Að hrökkva eða stökkva
18.4.2011 | 20:36
Vilhjálmur Egilson er ekki sáttur við tilboð SGS og telur það ekki stuðla að uppbyggingu atvinnu. En gera verkföll það? Munu verkföll stuðla að aukinni atvinnu og vera fyrirtækjum landsins til hagsbóta?
Vilhjálmur verður að sætta sig við þá staðreynd að launafólkið mun ekki bíða mikið lengur eftir samningum. Launafólk hefur eitt vopn og aðeins eitt. Verkfallsvopnið.
Ef SA tefur mikið lengur fyrir kjarasamningum munu launþegar telja sig nauðbeygða til að grípa til vopna, þá taka þeir í hendur sér sitt eina vopn. Verkfallsvopnið.
Auðvitað vita launþegar að þetta vopn þeirra er tvíeggjað og að þeir muni hugsanlega tapa ef þeir nota það, en þeir hafa ekki annara úrkosta. Þeir hafa einungis eitt vopn. Verkfallsvopnið.
Reyndar er þetta tilboð SGS til SA með þeim hætti að SA ætti að stökkva í stað hrökkva. Staðreyndin er einföld, þær kjarabætur sem þarna er um rætt eru með þeim hætti að erfitt gæti reynst að fá samninga samþykkta í stéttarfélugunum. Launþegar hafa komið verst út úr því hruni sem varð hér haustið 2008 og þetta tilboð mun ekki bæta nema brot af þeim skaða sem þeir hafa orðið fyrir. Því er eins víst að launþegar vilji frekar grípa til þess eina vopns sem þeir eiga. Verkfallsvopnið.
Launþegar vita nefnilega sem er að stæðsti hluti fyrirtækja landsins eru vel sett og sum eru að raka inn miljörðum í hverri viku. Auðvitað eru til mörg fyrirtæki sem illa standa, sum vegna bankahrunsins en þó flest vegna lélegrar eða rangrar stjórnunar. Þetta vita launþegar og eru ekki sáttir við að fá ekki hlut í þeim gróða sem mörg fyrirtæki eru að hala inn. Því gæti allt eins skeð að þeir gripu til þess eina vopns sem þeir hafa. Verkfallsvopnið.
Að ætlast til þess að launþegar sættist á að laun þeirra verði hækkuð sem nemur getu þeirra fyrirtækja sem verst standa, er ekki ásættanlegt. Launþegar vilja sjá hlut sinn réttann af, fá til baka það sem af þeim hefur verið tekið og eitthvað til að greiða allar þær skattahækkanir sem stjórnvöld hafa lagt á þá. Launþegar hafa þegar lagt meira af mörkum til hjálpar þjóðinni en nokkur annar hópur, nú er komið að öðrum að leggja sitt af mörkum.
Vilhjálmur þarf að spyrja sig þeirrar spurningar hvort hann eigi að hrökkva eða stökkva.
Ef hann velur að stökkva er möguleiki á að launþegar greiði samningnum sitt atkvæði, alls ekki þó víst, en möguleiki.
Ef hann hrekkur er ljóst að einungis er dagaspursmál hvenær launþegar grípa til þess eina vopns sem þeir hafa.
Verkfallsvopnsins!
Líst illa á samningstilboð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Kjaramál | Breytt s.d. kl. 20:39 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.