Hópuppsagnir þrátt fyrir "viðsnúning"
2.6.2011 | 07:57
Enn halda hópuppsagnir áfram, þrátt fyrir að Jóhanna og Steingrímur segi að hér sé allt á betri leið að "viðsnúningur" hafi orðið!
Það er erfitt að sjá þennan meinta viðsnúning og alveg víst að þeir sem nú missa vinnuna sjá hann ekki.
Það sem er þó farið að bera meira á, nú upp á síðkastið, er að störf eru að færast frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Þetta er kannski hinn margfrægi viðsnúningur sem Jóhanna og Steingrímur sjá. Það hefur vissulega orðið viðsnúningur á þessu. Eftir markvissan flutning starfa út á land á fyrsta áratug aldarinnar, er nú farið að flytja þessi störf til baka.
Vissulega er erfiðara að reka sum fyrirtæki út á landsbyggðinni, einkum þau sem eru mjög háð flutningum. Skattagleði stjórnvalda hefur búið þessum fyrirtækjum enn verri rekstrargrundvöll. En fyrirtæki eins og ja.is eru ekki háð flutningum og geta starfað hvar sem er, einungis þarf að hafa gott netsamband. Því er illséð hvaða hagur er af flutningi þess á höfuðborgarsvæðið, þar sem launakostnaður er yfirleitt mun hærri en á landsbyggðinni.
Þessi stefna kemur svo sem ekki á óvart. Einn af forverum Jóhönnu í starfi formanns krata sagði eitt sinn að best væri að leggja niður landsbyggðina og flytja þessar "afætur" til höfuðborgarinnar. Leifar þessa hugsanaháttar hefur berlega komið í ljós innan raða þingmanna þeirra undanfarið.
Það fólk sem nú missir vinnuna og bætist í hóp þeirra þúsunda sem fyrir eru án atvinnu, sjá ekki þá sælu sem Jóhanna og Steingrímur er svo tíðrætt um. Þetta fólk mun nú verða á framfæri ríkisins um ókomna tíð. Enginn veit hvenær ástandið batnar, en öllum er ljóst að mun ekki verða meðan þessi ríkisstjórn heldur völdum.
Hvar er stjórnarandstaðan?! Hvers vegna er ekki unnið að því að fella ríkisstjórnina?! Þarf fólkið í landinu að taka völdin í þessu máli eins og sumum öðrum sem stjórnvöld hafa reynt að koma fram?
Þarf fólkið í landinu að taka fram fyrir hendur Alþingis í þriðja sinn á þessu kjörtímabili?!!
Ríflega 80 manns sagt upp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Uppsagnirnar hjá Teris voru fyrirsjáanlegar þegar 80% eða svo af veltunni hjá fyrirtækinu er horfin vegna gjaldþrots SpKef og fleiri viðskiptavina.
Marinó G. Njálsson, 2.6.2011 kl. 09:47
Vissulega eiga sum gjaldþrot sér eðlilegar skýringar, eða þannig. Það breytir þó ekki því að enn eru fjöldauppsagnir í gangi, þó Jóhanna og Steingrímur segi að allt sé á betri leið.
Það breytir heldur ekki þeirri þróun sem virðist vera að festast enn betur í sessi, að atvinnan sé að flytjast af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.
Gunnar Heiðarsson, 2.6.2011 kl. 10:06
Í staðinn fyrir að segja upp svo mörgum starfsmönnum, þá ætti ja.is að hætta þeirri peningasóun, sem felst í því að prenta 100 þúsund eintök af hnausþykkri símaskrá sem fáir vilja (sérstaklega ekki þessa síðustu með Agli Einarssyni) og fáir nota, nema til að selja fyrir 5000 kr. stykkið. Næstum allir nota internetið til að leita að númerum.
Innleiðing kvótakerfisins og úthlutun ókeypis, en framseljanlegra aflaheimilda sem hinar gjörspilltu ríkisstjórnir Íhalds og Afturhalds stóðu fyrir á sínum tíma í þágu eigin persónulegra hagsmuna er svartasti blettur á atvinnusögu Íslands. Þótt ég sé andsnúinn nær öllu öðru sem núverandi ríkisstjórn stendur fyrir, þá styð ég 100% innköllun aflaheimilda og endurútleigu frá ríkinu með annarri forgangsröðun, þannig að öll sjávarþorp sem stunda eða hafa stundað fiskveiðar fái fastan kvóta miðað við þarfir, kvóta sem fylgir þorpinu, en ekki skipunum. Samt finnst mér þetta vera óttalegt hálfkák hjá ríkisstjórninni og sýnir að loforðin eru bara innantóm orð. Það á að leggja fram það frumvarp sem er skynsamlegast og gengur lengst, þrátt fyrir hræðsluáróður Sjallanna, LÍÚ og SA. Punktur og basta.
Síðan þegar búið er að úthluta til byggðanna á sanngjarnri leigu, þá geta stóru fyrirtækin sem eiga aðild að LÍÚ leigt það sem eftir stendur, og það verður þá að nægja. LÍÚ verður þá einfaldlega að aðlaga sig breyttum aðstæðum eins og allir aðrir. Það er heldur enginn sem segir að fiskveiðikvótinn á þorski geti ekki stórhækkað með meiri vitneskju um langtímaáhrif.
Ég veit að margir muni kalla mig "höfuðborgarfasista með fordóma gegn Bílddælingum" og segja mig andsnúinn því að allir íbúarnir fái að flytjast suður til að leita sér að lífsviðurværi. Og að fólk með mínar skoðanir standi í vegi fyrir eðlilegri þróun sem gengur út á það að leggja niður landsbyggðina eins og hún leggur sig.
En ég get vel lifað með þeirri gagnrýni.
Che, 2.6.2011 kl. 14:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.