Lögmál vindhanans
7.8.2011 | 09:23
Þorsteinn Pálsson fór sína vikulegu ferð upp á Kögunarhól sinn og sá þá vindhana. Honum sýndist sem andstæðingar ESB aðildar flyttu mál sitt eftir því hvaðan vindurinn blési á hanann.
En hvað með hann sjálfann? Hefur hann ekki hringsnúist eins og vindhani í afstöðu til ESB aðildar?
Megin mál Þorsteins var þó að blessuð evran væri allra meina bót, sem gæti bjargað okkur. Hvernig maðurinn kemst að þeirri niðurstöðu er sjálfsagt verðugt rannsóknarefni, sérstaklega í ljósi þess sem hefur verið að gerast innan þeirra landa sem lögðu traust sitt á þann gjaldmiðil.
Hvað sem gjaldmiðillinn heitir og hversu stór hann er skiptir engu máli. Það efnahagsstjórn sem ræður.
Þorsteinn segir að ef evran hrynur muni það leiða til falls krónunnar. Þetta er hárrétt hjá Þorsteini, en það mun einnig leiða til falls dollars og reyndar flestra gjaldmiðla heims. Þetta er í raun rök fyrir því hversu slæmt það er að safna saman mismunandi þjóðum undir einn gjaldmiðil, án þess að sameina einnig efnahagsstjórnina.
Ef engin evra væri, hefði fall Grikklands haft lítil áhrif hér á landi og sennilega engin í USA. En þar sem Grikkland hafði evru, hefur fall þess veruleg áhrif um allan heim.
Yfirskrift Þorsteins á grein sinni, "lögmál vindhanans" á vel við. Greinin er full af mótsögnum og sem dæmi telur hann veikleika evrunnar vera verk stjórnmálamanna og er það rétt hjá honum, en samt á veikleiki krónunnar að vera smæð hennar. Er ekki rökrétt að álykta að veikleiki krónunnar sé hinn sami og allra annara gjaldmiðla, stjórnmálamennirnir?! Eða er krónan kannski svo sterk að verk þeirra hefur engin áhrif á hana, heldur einhver önnur ótiltekin öfl sem við ráðum ekkert við?
ESB aðild mun ekki hjálpa okkur á neinn hátt, hvorki efnahagslega né félagslega. Ef hér eru við völd misvitrir menn sem ekki ná tökum á efnahagslífinu, mun litla hjálp hægt að fá frá Brussel, það sannar sagan.
Okkar eina von er að við völd, hér á landi, sé fólk sem veit hvað það er að gera og stjórnar efnahagsmálum landsins af skynsemi.
Því miður skortir mikið upp á að svo sé nú!!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.