Landsbyggðaskattur
24.4.2011 | 01:57
Hvers vegna er notað lægsta verð til viðmiðunar í þessum útreikningum? Eru þau verð réttari en fullt verð? Víða út um land hafa neytendur litla eða enga möguleika á að ná sér í eldsneyti á afsláttarverði.
Samkvæmt verðlista heimasíðu Skeljungs, frá 11. apríl, er verð á bensíni 245,80 kr og dísel 248,70 kr. Það er nær að nota þessar tölur til viðmiðunnar í stað 238 kr og 242 kr.
En hvað um það, lengi er hægt að deila um hvaða viðmið á að nota. Hitt verður ekki deilt um að skattur á eldsneyti er nú yfir 50% af verðinu. Það sem er þó svínslegast í þessu er að ríkið gefur sér vald til að skattleggja skattinn! Þetta er gert með því að virðsaukaskattur er lagður á þann skatt sem ríkið innheimtir.
Virðisaukaskattur er eins og orðið ber með sér, skattur á virðis auka einhverrar vöru eða þjónustu. Það er enginn virðis auki í skatti, þvert á móti er hann virðis rýrnun! Að leggja skatt á skatt er ekki einungis siðlaust heldur vart að það standist lög!
50% skattur á eldsneyti sýnir svo ekki verður um villst að bifreiðaeigendur eru að borga mun meiri skatta en aðrir launþegar. Stæðsti hluti þessarar skattheimtu fer til annars en þess kostnaðar sem bifreiðareigendur valda ríkinu.
Það er ekkert að því að þeir sem nota vegina greiði til ríkissins þann kostnað sem af því hlýst og til bygginga nýrra vega. Til þess er ódýrasta og sanngjarnast leiðin skattur á eldsneyti. Það er hins vegar siðlaust að þessi hópur í þjóðfélaginu skuli vera látinn borga meira en það, að þessi hópur skuli vera látinn taka þátt í ríkisbruðlinu umfram aðra hópa.
Megin reglan á að vera sú að þeir greiði skatt til ríkisins sem nota þjónustu þess, þar sem því verður við komið. Önnur þjónusta, eins og grunnþjónustan, á að fjármagna með jafnri skattheimtu á alla aðila þjóðfélagsins. Það á ekki að líðast að einhver einn hópur í þjóðfélaginu skuli þurfa að greiða meira í ríkishýtina en annar.
Bifreiðaeign er ekki lúxus, heldur nauðsyn. Það á sérstaklega við um landsbyggðina, þar sem bifreið er forsemda þess að fólk geti stundað vinnu, náð sér í nauðsynjar og hjálp.
Þessi skattlagning kemur þó ekki einungis illa niður á landsbyggðinni vegna þess að fólk þurfi að greiða meira fyrir eldsneytið á bifreið sína, heldur stuðlar þetta að hærra verði allrar vöru, jafnt matvöru sem sjónvarpstækja. Sú staðreynd að allar vörur eru fluttar landleiðina leiðir af sér hærri flutningskostnað og sá kostnaður leggst beint á vöruverðið.
Þá skekkir þetta samkeppnisaðstöðu fyrirtækja á landsbyggðinni, þar sem kostnaður við aðföng og að koma vöru á markað hækkar einnig. Þetta er því hamlandi þeirri sprotastarfsemi sem ríkisstjórnin talar gjarnan um á góðum dögum.
Ferðaþjónustan mun vissulega verða harkalega fyrir barðinu á eldsneytisskattinum, þ.e. ferðaþjónustan utan Reykjavíkur.
Það er því ljóst að hár eldsneytisskattur er fyrst og fremst landsbyggðarskattur. Ef einungis væri innheimt samkvæmt því sem ríkissjóður þarf að leggja til viðhalds og uppbyggingu vegakerfisins, væri ekkert að því þó skatturinn legðist með meiri þunga á landsbyggðinni, hann væri þá einnig notaður meira til hennar. En að þurfa að borga skatt langt umfram það er ekki réttlátt né sanngjarnt!
Fyrir nokkrum árum lýsti þáverandi formaður flokks krata að ekki ætti að púkka upp á landsbyggðina, nær væri að flytja alla á suð vestur hornið. Það er hugsanlegt að þessi hugsanaháttur sé enn við lýði innan þess flokks, en þeir eiga þá að koma hreint fram og segja það berum orðum, eins og þessi fyrrverandi formaður þeirra gerði. Það er heiðarlegra en að fara bakdyramegin að hlutunum og sjúga blóðið úr landsbyggðarfólki!!
![]() |
Bensínskattar aldrei hærri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.