Hvað er nauðungarvistun?

Er ekki rétt að byrja á byrjuninni og fá skilgreiningu á því hvað nauðungarvistun er, áður en hlaupið er með mál fyrir dómstóla? Einhvern veginn hefði maður haldið að slíkt ætti ekki að vefjast fyrir lögfræðingum, en greinilega virðist það þó vera.

Fram hefur komið, oftar en einu sinni, að starfsfólk sóttvarnarhótels meini engum að yfirgefa hótelið. Hins vegar er fólki þá bent á að slíkt sé brot á sóttvarnarlögum og málið tilkynnt til lögreglu. Hvernig í ósköpunum er þá hægt að tala um vist á hótelinu sem nauðungarvistun? Fólk hefur val, því er ekki haldið nauðugu.

Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að um nokkuð langt skeið hafa gilt reglur um að fólk sem kemur erlendis frá þurfi að fara í tvöfalda skimun og vera í einangrun á milli þeirra. Þar hefur ekkert breyst. Það eina sem hefur breyst er að sökum þess að sífellt hefur færst í aukanna að fólk brjóti þessa sóttkví, hefur verið ákveðið að vista fólk á sérstöku hóteli, við komuna til landsins. Þetta er þó ekki nein nauðungarvistun, þar sem fólki er ekki meinað að yfirgefa hótelið. Þeir sem það velja munu hins vegar eiga á hættu sektir vegna brota á sóttvarnarlögum. Þar hefur ekkert breyst, einungis auðveldara að fylgjast með hverjir fremja slík brot.

Ekki verður því annað séð en að fólk fari fyrir dómstóla til að freista þess að fá afnumin lög sem gera því erfiðara að brjóta lögin.

Hvert erum við eiginlega komin, þegar lögfræðingar og stjórnmálamenn taka þátt í slíkri ósvinnu?


mbl.is „Ekki eðlilegur málshraði“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. apríl 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband