Tásumyndir frá Spáni

Nú kemur oddviti Fljótsdalshéraðs í fjölmiðla og aftekur að um einhverskonar mútur hafi verið að ræða, er honum ásamt nokkrum landeigendum þar eystra var boðin ferð suður í sólina á Spáni, af ótilgreindu dönsku fyrirtæki. Fyrirtæki sem sækist eftir að byggja vindorkuver af áður óþekktri stærð á landi. Hvort oddvitinn sem einnig er einn landeigenda sem hag munu hafa af því að selja náttúru landsins okkar, greiddi fyrir þessa ferð sjálfur eða ekki skiptir svo sem ekki höfuð máli. Það sem máli skiptir er að þetta óþekkta danska fyrirtæki skipulagði ferðina og skoðanaferðir í henni. Þá skiptir auðvitað miklu máli að æðsta vald sveitarinnar, oddvitinn, skuli einnig vera meðal þeirra landeigenda sem að málinu koma. Sveitarstjórn fer með skipulagsvald og oddvitinn er höfuð sveitastjórnar. Varla er hægt að nefna skýrara dæmi um hagsmunaárekstur.

Oddvitinn og landeigandinn taldi slíka ferð nauðsynlega, svo hægt væri að gera sér grein fyrir því um hvað málið snýst. Ekki veit ég hvað ferð til Spánar gat upplýst oddvitann, en samkvæmt þeim myndum sem byrst hafa úr þessari ferð, fengu ferðalangarnir úr Fljótsdalnum að sjá litlar úreltar vindtúrbínur, staðsettar í eyðimörk. Varla hefur sú sýn upplýst ferðalanga mikið um það sem til stendur að byggja á Fljótsdalsheiðinni.

Samkvæmt fyrstu fréttum af þessu máli, settar fram í Bændablaðinu, var ekki vitað um framkvæmdaraðila annað en hann væri danskur. Þar var einnig talað um að byggja ætti 58 stk af vindtúrbínum sem hefðu uppsett afl allt að 350 MW. Það gerir að hver túrbína þarf að geta framleitt 6 MW. Þarna erum við að tala um stærðir sem vart þekkjast annars staðar. Samkvæmt heimasíðum vindtúrbínu framleiðenda er 6 MW vindtúrbína að lágmarki rúmlega 200 metrar á hæð. Fer þó aðeins eftir framleiðendum, sumir nefna enn hærri tölur.

Þegar síðan farið er inn á heimasíðu Skipulagsstofnunar, má finna þar skipulagsáætlun er framkvæmdaraðili hefur látið gera fyrir sig og skilað inn til stofnunarinnar. Þar er nafn fyrirtækisins ekki lengur leyndarmál, heldur um að ræða norska fyrirtækið Zephyr. Forsvarsmaður þess hér á landi er enginn annar en Ketill Sigurjónsson, en hann hefur farið í einskonar víking um landið og falboðið mönnum lönd þeirra. Undir vindorkuver. Hvergi hefur hann þó verið jafn stórtækur og þarna eystra. En það er fleira sem kemur fram í þessari áætlun Zephyr. Nú er ekki lengur talað um 350 MW framleiðslugetu, heldur 500 MW með allt að 90 vindtúrbínum. Nú fara leikar að æsast og stærðir komnar langt út fyrir raunveruleikaskyn almennings. Áttum okkur á því að þetta norska fyrirtæki er mjög stórtækt í heimalandinu, með fjölda vindorkuvera. Þó er samanlögð aflgeta allra þeirra orkuvera einungis um 800 MW. Einungis 300 MW minni en aflgeta orkuversins á fljótsdal á að vera. Pælið örlítið í því!

Samkvæmt korti er fylgir þessari áætlun Zephyr, er gert ráð fyrir að þetta orkuver verði á Fljótsdalsheiðinni, nokkurn veginn beint upp af innri enda Lagarins. Þetta svæði er nokkuð gróðursælt með fjölda tjarna. Fuglalíf er mikið á svæðinu og hreindýr ganga þar um. Talandi um hreindýr, þá er nýfallinn dómur í Noregi þar sem vindorkuver var stöðvað, vegna skerðingar á beitarsvæði hreindýra. Þetta er engin spænsk eyðimörk þarna, heldur náttúra íslands í sinni fegurstu mynd. Þá vekur nokkra athygli hversu lítið svæði er afmarkað á þessu korti í áætluninni. Ekki verður séð að hægt verði að koma fyrir allt að 90 vindtúrbínum innan þess.

Þá er þetta svæði nærri flugleiðinni að Egilstöðum, þar sem byggja á upp betri aðstöðu fyrir hann sem einn af varaflugvöllum landsins. Stjórnvöld geta varið þeim peningum í annað, verði að byggingu þessa risa vindorkuvers.

Ekki veit ég hvort ferðalangarnir austfirsku, tóku af sér tásumyndir í Spánarferð sinni. Hitt er ljóst að þeir hefðu sennilega orðið jafn upplýstir af slíkum myndatökum og þeir urðu af myndatökum af litlu úreltu vindorkuverunum í eyðimörkinni þar í landi. Allar þær stærðir sem nefndar eru í sambandi við þetta risa orkuver á Fljótsdalsheiðinni eru slíkar að engin ferð erlendis getur komið mönnum í skilning um hvað sé í gangi.

Hafi þeir landeigendur sem ætla að selja land sitt til þessa norska fyrirtækis, fyrirtækis sem er þekktast fyrir málssóknir í heimalandinu og óvirðingu fyrir náttúrunni, ævarandi skömm fyrir!

 


mbl.is Risavindorkugarður undirbúinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. desember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband