Það er komið eggjahljóð í þingmenn Samfylkingar

Kosningar til Alþingis nálgast og það er ljóst að þingmenn stjórnarflokkanna ætla að nýta þennan stutta tíma vel til atkvæðaveiða, á hefðbundinn hátt.

Magnús Orri telur að hagur ríkissjóðs sé að styrkjast og það fyrsta sem hann vill gera er að styðja frekar við kvikmyndasjóð. Hvort það gefur honum atkvæði skal ósagt látið, en ljóst er að þessi forgangsröðun er ekki kannski eins og fólk vill sjá í þjóðfélaginu.

Vissulega gefur kvikmyndaiðnar af sér nokkrar tekjur og vissulega á að hlúa að þeim iðnaði, sem og öllum öðrum iðnaði og starfsemi sem gefur tekjur til ríkissjóðs, en ef hagur ríkissins er að batna á ekki að taka eina starfsgrein út og hygla henni sérstaklega, starfsgrein sem hefur tiltölulega fá störf að baki sér.

Ef það er rétt hjá Magnúsi Orra, að ríkissjóður sé að batna, sem reyndar er erfitt að sjá vegna skulda ríkisins, á fyrst að hlúa að öldruðum, sjúkum og þeim sem verst standa í þjóðfélaginu, að hlúa að þeim sem verst hafa orðið úti í kreppunni og hafa þurft að taka á sig hlutfallslegu mestu skerðingarnar.

Þegar því er lokið á að fara í almennar aðgerðir til aðstoðar ÖLLUM fyrirtækjum landsins, svo styrkja megi stoðir samfélagsins.

Eftir það er hægt að fara að skoða hin ýmsu gælumál einstakra þingmann, meta hagnað af aðgerðum þeim til handa og taka síðan ákvarðanir um hvort einhverjar sértækar aðgerðir eru réttlætanlegar.

Ein helstu rök Magnúsar fyrir auknum styrkjum til kvikmyndasjóðs er að sá iðnaður hefur vaxið mikið að undanförnu og nú svo komið að tekjur af honum til samfélagsins eru orðnar mun meiri en nemur þeim styrkjum sem til hans fall. Þetta eru undarleg rök, svo ekki sé meira sagt. Það er vissulega gott að kvikmyndaiðnaðurinn skuli hafa eflst að vöxtum og ber að fagna því. Því fleiri stoðir sem við komum undir hagkerfið, því öflugra verður það.

En hitt, að telja það sem rök fyrir frekari styrkjum að tekjur þjóðarinnar af þessum iðnaði skuli vera orðnar mun meiri en sem nemur styrkjum til hans, eru undarleg rök. Ef sá hugsanaháttur yrði látinn ráða, að styrkir skuli reiknast eftir því hversu mikið hver borgar til þjóðfélagsins, er erfitt að sjá hvernig Magnús Orri ætlar að reka ríkisbáknið, sem ekkert gefur af sér, hvernig hann ætlar ríkissjóð að greiða t.d. laun þingmanna. Samkvæmt þessum rökum Magnúsar þarf sjávariðnaðurinn engu að kvíða, jafnvel þó á hann sé lagður 105% skattur er það allt í lagi, hann fær það bara til baka í styrkjum!

Samkvæmt þessum rökum Magnúsar Orra ættu þeir sem mestu tekjurnar hafa, að njóta mestrar fyrirgreiðslu frá ríkinu, en barnmargar fjölskyldur sem berjast í bökkum, ekki að fá neitt, þar sem þær borga svo lítið til samfélagsins. Það væri fróðlegt að fá útskýringar Magnúsar á því hvernig það harmónerar við þá jafnaðarstefnu sem Samfylkingin þykist boða!

Það er fráleitt að ég sé með þessum orðum að ráðast gegn kvikmyndaiðnaðnum í landinu. Honum vil ég allt gott og fagna því að hann sé farinn að afla tekna svo ríkissjóður fái sitt skattfé af honum. Sú skattlagning má þó ekki vera meiri en í samkeppnislöndunum, ekki frekar á þessum iðnaði en öðrum og ekki frekar á þessum iðnaði en á fólkinu í landinu.

Ég gagnrýni hinsvegar Magnús Orra harðlega. Þetta lýsir best hversu skammt hann og sumir þingmenn eru komnir, hversu lítið þeir hafa lært af hruninu. Nú slær hann um sig með orðum sem eru í algerri andstöðu við störf og gerðir stjórnvalda, sem hann er hluti af. Þetta gerist þegar nálgast kosningar. Þetta eru aðferðir sem ættu ekki að þekkjast lengur.

Þá gagnrýni ég hann einnig fyrir stór undarlega, nánast fáráðnlega forgangsröðun. Aldraðir, sjúkir og þeir sem minna mega sín hafa orðið verst fyrir barðinu á kreppunni og þegar ríkissjóður réttir úr kútnum á fyrst að horfa til þessara hópa!

 


mbl.is Vill sókn á sviði kvikmyndagerðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Opna aftur spítala?

GB (IP-tala skráð) 8.4.2012 kl. 09:16

2 identicon

Hvernig væri nú að þetta fólk afnæmi eitthvað af þeim sköttum sem það er búið að leggja á fólk.

Mér er fyrirmunað að skilja hvernig þingmenn samfylkingarinnar og vg fá það alltaf út að þeir séu betur til þess fallnir að eyða verðmætum fólks heldur en fólkið sjálft.

Þegn (IP-tala skráð) 8.4.2012 kl. 09:30

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Góð hugmynd GB og hægt að gera kvikmynd um það!

Það er ofureinföld skýring á pælingu þinni Þegn. Sósíalískt hugarfar er byggt upp á því að enginn hafi sjálfstæða hugsun, að allar ákvarðanir skuli koma að ofan. Því hefur slíkt stjórnarfar alltaf leitt af sér meiri mismun innan þjóðfélaga en önnur.

Saga Georgs Orwell, The animal Farm lýsir þessu vel. Því miður virðist sem núverandi stjórnvöld noti þá bók sem sinn leiðarvísi að stjórn landsins.

Gunnar Heiðarsson, 8.4.2012 kl. 10:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband