Lágkúra

Það er útaf fyrir sig sérstakt rannsóknarefni hvers vegna Dagur leggur þvílíka áherslu á að koma flugvellinum burt úr Reykjavík, hverra hagsmuna hann er að gæta þar. Enn undarlegra er þó að honum skuli hafa tekist að véla formann Framsóknar til að heimila byggingu nærri vellinum, þvert á fyrir samþykktir.

Það kemur skýrt fram að byggð við Skerjafjörð mun hafa truflandi áhrif á flug um völlinn. Síðan er bætt við að minnka megi þá truflun með mótvægisaðgerðum. Ekkert kemur fram í skýrslunni sem segir að hægt verði að halda sama öryggi fyrir flug um völlinn, einungis að truflunina megi minnka með mótvægisaðgerðum. Hverjar þær mótvægisaðgerðir eru er minna sagt. Þannig að samkomulagið frá 2019, sem segir að öryggi flugvallarins skuli tryggt jafn gott eða betra, þar til annar flugvöllur hefur verið byggður, er því í öllu falli brostið.

Hver á svo að fjármagna þessar mótvægisaðgerðir. Varla ríkissjóður. Og vart er hægt að treysta borginni til þess, enda getur hún nú auðveldlega bent á að samkomulagið frá 2019 sé brostið og því engin þörf á þær mótvægisaðgerðir.

Framsóknarmenn eru komnir út í horn með þetta mál, mál sem þingmenn og flokksfélagar hafa barist hart fyrir gengum árin. Sjá að þeir léku þarna stórann afleik. Komið er fram með skýringar sem ekki standast skoðun og vísa í samkomulag sem þeir sjálfir hafa gert að engu. Þetta er lágkúra af verstu gerð og vart hægt að komast neðar.

Oddviti Framsóknar stútaði flokknum í Reykjavík, með því að halda áhæfri borgarstjórn á lífi. Nú vinnur formaður flokksins hörðum höndum að því að klára flokkinn á landsbyggðinni, með því að brjóta eigið samkomulag við borgina um öryggi flugvallarins í Reykjavík. Flugvallarins sem er lífæð landsbyggðarinnar. Víst er að framsókn mun ekki ríða feitum hesti í Reykjavík, eftir næstu sveitarstjórnarkosningar og flokkurinn má þakka fyrir að ná inn þingmanni að loknum næstu alþingiskosningum. Niðurrif flokksforustunnar á eigin flokki er fáheyrð.


mbl.is „Treysti niðurstöðum sérfræðinganna í þessu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Green eða grín

Það er orðið lítill munur á enska orðinu green, sem gjarnan er notað í nafni náttúruverndar og íslenska orðinu grín, sem allir þekkja.

Sala á kolefniskvóta af raforkuframleiðslu, héðan frá Íslandi til Evrópu er eitt dæmi um slíkt grín, undir nafninu green. Reyndar hefur verið sett stöðvun á þessa sölu, þar sem upp hefur komið að fyrirtæki sem eru starfrækt hér á landi auglýsa að þau noti hreina íslenska orku. Vandinn er að orkufyrirtækin höfðu selt einskonar aflátsbréf til meginlandsins, þar sem fyrirtæki þar ytra gátu auglýst að þau nýttu þá íslensku orku. Allir vita að sama orkan verður jú ekki notuð tvisvar og því hefur öll sala þessara aflátsbréfa verið stöðvuð.

Auðvitað er það svo að orka verður ekki notuð nema hægt sé að koma henni frá framleiðanda til notanda. Þetta er augljóst. Því er sala á hreinleika orkunnar út fyrir dreifikerfi Íslands hrein og klár fölsun, skjalafölsun. Þó fyrirtæki hér á landi kaupi ekki kolefniskvóta getur hver maður séð að þau nota eftir sem áður hreina íslenska orku. Hreinleiki hennar verður ekki til með einhverjum stimplum á pappír, hreinleikinn verður til við framleiðsluna.

