Verðugur arftaki Jóhönnu
19.10.2012 | 08:48
Það má vissulega segja að Árni Páll sé verðugur arftaki Jóhönnu, svo snilldarlega sem honum tekst að snúa málum á hvolf og túlka sér í hag.
Árni Páll segir að þúsundir heimila sé nú laus við hin ólöglegu gengislán og þakkar það þeim lögum sem munu verða kennd við hann um alla tíð. Lög sem hafa nú fengið tvo dóma Hæstaréttar um ólögmæti. Staðreyndin er hins vegar sú að þeir lántakendur sem losnað hafa undan ólöglegum lánum, tengd við erlenda gjaldmiiðla, hafa losnað frá þeim vegna dóma Hæstaréttar, lög Árna voru hins vegar sett til hjálpar fjármálakerfinu og hafa nú í annað sinn fengið dauðadóm æðsta dómsstigs landsins. Það sem þau lög hafa hins vegar skilað af sér er að enn er fjöldi fólks sem ekki hefur komist frá þessum ólöglegu lánum, mun meiri fjöldi en þeir sem losnað hafa. Lög Árna sköpuðu enn meiri réttaróvissu en áður var.
Þá segir Árni Páll að erfitt sé að sjá hvað annað hefði verið hægt að gera, nema kannski að gera ekki neitt. Ég vil heldur trúa að þarna sé um að kenna kunnáttuleysi frekar en innræti, þó erfitt sé að ímynda sér hvernig hægt sé að komast gegnum lögfræðinám með slíku kunnáttuleysi.
Það var fjölmargt hægt að gera og flest betra en gert var. Jafnvel hefði verið berta að gera ekkert. En úr því Árni Páll taldi sig sem ráðherra þurfa að gera eitthvað, átti hann auðvitað fyrst að skoða lagalegu hlið málsins og leita til Hæstaréttar ef þess þurfti. Þá átti hann að skoða hver var fórnarlamb og hver var sökudólgur málsins. Að þessu loknu hefði hann getað sett fram lög sem stæðust dóma æðsta dómsstigs landsins og skiluðu því til fórnarlamba þess sem hægt var. Þess í stað voru sett lög sem standast ekki skoðun æðsta dómstigs landsins, lög sem verðlaunuðu sökudólginn á kostnað fórnarlambsins.
Við skulum ekki gleyma þeirri staðreynd að enn hefur engin persóna verið ákærð eða dæmd vegna þessara ólöglegu lána bankanna, þó hæstiréttur hafi komist að niðurstöðu um ólögmæti þeirra. Það er eins og bankarnir sjálfir, án allrar hjálpar þeirra sem þeim réðu og stjórnuðu, hafi ákveðið að taka upp þetta ólöglega lánsfyrirkomulag. Þó liggur fyrir sjalfest sönnun þess að heildarsamtök banka og lánastofnanna höfðu vitneskju um ólögmæti þeirra, allt frá síðustu aldamótum og þar með stjórnendur bankanna!
Það hlýtur að vera einstakt afrek stjórnmálamanns að setja lög sem hafa verið dæmd ólögleg af æðsta dómstigi viðkomandi lands, ekki einu sinnu heldur tvisvar. Enn meira afrek er þegar þau lög, sem sett var til hjálpar fjármagnsöflunum, eru sett af manni sem kennir við jafnaðarstefnu. Ég þekki ekki það lýsingarorð sem hæfir til að lýsir því athæfi þegar ráðherra setur lög í kjölfar dóms æðsta dómstigs, lög sem verðlauna þann sem dæmdur var sekur en hegnir þeim sem saklaus var.
