31% kvenna hefur ekki gert upp hug sinn
25.3.2011 | 21:16
Það er merkilegt en þó ekki, að 31% kvenna skuli ekki hafa gert upp hug sinn til þessa máls.
Móðureðlið er sterkt og hugsa því konur oft fyrst um hag og velferð barna sinna. Því eru minni líkur á að þær taki fljótfærnislegar ákvarðanir þegar um mál ræðir sem snertir börn þeirra.
Því má vera nokkuð ljóst að flestar þeirra mæðra sem skoða samninginn og hvaða áhrif hann getur haft á afkvæmi þeirra, segi nei. Óvissan er allt of mikil og afleiðingarnar geta orðið skelfilegar.
Þegar fólk stendur frammi fyrir tveim kostum, báðum slæmum, meta flestir kostina út frá eigin hag. Mæður meta hins vegar kostina frekar út frá hag barna sinna.
Um icesave:
Auðvitað er alltaf horft fyrst til kostnaðar þegar um svona mál ræðir. Í þessu tilfelli er það nánast útilokað. Þær breytur sem koma inn í dæmið eru svo margar og ótraustar að vonlaust er að segja til um hver kostnaður samningsins verður.
Það eru hins vegar nokkur önnur mál sem hægt er að taka afstöðu til.
Fyrir það fyrsta hvort við eigum að taka á okkur ólögvarða skuld. Það eru allir sammála um að okkur beri ekki skylda til að greiða þessa kröfu. Menn deila hins vegar um hvort það sé betra fyrir okkur að gera það, líta á þetta sem "fórnarkostnað" til að halda stærri þjóðum ánægðum. Svona eins og barn sem verður fyrir einelti í skóla kaupir sér frið frá kvölurum sínum. Er rétt að leysa mál með þeim hætti?
Í öðru lagi er sú staðreynd að með samþykkt samningsins færist varnarþing hans til Bretlands. Ef upp koma deiluefni varðandi samninginn, eftir að hann hefur verið samþykktur, skal það leyst fyrir breskum dómstól, eftir breskum lögum. Hvergi í heiminum eru lagaflækjur eins flóknar og einmitt á Bretlandi. Þetta er alvarlegt mál fyrir okkur, jafnvel mun verra en sú óvissa sem felst í kostnaði samningsins. Alvarleikinn er þó enn verri þar sem stjórnvöld eru þegar farin að undirbúa málssókn vegna RH ákvæðis samningsins. Þó er ekki búið að samþykkja hann. Sá málflutningur mun verða sóttur fyrir breskum dómstól.
Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að ríkið er að taka á sig auknar lánabyrgðir. Nú þegar er ríkiskassinn rekinn að mestu fyrir erlendu lánsfé. Staða ríkissjóðs er með þeim hætti að vandséð er hvernig hægt er að komast frá því. Með samþykkt samningsins mun að minnsta kost 50 miljarðar bætast í þetta skuldasafn ríkissjóðs. Það getur ekki leitt til annars en að enn erfiðara verður að fá lán erlendis á viðunnandi kjörum. Breitir þar einu hvað hápólitísk matsfyrirtæki segja. Það eru staðreyndir sem tala þegar kemur að þessum málum. Gjaldeyrishöft munu því festast enn frekar í sessi og kjör landsmanna verða enn verri.
Það er ljóst að samþykkt samningsins mun kosta okkur töluverða fjármuni, sem skila sér í verri kjörum. Það er miðað við bestu skilyrði, en nánast er útilokað að þau geti staðist og spurningin því frekar hvort þessi kostnaður haldist innan getu okkar.
Hinn kosturinn, að segja NEI, getur hugsanlega orðið til þess að við þurfum lítið sem ekkert að greiða umfram eigur þrotabúsins. Þó gæti kostnaðurinn orðið einhver, en þó aldrei eins mikill og ef samningurinn verður samþykktur. Með því að segja NEI höldum við lögsögu um þetta deilumál, þó ESA sé að vísu milliliður, þ.e. sú stofnun getur ályktað um málið. Gera þarf þó út um málið hér á landi fyrir okkar dómstólum. Bara sá virðisauki sem af dómsmáli yrði, kæmi þá til okkar, ekki til Breta, auk þess sem mun auðveldara er fyrir okkur að flytja okkar mál fyrir íslenskum dómstól en breskum.
