Eggjahljóð
26.2.2012 | 00:09
Á vorin, þegar vargfuglinn fer að para sig og undirbúa mökun og varp, gefur hann frá sér sérstakt hljóð, kallað eggjahljóð. Þetta þekkja allir Íslendingar sem eitthvað unna náttúru og fegurð landsins. Eggjahljóð er boðun um bjartari tíð og blóm í haga, jafnvel þó boðin komi frá vargfuglinum.
Og nú er komið eggjahljóð, ekki þó frá þeim vargfugli sem prýðir náttúru landsins, heldur þeim vargfugli sem myndar stjórn landsins, VG. Hvort þetta er merki um bjartari tíð og blóm í haga, skal ósagt látið, en þó er von.
VG liðar keppast nú við að reyna að þvo hendur sínar af þeim sora sem flokkurinn hefur staðið að, síðustu þrjú ár. Þetta er skýrt merki þess að breytingar séu í vændum, hugsanlega kosningar.
En það er erfiðara fyrir VG liða að þrífa skítinn af sér, en fyrir vargfuglinn að þrífa grútinn af sínu nefi. VG liðar eru svo flæktir í lygavef sinn að út úr honum munu þeir ekki komast.
Nú vill VG afnema verðtryggingu, eitthvað sem þeir hafa haft öll tök á að gera síðustu þrjú ár en ekki gert. Þegar nálgast kosningar er hægt að dusta rykið af gömlu kosningaloforðunum!
Heræfingar skulu bannaðar. Ekkert hefur komið í veg fyrir að VG liðar í ríkistjórn kæmu þessu máli á rekspöl. En það var ekki gert, betra að hafa þetta áfram sem kosningaloforð, það hefur gefið vel!
Steingrímur vill fylgja eftir stefnu VG í kvótamálum. Vissulega er stefna VG í sjávarútvegsmálum löng og kallast "Hafið bláa hafið", en er ekki að sama skapi ýtarleg. Í þeim efnum er málskrúðgi án efnislegrar niðurstöðu einkennandi. Fátt er vitrænt í þeirri stefnu og útilokað að fylgja henni eftir. En þetta er vissulega gott málefni til að slá um sig fyrir kosningar!
Þá lýsa VG liðar andstyggð á frumvarpu um að draga til baka ákæru á Geir Haarde. Auðvitað, hverjum hefði dottið annað í hug. Þeir hanga auðvitað á þessu eina stefnumáli sem þeim hefur tekist að framkvæma, eins og hundar á roði. Það er gott að geta sagt fyrir næstu kosningar: "Sjáið hversu dugleg við vorum, okkur tókst að uppræta hrunið, okkur tókst að sækja til saka þá seku!" Kannski kjósendur setji þó eitthvað spurningarmerki við þá staðreynd að á sama tíma hafa ráðherrar og þingmenn VG verið sem þægir rakkar í höndum þeirra sem voru með Geir í ríkisstjórn, Þeim Jóhönnu Sigurðardóttur og Össuri Skarphéðinssyni. Steingrímur og co hafa verið sem leir í höndum fyrrum hrunráðherrum Samfylkingar!
"Við björguðum Íslandi" hrópaði Steingrímur. Önnur eins öfugmæli hafa ekki heyrst um langann tíma. Hvern hann þykist geta platað með þessum orðum er ekki gott að segja, en kannski eru einhverjir svo skini skroppnir að þeir trúi bullinu. Frekar má þó trúa því að margur á flokksráðsfundinum hafi litið svo á að þarna væri formaðurinn að fara með gamanmál og klappað vegna þess, þó vissulega sé erfitt að sjá húmorinn!
Ögmundur telur afskipti ESB vera ógeðfelld. Það ógeðfelldasta var þó umsókn okkar að ESB og þeirri ákvörðun stóð Ögmundur og félagar í VG. Ef þingmenn hefðu staðið við gefin loforð við kjósendur sína og neitað að samþykkja umsóknina, hefðu hún ekki náð fram að ganga. Því ferst Ögmundi að tala um eitthvað ógeðfellt, hann stóð sjálfu að ógeðfelldustu samþykkt Alþingis, gegn kjósendum sínum og gegn meirihluta landsmanna!
Það eru einungis einfeldningar sem halda því fram að enginn afsláttur hafi verið gefinn í viðræðum sem ekki eru enn hafnar. Þetta gerði Steingrímur og sagði engann afslátt hafa verið gefinn í sjávarútvegs og landbúnaðarmálum í ESB viðræðum. Það er slæmt þegar ráðherra áttar sig ekki á því að þær viðræður eru ekki enn hafnar, eða er það kannski svo að gefa verður eftir á öllum sviðum til þess eins að viðræður geti hafist? Reyndar ber að halda því til haga að orðið "enn" slæddist inn í ummæli Steingríms, að "ekki hefði verið gefinn neinn afsláttur enn". Það segir að vel komi til greina að veita slíkan afslátt!
