Glæran sem ekki er til en er þó tekin úr samhengi

Glæra sem ekki er til, er óskýr og notuð við kennslu, rektor veit reyndar ekki hvaða kennslu. Hún veit hins vegar að þessi glæra, sem ekki er til, er tekin úr samhengi!

Það er mikið talað um "hugvíkkandi lyf" þessa dagana.


mbl.is Glæran ekki í kennslukerfi skólans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

MAST

Ekki ætla ég að skrifa um viðhengda frétt, þekki ekki til þess máls, þó svo fréttin sjálf komi manni svolítið spánskt fyrir sjónir.

Það er hins vegar önnur frétt af MAST, á forsíðu nýjasta tölublaðs Bændablaðsins. Sú frétt fjallar um hvar MAST lætur urða kjöt sem er algjörlega hæft til manneldis og rekjanleiki þess á hreinu allt frá fæðingu til slátrunar viðkomandi gripa. Kjötið sjálft var í lagi og ekkert deilt um heilbrigði þess. Ástæðan virðist vera að eftirlitsmaður MAST taldi eyrnamerki gripanna ekki uppfylla skilyrði ESB reglna. Talið er að yfir einu tonni af nautgripakjöti hafi verið fargað af þeirri ástæðu, á sama tíma og aðrir gripir með samskonar merkingum fengu náð fyrir stofnuninni. Þarna er eitthvað stórkostlegt að í stjórnun MAST. Reyndar er ástæða fréttarinnar sú að matvælaráðuneytið gerði stofnunina afturreka með þessa ákvörðun, en skaðinn var skeður.

Það sem málið snýst um er að hverjum grip er gefin einskonar kennitala við fæðingu. Þar kemur fram númer bæjarins og númer sem viðkomandi gripur fær og þessar upplýsingar skráðar í miðlægan gagnagrunn. Þetta númer fylgir síðan gripnum frá fæðingu til slátrunar. Samkvæmt reglugerð frá ESB má ekki slátra gripum nema þeir séu með slík merki í eyrum sér. Um þetta er ekki deilt. Hitt er vitað að oftar en ekki tapa gripir þessum merkjum og þarf þá að setja ný merki í þá. Til einföldunar og að gripurinn haldi sínu númeri, hefur verið farin sú leið að framleiðendur slíkra merkja búa til merki með númeri bæjarins en hafa autt það svæði er númer griparins er ætlað að vera. Með þessum merkjum fylgja sérstakir pennar til að handskrifa númer gripsins. Þessi aðferð er þekkt og hefur verið viðurkennd, bæði erlendis en einnig hér á landi, þar til nýr starfsmaður tók til starfa hjá MAST. Hann túlkar reglurnar eftir sínu höfði og að því er virðist, eftir því hver bóndinn er. Í sjálfu sér er ekki óeðlilegt að nýr starfsmaður túlki reglur á annan hátt en áður. Þá er hann leiðréttur, þannig að réttri túlkun er haldið.

Þarna kom aftur babb í bátinn. Þegar eigendur gripsins gerðu athugasemd við þessa afgreiðslu ákvað MAST að standa fast að baki sínum nýja starfsmanni og hafnaði með öllu að úr yrði bætt. Þar skipti einu hvað sagt var eða gert, jafnvel boðist til að geyma kjötið í frysti þar til niðurstaða fengist. Öllu slíku var hafnað af hálfu MAST og kjötið urðað strax sama dag. Þvergirðingshátturinn var algjör af hálfu stofnunarinnar. Eina sem bændurnir gátu gert var að kæra framkvæmdina til matvælaráðuneytisins. Niðurstaðan er komin og stofnunin gerð afturreka.

Það þarf vart að nefna það tjón sem ákvörðun MAST leiddi af sér. Eitt tonn af nautakjöti er ekki gefið. Fyrir bóndann, sem búinn er að fóðra gripinn í um tvö ár er tjónið gífurlegt. Reyndar fær hann einhverjar bætur vegna niðurstöðu matvælastofnunar, en þær koma seint. Bændur eru yfirleitt ekki svo fjáðir að þeir geti beðið árum saman eftir greiðslum. Oftast treyst á að innkoman komi svo fljótt sem verða má. Nægur er drátturinn samt. Þá þarf ekki að nefna þá sóun sem af hlýst, þegar heilu tonni af kjöti er hent, af þeirri einu ástæðu að plastmerkið í eyra gripsins er ekki talið vera rétt, jafnvel þó ekki sé neinn ágreiningur á um uppruna gripsins eða heilbrigði kjötsins.

Þetta lýsir vel þessari stofnun. Þar er eltast við smámuni meðan stóru málin danka. Svo þegar einstakir starfsmenn eru gagnrýndir, oftar en ekki réttilega, hleypur stofnunin í vörn og slær skjaldborg um viðkomandi starfsmann, án þess að skoða málið. Þarna fer stofnun, sem hefur vald til að túlka reglugerðir, fer með vald til að framfylgja þeirri túlkun sinni, vald til að dæma eftir þeirri túlkun og vald til að framfylgja eigin dómi. Einungis ráðuneytið getur gert athugasemdir við þetta. Þegar svo við bætist að starfsmenn stofnunarinnar virðast geta túlkað þessar reglur eftir eigin höfði og að því er virðist, eftir því hvaða bóndi á í hlut, er málið virkilega alvarlegt. Hvergi nema í einræðisríkjum þekkist slíkt stjórnkerfi.

Það er nauðsynlegt að endurskoða þessa stofnun og skipta henni upp. Skilja á milli lagatúlkunar og framfylgni þeirra, skilja á milli framfylgd laga og ákvörðunar um refsingu og skilja á milli refsinga og framfylgd þeirra. Að virkja þrískiptingu valdsins.  Að hafa undir einni og sömu stofnun allt þetta vald leiðir einungis til spillingar.

Svo því sé haldið til haga þá hafa þessar merkingar á gripum, frá fæðingu til slátrunar, þann tilgang að hægt sé að rekja kjötið til bæjarins sem gripurinn er alinn upp á  og jafnvel til þeirrar kúar er fæddi hann. Þetta er hið besta mál, þó við neytendur verðum lítið varir við þann rekjanleika. Eigum oft erfitt með að vita hvort kjötið í kjötborði verslana er íslenskt eða erlent. En kannski á það eftir að breytast, kannski eigum við eftir að sjá á merkingu kjöts frá hvaða bæ það kemur. Tæknin og grunnurinn er til staðar.

 


mbl.is MAST neitar að tjá sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. janúar 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband