Mun Ítalía falla á undan Spáni ?
11.7.2011 | 22:45
Evruríkin falla hvert af öðru. Grikkland var fyrst svo kom Írland og stuttu seinna Portúgal. Öll þessi ríki eiga nú allt sitt undir náð og miskun ESB, eftir að hafa þurft að gangast að "hjálparpökkum" frá Stórveldinu. Hjálparpakkar sem munu endanlega gera útaf við þessi ríki sem þjóðríki, enda er grunnur þessara "hjálparpakka" sá að grafa undan grunni þessara ríkja þar til þau hrynja niður að fullu!
Um nokkurt skeið hafa menn haldið því fram að Spánn muni verða næsta ríki til að falla. Ekki talar nokkur maður lengur um hvort það verði, heldur einungis hvenær. Eftir að Van Rumpy boðaði helstu embættismenn í Brussel til fundar nú í morgun, um efnahagsástandið á Ítalíu, vaknar upp sú spurning hvort Ítalía muni falla á undan Spáni, hvort ástandið þar sé orðið verra en áður hefur verið haldið fram.
Það er deginum ljósara að þegar Spánn fellur mun ESB vart geta komið til aðstoðar og þegar Ítalía fellur mun það verða gjörsamlega óvinnandi vegur fyrir ESB að koma til hjálpar. Efnahagskerfi Ítala er meira en tvisvar sinnum stærra en efnahagskerfi Grikkja, Íra og Portúgala til samans!
Því er ljóst að sá leikur sem nú er stundaður í Brussel og kallast styrking evrusvæðisins, er brátt á enda. Þegar efnahagskerfi Spánar eða Ítalíu hrynur mun koma til uppgjörs, hjá því verður ekki komist. Hvort evran verður einfaldlega lögð af og gömlu gjaldmiðlar hvers ríkis teknir upp aftur, eða hvort evrusvæðinu verði skipt upp í "gott" og "slæmt" svæði, þ.e. að evriríkin verði skipt í tvo flokka eftir því hvernig efnahagur þeirra stendur og "slæmu" rikin látin berjast við sinn vanda sjálf, mun koma í ljós síðar. Það er þó ljóst að evran í núverandi mynd mun ekki lifa af.
Það er öllum ljóst að vandi evrunnar er einkum vegna þess að settur var einn gjaldmiðill yfir fjölda hagkerfa. Slíkt gengur ekki upp. Einn gjaldmiðill kallar auðvitað á eitt hagkerfi. Þetta hafa menn bent á og vilji ráðamanna í Brussel er einlægur til þessa. Þó er nokkuð seint í rassinn gripið nú, þegar allt er komið til andskotans.
Vilji almennings innan Evrópu er þó enn einlægari, hann vill ekki eitt hagkerfi og ástæða þess einkum sú að eitt hagkerfi er í raun eitt ríki. Það hugnast hinum almenna Evrópubúa ekki, þó ráðamenn í Brussel vinni leynt og ljóst að slíkri sameiningu.
Það er þó með ólíkindum að enn eru til einstaklingar á Íslandi sem vilja ganga inn í þetta samband og taka upp evru svo fljótt sem verða má. Það þarf alveg einstaka hausa til að geta barið við steininn svona endalaust og spurning hvort hausar þessara einstaklinga séu massívir.
Það er þó lítil hætta fyrir okkur Íslendinga. Fyrir það fyrsta er meirihluti þjóðarinnar skynsamari en svo að aðild verði samþykkt og jafnvel þó svo ólíklega vildi til að ESB áróðursvélinni tækist á endanum að koma okkur undir hæl sinn, þá mun evran ekki verða til þegar sú stund rennur upp að við gætum hugsanlega tekið hana upp.
Evran er búin að vera. Það eru ekki bara Spánn og Ítalía sem eiga í vanda, Belgía, heimaland Van Rumpys, er einnig vallt. Þá má ekki gleyma þeim ríkjum austur evrópu, sem þegar eru komin með evru eða eru að fá hana. Þau eru nú rekin á stórkostlegum styrkjum frá ESB og allt í blóma, eða þannig. Þegar styrkirnir minnka mun kaldur veruleikinn blasa við þeim, eins og þeim ríkjum sem þegar eru fallin eða eru á góðri leið með það.
Þá skal ekki heldur gleyma þeim ríkjum sem helst vilja komast út úr evrusamstarfinu, þau er nokkur þó vandi þeirra sé kannski ekki mikill. Þau ríki hafa áttað sig á hvert stefnir og kæra sig ekki um að fara þá leið, þau vilja halda sínu sjálfstæði.
Sá fundur sem Van Rumpy boðaði til í morgun er ekki neinn stór viðburður en hann er enn ein sönnun þess að vandi evrunnar verður ekki leystur, enn einn naglinn í líkkistu evrunnar. Hvenær lokanaglinn verður nelgdur er ekki gott að segja, en miðað við þann fjölda sem þegar hefur verið nelgdur er ljóst að ekki þarf marga enn!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.