The Animal Farm
23.12.2011 | 09:43
Ástandið hér á Íslandi minnir æ meir á sögu George Orwell, The Animal Farm. Hástéttin nærir sjálfa sig fyrst, síðan koma þeir sem þóknast hástéttinni og afganginn, ef einhver er, geta svo hinir veikari fengið.
Fljótlega eftir hrun voru sett lög um lækkun launa þeirra sem undir kjararáð heyra. Þetta kom ekki til vegna þess að stjórnvöld væru að sýna gott fordæmi, heldur vegna kröfu frá almenning eftir að kjararáð hafði úrskurðað þessum aðilum ríflega launahækkun, skömmu eftir að bankakerfið hrundi. Þessi úrkurður var í algerri andstæðu við það sem í gangi var í landinu á þeim tíma, þegar í raun enginn vissi hvort við myndum lifa af þann skaða sem nokkrir siðlausir einstaklingar voru búnir að valda landi og þjóð.
Illa gekk að framfylgja þessum lögum og töldu flestir þeirra sem taka laun samkvæmt úrskurði kjararáðs, að þau ættu við aðra en þá. Þá hefur ekki verið upplýst um það hvort eða hversu vel tókst til við framkvæmd þeirra, hvort þessi launalækkun varð raunveruleg eða einungis á pappír.
Nú, þegar samdráttur í grunnþjónustunni er orðinn svo mikill að lágmarksrekstur hennar er varla mögulegur, þegar skattar hafa verið hækkaðir á allt og alla á sama tíma og kostnaður er fluttur frá ríki til einstaklinga, þegar fjölskyldur landsins eru að missa heimili sín og atvinnuleysi hefur sjaldan verið meira. Nú þegar fjölskyldur og fyrirtæki berjast í bökkum vegna skattlagninga og óhóflegrar verðhækana þjónustufyrirtækja, bæði opinberra og hálfopinberra. Nú þegar vonleysið hefur endanlega tekið völdin vegna vonlausrar framgöngu stjórnvald, þykir kjararáði hentugt að hækka laun þeirra sem eru þó ekki sérlega illa staddir í þjóðfélaginu, yfiraðlinum. Kjararáði þykir rétt að hækka laun þeirra sem eru nokkuð langt fyrir ofan meðallaun, á meðan hinir sem fyrir neðan það meðaltal liggja eru skattlagðir sem aldrei fyrr, bæði beint og óbeint!!
Það er sjálfsagt að greiða þingmönnum góð laun, fáir sjá eftir því EF þeir sem þau laun þyggja vinna fyrir þeim. Núverandi stjórnvöld og flestir núverandi þingmanna hafa nú á þriggja ára tímabili sannað með verkum sínum að þeir eiga ekki launahækkun skilið, nær væri að lækka laun þeirra!!
Þingmenn velja sjálfir að gefa kost á sér til þingmennsku. Þetta er ekki kvöð sem á þá er lögð. Ef þeir eru að sækjast eftir starfinu launanna vegna, eru þeir á röngum stað. Sannir þingmenn sækjast eftir þingmennsku til að vinna að þjóðarheill, það markmið á að ráða þeirra vali, ekki launin.
Það hefur verið sagt að hærri laun þingmanna auðveldi hæfara fólki að sækjast eftir þingmennsku, að þingið yrði hæfara. Þetta er rangt, hærri laun þingmanna skapar vissulega meiri eftirspurn eftir þingmannsstólum, en jafnframt meiri eftirspurn er dýrara og erfiðara að komast í framboð. Það leiðir til þes að hinir ríku og sterku eru mörgum skrefum framar í þeirri keppni.
Að þingmenn þurfi að vera ríkir er náttúrulega fráleitt, að þeir þurfi að hafa mikla menntun er ekki eins fráleitt en þó engin nauðsyn. Sá eiginleiki sem þingmenn þurfa fyrst og fremst að hafa er skynsemi. Með skynsemina í sínum fórum vita menn hvort, hvenær og hvar þeir eiga að leita hjálpar þegar að ákvarðanatöku kemur. Góð menntun hjálpar vissulega, en einungis á því sviði sem menntun þeirra nær yfir og enginn er menntaður í öllu. Ríkidæmi skiptir hins vegar engu þegar um ákvörðun á þingi er að ræða!
Boðskapur George Orwell er sígildur, jafnt nú og fyrir 57 árum, en einginn vill þó vera orðaður við þann fáráðleik, eða er það kannski ekki fáráðnleikur, er það kannski bara staðreyndir sem endurtaka sig í sífellu? Eru það kannski við, Íslendingar, sem erum svo óheppin að vera stödd á þessum stað í hringleikúsi fáráðleikans, um þessar mundir?
Það er nokkuð víst að flestir ráðherrar hafa lesið sögu Orwells, eða vita að minnsta kosti um hvað hún fjallar. Stjórnvöld hafa þó eitthvað misskilið boðskapinn, hann er ekki um hvernig eigi að stjórna, heldur hvernig EKKI eigi að stjórna!!
Launalækkun dregin til baka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.