Það hafa nokkrir einstaklingar haldið því fram að rétt sé að samþykkja samninginn til að fá þetta mál út af borðinu, þeir séu orðnir leiðir á þessu og vilja það burt. Aumingja mennirnir, það er greinilega ekki mikil hugsun í hausi þeirra. Jafnvel þó við gæfum okkur að málið væri búið við samþykkt samningsins, þá er nokkuð mikið að borga + 50 miljarða til þess eins að þurfa ekki að hlusta meira á það! En málið klárast aldeilis ekki við samþykkt samningsins. Þá höfum við bundið þetta mál við okkur næstu 35 ár! Hvorki meira né minna. Ef við fellum samninginn mun það vissulega ekki hverfa heldur. En samkvæmt áætlunum slitastjórnar mun verða búið að greiða út eignir þess innan fimm ára, reyndar er hætt við að slitastjórn dragi það eitthvað lengur til að fá meiri aur í eiginn vasa, en þegar allar eigur þrotabúsins hafa verið greiddar kemur í ljós hvað eftir stendur. Bretar og Hollendingar munu sjálfsagt halda áfram að krefja okkur um vexti og það sem uppá vantar ef þrotabúið dugir ekki fyrir 20.000 evru innstæðutryggingunni. Þessu munu þeir halda áfram um einhvern tíma og að lokum verður sjálfsagt komist að einhverri niðurstöðu. Sú niðurstaða mun þó byggja á mun fastari forsendum en núverandi samningur gerir. Hugsanlega mun sú niðurstaða verða til þess að við verðum bundin þessum þjóðum fram til ársins 2046 eins og núverandi samningur segir til um, en mestar líkur eru á að verðum við laus mun fyrr. Það er þessi vafi sem við höfum með því að segja NEI, það er þeim vafa sem við köstum frá okkur með því að segja já. En icesave hverfur ekki, hvort sem við segjum já eða NEI.
Sú staðreynd að 56% aðspurðra í þeirri könnun sem Áfram hópurinn lét gera fyrir sig er ekkert undarleg. Þessi könnun er gerð af beiðni þeirra og þá viku sem þessi könnun fór fram var mikill áróður í fjölmiðlum af hálfu Áfram hópsins, enda vissu þeir að könnun var í gangi. Þá hafa fjölmiðlar verið duglegir við að halda uppi eigin áróðri fyrir samþykkt samningsins. Þeir sem vilja tjá sig og eru samþykkir samningnum fá óskipta athygli fjölmiðla og eiga greiðann aðgang þangað inn. Í þau örfáu skipti sem andstæðingar samningsins fá að koma í fjölmiðla og tjá sig, fá þeir oftar en ekki mjög takmarkaðann tíma og oftar en ekki er í beinu framhaldi að þeirra flutningi bætt við einhverju til að styðja já sinna.
Fréttastofa RUV hefur þó hagað sér verst á þessu svið, sérstaklega vegna þess að sú stofnun á að vera hlutlaus. Það er hún þó alls ekki. Fréttamenn og þáttastjórnendur fréttaþátta, þeirrar stofnunar hafa verið duglegir að halda uppi óróðri fyrir samþykkt samningsins. Jafnvel hefur svo langt gengið að fréttaskýring hefur verið full af ranghugmyndum og beinum lygum. T.d. var í einum slíkum fréttaskýringaþætti um þetta mál, reiknað út hversu mikið samningurinn myndi lækka ef byrjað yrði að greiða af höfuðstól sex mánuðum fyrr en samningur segði til um, þó var á þeim tíma einungis fjórir mánuðir fram að fyrstu greiðslu samkvæmt samningnum. Þetta er aðeins eitt dæmi um vinnubrögð þessarar stofnunar.
Enn eru rúmar tvær vikur til kosninga. Ekki vil ég trúa því að á kjördag verði 65% þjóðarinnar tilbúin að leggja þennan klafa á börn sín og barnabörn.
Þau börn sem fæðast í dag verða orðin 35 ára þegar þau losna undan þessum samningi. Þeir sem eru í dag 41 árs eða eldri, munu verða bundin þessum samningi alla sína starfsæfi.
Pælið aðeins í þessu!
![]() |
56% segja ætla að styðja lögin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Takk fyrir góða færslu. Við segum nei fyrir komandi kynslóðir og lýðræðið!
Sigurður Haraldsson, 26.3.2011 kl. 06:30
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.