En þó nú séu tveir dómar fallnir gegn þessum ólögum Árna Páls, er málinu ekki lokið. Fjármálakerfið hefur komist upp með það að hundsa dóma Hæstaréttar, vísa til "lagaóvissu". Hvernig getur lagaóvissa skapast af dómum Hæstaréttar? Því var haldið fram af bönkunum að ekki væri tekið á vaxtaþætti þessara lána í dómnum frá 2010. Nú hafa fallið tveir dómar um þann þátt, en það dugir ekki bönkunum. Þeir hafa boðað enn fleiri málaferli og meðan er allt í biðstöðu, einnig þau lán sem sannanlega falla undir þessa dóma. Og þegar nógu margir dómar hafa fallið svo bankarnir eigi ekki möguleika á frekari töfum vegna þeirra mála sem þar eru nú til umfjöllunar, munu þeir sjálfsagt finna eitthvað annað til að deila um og tefja málið enn frekar, meðan dómstólar fjalla um þau atriði. Svona mun þetta ganga enn um sinn og engin niðurstaða verða tekin gild á meðan. Það er því ljóst að Árna lögin eiga eftir að fá enn fleiri dauðadóma Hæstaréttar
Það er algerlega með ólíkindum hvernig bankar og lánastofnanir hafa getað hagað sér. Lögbrot á lögbrot ofan, með og án aðstoðar stjórnvalda, hafa einkennt þessa starfsemi. Þar hefur ekkert breyst frá hruni!!
Lögin tóku ekki rétt af nokkrum manni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Afhverju segirðu að lögin hafi verið dæmd ógild?
Hvar stendur það í dómnum? Ertu búinn að lesa hann?
Hann segir að kvittun sé eignarréttarvarin og fátt annað markvert.
Endurútreikningarnir eru alls ekki samkvæmt vaxtalögum. Að segja að það feli í sér að vaxtalögin séu þar með ógild er hinsvegar eins og að segja þegar einhver fer yfir á rauðu og er dæmdur fyrir það, þá þýði dómurinn að umferðarlög séu ógild. Auðvitað er það ekki þannig í neinum veruleika, heldur er það brotið á lögunum sem var dæmt um, ekki lögin sjálf.
Guðmundur Ásgeirsson, 19.10.2012 kl. 12:00
Ég held þú hjótir að hafa miskilið minn pistil, Guðmundur.
Þegar hæstiréttur kemst ítrekað að því að framkvæmd laga standist ekki, er ekki með nokkru móti hægt að skilja það á annan veg en að viðkomandi lög hafi verið dæmd ólögleg, a.m.k. sá hluti þeirra sem dómur réttarins nær yfir.
Þetta er ekkert í líkingu við það sem þú segir að umferðalög verði ógild við brot á þeim. Hitt er ljóst að ef ég brýt einhver umferðalög og vísa því til dómstóla og ef æðsta dómstig kæmist að því að ég hafi ekki gerst brotlegur, þar sem sú lagagrein sem ég var ákærður fyrir stenst ekki stjórnarskrá, þá hljóta stjórnvöld að þurfa að breyta þeim lögum. Þau gætu þá ekki staðið óbreytt, væru ólögleg.
Gunnar Heiðarsson, 19.10.2012 kl. 12:49
Það er rétt að framkvæmd laganna um endurútreikning fjármálafyrirtækja stenst ekki stjórnarskrá. Það sem ég á við er að orsökin fyrir því er að framkvæmdin er vitlaus, miðað við það sem lögin kveða á um.
Það stendur hvergi í lögum 151/2010 að reikna eigi nýja vexti á þegar greidda gjalddaga. Það er einfaldlega misskilningur. Það er heldur ekkert þar sem leyfir vanskilaálag á vexti sem þegar hafa verið greiddir.
Svo víkja þessi lög ekki til hliðar lögum um neytendalán sem gilda fyrir einstaklinga og tryggja þeim sömu eða betri niðurstöðu og þá sem nú er komin fram. Villan fólst öðru fremur í því að taka ekki mið af rétti neytenda, heldur miða eingöngu við vaxtalögin.
Dómurinn var ekki að segja að lögin væru ógild, heldur að framkvæmd þeirra færi gegn stjórnarskrá. Hann tók hinsvegar raunverulega enga afstöðu til þess hvort sú framkvæmd væri rétt samkvæmt vaxtalögum eða ekki, enda skiptir það þá ekki heldur máli fyrst önnur lög víkja því frá.Í þessu tilviki er það stjórnarskráin, og ánægjulegt að sjá að hún sé ekki það gagnslausa plagg sem því miður hefur verið reynt að halda fram.
Guðmundur Ásgeirsson, 19.10.2012 kl. 18:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.