Annað grín dæmi eru vindorkuver. Þar er fátt sem kalla má "green". Mengun frá vindorkuverum er fjölbreytt og mikil en þó er ekki um mikla co2 mengun að ræða frá þeim, ef undan er skilinn bygging þeirra. Þ.e. steypan í undirstöðurnar, framleiðslan á járninu í turninn, framleiðslan á plastinu í spaðana sem að grunni til er unnið úr olíu, framleiðslan á búnaðinum sem kallar  á mikið magn af fágætum jarðefnum, flutningur þessa alls frá framleiðslustað að byggingastað og uppsetning. Að þessu slepptu er ekki um mikla co2 mengun að ræða frá vindorkuverum. En þá tekur hin mengunin við. Sjónræn mengun er auðvitað afstæð. Þó flestum þyki þessi ferlíki ljót getur vel verið að einhverjir heillist af þeim. Hitt verður ekli deilt um að örplastmengun á fyrstu rekstrarárum vindorkuvera er mikil og síðan fer fljótlega að bera á stærri plastmengun frá þeim. Þetta berst út í náttúruna.

SF6 eða Sulfur Hexafluoride, er gastegund sem er talið 23.900 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en co2 og hefur líftíma allt að 3.200 árum. Magn SF6 í andrúmslofti hefur aukist verulega hin allra síðustu ár og er sú aukning rakin til vindorkuvera. Gas þetta er notað til einangrunar og kælingar á rofum orkuvera. Við stöðugan rekstur eins og öll hefðbundin orkuver hafa, er vandinn ekki mikill. Hins vegar er vandinn mikill í óstöðugum orkuverum, þar sem rofar eru sífellt að opna og loka. Þessi mengun er alveg sérstakt áhyggjuefni og umræðan um að flokka vindorkuver sem óhrein komin á fullt erlendis. Jafnvel talið að gas og olíuorkuver séu "hreinni" en vindorka.

Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að vindorkuver nota mikla olíu í rekstri, bæði á gírkassa og spenna. Auk þess sem skipta þarf reglulega um þessa olíu, með tilheyrandi hætti á slysum, eru vindtúrbínur gjarnar á að leka af sér þessari olíu og dreifist hún þá út í náttúruna. Þessir lekar sjást gjarnan illa, þar sem spaðarnir kasta henni burtu.

Landsvæði það er þarf undir vindorkuver er mjög víðfeðmt. Fyrir hverja MW einingu sem framleidd er þarf margfalt meira land en vatnsorkuver ásamt uppistöðulóni. Þetta skapast fyrst og fremst af því hversu hver vindtúrbína er afkastalítil en þó fremur vegna þess að rekstrartími þeirra er stopull. Fyrir hvert framleitt MW þarf uppsett afl vindorkuversins að vera a.m.k. 60% stærra.

Lengi má telja upp ókosti vindorkuvera enda fáir kostir við þau.

En það er með þetta eins og svo margt annað, stjórnmálamenn horfa með blinda auganu gegnum rörið. Ef einhver segist hafa hugmynd þar sem hægt er að koma orðinu "green" fyrir, opnast allar gáttir. Sama hversu heimskulegar þær eru eða hvort mengun eða sóðaskapur frá þeim er mikill. Þessi hugsun mun aldrei bjarga jörðinni né loftslagi hennar. Horfa þarf heildstætt á hvern vanda og finna lausnir samkvæmt því. Hér á landi er enn næg vatnsorka og ekki fyrr en hún þrýtur sem við ættum að horfa til vindorkunnar, þ.e. ef ekki verður búið að banna slík orkuver þá.

Ef málið væri ekki svona alvarlegt, ef stjórnmálamenn væru ekki að fórna meiri hagsmunum fyrir minni, fórna náttúru landsins og lífsskilyrðum landsmanna, væri þetta auðvitað bara GRÍN.


Bloggfærslur 4. maí 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband