Hvers vegna?

Hverjar ástæður þess eru að kjörsókn til stjórnlagaþings er svo dræm eru sjálfsagt margar. Hvort um er að kenna lélegri kynningu, of miklum fjölda frambjóðenda eða einfaldlega að meirihluta þjóðarinnar finnist forgangsröðunin röng, að breyting á stjórnarskrá sé kannski ekki eitt af þeim málum sem rétt er að kasta peningum í á þessum tímapunkti.

Það sló mig hinsvegar viðtalið við Guðrúnu Pétursdóttir í fréttum á Stöð 2, þar sem hún virtist með þetta nokkuð á hreinu en sagðist þó ánægð því um lögmæta kosningu væri að ræða, kosningin hefði tekist vel til og því ekkert til fyrirstöðu fyrir verðandi stjórnlagaþingmenn að samþykkja breytingu í eitt kjördæmi fyrir allt landið!

Er stjórnlagaþing kallað saman til að samþykkja fyrirfram ákveðnar hugmyndir? Hvaða fleiri hugmyndir Guðrúnar getur stjórnlagaþing nú samþykkt?

Ef það voru einu rökin fyrir andstöðu við eitt kjördæmi, að það væri ekki framkvæmanlegt kosningalega séð, er Guðrún á villigötum. Andstaðan við slíkt fyrirkomulag er mun dýpri og rökin einkum þau að landsbyggðafólk telur sig verða enn afskiptara en nú, að aðgengi að löggjafanum verði enn verra.

Það er ljóst að landsbyggðaþingmenn, flestir, standa vörð um sitt kjördæmi enda sækja þeir sín atkvæði þangað. Sumir kalla þetta hagsmunapot eða einhverjum enn verri nöfnum. Ég kýs að kalla þetta hagsmunagæslu, að þingmenn hvers kjördæmis gæti að hag þess, þeir eru þeir þingmenn sem bestu yfirsýn ættu að hafa yfir sitt kjördæmi. Ef eitt kjödæmi verður niðurstaðan munu að sjálfsögðu einhverjir þingmenn verða kosnir sem búa út á landi. Þeirra hagsmunagæsla mun þó einkum snúast um einkavinagæslu frekar en landsbyggðagæslu, enda vart hægt að ætlast til þess að örfáir menn hafi yfirsýn yfir alla landsbyggðina.

Þegar kjördæmaskipan var breytt síðast og landsbyggðarkjördæmum fækkað og þau stækkuð minnkaði mikið þau tengsl sem þingmenn höfðu við sína kjósendur, auk þess sem aðgengi fólks að löggjafanum minnkaði stórum. Þó verður ekki séð að þessi breyting hafi skila betri stjórnsýslu, þvert á móti.

Það er einkum VÆGI atkvæða sem fólk horfir á og telur þau eiga að vera jöfn, óháð búsetu. Þetta er að mínu mati rangt. VÆGI atkvæða á að vera minnst næst löggjafanum og stjórnsýslunni, síðan á það að aukast eftir því sem fjær dregur og þeir sem lengst eru og erfiðast eiga með að nálgast þessar stofnanir, fái mest atkvæðavægi. Þessi aðferðarfræði þekkist víða, t.d. í Bandaríkjunum.

Við búum í strjálbýlu landi, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Hvers vegna á að færa allt vald á inn lítinn blett á suðvestur horni þess? Hvers vegna á að meina þeim landsbúum sem búa utan þess svæðis að eiga aðild að stjórnun landsins? Er það réttæti?

 


mbl.is Slakasta þátttaka frá 1944
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þvílíkt bull, er það til of mikils mælst að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar hafi heildarhagsmuni þjóðarinnar í huga frekar en hvað kvótabraskaranum á langtíburtistan finnst um málin? Árangurinn af því kerfi leynir sér alla vega ekki!

Júlíus (IP-tala skráð) 29.11.2010 kl. 09:29

2 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

"Langtíburtustan" er Ísland Júlíus, það er aðeins stærra en bara Reykjavíkurhreppur. Það búa líka töluvert fleiri á landsbyggðinni en kvótabraskarar, auk þess sem kvótabraskarar búa einnig í Reykjavíkurhrepp.

Það er akkúrat sá hugsanaháttur sem fram kemur í athugasemd þinni sem íbúar landsbyggðarinnar óttast. Því miður eru margir sem hugsa eins og þú, að Reykjavík sé Ísland og landsbyggðin sé "Langtíburtistan" sem hýsir eingöngu kvótabraskara.

Hver árangurinn af kvótakefinu er og hvort það sé gott eða slæmt, kemur ekki kjördæmaskipan við. Þeir sem eiga fjármagnið hafa alltaf betri aðgang að stjórnmálamönnum og mun breyting á kjördæmaskipan ekki breyta neinu í því, nema síður sé.

Gunnar Heiðarsson, 29.11.2010 kl. 10:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband