Hvar er stjórnarandstaðan ?
31.10.2011 | 21:30
Enn eru hópuppsagnir. Þegar forsætisráðherra talar um þúsundir nýrra starfa, "rétt handan við hornið", er raunveruleikinn annar. Fleiri og fleiri færast yfir á framferði ríkiskassans, fá þar sultarbætur sem dugir ekki fyrir brýnustu nauðsynjum. Auðvitað hættir ríkið að fá skattekjur af þessu fólki, svo tap ríkisins er tvöfallt.
Nú hafa 700 manns misst atvinnu í hópuppsögnum á árinu. Við þá tölu bætast síðan þeir fjölmörgu sem ekki falla undir skilgreiningu "hópuppsagna" og sá fjöldi sem eru einyrkjar og hafa haft vinnu við að þjóna þeim fyrirtækjum sem leggja upp laupana og starfsmönnum þeirra. Því má áætla að tala þeirra sem misst hafa vinnu á þessu ári sé mun hærri.
Og Jóhanna lofar þúsundum starfa, hefur verið að lofa þeim störfum frá því fyrir síðustu kosningar! En lítið er um efndir, enda ekki Jóhönnu sterkasta hlið að standa við loforð. Hún er í eilífri kosningabaráttu, gefur sér ekki tíma til að stjórna. Eina undantekningin frá kosningabaráttu Jóhönnu er þegar hún mærir ESB.
Nú missa 33 störf sín á Vestfjörðum. Jóhanna og Steingrímur gerðu sér ferð þangað vestur í fyrravetur og héldu þar ríkisstjórnarfund. Að þeim fundi loknum voru kveðin upp loforð um sértækar lausnir fyrir Vestfirðinga, lausnir til uppbyggingar og fjölgunar starfa. Síðast þegar fréttist var sú sértaka lausn búin að gefa af sér 3 störf. Nú dragast frá þeim störfum 33! Niðurstaðan er því -30 störf, fyrir utan afleidd störf sem munu tapast í kjölfarið!
Getuleysi stjórnvalda er algjört. Jóhanna lofar og lofar, en stendur ekki við orð af því sem hún segir. Samfylkingin hyllir hana fyrir "afrekið". Steingrímur fær á sig hverja ályktunina af annari, frá flokksfélögum sínum, en fer ekki eftir einni einustu þeirra. Samt fær hann kosningu þrá fjórðu flokksins. Honum er þakkað svikin við kjósendur.
Og ekki er stjórnarandstaðan betri. Hún lætur þetta viðgangast, lætur það viðgangast að þjóðin er dregin niður í skítinn. Tveir stæðstu stjórnarandstöðuflokkarnir hafa nú loks komið fram með tillögur til bóta. Vissulega sýnist mönnum sitt um þær tilögur, en þær eru þó tilraun til að koma málum af stað, tilraun til að koma hjólunum af stað og rjúfa kyrrstöðuna.
En hvað hefur andstaðan gert með þessar tillögur sínar? Jú það voru nokkrir fundir haldnir, en hvað svo? Hvar er stjórnarandstaðan? Hvers vegna er hún ekki að hrópa sínar tillögur á hverju götuhorni? Hvers vegna er stjórnarandstaðan ekki að halda sínu máli uppi? Hvers vegna er stjórnarandstaðan ekki að vinna að því að koma þessari ríkisstjórn frá?
Hversu lengi landið getur lifað með þessa skaðræðisríkisstjórn við völd er ekki gott að segja. Þó er ljóst að of langt er að bíða þess að kjörtímabilinu ljúki. Því verður stjórnarandstaðan að fara að vakna til lífsins. Hún verður að fara að vinna að því að koma þessari ríkisstjórn frá völdum.
Það er lífsspursmál ef við eigum að lifa sem sjálfstæð þjóð áfram!!
33 sagt upp á Ísafirði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Heyr Heyr!!!
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.10.2011 kl. 22:16
Gunnar minn, það er engin stjórnarandstaða. Bjarni Ben. gerir hverja bommertuna á fætur annarri, þegar hann ætlar að vera í andstöðu, þó hann gelti nú ekki af neinum tilþrifum. Hin, í flokknum hans, ætla greinilega ekki að standa með honum, og leyfa honum þess vegna að gjamma án þess að leggja neitt til málanna.
Er þetta ekki bara undirbúningurinn af því að losa sig við hann og berjast innbyrðis um völdin á meðan? Spyr sá sem ekki veit.
Þetta er óhugnanlega þögult alltsaman.
Bergljót Gunnarsdóttir, 1.11.2011 kl. 00:45
Ég tala ekki um Framsókn sem flokk lengur. Framsóknarmaddman, er löngu orðin háöldruð, og liggur banaleguna. Þar vantar bara andlátstilkynninguna. En þessi fyrr- og núverandi þúfnakollapólitík þeirra er að vonum ekki til stórræðanna svona í dauðategjunum.
Bergljót Gunnarsdóttir, 1.11.2011 kl. 00:55
Málið er að stjórnin heldur velli, meðan svokölluð andstaða er alveg steingeld og jafnvel ennþá slappari en hún. Þetta er fjórflokkurinn í hnotskurn.
Bergljót Gunnarsdóttir, 1.11.2011 kl. 00:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.