Óstarfhæf stjórnarandstaða
22.4.2011 | 19:28
Sú undarlega staða er nú komin upp í Íslenskum stjórnmálum að við erum með óstarfhæfa ríkisstjórn OG óstarfhæfa stjórnarandstöðu. Þetta er staða sem vart er hægt að hugsa sér að geti komið upp, en er staðreynd á Íslandi! Við Íslendingar stærum okkur af því að vera mestir og bestir, þetta er þó ekkert til að stæra sig af!!
Þegar stór hluti þingmanna Sjálfstæðisflokksins ákvað að fylgja foringja sínum til fylgispekt við óhæfa ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, í icesave málinu, rústuðu þeir gjörsamlega stjórnarandstöðunni. Nú stendur þessi óhæfustjórn Jóhönnu enn betur að vígi en áður. Nú getur hún sagt með sanni að icesave klúðrið sé Sjálfstæðisflokknum að kenna, a.m.k. að hluta.
Icesavelögunum var hafnað af þjóðinni þótt nærri 70% þingmanna hafi samþykkt þau. Þetta segir, svo ekki verður um deilt, að djúp gjá er milli þings og þjóðar. Þessi gjá verður ekki brúuð með öðrum hætti en kosningum til alþingis. Þá geta núverandi þingmenn reynt að endurnýja umboð sitt. Kjósendur geta þá skipt þeim út sem ekki eiga lengur erindi á þingi.
Það virðist þó vera nokkuð góð samstaða meðal þingmanna flestra flokka að ekki skuli kjósa strax. Auðvitað, enda margir núverandi þingmenn sem vita að þeir eiga ekki afturkvæmt á þing eftir næstu kosningar. Vantrausttillaga formanns Sjálfstæðisflokksins var leiksýning, til þess ætluð að kasta ryki í augu fólks. Aldrei trúði flutningsmaður tillögunnar að hún fengist samþykkt, enda ekkert gert til að reyna að vinna tillögunni fylgi áður en hún var borin upp. Það er heldur ekki víst að flutningsmaður tillögunnar hefði verið neitt sérstaklega ánægður ef hún hefði verið samþykkt.
Það óvænta gerðist þó að stuðningur ríkisstjórnarinnar minnkaði enn meira og varla mátt nú við því. Eftir stendur ríkisstjórn með einsmanns meirihluta og að minnsta kosti þrjá þingmenn innan sinna raða sem ekki er hægt að treysta í nokkru máli. Því er ríkisstjórninn enn óstarfhæfari nú en áður, ef hægt er að segja slíkt.
Stjórnarandstaðan er einnig í verri stöðu en áður. Pirringur innan stjórnarandstöðunnar vegna þess að ekkert samráð var haft við hana um framlagningu þessarar tillögu, hefur verið nokkur. En verst var þó frumhlaup þeirra þingmanna sem tóku sér stöðu með Jóhönnu í icesave málinu.
Það hefur gert stjórnarandstöðuna algerlega bitlausa og öll þau orð sem þeir þingmenn láta frá sér marklaus. Þar breytir engu þó þetta fólk fari með rétt mál, það hefur einfaldlega ekki traust eða trúnað meirihluta þjóðarinnar. Því er frekar holur hljómur í þessum orðum Ólafar.
Þegar ríkisstjórn er óstarfhæf og stjórnarnarandstaðan einnig, er einungis eitt hægt að gera, rjúfa þing og boða til kosninga. Því fyrr, því betra.
Þegar ríkisstjórn hefur misst trúnað og traust þjóðarinnar og stjórnarandstaðan einnig, er einungis eitt hægt að gera, rjúfa þing og boða til kosninga. Því fyrr, því betra!!
Ákvörðun Moody's ekki óvænt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Góður pistill hjá þér Gunnar - Við þurfum kosningar það er ekki spurning - en ég vil utanþingsstjórn - Það þarf vel fært fólk til að taka á brýnustu málunum - Til varnar fyrir Icesave - heimilin - skuldastaða og húsnæðismál - fátæktin - bankarnir hreinsa þar út frá toppi og niður á gólf - skilanefndirnar - atvinnumálin - stjórnsýslan - Stjórnmálamenn eru alls ófærir um að endurskipuleggja eins og þarf og taka á spillingunni til útrýmingar.
Benedikta E, 22.4.2011 kl. 22:53
Sæl Benedikta.
Ég held að aldrei myndi nást sátt um utanþingsstjórn. Slík stjórn yrði skipuð af einum manni, forsetanum og þarf að njóta stuðnings þingsins.
Þó hugsanlega nokkur fjöldi fólks treysti forsetanum til að velja hæfa menn í slíka stjórn, er ljóst að margir yrðu því andstæðir. Það á ekki síst við um þingmenn, en reikna má með að flestir þingmenn væru slíkri skipun andstæðir.
Þó góðir menn með kjark veldust í utanþingsstjórn, dugar það ekki til, þar sem þeir eru háðir þinginu með alla löggjöf.
