Fjögur ár frá hruni
7.10.2012 | 23:33
Vilhjálmur Birgisson, verkalýðskóngur á Akranesi, ritaði smá hugleiðingu á facebook vef sinn í dag, af tilefni þess að fjögur ár eru liðin frá hruni.
Þar bendir hann á að launafólk hafi orðið fyrir 20% kjaraskerðingu frá 1. jan. 2008, launahækkanir frá þeim tíma séu um 20% á meðan verðbólgan mælist rúm 40%. Þetta er sláandi en Villi segir þó ekki nema hálfann sannleikann. Sú staðreynd að fáir voru á strípuðum textum fyrir hrun gerir þessa skerðingu enn meiri, auk skerts vinnutíma hjá þeim sem þó hafa vinnu. Þá hafa skattar verið stór hækkaðir á sama tíma með tilheyrandi kjaraskerðingu og blessuð verðtryggingin hefur fært um 400 milljarða frá lánþegum til fjármagnseigenda. Þegar þetta er allt talið til er ljóst að kjaraskerðingar launafólks eru langtum meiri en 20%.
Það þarf því engann að undra þó gjaldþrot mælist meiri en nokkru sinni áður og eiga eftir að mælast enn hærri. Það er heldur ekkert undarlegt þó mælingar sýni vísbendingar um fækkun þeirra sem verst standa. Því fleiri sem fara á hausinn, því færri verða eftir sem mælast illa standandi skuldalega séð. Því meira sem étið er af kökunni, því minna er eftir af henni. Það væri gaman að vita hversu margir bætast á vandræðalistann á móti hverjum einum sem af honum dettur, vegna þess að hann er settur í þrot.
Það er deginum ljósara að svona verður ekki haldið áfram. Það mun einungis leiða þjóðina í þrot. Þær aðgerðir sem stjórnvöld hafa staðið að til hjálpar fólki eru í mýflugumynd. Þegar reiknað er saman aðgerðir stjórnvalda til hjálpar heimilum og dregið frá þeirri upphæð allar skattahækkanir sem þau hafa lagt á sama hóp, kemur ríkið út í plús, stórum plús.
Dómstólar hafa þó hjálpað örlítið, einkum þeim sem voru með ólöglegu gengislánin. Sú hjálp er þó ekki nándarnæg, enda lánþegar sem varlega fóru og tóku verðtryggð lán, enn utan allrar hjálpar. Þar er verk að vinna og það bráð nauðsynlegt. Verðtryggingin er upphaf og endir þess óréttlætis sem dunið hefur á fjölskyldum landsins og þeir sem vilja halda henni eru réttnefndir landráðamenn.
400 milljarðar frá lánþegum til fjármagnseigenda er meira en nokkur gerir sér í raun grein fyrir. Bara í síðasta mánuðu færðust 11 milljarðar frá lánþegum til fjármagnseigenda! Og þetta er einungis vegna verðtryggingar, ofaná þetta koma svo vextirnir. Þetta er skelfileg mynd og ætti að vekja flesta, en stjórnvöld sofa vært. Nú hefur Verkalýðsfélag Akraness ákveðið að láta reyna á lögmæti verðtryggingar fyrir dómstólum og er það vel. Það skyldi þó ekki vera að dómstólar verði enn og aftur að koma fjölskyldum landsins til hjálpar, ekki sýna stjórnvöld nein merki þess.
Stjórnarliðar, einkum þó formenn stjórnarflokkanna, hafa verið duglegir að halda uppi áróðri um hversu allt er orðið gott hjá okkur, eða er alveg að verða gott. Miða þá gjarnan við ástandið í ríkjum ESB, en vinna þó á sama tíma að því að koma okkur í það samband. Þar njóta þau fulltingis flestra fréttamiðla og ekki hafa svokallaðir sérfræðingar legið á liði sínu, þar sem þeir koma fram með hverja bullgreinina af annari í fjölmiðla og mæra stjórnvöld. En staðreyndir tala öðru máli.
Nokkur þúsund störfum hefur verið lofað, nánast allt kjörtímabilið. Nú er séð að þau störf eru annars vegar erlendis og hins vegar skólabekkir landsins. Þetta og sú staðreynd að æ fleiri færast á framferði sveitarfélaga, veldur því að atvinnuleysi mælist minna. Engin raunveruleg störf hafa komið til, fyrir utan slatta af blýantsnögurum hjá ríkinu. Þar er vinnandi fólki sagt upp, fólki sem starfar við grunnþjónustuna og í staðinn eru ráðnir hinir og þessir flokksgæðingar í nefndir og störf sem lítinn eða engann tilgang hafa. Ekkert er reynt að liðka til svo aukin verðmæti megi myndast fyrir þjóðarbúið, þar er frekar dregið úr.
Það er hægt að benda á hinar og þessar tölur og hrópa; "sjáið árangurinn" og hafa stjórnvöld verið drjúg við slíkar yfirlýsingar. Staðreyndin er að eini árangurinn sem náðst hefur, hefur náðst vegna gerða fyrri ríkisstjórnar og ytri aðstæðna. Það er ekki hægt að benda á eina aðgerð núverandi stjórnvalda sem hafa hjálpað okkur. Sá mikli árangur að hér skuli enn vera lífvænlegt er kominn til þrátt fyrir stjórnvöld, hann er til kominn vegna dugaðar landans og þess að fólk veit að betri tíð mun koma. Veit að þessi afturhaldsstjórn mun falla í næstu kosningum.
Launafólkið í landinu á erfitt með að skilja málflutning stjórnvalda, á erfitt með að skilja að hér hafi orðið aukinn kaupmáttur. Pyngja þeirra segir annað, allt annað.
Fjölskyldur landsins skilja ekki þann málflutning að vandi þeirra sé að minnka, skilja ekki hvernig sú lausn að koma því á götuna sé einhver lausn.
Þetta fólk vill raunverulegar lausnir, lausnir sem byggjast á því að það hafi vinnu og geti lifað sómasamlegu lífi að þeim launum sem sú vinna gefur. Það vill lausnir á því hvernig það getur haldið sínum íbúðum, svo það hafi þak yfir höfuð sér.
Annað er ekki farið fram á og flest þetta fólk er orðið langþreitt eftir fjögur ár án nokkurar raunverulegar hjálpar.
Það stóð ekki á aðstoð til þeirra sem áttu innistæður í bönkum, við hrun þeirra. Það hefur ekki staðið á aðstoð við sama fólk og þá sem höndla með fé þess. Svo mikill hefur ákafi stjórnvalda verið, að sett hafa verið lög á Alþingi því til hjápar, lög sem Hæstiréttur hefur svo þurft að ógilda.
Hvers vegna var ekki hægt að fara sömu höndum um þann fjölda fólks sem skuldaði?! Hvers vegna var valin sú leið að hjálpa bara sumum og þá helst þeim stæðstu, en fjöldinn látinn sitja útundan?
Hvers vegna fékk einungis fámennur hluti þjóðarinnar aðstoð, fámennur hluti sem mest átti og sumir hverjir beinir þáttakendur í hrunadansinum?
Hvar er lýðræðið?!!
Tæplega 16 þúsund í þrot frá 2009 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.