Að stinga hausnum í sandinn
20.9.2011 | 07:45
Loksins í gær fór fréttastofa RUV að fjalla um evrukrísuna af einhverri alvöru, ekki seinna vænna.
Ekki var þó umfjöllun fréttastofunnar merkari en svo að dregnir voru í viðtöl alræmdir ESB sinnar og greinilegt að þeim leið mjög illa, enda Evrópa nær efnahagslegu stórslysi en áður.
Það var ótrúlegt að sjá þessara álitsgjafa, þegar þeir reyndu af veikum mætti að halda því fram að vandinn væri bundinn við eitt ríki evrulandanna og að vandinn skapaðist einkum vegna óráðssíu stjórnvalda þess ríkis. Að ESB væri ekki í neinnu hættu og vandi evrunnar sjálfrar varla til að tala um. Álitsgjafinn sagði að vandinn nú væri fyrst og fremst sá að erfiðlega gengi fyrir stjórnmálamenn að komast að niðurstöðu um aðgerðir, en ekkert væri þó að óttast, það myndi takast!
Vandi Grikkja er einungis toppurinn á ísjakanum og þó vissulega sé hægt að halda því fram að stjórnvöld þar hafi ekki hagað sér sem skyldi, enda búið að vera vinstristjórn í því landi nánast frá falli herforingjastjórnarinnar, er vandinn þó ekki vegna þess nema að hluta. Vandi Grikklands liggur fyrst og fremst í þeirri staðreynd að þegar kreppa fór að hagkerfi þeirra, höfðu þeir ekkert hagstjórnartæki til að taka á þeim vanda, þar sem þeir voru bundnir evrunni. Því verða þeir nú að segja upp fólki í tugþúsundatali, hækka skatta upp úr öllu valdi og lækka laun launþega landsins. Til viðbótar er svo krafist gífurlegrar sölu ríkisfyrirtækja landsins.
Nú er staðan í Grikklandi sú að sjúkrahúsin fá ekki afgreidd lyf, atvinnuleysi er ofboðslegt, fátækt grasserar og landið er með öll sín fyrirtæki á brunaútsölu, þar með talin sjúkrahús og skólastofnanir. Við slíkar aðstæður er vonlaust að Grikkland geti nokkurn tímann rétt úr kútnum.
En vandi ESB er stærri en Grikkland. Vandinn er mun stærri. Ef Grikkland fellur, sem allir eru sammála um að muni gerast, nema íslenskir ESB sinnar, munu dómínókubbarnir byrja að falla. Ítalía og Spánn munu koma næst. Hagkerfi þeirra ríkja, hvort um sig, er mun stærra en ESB getur ráðið við og lítið sem hægt er að gera. Ef Grikkland fellur, munu margir bankar falla á eftir, sérstaklega franskir og óvíst að franska hagkerfið ráði við það.
Hvort ESB muni falla með falli evrunnar fer fyrst og fremst eftir því hvort þær þjóðir sem sambandið skipa vilja að svo verði, eða ekki. Evran er hluti ESB, ekki öfugt. ESB varð til löngu á undan upptöku evrunnar og gekk bara ágætlega án hennar, svo ekkert er því til fyrirstöðu að það geti lifað áfram án hennar. Þetta er eingöngu spurning um vilja ráðamanna ESB ríkjanna.
Hitt er annað mál að lengi hafa verið uppi þær fullyrðingar að ESB, fyrst kola og stálbandalagið, hafi verið stofnað í þeim tilgangi að sameina Evrópu í eitt ríki. Að sú fullyrðing að um væri að ræða friðar og viðskiptabandalag hafi einungis verið fyrirsláttur. Yfirlýsingar Angelu Merkel benda vissulega í þessa átt, þar sem hún setur samasemmerki milli falls evrunar og ESB.
Nú hlustar maður á það í fréttum að verðhrun hafi orðið á ítölskum verðbréfamarkaði í morgun. Því er sennilega komið að endalokunum, endalokum evrunnar. Þetta eru skelfilegar fréttir, ekki einungis fyrir íbúa evruríkjanna, heldur allann heiminn, þar með talið okkur Íslendinga. Skelfingin fellst þó ekki í því að evran yfirgefi sviðið, heldur þeim efnahagslega skaða sem hún hefur valdið á einum áratug. Skaða sem mun smitast um allan heim.
Það er ljóst að sá álitsgjafi sem fréttastofa RUV sótti í viðtal í gærkvöldi er jafn sannspár nú og vorið 2010, þegar hann hélt því fram að gengistryggð lán væru lögleg, allt fram að þeim tíma að hæstiréttur kom fram með sinn dóm. Þá var hann reyndar ráðherra.
Við íslendingar getum farið að undirbúa okkur fyrir enn dýpri kreppu, ofaná þá kreppu sem við lentum í haustið 2008 og ofaná þá kreppu sem stjórnvöld hér hafa haldið okkur í síðan þá. Þeirri kreppu getum við fagnað þeirri tilraun sem nú er að renna út í sandinn og þeim skaða sem sú tilraun hefur skilað.
Evrunni!!
Lánshæfiseinkunn Ítalíu lækkar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ekki tók maður nokkurt mark á orðum Gylfa Magnússonar í Kastljósinu, þau voru svona í sipuðum dúr og þegar Íslenska bankakerfið var að falla, það er illskiljanlegt þegar menn eru búnir að mála sig út horn eins og hann skuli ekki halda sig til hlés og þegja.
Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 20.9.2011 kl. 10:51
Má nokkuð benda ykkur vitringunum og falsspámönnum á að Evran er 50 % sterkari gagnvart Bandaríkjal núna heldur en þegar hún var fyrst sett á markað!?
Óskar, 20.9.2011 kl. 12:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.