Öll þau mál sem þú telur upp sem forgangsverkefni, eru það vissulega. Flest eru þó þannig vaxin að breyta þyrfti lögum eða setja ný til að afgreiða þau eins og þörf er á. Það vald hefur utanþingsstjórn ekki.
Það er deginum ljósara að það þing sem nú situr ætlar ekki að taka á þessum málum.
Fáir trúverðugir eru til varnar icesave á þingi, þar sem 70% þingmanna greiddu atkvæði með þeim lögum.
Staða heimilanna og fjármál fólks og fyrirtækja yfirleitt virðist ekki vera ofarlega í hugum flestra þingmanna.
Spillingin og ósvífnin sem við sjáum innan bankakerfisins og skilanefnda er á fullri ábyrgð núverandi þingmanna. Þeir hafa engann áhuga á að taka til þar.
Þar sem utanþingsstjórn er háð alþingi varðandi löggjöf er ljóst að slík stjórn væri jafn óstarfhæf og sú er nú situr.
Því er einungis eitt eftir í stöðunni, rjúfa þing og boða til kosninga. Vandinn er hins vegar að hvorki stjórnarþingmenn né margir stjórnarandstöðuþingmenn vilja kosningar. Þeir vita sem er að þeir munu ekki eiga afturkvæmt á þing. Því er málið nokkuð snúið og í raun einungis einn maður sem getur tekið í taumanna, en til þess þarf meiri kjark en hægt er að ætlast til að nokkur maður hafi.
Ég trúi því og reysti að kjósendur sé nógu skynsamir til að velja hæft fólk í framboð og hafna því sem hefur sýnt að það á ekkert erindi í sali Alþingis. Ég trúi því og treysti að kjósendur muni sjá svo um að þeir þingmenn sem stóðu að samþykkt icesave laganna, komist ekki aftur á þing. Ég trúi því líka og treysti að kjósendur munu kjósa til Alþingis, landinu til heilla.
Þessa trú mina byggi ég á því hversu kjósendur voru duglegir að kynna sér icesave lögin og þá samninga sem þau voru um. Þetta sannaðist á því að kjósendur létu ekki áróður ríkisstjórnarinnar og flestra fjölmiðla villa sér sýn. Kjósendur kusu af þekkingu, ekki eftir áróðri.
Gunnar Heiðarsson, 22.4.2011 kl. 23:26
Á Íslandi hefur einungis einu sinn setið utanþingsstjórn, en hún var skipuð af Sveini Björnssyni, þáverandi ríkisstjóra. Þessi utanþingsstjórn var skipuð eftir kosningar 1942, vegna þes að þinmönnum tókst ekki að mynda ríkisstjórn. Þessi utanþingsstjórn sat í tvö ár, til 1944.
Gunnar Heiðarsson, 22.4.2011 kl. 23:30
Sæll Gunnar - Takk fyrir andsvarið - Varðandi utanþingsstjórn þá eru öll þau sjónarmið sem koma fram hjá þér rétt - og það er ekki spurning að sitjandi þingmenn eru slíkri stjórn algjörlega mótfallnir - en þeir gera allt til að hanga á stólunum þó ekki sé nema einn dag í viðbót jafnvel að styðja utanþingsstjórn. - Þingrof - Þingið hafði ekki dug í sér til að koma stjórninni frá - enda held ég að það hafi aldrei staðið til - atkvæða plottið í þinginu á sér engin landamæri. - FÓLKIÐ - þarf að taka málin í sínar hendur fólkið hefur sýnt að það getur og vill. - Það þarf að blása til risa undirskriftasöfnunar og koma stjórninni frá - það er hægt! - Styrmir Gunnarsson skrifaði frábæra grein 9. apríl þar sem hann talar um þetta - ég ætla að endurvekja hana á fésinu hjá mér á eftir - ferð þú ekki inn á fésið - ég hef ekkert séð þig þar.
Benedikta E, 23.4.2011 kl. 12:37
Sæl aftur Benedikta, ég las grein Styrmis.
Undirskriftasöfnun gegn ríkisstjórn og þingi væri mér mjög að skapi, spurningin er hver hefur getu og kjark til að standa fyrir slíkri söfnun. Það er ljóst að framkvæmdin yrði að vera með þeim hætti að ekki væri hægt að gagnrýna hana, við lærðum nokkuð af söfnuninni fyrir áskoruninni á forsetann varðandi icesave ruglið og ætti sú þekking að nýtast.
Fésið hefur ekki höfðað til mín, er þó með síðu en fer ákaflega sjaldann þangað inn, reyndar svo sjaldan að þegar það skeður, fæ ég gjarnan mail frá facebook þar sem ér er boðinn velkominn aftur! Þetta er ekki vegna þess að mér sé sérstaklega á móti facebook, þó mér hugnist ekki sú persónusöfnun sem það fyrirtæki stendur fyrir, heldur vegna þess að þessi síða hefur ekki höfðað til mín.
Gunnar Heiðarsson, 23.4.2011 kl. 19:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.