Maður skammast sín

Það er hreint með ólíkindum að enn skuli finnast fólk á Íslandi sem mærir voðaverk Pútíns í Úkraínu. Þar er gripið til ýmissa hrútskýringa, til að réttlæta þessi voðaverk.

Áhugi Úkraínu á að ganga í ESB er ein röksemdarfærslan. Hvað þarf Rússland að óttast þó Úkraína gangi í ESB? ESB er ekki hernaðarbandalag, einungis efnahagsbandalag. Þetta sést best á því að Finnar og Svíar, sem eru innan ESB, gera ekki ráð fyrir mikilli hjálp þaðan, þegar Pútín snýr sér að þeim. Því hafa þeir nú talað um að sækja um aðild að NATO.

NATO er varnarbandalag. Það hefur aldrei sýnt neina tilburði til innrásar í Rússland. Hins vegar hefur bandalagið horft til þess að setja upp sterkari varnir gegn því að Rússar geti ráðist inn í vestari hluta Evrópu. Þetta hafa menn gagnrýnt gegnum tíðina þannig að minna hefur orðið úr slíkum vörnum. Saga dagsins segir okkur þó að þessi vilji til aukinna varna er síst ofmetinn.

Flest Evrópuríki Varsjárbandalagsins sóttu um aðild að ESB við fall Sovéts og sum þeirra einnig um aðild að NATO. Úkraína varð eftir á þeim tíma, enda leppstjórn Rússa þar við völd framanaf. Þegar íbúum Úkraínu tókst að kasta þeirri leppstjórn af sér var farið að tala um aðild að ESB. Hugmyndir um aðild að NATO komu síðar. Þetta var kringum 2014 og svöruðu Rússar með því að innlima Krímskaga og senda málaliða sína inn í austurhéruð Úkraínu. Her Úkraínu tók til varna í austurhéruðunum en hefur látið Krímskagann vera. Áttu auðvitað að sækja þangað líka.

Því hafa Rússar og Úkraína nú átt í stríði í átta ár og árangur Rússa þar vægast sagt lítill. Í febrúar síðastliðinn gerði síðan Pútín alsherjarárás inn í Úkraínu.

Það eru fátækleg rök að Rússum hafi staðið hætta af því að Úkraína sækti um aðild að ESB og reynda einnig þó sótt væri um aðild að NATO. Ekki frekar en að Eystrasaltsríkin eru bæði í ESB og NATO. Rússum stóð engin ógn af því, en aftur gerði það möguleika Pútíns til að endurheimta gamla Sovétið nokkuð erfiðara fyrir, en það hefur verið markmið hans frá því honum voru færð völd yfir Rússlandi.

Enn aumari eru skýringar Pútíns, sem jafnvel sumir hér á landi taka undir, um að nauðsynlegt sé að afnasistavæða Úkraínu. Um það þarf ekki að hafa mörg orð, svo fádæma vitlaust sem það er.

Það sem kemur manni þó kannski mest á óvart í umræðunni hér á landi er að margir málsvarar Pútíns í stríðinu eru einmitt þeir sem hingað til hafa komið fram sem málsvarar frelsis. Þetta fólk, sumt hvert, er tilbúið til að trúa áróðursvél Pútíns, tilbúið til að trú manni sem setur ritskoðun í land sitt og skirrist ekki við að fangelsa þá sem fara á svig við þá ritskoðun. Þetta fólk hér á landi, sem þykist málsvarar frelsis, réttlætir með öllum hugsanlegum ráðum innrás Pútíns inn í Úkraínu, reynir að réttlæta ofbeldið sem þar viðhefst og viðbjóðinn. Það er með öllu útilokað að réttlæta innrás eins ríkis á annað.

Úkraína hefur ekki stundað hernað gegn Rússlandi, hefur einungis tekið til varna gegn málaliðum og hermönnum þeirra 2014 og varist allsherjarinnrás Rússa nú í vetur. Það er því aumt að til sé fólk hér á landi sem réttlætir ofbeldi Rússa.

Að mæla gagn þjóð sem ver sig gegn innrásarher er eitthvað það aumasta sem finnst í fari hvers manns! Maður skammast sín fyrir að til sé fólk hér á landi sem er þannig þenkjandi!


mbl.is Ógnarverk Rússa í Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. maí 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband