Settur út á guð og gaddinn

Ekki skal undra þó yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans hafi áhyggjur. Þann dag þegar tilkynnt er um að met hafi verið slegið í staðfestum smitum, deginum áður (2.689), tilkynnir ríkisstjórnin algera afléttingu aðgerða gegn framgangi veirunnar. Þetta met verður auðvitað aldrei slegið, bókhaldslega séð, enda skal skimunum hætt.

Sóttvarnarlæknir segir að hjarðónæmi mun væntanlega verða náð undir lok næsta mánaðar. Segir jafnframt að til að svo megi verða þurfi 80% þjóðarinnar að smitast. Samkvæmt tölulegum gögnum á covid síðunni, eru nú staðfest smit orðin um 115.000. Til að ná smiti meðal 80% þjóðarinnar þurfa því á næstu 40 dögum að smitast 180.000 manns. Það gerir um 4.500 manns á dag að meðaltali. Ekki er því að undra að Landspítali óttist framtíðina. Jafnvel þó innlagnir á spítalann séu mun færri nú á hverja 1.000 smitaðra, eru innlagnir samt nokkrar. Ef að meðaltali smitast um 4.500 manns á dag næstu 40 daga, er ljóst að álag á spítalann mun verða talsvert, mun meira en hann er ætlaður til að sinna. Á meðan verða aðrar nauðsynlegar læknisaðgerðir að bíða.

Samkvæmt skipun stjórnvalda skal skimun hætt. Þar með fer eini mælikvarðinn á fjölda smita forgörðum. Hvernig sóttvarnarlæknir ætlar að staðfesta að hjarðónæmi sé náð meðal þjóðarinnar er vandséð. Það er lítið vitað um fjölda smita ef hann er ekki mældur og því ekki vitað hvenær 80% þjóðarinnar hefur smitast. 

Ég hef gegnum síðustu tvö ár hlýtt sóttvörnum í hvívetna, farið í allar sprautur sem boðist hafa gegn veirunni og lagt mig fram um að tala máli sóttvarnaryfirvalda hvar sem tækifæri hefur gefist. Það er því frekar blaut tuska sem nú slær andlit manns. Að nú skuli setja okkur sem erum viðkvæmust fyrir smiti og hefur tekist að halda því frá okkur, út á guð og gaddinn!

 


mbl.is „Við erum uggandi yfir framtíðinni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þriðja heimstyrjöldin?

Ástandið í heiminum er farið að minna illilega á það sem gerðist í upphafi seinni heimstyrjaldar. Lönd eru hernumin í nafni þess hvert tungumál er talað innan þeirra. Landamæri eru vanvirt og farið með heri yfir. Aldrei datt þó Hitler í hug að kalla heri sína friðargæsluliða, jafnvel þó hann hefði haft áróðursmeistara sinn sér við hlið. Sennilega vegna þess að það hugtak var vart til á þeim tíma. Þar hefur Pútín vissulega forskot.

Enn skuggalegra er að nú virðist vera að myndast enn meiri vinskapur milli Pútíns og Xi Jinping, forseta Kína. Kína hefur einnig sýnt heri sína og virðist tilbúinn til alls. Hefur þegar svikið öll loforð um sjálfstæði Hong Kong og er farinn að sýna enn frekari tilburði til að yfirtaka Taívan. Þessi leikur Pútín blæs sjálfsagt enn frekar í þau segl Xi.

Hvort við erum komin á þann stað að ekki verður aftur snúið, er ekki gott að segja. Þó verður að segja eins og er að viðbrögð vesturlanda bjóða ekki beinlínis upp á bjartsýni. Þau líkjast einna helst sneypuför  Chamberlain, sem hann kallaði "friðarviðræður", eftir að Hitler hafði lagt undir sig Rínarlöndin, Austurríki og Sudethéruð Tékkóslóvakíu. Pútín er búinn að taka Krím og austurhéruð Úkraínu, en mun hann stoppa þar? Hann er þegar farinn að tala um löndin fyrir botni Eystrasalts. Þau eru reyndar komin í NATO, þannig að erfiðara er fyrir hann að sækja þangað, en ekki ætti að útiloka þann möguleika. Og vesturlönd ætla að beita efnahagsþvingunum, sniðnum að ákveðnum stórríkjum Evrópu, eins og vanalega.  Það er eins og að skvetta vatni á gæs, sér í lagi ef Pútín og Xi taka höndum saman.

Menn geta vissulega deilt um og velt fyrir sér hvers vegna þessi staða er komin upp nú. Talað er um að Pútín þyki vesturlönd vera farin að færa sig freklega upp á skaftið, jafnvel svo að hann telji Rússlandi ógnað. Það má til sanns vegar færa, en það eru jú íbúar þessara landa sem eiga að eiga síðasta orðið, ekki nágrannar þeirra, hvort heldur er til austurs eða vesturs. Og víst er að íbúar Úkraínu vilja fæstir fara aftur undir ægivald rússneska björnsins, fengu nóg af því á Sovét tímanum. Þetta er ekki ósvipuð rök og Hitler hafði, en hann taldi Versalasamninginn vera ógn og beinlínis móðgun við Þýskaland. Þessar vangaveltur skipta þó litlu úr því sem komið er.

Hvort við erum að horfa upp á upphaf þriðju heimstyrjaldar skal ósagt látið, en þeir atburðir sem nú hafa orðið og viðbrögð hins frjálsa heims við þeim, bjóða vart upp á bjartsýni.

 


mbl.is Pútín varar við hærra matvælaverði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. febrúar 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband