Verkföll framundan ?
24.1.2011 | 20:23
Það er gott mál að samræmdri launastefnu skuli vera kastað út af borðinu. Um ástæðurnar er hins vegar hægt að deila.
Forseti ASÍ segir: Það er alveg á hreinu að við erum ekki tilbúin að setjast að viðræðu við atvinnurekendur um þriggja ára kjarasamning, sem var þeirra tillaga, byggt á þeirri forsendu að það sé hægt að taka efni slíks samnings og nota sem þvingunaraðgerð við stjórnvöld um afstöðu útgerðarmanna í sjávarútvegsmálum. Til þess verður Alþýðusambandið ekki notað." (Undirstrikað af GH.)
Þetta eru stór orð og staðfesta það sem sumir hafa haldið fram, að forseti ASÍ hafi verði leiksokkur SA í undanfara þessara samninga. Þau staðfesta það að forseti ASÍ hafi verið tilbúinn að ganga til samninga á grundvelli tillagna og forendna SA. Þetta er mikil játning af hálfu forseta ASÍ og gerir hann óhæfan til að halda áfram sem forsvarsmaður launþega í núverandi samningum!!
Nú ber forseti ASÍ því við að ekki sé hægt að halda áfram viðræðum vegna þess að SA krefjist að lausn í sjávarútvegsmálum verði lokið fyrst. Það er eðlilegt að SA komi fram með þessa kröfu, en hún kemur þó launafólki ansi lítið við og því ekki kjarasamningum heldur.
Sú stefna sem þeir félagar Gylfi og Villi E hafa komið kjarabaráttu í er vægast sagt undarleg.
Fyrir það fyrsta virðist sem SA eigi að stjórna umræðuferlinu og það eigi einnig að setja fram kröfurnar. ASÍ eigi að hlýða og þegja.
Þá er svo að sjá sem laun eða launakröfur séu orðnar algert aukaatriði í kjarabaráttunni. Allur kraftur fer í að karpa og ræða um önnur atriði, sem kemur kjaramálum lítið eða ekkert við.
Sú staðreynd að báðir aðilar skuli ætla að semja gegn um stjórnvöld ber ekki merki um metnað af hálfu þessara aðila. Stjórnvöld eiga ekki að koma að samningum fyrr en allt annað er að fullu reynt. Þá verður að skoða þá staðreynd að allt sem stjórnvöld leggja til samninga, er tál og ekki fast í hendi. Þetta höfum við illilega verið vör við hjá núverandi stjórn. Ekki einungis sveik stjórnin öll sín loforð, bæði við SA og launafólk, í kjölfar svokallaðar sáttar sem samþykkt var sumarið 2009, heldur hefur þessi stjórn verið stórtæk í að fella úr gildi eða skerða ýmsar bætur, skattafslætti og önnur þau hlunnindi sem komið hafa á í gegn um tíðina, til hjálpar launþegum. Oftast hafa þessar bætur komið til vegna og í tengslum við kjarasamninga!!
Þó Gylfi Arnbjörnson sem enn er titlaður forseti ASÍ sé í góðu sambandi við flokksystur sína er vermir tímabundið stól forsætisráðherra, ætti hann þó að átta sig á að ríkisstjórnir koma og fara. Svo mun einnig verða með þessa. Því eru munnleg loforð einskisvirði og skrifleg einnig. Þessi stjórn hefur sannað það svo ekki verður um villst. Það hefur engri stjórn tekist að þurka út jafn mikið af réttindum launafólks eins og þessari. Það sem verra er, er að þessi stjórn hefur lagt grundvöllinn fyrir framtíðina. Lög og loforð af hálfu stjórnvald, sem gerð eru í tengslum við kjarasamninga, halda einungis rétt á meðan samningar eru samþykktir af launafólki!!
Margir halda því fram að krafa SA um að lausn í sjávarútvegsmálum verði kláruð áður en samningar verði gerðir, sé svívirða. Vissulega er það það. En Villa E er þó vorkun, hann er orðinn því vanur að ASÍ fylgi honum að málum. Því er von að hann haldi að hægt sé að spyrða þessa hluti saman.
Villi E veit sem er, að lausn í sjávarútvegsmálum er ekki á næsta leyti, ef einhverntímann. Hann hlýtur því að vera að tefja með þessari kröfu. Hann veit einnig að hver mánuður án samninga sparar atvinnurekendum peninga. Það er nefnilega svo undarlegt að ekki er sjálfgefið að nýr samningur gildi frá lokum þess síðasta. Um þetta þarf að semja hverju sinni og oftar en ekki hefur ekki tekist að ná því í gegn. Það ætti alltaf að vera forgangskrafa launþega að svo verði!! Það á aldrei að vera hagur atvinnurekenda að draga samninga!!
Launafólk þarf nú að taka höndum saman og kasta öllum áhrifum vinnuveitenda út úr sínum félugum auk flokkspólitískra tengsla.
Það er ljóst að sú þróun sem nú virðist vera að gerast, þar sem vinnuveitendur telja sig geta komið fram við launafólk eins og þræla, verður ekki liðið. Nýjasta dæmið er hjá þernum á Herjólfi. Þær voru ekki sáttar við þá starfssamninga sem þeim var ætlað og vildu láta sitt stéttafélagið skoða þá. Svarið sem þær fengu var uppsagnarbréf!! Ef starfssamningurinn þoldi ekki skoðun viðkomandi stéttafélags, segir það að þarna hafi átt að svindla á þernunum. Þetta er einungis eitt dæmi, sem rataði í fjölmiðla. Hversu mörg rata ekki þangað? Hversu margir láta svona frekju og yfirgang yfir sig ganga, til þess eins að halda vinnu?
Það er ljóst að framundan eru harðar deilur, sem líklegt er að endi með verkföllum. En hverjum verða þau verkföll að kenna?
Er það fólkinu sem vill að staðið sé við gerða samninga og krefst einhverrar leiðréttingar sinna mála?
Er það atvinnurekendum, sem skirrast ekki við að svindla á launþegum og ætla nú að draga inn í samningaumræðuna algerlega ótengt mál?
Eða er það stjórnvöldum, sem hafa svikið launafólkið, tekið af því ýmsar bætur og skattafslætti sem til hafa orðið vegna og í tengslum við kjarasamninga?
Svari hver fyrir sig!
![]() |
Viðræðum um samræmda launastefnu hætt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Kjaramál | Breytt 22.3.2011 kl. 01:02 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.