Fáfræðin er lævís
1.11.2010 | 10:45
Það er merkilegt að hlusta á og lesa greinar eftir menn, sem telja sig hafa meira vit í kollinum en meðal Íslendingurinn, tjá sig um ágæti ESB. Oftar en ekki halda þeir því fram að við inngönu í ESB muni matarverð stórlækka, vextir verða nánast ekki neinir, húsnæðislán muni verða nánast brandari og ýmislegt fleira í þeim dúr.
Hugsanlega munu einhverjar matvörur lækka í verði en þó eru meiri líkur en minni á að það muni ekki ske. Tollar munu vissulega falla en engin trygging er fyrir því að það skili sér til neytenda. Hingað til hefur það sjaldnast gerst og því engin ástæða til að gera ráð fyrir breytingu þar á. Hins vegar munu tollaafnám valda því að innlendur landbúnaður mun eiga í vök að verjast og líklegt að verð þeirra vara sem framleiddar eru hérlendis munu hækka. Auk þess er næsta víst að framleiðsla sumra landbúnaðarvar leggist af. Ef einhverjum dettur í hug að við getum fengið þau matvæli sem við ekki framleiðum sjálf á einhverju útsöluverði í Evrópu, ódýran flutnig á þeim til landsins og velviljaða kaupmenn sem selja okkur vöruna með lágmarks álagningu, þá veit sá hinn sami lítið um markaðslögmál.
Vextir munu lækka en á kostnað atvinnustigs og launakjara. Við höfum okkar eigið fjármálakerfi, óháð hvað gjaldmiðillinn heitir. Þetta fjármálakerfi ræðst af innkomu / útgjöldum, evra skiptir þar engu og mun hvorki auka né minnka innkomuna. Ef við tökum upp sameiginlegan gjaldmiðil með öðrum þjóðum höfum við ekki stjórn á honum lengur. Þegar við höfum hvorki vald yfir gjaldmiðlinum né vöxtum, getum við ekki stjórnað efnahagskerfinu hjá okkur, nema með ríkisafkiptum á launakjör og atvinnustig. Sameiginlegur gjaldmiðill gengur ekki upp nema að hafa sameiginlegt hagkerfi. Svo einfalt er það!! Þetta sannast best í evru löndunum. Vissulega er það markmið ESB að sameiginlegt hagkerfi verði í Evrópu, þ.e. eitt stórríki. Guð hjálpi Íslendingum ef þeir láta blekkjast inn í slíka ófreskju!!
Það er ótrúlegt að hagfræðingar, sem vissulega sjá þetta, skuli halda öðru fram, leifa pólitík að yfirtaka fræðin. Óhugnalegast er þó að þessir sömu menn skuli vera á launum hjá þjóðinni við að uppfræða ungt fólk! Það er kannski ekki undarlegt að hér fór allt til fjandans, ef fólki er kennt í háskólum landsins að öll vandamál sé hægt að leysa með einni aðgerð, inngöngu í ESB. Að ekki þurfi að taka ábyrgð gerða sinna, bara ganga í ESB. Að ekki þurfi að ástunda ábyrga þjóðstjórn, bara ganga í ESB. Að grundvallar hagfræði skipti ekki lengur máli, bara ganga í ESB. Þarf nokkurn að undra hvernig fór þegar þetta er það sem fræðimenn kenna í háskólum landsins, þegar fræðimenn hætta að kenna fræðin og predika pólitískar kenningar í staðinn!!
Fáfræðin er lævís, en þegar hún kemur af munni þeirra sem eiga að uppfræða, er hún stór hættuleg og getur auðveldlega kollsteypt heilu þjóðfélagi og lagt það í rúst!!
Athugasemdir
ESB er meira en efnahagsmál. ESB er samstarf sjálfstæðra evrópskra þjóða. Það þarf ekkert að óttast það.
Við sjáum að hinum ýmsu dæmum að ESB er engin töfralausn. Það sjáum við hjá Grikkjum, Spánverjum og Írum.
Þess vegna er rangt að tala um ESB sem töfralausn.
Þetta er spurning um það hvað við viljum í framtíðinni. Eftir að hafa komið víða við í heiminum og búið í hinum ýmsu löndum, þá er það mitt mat að innganga sé góður kostur fyrir einstaklinga þessa lands.
Ísland er eina landið innan EES sem kom á höftum eftir efnahagshrunið 2008. Ekkert annað land taldi sig þurfa þess.
Það er aftur á móti ókostur fyrir stjórnmálamenn og embættismenn sem vilja hafa hendurnar í öllu og stjórna með höftum o.þ.h.
Samstarf við önnur Evrópuríki innan ESB tel ég vera framtíðin.
Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 1.11.2010 kl. 11:12
Stefán, ég virði þína skoðun þó ekki sé ég sammála. Vissulega er ESB engin töfralausn, því er enn undarlegra þegar fræðimenn halda slíku fram.
Þú nefnir að Ísland eitt ríkja EES hafi þurft að koma á höftum eftir hrun. Vissulega rétt hjá þér, en Ísland var líka eitt ríkja EES sem lenti í því að glæpamenn þurkuðu allt fjármagn út úr bankakerfinu. Hversu djúp hefði efnahagslægðin orðið hér ef bankarnir hefðu verið reknir á ábyrgan hátt?
Ekki er mér illa við Evrópuþjóðir, nema síður sé. Hvort nauðsynlegt sé að ganga í ESB til að efla samstarf við þær, tel ég hinsvegar ekki. Við erum sterkari á allan hátt til samstarfs við þær utan ESB. Þá er um samninga að ræða en innan ESB verðum við að þiggja það sem að okkur er rétt.
Gunnar Heiðarsson, 1.11.2010 kl. 11:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.