Fáviska SA

Það er alvarlegt mál þegar framkvæmdastjóri SA hefur ekki meiri þekkingu á kjarasamningum en virðist vera nú. Hún hleypir kjaragerð í uppnám á þeirri stundu er nánast er lokið samningsgerð, lætur stranda á endurskoðunarákvæði. Hún virðist ekki átta sig á að verkalýðshreyfingin hefur einungis eitt vopn í sínum fórum og ef ekki næst samningur verður því vopni auðvitað beitt.

Samningur sem á sér vart sögulegar forsendur liggur á borðinu. Þar hefur forusta verkalýðshreyfingarinnar teygt sig lengra en nokkurn tíman áður, jafnvel svo að ærlegt verk verður að fá þann samning samþykktan af launafólki. Kjarabætur eru langt frá því að bæta það tap er verðbólgan hefur stolið af launafólki,  þó ekki æðstu stjórn landsins. Þeirra laun eru verðtryggð. Og auðvitað ekki heldur forstjórum og þeirra næsta fólki. Það skammtar sér laun sjálft. En almennt launafólk hefur tapað miklu á verðbólgunni og eins og áður segir, þá er fjarri því að sá samningur sem nú liggur á borði bæti það tap, þó ástæða þessarar verðbólgu sé fjarri því launþegum að kenna.

Ástæða þess að forusta launþega hefur valið þessa leið, þá leið að gefa verulega eftir í því að fá bætt verðbólgutapið, er auðvitað sú viðleitni að kveða niður verðbólgudrauginn. Að sína í verki að launþegar leggi sitt af mörkum í þeirri baráttu, enda stærsta kjarabótin að verðbólgan lækki og vextir samhliða. Um þetta hefur forustan talað frá upphafi þessarar kjaragerðar.

En það eru ekki allir sem tapa á verðbólgudraugnum. Bankar græða á tá og fingri, fyrirtæki geta auðveldlega fært kostnaðinn út í verðlagið og fóðrað drauginn. Eins og áður segir eru æðstu stjórnendur með sín laun verðtryggð og þeir sem ofar eru í launastiganum, margir hverjir í þeirri stöðu að skammta sér laun. 

Því er eðlilegt að forusta launafólks setji fram kröfu um endurskoðunarákvæði í samninginn. Það er forsenda þess að samningurinn fáist samþykktur af launafólki. Það er ekki tilbúið að semja til langs tíma um lág laun, í baráttu við drauginn, ef ekki er hægt að skoða hvort aðrir taki þátt í þeirri baráttu og ef svo er ekki, þá falli samningurinn. Krafan um slíka endurskoðun er eftir eitt ár, en þá liggur fyrir hverjir standa við sitt. Boð SA er hins vegar að slík endurskoðun verði ekki fyrr en undir lok samningsins, eitthvað sem launþegar munu aldrei samþykkja, hvað sem forusta þeirra gerir.

Ef framkvæmdastjóri SA áttar sig ekki á þessum staðreyndum er hún óhæf í starfi. Þá mun hún baka sínum umbjóðendum miklum skaða, sem og þjóðfélaginu. Verkfallsvopnið mun verða virkjað.

Ég vona innilega að vinnuveitendur framkvæmdastjórans geri henni grein fyrir alvarleik málsins, eða skipi annan í hennar stað við samningsborðið. Það má ekki verða að launþegar neyðist til að beita sínu eina vopni, vegna fávisku fulltrúa SA.

 


mbl.is Segir fullyrðingar Vilhjálms rangar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. febrúar 2024

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband