Ísland brúarsporður fyrir ESB
9.2.2012 | 10:16
Utanríkismálanefnd ESB hélt fund um stöðuna í aðildarferli Íslands að sambandinu þann 6. febrúar. Þar þakkar nefndin Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir það afrek að losa sig við Jón Bjarnason úr ríkisstjórn og telur það merki um að síðustu hindrun gegn aðlögun Íslands að ESB sé rudd úr vegi.
Þá er dagskipun nefndarinnar til Jóhönnu að hún sjá til þess að þaggað verði niður í þeim sem innan stjórnarliðsins eru með eitthvað múður. Stjórnarandstaðan skal gerð máttlaus og hvatt til að hún haldi sig á mottunni, sé ekki að flækjast fyrir. Nota skal nýstofnaða Evrópustofu til þessara verka!
Utanríkismálanefnd ESB gagnrýnir allt andóf við aðlögunarferlið og hvetur þá sem það stunda til að leggja af allri slíkri iðju. Hvetur til þess að þjóðin sætti sig við það aðlögunarferli sem óhjákvæmilegt er, sérstaklega á þeim sviðum er snúa að þeim þáttum sem eru utan EES samningsins. Sér í lagi í sjávarútvegi og landbúnaði.
Hvalveiðum skal skilyrðislaust hætt og allar varnir gegn erlendri samkeppni í orkusölu, flugrekstri og sjávarútvegi, skal rutt úr vegi sem fyrst.
Þetta skal gert til að ESB geti byggt sér brú til norðurslóða og þar er Ísland brúarsporðurinn fyrir ESB!
Það er þó einn smá vandi sem Jóhanna þarf að berjast við. Alþingi hefur ekki enn samþykkt aðlögun að ESB reglum. Því gæti henni reynst erfitt að fara að skipunum ESB, nema með því að brjóta samþykkt Alþingis. Þá er ekki víst að hún komist lengra í yfirgangi og frekju gegn þeim sem eru á móti aðild.
Það sannast enn og aftur að ekki er um neinar samningaviðræður að ræða, einungis aðlögun og viðræður um hvernig þeim skuli háttað. Reyndar virðist þetta nú vera að breytast enn frekar og viðræður um aðlögun vera að víkja fyrir tilskipunum um hana.
Það hefði verið einfaldara og betra ef utanríkismálanefnd ESB hefði samþykkt tillögu Barry Madlener, þingmanns frá Hollandi, um að viðræðum við Íslendinga skuli tafarlaust hætt. Nefndin hafði ekki vit til þess, enda horfir hún ekki til Íslands í þessum viðræðum, heldur yfir það og til norðurskautsins. Þangað ætlar ESB sér að komast og telur auðveldustu leið til þess vera að byggja þangað brú, með brúarsporðinn á Íslandi.
En Alþingi getur dregið samninganefnd Íslands til baka og stöðvað þessar viðræður. Því ber að gera það, þar sem samninganefndin er komin útfyrir sitt umboð. Lengra verður ekki haldið ef standa á við samþykkt Alþingis frá sumrinu 2009. Það er þegar gengið of langt gegn þeirri samþykkt.
Þeir sem ætluðu að kýkja í pokann og sjá hvað væri í boði, geta kvatt þá hugsun, þeir voru hafðir að fíflum!!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.