta upp það einræði sem ríkir innan þess. Þar ber hellst að nefna tillaga um beina kosningu forseta ASÍ. Einu rök gegn þessari tillögu voru að það gengi ekki vegna þess að stjórnin að öðru leyti er ekki kosin í slíkri kosningu. Þessu hefði mátt kippa í liðinn með breytingatillögu um að þessi lýðrisbreyting næði til allrar stjórnar ASÍ. Þessi fátæklegu rök komu frá forseta ASÍ og þau dugðu til að hræða nógu marga frá því að kjósa með þessari tillögu, þrátt fyrir að öll önnur rök bentu til annars.
Þarna fór forgörðum einstakt tækifæri til að auka veg og virðingu sambandsins, auka traust launafólks til þessa sambands sem það er nauðugt til að tilheyra! Þetta leiddi svo til þess að forseti og varaforseti voru kosnir áfram, með langt innan við 200 atkvæðum. Þetta fólk beytti sér þó harðast gegn launþegum í síðustu kjarasamningum og fór fram með slíku ofstæki að fáheyrt er. Um þetta eru til bréfaskrif frá varaforseta ASÍ, bréfaskrif sem hver ætti að skammast sín fyrir!!
Fleiri góðar tillögur komu fram um hin ýmsu mál. Þau voru flest felld, enda komin frá þeim armi innan þessa fámenna hóps sem hefur beytt sér fyrir auknu lýðræði.
Það sem þó kom mest á óvart var sú staðreynd að tillaga um ályktun til stjórnvalda um niðurfellingu verðtryggingar, skyldi vera felld. Að 121 "fulltrúi" launafólks skuli hafa látið glepjast til að fylgja forseta ASÍ að málum um það efni. Þetta sýnir best þau völd sem einræðisherrar hafa í einræðisveldum. Þarna var öll rökhugsun sett til hliðar svo þóknast mætti "valdinu".
Það vita allir sem vilja vita að Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur staðið kyrfilega vörð fjármagnseigenda í þessu máli. Það er ekkert nýtilkomið, hefur verið hans stefna alla þá tíð er hann hefur vermt stól forseta ASÍ og jafnvel lengur. Hann átti þess kost vorið 2008 að´standa vörð sinna umbjóðenda varðandi verðtrygginguna, en sat sem fastast við hlið fjármagnseigenda. Hefði hann á þeim tíma barist fyrir þá sem honum borga launin, væri vandi fjölskyldna landsins minni í dag, svo mikið er víst.
Nú kemur þessi maður í fjölmiðla og segist óttast aðra kollsteypu. Það er gott að hann er farinn að átta sig á staðreyndum. Hvort þarna sé um viðhorfsbreytingu að ræða hjá manninum eða hvort enn eymir af þeirri tímabundnu stefnubreytingu sem hann tók mánuði fyrir ársþing ASÍ, skal ósagt látið. Það mun fljótlega koma í ljós.
Og hvað er það sem Gylfi óttast? Jú meiri verðbólgu og hærri vextir, að þetta muni hafa mikil áhrif á fjölskyldur landsins. Mæri verðbólga leiðir til hærri vaxta og hærri vextir leiða til meiri verðbólgu. Þetta er vítahringur sem einungis er hægt að komast út úr með aukinni verðmætasköpun. Með því að gera viðskipti okkar við útlönd okkur hagstæð. Einn þáttur er þó afgerandi í þessu öllu, en það er verðtryggingin. Hún magnar þetta ferli og því má með sönnu segja að höfuð ástæða verðbólgunnar sé verðtryggingin. Hún leiðir gegnum allt hagkerfið og kemur verst niður á fjölskyldum landsins, þessa hóps sem sem að stæðstum hluta verður að lúta einræði ASÍ.
Það er því hjóm þegar þessi maður, sem harðast hefur barist fyrir viðhaldi verðtryggingar, skuli nú segjast óttast það sem flestir sjá að muni koma. Óttast afleiðingar þess kerfis sem hann sjálfur hefur harðast barist fyrir!
En næsta hrun verður verra, þá verður engin miskun. Stjórnmálamenn eru farnir að tala um að afnema þann þátt neyðarlaga er tryggir innistæður. Þetta er skýrt merki um það sem koma mun. Ríkissjóður er svo skuldum vafinn að engin leið er að hann geti lifað af næsta hrun. Þar er mikill munur frá síðasta hruni. Verðtryggð lán munu aftur stökkbreytast, ofaná þá hækkun sem fólk nú berst við. Einsýnt er að flestar fjölskyldur munu fara á hausinn og fyrirtæki einnig. Því mun atvinnuleysi komast á nýtt skelfilegt stig! Það er því full ástæða fyrir Gylfa að óttast, en óttinn einn hjálpar lítið.
Meðan þessi raunveruleiki blasir við, standa stjórnvöld í ströngu. Ekki þó við að reyna að afstýra þessari ógn, heldur við hin ýmsu gælumál sín. Þar er engu til sparað, hvorki fjármunum né mannskap.
Kosningin í daga er eitt dæmi þess. Allt að milljarð króna hefur farið í undirbúning þessa gæluverkefnis og nú skal bætt við kvart milljarð í dag. Það er þó ekkert í gildandi stjórnarskrá sem hægt ar að tengja við hrunið, haustið 2008 og heldur ekkert í tillögum stjórnlagaráðs sem hefði haft einhver áhrif á það. Það er heldur ekkert í þeim tillögum sem mun koma í veg fyrir annað hrun, þá ógn sem landsmenn allir ættu að vera uppteknir af og stjórnvöld að leggja allan sinn kraft í að forða.
Það sem ársþing ASÍ hefði getað gert til hjálpar launafólki í næsta hruni, var að krefjast afnáms verðtryggingar. Hvort það eitt og sér dugi til að fjölskyldur landsins lifi af það hrún er ekki víst, en það er víst að það myndi hjálpa mörgum.
Óttast aðra kollsteypu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Kjaramál | Breytt s.d. kl. 09:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.