Í öfugu hlutfalli við vilja kjósenda
24.4.2011 | 20:09
Í laugardagsblaði Baugsfjölmiðla ritar Þorsteinn Pálsson sinn vikulega áróðurspistil.
Þessi pistill hans nú fjallar annars vegar um forsetaembættið og hins vegar um ESB aðlögunarferlið.
Þorsteinn skrifar um það vald forseta að geta vísað lögum til þjóðarinn, en það virðist vera mjög á móti skapi Þorsteins að forseti skuli hafa það vald. Hann segir meðal annars:
"Helstu ákafamenn utan Alþingis gegn Icesavesamningunum krefjast þess ennfremur að ríkisstjórnin fari frá eftir að hafa tapað þjóðaratkvæði um málið í tvígang. Fyrir því eru gild rök sem byggjast á þeim klassísku stjórnskipulegu gildum að valdi fylgi ábyrgð. En það var einmitt þessi ábyrgð sem forsetinn aftengdi þegar hann fyrst beitti synjunarvaldinu.
Forsetinn hefði aldrei neitað að staðfesta lög ef hann hefði þurft að leggja embættið að veði."
Þarna er stórt að orði kveðið, en þó er rökleysan í algleymingi. Þó forsetinn vísi lögum til þjóðarinnar er hann ekki að setja embætti sitt að veði, hann er einfaldlega að láta þjóðina dæma um hvort alþingi hafi farið að vilja þjóðarinnar. Hins vegar er ríkistjórnin vissulega að veði, þar sem hún sendir þau lög til undirritunar. Sú ábyrgð hverfur ekki þó forsetinn vísi þeim lögum til þjóðarinnar. Reyndar var alþingi sjálft að veði í þetta sinn, þar sem 70% þingmanna kusu með þeim lögum sem þjóðin hafnaði.
Stærri hluti greinar Þorsteins er þó um hans hugðarefni, ESB. Það ánægjulega er þó að Þorsteinn er búinn að viðurkenna að um aðlögunarferli er að ræða, nokkuð sem hann fullyrti í nokkrum greinum fyrir tæpu ári síðan að væri rangt. Þetta viðurkennir hann í umfjöllun sinni um þátt VG í þessu ferli en þar segir Þorsteinn:
"VG hefur reynt að bregða fæti fyrir framgang viðræðnanna með svipuðum stjórnsýsluráðum og notuð hafa verið til að tefja orkunýtingaráformin. Þetta heitir að vera með viðræðum en á móti aðlögun."
Skýrara getur það varla verið.
Þorsteinn telur stórann hluta kjósenda muni "frjósa úti" og máli sínu til staðfestingar nefnir hann að þrír af fimm flokkum á þingi hafi verið með ESB aðild í sinni stefnu fyrir síðustu kosningar, en einungis einn sé eftir. Kjósendur frusu úti fyri síðustu kosningar, nú lítur hins vegar út fyrir að þeir geti neytt kosningaréttar síns að nýju.
Þorsteinn ætti að mynnast niðurstöðu þeirra kosninga, áður en hann tjáir sig. Það var sé eini flokkur sem hafði eindregna afstöðu gegn ESB sem vann stórfelldann kosningasigur. Aðrir flokkar töpuðu flestir. Það sem stóð gegn því að sá flokkur sem mestann sigur hafði, hefði haft enn betri sigur, er sú staðreynd að hann er á ytri væng vinstristjórnmálanna og margir sem ekki geta treyst þeim væng. Því voru margir kjósendur sem sátu heima. Það hefur og sýnt sig að ekki var hægt að treysta þeim flokki.
Samfylkingin, sá eini flokkur sem hefur haft afgerandi stefnu með aðild og er í raun fús til að fórna hverju sem er til hennar, stóð nánast í stað í síðustu kosningum. Samkvæmt fullyrðingum Þorsteins hefði sá flokkur átt að vinna stór sigur!
Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að umræðan og vitund fólks um ESB var á villigötum fyrir síðustu kosningar, margt sem við vitum nú var markvisst haldið frá þjóðinni. Má þar helst nefna þá staðreynd að fólki var talin trú um að hægt væri að ganga til samninga við ESB, án nokkurar bindingar fyrir okkur. Í ljós hefur komið að það er ekki hægt, við verðum að gangast undir aðlögun að regluverki ESB á meðan á viðræðum stendur.
Þá hefur einnig komið í ljós sem fáir vissu, en var þó vitað, að ekki er um samninga að ræða, eins og flestir skilgreina það orð. Samninga þar sem báðir aðilar setjast niður og semja um sín mál og komast að sameiginlegri niðurstöðu. Þarna er um bónleið að ræða, bónleið þess ríkis er óskar inngöngu, um einhverjar tímabundnar tilslakanir frá regluverki ESB. Það kallast ekki samningur!
Þorsteinn Pálson hefur smitast af ESB veikinni, um það er engum blöðum að fletta. Hellstu einkenni þeirrar veiki er að lýðræðinu skuli stjórnað ofanfrá, að fólkið sé fyrir stjórnvöld en ekki öfugt.
Íslenska þjóðin bar þó gæfa til að sýna það í verki þann 9. apríl síðastliðinn að hún er ekki tilbúin til að fórna lýðræðinu á þann veg.
Þorsteinn áttar sig ekki á að þær stefnubreytingar sem orðið hafa í ESB málinu, bæði hjá Sjálfstæðis og Framsóknarflokknum, koma neðan frá, koma frá kjósendum þessara flokka. Þetta er auðvitað sönnum ESB sinna hulin ráðgáta, enda á valdið að koma að ofan, samkvæmt þeirra fræðum.
Það verður gaman að lesa vikuleg skrif Þorsteins Pálssonar í Baugsmiðlinum eftir næstu kosningar, þegar ljóst verður að þeir flokkar sem eru á móti aðild vinna, en þeir sem eru með tapa. Þ.e. ef Baugsmiðillinn verður þá enn við lýði.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.