Hárrétt hjá Gylfa
17.10.2012 | 12:43
Það er hárrétt hjá Gylfa, við höfum ekki lengur efni á meðalíbúð. En þar með er sannleikur hans orða búinn!
Gylfi heldur enn trú sinni á verðtryggingunni, þeirri sem hann komst að á einni viku vorið 2008 að væri bráð nauðsynleg landinu. Ef hann hefði haft hag sinna umbjóðenda í fyrirrúmi það vorið, væri vandi margra fjölskyldna minni í dag. En Gylfi valdi þar að taka sér stöðu með fjármálaöflunum og þar situr hann enn.
Verðtryggingin er upphaf og endir flestra þeirra vandamála sem fjölskyldur landsins standa frammi fyrir. Vegna hennar var fólki fært að skuldsetja sig meira en það í raun hafði efni á, þar sem verðtrygging leggst við höfuðstól og því tiltölulega lág afborgun að til þess að gera stórum lánum. Þetta leiðddi aftur til meiri eftirspurnar húsnæðis sem svo aftur hækkaði meira en raunveruleg verðmæti þess gáfu til kynna. Að leggja verðtryggingu við höfuðstól og verðtryggja hana einnig, er auðvitað eins ruglað og hugsast getur. Af þessu er fólk nú að súpa sitt seiði.
Þá er sú skekkja sem myndast vegna þeirra viðmiða sem notuð eru við mælingu verðtryggingar, mikil. Í sjálfu sér er vertrygging sem slík ekkert verri en hver önnur viðmiðun til tryggingar þess að því sé skilað sem að láni er fengið, þ.e. ef sú áhætta á að liggja alfarið á öðrum aðilanum. En þá þarf sú verðtrygging að vera í takt við það sem að láni er fengið og í takt við það sem greitt er með. Því ætti verðtrygging, ef menn telja hana nauðsynlega, að miðast annað hvort við verðmæti þess sem keypt er fyrir lánið, eða miðast við þá launaþróun sem viðkomandi lánþegi býr við. Að verðtrygging skuli taka mið af öllum þeim hækkunum sem við þurfum að taka á okkur, bæði erlendum sem innlendum, að vertrygging skuli sveiflast eftir skattálagnu stjórnvalda, er auðvitað rangt. Í öllu falli á þó að greiða við hver mánaðarmót þá álagningu sem á lánið kemur plús afborgun. Einungis þannig er tryggt að enginn tekur meira lán en hann hefur efni á að greiða.
Þá er sýn Gylfa enn hin sama í gjaldmiðils og gengismálum. Þar sér hann einungis bjarmann í austri, bjarmann af hinni brennandi evru. Hann telur kostina vera fáa, reyndar bara einn, upptöku evru með öllu því sem því tilheyrir. Þetta er rangt mat hjá Gylfa. Kostirnir eru fjölmargir en allir byggjast þeir þó á því sama, að hér verði tekinn upp meiri agi í stjórn hagkerfisins. Þetta er nauðsynlegt ef taka skal upp evru, þetta er í raun nauðsynlegt ef taka á upp einhvern annan gjaldmiðil, en það sem þó skiptir mestu máli er að ef þetta tekst, ef tekst að koma slíkri ábyrgri hagstjórn á, svo hægt sé að skipta um gjaldmiðil, er ekki lengur þörf á því. Þá getum við eins verið áfram með okkar ágætu krónu.
Það er þó þau ummæli Gylfa um að hér hafi verið ákveðið af hálfu verkalýðshreyfingarinnar að fara aðra leið en t.d. í Evrópu. Fyrir það fyrsta var aldrei skoðaður hugur launafólks hvernig skildi staðið að vörslu réttinda þess. Sú ákvörðun var tekin í þröngum hóp þeirra sem hafa tryggt sér yfirráð ASÍ í samráði við, eða af kröfu fulltrúa atvinnurekenda.
Hvort sú ákvörðun leiddi til minni átaka í þeirri baráttu má svo deila um, en vissulega féll hún illa að mörgum launamanninum og afrakstur hennar var rýr. Það var og er vitað að mörg fyrirtæki höfðu burði og vilja til að leiðrétta laun sinna starfsmanna betur en almennir kjarasamningar gerðu. Það var stöðvað af, bæði af hálfu þeirra sem voru í forsvari fyrir atvinnurekendur, en þó einkum af hálfu ASÍ og voru þau tvö sem á mynd með þessari frétt er, þar í aðalhlutverki og gengu þar fram með óeðlilega miklu offorsi. Í stað þess að sækja leiðréttingu til handa starfsfólki þeirra fyrirtækja sem höfðu burði til, er nú ríkissjóður að sækja aukið skatt fé til þeirra.
