Snilldar viðskiptamódel Landsvirkjunnar

Margir hafa undrast þá ráðstöfun að hægt sé að selja upprunavottorð (aflátsbréf) fyrir raforku til annarra landa, jafnvel þó engin tenging sé þar á milli. Að orka sem framleidd er í einu landi sé sögð nýtt í öðru, án tenginga þar á milli. Þetta er náttúrulega svo út úr kú að engu tali tekur. Af þessum sökum er framleidd orka, samkvæmt pappírum, með bæði kolum og kjarnorku, hér á landi. Þó eru slík orkuver ekki til og ekki stendur til að reisa þau. Hvernig þessi ósköp koma fram í loftlagsbókhaldi Íslands hefur ekki komið fram, en vart er hægt að nota þessa hreinu orku okkar mörgum sinnum.

Til þessa hafa þessi aflátsbréf orkuframleiðenda verið valkvæð. En nú skal breyta því. Landsvirkjun, fyrirtæki okkar landsmanna, hefur ákveðið að allir notendur raforku frá þeim skuli kaupa aflátsbréf, hvort sem þeir vilja eða ekki. Þetta mun hækka orkuverð til notenda um allt að 20% á einu bretti. Fyrir hinn almenna borgara gerir þessi ráðstöfun ekkert annað en að hækka orkureikninginn, enda markmiðið það eitt, af hálfu orkuframleiðenda.

En skoðum aðeins málið., Nú þegar selur Landsvirkjun aflátsbréf fyrir 61% af sinni orkuframleiðslu, að megninu til til erlendra fyrirtækja. Eftir stendur að fyrirtækið er að framleiða 39% af sinni orku sem hreina orku. Hitt er framleitt með jarðefnaeldsneyti eða kjarnorku hér á landi, eða þannig. 

Sem sagt, Landsvirkjun hefur til umráða 39% af sinni orku sem hrein orka. Samt ætla þeir að rukka alla notendur sína um aflátsbréfin góðu. Það segir að fyrir stóran hluta af sinni framleiðslu ætlar fyrirtækið okkar að selja aflátsbréfin tvisvar, fyrst til erlendra kaupenda og síðan til eigenda sinna.

Er hægt að finna meiri snilld í viðskiptum?

Hvar er Alþingi nú? Hvers vegna er þetta mál ekki rætt þar? Eru þingmenn svo uppteknir við að leita sér málefna á facebook, til að ræða í sal Alþingi? Er þeim algerlega fyrirmunað að greina hismið frá kjarnanum?


Bloggfærslur 16. desember 2022

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband