Nokkur orð um stjórnarskrármálið
30.8.2012 | 09:56
Nú eru réttir tveir mánuðir þar til þjóðin stendur frammi fyrir því að taka ákvörðun um tillögur stjórnlagaráðs. Ekkert bólar þó á kynningu þessara tillagna, af hálfu stjórnvalda. Sú kynning ætti þó að vera í fullum gangi nú og átti auðvitað að hefjast strax og ákveðið var að leggja þessar tillögur í dóm þjóðarinnar, ekki hefði veitt af tímanum til að fara í gengum það kraðak sem stjórnlagaráð leggur fram.
"Gömul og úrelt stjórnarskrá" nefna gjarnan þeir sem að þessu máli standa. Vissulega gömul og hugsanlega einhverjar greinar hennar úreltar, en það kallar ekki endilega á nýja stjórnarskrá. Vel má laga þá vankannta sem á stjórnarskránni eru, til bóta fyrir þjóðina. Í heild er þessi stjórnarskrá okkar hin ágætasta, þó vissulega þurfi að aðlaga einstaka hluti hennar til nýrra tíma. Svo er um allar stjórnarskrár og útilokað að búa til þesskonar plagg sem gildir um aldur og ævi. Endurskoðun núgildandi stjórnarskrár er sennilega ekki meira verkefni en sú endurskoðun sem tillögur stjórnlagaráðs þurfa að ganga í gegnum, svo þar megi tala um stjórnarskrá.
Önnur mýta er einnig oft nefnd í sambandi við þetta mál, það er hrunið. Engum hefur þó tekist að benda á beinann þátt stjórnarskrárinnar í þeirri hörmungarsögu og ekkert er í tillögum stjórnlagaráðs sem er afgerandi til bóta á því sviði. Það má kannski segja að vegna óljóss orðalags í gildandi stjórnarskrá hafi framkvæmdavaldið getað hagað sér ógætilega, enginn hefur þó bent með óyggjandi hætti á slíkt. En ef svo er má guð hjálpa okkur ef tillögur stjórnlagaráðs ná fylgi þjóðarinnar, það kraðak orhengils og beinar andstæður sem þar er að finna.
Og svo þegar skoðaðar eru þær spurningar sem leggja skal fyrir þjóðina kemur ýmislegt í ljós. Fyrir það fyrsta er einungis fyrsta spurningin í raun um tillögur stjórnlagaráðs og hefði ein og sér dugað. Aðrar spurningar eru almenns eðlis og ekki með skýrskotun til tillagna ráðsins.
Engin spurning er þó um það sem hugsanlega gæti talist bót á gildandi stjórnarskrá um stjórnskipunina, enda ekki mikið að finna í tillögunum þar að lútandi. Flest er látið lítið breytt er snýr að henni.
Tillögur stjórnlagaráðs eru uppfullar af orðum, minna fer fyrir efninu. Þetta er í andstöðu við góða stjórnarskrá, sem á að vera efnismikil og orðafá. Á að vera stutt og skýr.
Það er mikilvægt að sem flestir landsmenn láti í ljós sína skoðun á þessu máli í kosningunum. En til að svo megi verða, verða stjórnvöld að bretta upp ermarnar og hefja kynningu á þeim tillögum sem þjóðin á að kjósa um, hefja kynningu á því hvað fellst í að svara fyrstu spurningunni já eða nei. Hinar spurningarnar skipta minna máli, enda ekki tengdar tillögum ráðsins beint.
Lýðveldið kvatt? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Gott að vita að ég er ekki einn um að finnast nýju stjórnarskrártillögurnar vera voðalega langar.. verið að bæta við 33 greinum.. það er ekki smáræði þegar það ætti að teknar út helling af greinum og gera stjórnarskránna stutta og hnitmiðaða
Jóhannes H. Laxdal, 30.8.2012 kl. 10:49
Ég held að þorri þjóðarinnar sé á sama máli og pistlahöfundur. Allavega allir sem ég umgengst.
anna (IP-tala skráð) 30.8.2012 kl. 11:20
Við sem erum sama sinnis ,þurfum að koma okkur saman um hvort við eigum að krossa við NEI eða hvort við mætum ekki á kjörstað. Eða gera rækilega ógilt. Það sem skiptir máli er gera það eftirminnilega og vera samtaka.
Snorri Hansson, 30.8.2012 kl. 15:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.