Það er hægt að standa sterkan vörð launafólks, án þess þó að um ofbeldi sé að ræða. Til þess þarf að myndast virðing milli þeirra sem eru í forsvari fyrir fyrirtækin og þeirra sem tala máli launafólks. Sú virðing myndast ekki þegar annar aðilinn hefur hinn að háði, eins og gerðist í upphafi síðustu kjaraviðræðna, sú virðing skapast einungis þegar menn tala á jafnréttisgrundvelli og flytja sitt mál af þekkingu. Sú kunnátta getur aldrei orðið til í einhverju miðstýrðu bákni í Reykjavík, sú þekking verður til í grend við hvert fyrirtæki og byggist á persónulegum samskiptum milli atvinnurekanda og starfsmanna með aðkomu viðkomandi stéttarfélaga.
Það er því langur vegur milli þess ofbeldis sem nú ríkir innan Evrópu og þeirrar aðferðar sem ASÍ ákvað að nota við síðustu kjarasamninga. Þar að auki er um tvö algerlega óskild mál að ræða. Annars vegar eru verkalýðshreyfingar innan Evrópu að mótmæla lækkun launa og skertra kjara, auk mikils atvinnuleysis, verið að mótmæla aðgerðum sem til eru komnar svo halda megi á floti þeim gjaldmiðli sem Gylfi dáir svo mikið, meðan hér er verið að leita leiðréttingar launa, eftir skerðingar sem fall bankanna ollu.
Gylfi Arnbjörnsson hefur fyrir löngu misst allann trúnað launafólks og þó honum ratist eitt orð satt á munn, mun það engu breyta. En því miður hefur hann enn á ný tryggt sér áframhaldandi setu í stól forseta ASÍ. Það tryggði hann sér þegar hann gaf skýrt út að tillaga Vilhjálms Birgissonar, formanns VLFA, um almenna kosningu til stjórnar ASÍ, væri sér ekki að skapi. Kannski ekki undarlegt, hann veit að styrkur hans liggur innan miðstjórnar ASÍ, ekki utan.
Það er spurning hvort launafólk hefur lengur efni á að halda upp Gylfa Arnbjörnssyni!
Höfum ekki lengur efni á meðalíbúð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Já og orðahátturinn sem hann notar þegar segir venjuleg meðalfjölskylda, hvað kallar hann venjuleg og hvað kallar hann meðalfjölskylda...
Ég er hrædd um að ef Þjóðin fengi einhverju ráðið um ráðningu í stöðuna sem hann er Gylfi er í þá yrði hann látinn taka bokann sinn vegna þess að þegar litið er yfir þau 23 ár sem Gylfi er búinn að vinna hjá ASÍ og svo á stöðu launamála hjá Alþýðunni með ávinning í huga þá er hann enganveginn búinn að standa sig í launabaráttu fólkinu til...
Hann er aftur á móti er búinn að vera tryggur með sinn góða launatékka um hver mánaðarmót burt séð frá því hvort hann hefur staðið sig eður ei...
Það er komið nóg af svona vittleysu finnst mér og komin tími til að fá fólk sem virkilega vill vinna fyrir okkur Þjóðina vinnunar vegna og þá með velferð og hag okkar í huga...
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 17.10.2012 kl. 16:44
það verður engin breyting ef kosningafyrirkomulagið verður ekki breytt,
þetta bákn sem var einhvern tímann í fyrndinni alvöru baráttuvígi verkamanna
er aumkunarvert herfang stjórnmálaflokks í dag og hefur ekkert sjálfstæði
og litla sem enga virðingu. Menn eins og Benedikt Davíðsson myndu velta sér
í gröfinni ef þeir vissu hvernig lífeyrissjóðakerfið hefur þróast síðasta áratug
eða svo ... það voru til alvöru baráttumenn verkamanna í þá daga.
jónas (IP-tala skráð) 18.10.2012 kl. 02:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.