Lágt er lagst til varnar ESB
11.1.2011 | 11:27
Ritstjóri Baugstíðinda skrifar áhugaverða grein í blað sitt undir fyrirsögninni "Útboð á íslensku".
Þarna gagnrýnir ritstjórinn það sem hann kallar "kröfu um verndarstefnu", sem hann telur aukast á dögum samdráttar í þjóðfélaginu.
Ritstjórinn bendir á að það sé skylda opinberra aðila að bjóða út allar meiriháttar framkvæmdir á evrópska efnahagssvæðinu. Þetta er að sjálf sögðu afleiðing EES samningsins sem nauðgað var á þjóðina í upphafi tíunda áratugar síðustu aldar. Þetta fyrirkomulag þykir ritstjóranum nokkuð gott og vill meina að þetta leiði til lægri kostnaðar og þá hafi ríki og sveitafélög úr meira fé að spila til annara framkvæmda og jafnvel til skattalækkana. Gott ef satt væri.
Staðreyndin er hins vegar allt önnur. Vissulega gæti þetta fyrirkomulag lækkað stofnkostnað framkvæmda, en á móti kemur að tekjur ríkis og sveitafélaga verða minni. Í flestum tilfellum er lækkun stofnkostnaðar framkvæmda lítill og dugir alls ekki til að vega á móti þeim skatttekjum sem falla niður á móti. Það er heildardæmið sem máli skiptir, ekki einn liður þess. Því ber að reikna dæmið til enda þegar verið er að bera saman tilboð frá innlendum aðila við þann erlenda.
Ritstjórinn kallar það sérhagsmunagæslu þegar fyrirtæki eða samtök þeirra lýsa vanþóknun sinni á þessu fyrirkomulagi. Vissulega er það sérhagsmunagæsla, en er það eitthvað til að skammast sín fyrir. Hverjir gæta hagsmuna fyrirtækja ef ekki þau sjálf! Þetta er frekar léleg aðferð ritstjórans til að reyna að varpa rýrð á fyrirtæki landsins!
Sjálfur er ég sannarlega hlyntur sem mestu frjálsræði og sem minnstra hafta, innan skynsamlegra marka þó. Þetta er ekki í anda frjálsræðis, þetta er verndarstefna af verstu sort, þó ekki verndarstefna fyrir verkkaupa.
Það væri frjálsræði ef opinberir aðilar hefðu val um það hvort þeir bjóði út verk eða þjónustu eingöngu hér á landi, innan EES eða út um allan heim. Að vera bundin einum þessara kosta er verndarstefna fyrir þann aðila.
Það er ljóst að ritstjórinn er með þessari grein sinni að reyna að verja það sem hann vonast til að verði, aðild Íslands að ESB. Því miður fyrir hann tekst honum frekar illa upp og er um leið að opna á umræðu sem lítið hefur farið fyrir, hver gróði fyrirtækja í landinu er við inngöngu í ESB. EES samningurinn er mörgum fyrirtækjum erfiður, sérstaklega minni fyrirtækjum. ESB mun þó verða enn strangari á þessu sviði, þá mun tilskipun EES, sem beinist einungis að opinberum stofnunum, ganga yfir öll fyrirtæki landsins!!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.