Þá telur Steingrímur hagkerfið á uppleið og nefnir í því sambandi stóra aukningu í ferðamannaiðnaði, aukinn hagvöxt og minnkandi atvinnuleysi. Auk þess sagði hann að flótti fólks af landinu væri í sjálfu sér ekki svo mikill.
Aukning í ferðamannaiðnaði kemur eingöngu til vegna íslensku krónunnar og þá staðreynd að við gátum vegna hennar fært gengið til þess raunveruleika sem þjóðarbúið bauð uppá. Nú eru hinsvegar blikur á lofti, skelfileg skattpíning á öllum sviðum bitnar ekki síst á ferðamannaiðnaði og mun sennilega ganga að honum dauðum verði ekkert að gert.
Hagvöxtur hefur verið meiri en menn áttu von á, með tilheyrandi verðbólgu og skelfingu fyrir heimili landsins. En þetta er ekki hagvöxtur vegna aðgerða stjórnvalda, ekki hagvöxtur vegna aukinna tekna erlendis frá. Þessi hagvöxtur skapast einkum vegna úttektar á lífeyrissparnað og uppsöfnun yfirdráttarlána. Samtals hafa þessir tveir þættir skilað um 120 milljörðum inn í hagkerfið og þriðji þátturinn, makríllinn skilaði okkur rúmum 20 milljörðum í fyrra. Á þessum þáttum er hagvöxturinn byggður! Það er ljóst að slíkur hagvöxtur er "bara froða", eins og einn útgerðarmaður og útrásarvíkingur orðaði það. Eina sem stjórnvöld hafa lagt til aukins hagvaxtar eru skattahækkanir, sem skila sér vissulega út í hagkerfið!
Minnkandi atvinnuleysi finnst einungis í þeim tölum sem fá bætur. Þær tölur eru enginn mælikvarði á ástandið á vinnumarkaði. Eini mælikvarðinn þar er hversu mörg störf eru í boði, hversu margar vinnandi hendur eru að störfum. Þær tölur eru nokkuð geigvænlegri en tölur um atvinnuleysi, enda halda stjórnvöld þeim upplýsingum vel földum fyrir almenningi.
Varðandi fólksflóttann úr landi er það eitt að segja að hann er sá mesti í sögulegu samhengi landsins. Þó Steingrímur kjósi að miða við hrun Færeyja og flóttann þaðan í kjölfarið, þegar næstum helmingur eyjabúa ákvað að flýja, er flóttinn héðan nú meiri enn við verður unað, miklu meiri! Ef helmingur landsmanna þarf að yfirgefa landið til að Steingrímur vakni, er hann skiniskroppnari en maður hélt!
Það er kannski von að eggjahljóð sé komið í raðir VG liða. Hugsanlega hafa þeir séð hvert stefnir, þó líklegra sé að einhver hafi bent þeim á það. Það stefnir í annað þrot og það vegna rangra aðgerða og aðgerðarleysis stjórnvalda. Því er lag núna, þegar hægt er að benda á einhverjar tölur um bata, en að bíða í rúmt ár enn. Þá verður falski hagvöxturinn hruninn, falska minkunin á atvinnuleysi hrunin og fólksflóttinn hugsanlega farinn að nálgast það sem Færeyjingar þurftu að þola.
Eggjahljóð vargfuglsins í VG er kannski vegna þess að þeir stefna í kosningar í vor eða haust. Ef svo er, má vissulega fagna þessu eggjahljóði. Þá mun vera hægt að hugsa sér bjartari tíð með blóm í haga!
VG vill afnema verðtryggingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Orð í tíma töluð og frábær greining á vg liðinu.
Marteinn Sigurþór Arilíusson, 26.2.2012 kl. 09:15
Þakka þér Gunnar. Það er alltaf gott að eiga góða að.
Ef það er rík þörf fyrir breytinga á stjórnarskránni þá er það að smíða verkfærri inní hanna til að eiða svona þjóð hættulegum óværum og skítamaskínum eins og Jóhönnu og Steingrími.
Það vesta við þennan vargfugl er að hann tærir þök sjáfarplássa og skítur ungum sem aldrei urðu fleygir.
Hrólfur Þ Hraundal, 26.2.2012 kl. 10:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.