Kófið og skussarnir
14.4.2021 | 00:06
Þeir sem vita hvernig er að lenda í dimmu hríðarkófi, vita hversu auðvelt er að missa áttir og villast. Þá er gott að vera í hóp með einhverjum sem þekkir vel staðhætti. Það er oft eina vonin til að komast út úr kófinu. En auðvitað eru alltaf einhverjir skussar sem ekki treysta þeim staðkunnuga og æða sjálfir út í loftið. Þeir villast, stundum með skelfilegum afleiðingum.
Nú, í rúmt ár, höfum við verið í kófi af skæðri alheimssótt. Við erum svo heppin að hafa góðan leiðsögumann, sem vísar okkur veginn. Því miður eru skussarnir til, sem vilja fara aðrar leiðir. Þeir skussar eru orðnir áttavilltir og vita ekki hvert skal halda. Vonandi fer ekki illa fyrir þeim.
Sóttvarnarlæknir er án efa einn fárra manna hér á landi sem þekkir best til sóttvarna. Þess vegna var hann ráðinn í embættið, en ekki einhver lögfræðingur eða þingmaður. Sú ráðning byggðist á þekkingu læknisins. Auðvitað eru fleiri læknar sem hafa svipaða og jafnvel meiri þekkingu á þessum málum, en til þeirra heyrist ekki. Það bendir til að þeir séu sóttvarnalækni sammála.
Ráðning til embættis sóttvarnalæknis byggir á þekkingu viðkomandi til málaflokksins. Þar kemur pólitík ekkert að málum og enn síður einhver erlend öfl sem samsæriskenningarfólk telur vera að yfirtaka heiminn, að málum.
Sem betur fer hefur stjórnvöldum að mestu tekist að fara að ráðum sóttvarnarlæknis, þó ekki alveg. Í fyrra sumar, eftir að sóttin hafði verið kveðin niður hér á landi, voru landamæri opnuð að hluta. Afleiðingarnar létu ekki á sér standa. Veiran spratt upp sem aldrei fyrr, fjöldi fólks lagðist á spítala og sumir glötuðu lífinu. Aftur tókst að kveða veiruna niður hér á landi, eftir nokkurra mánaða baráttu landsmanna. Enn á ný var farin sú leið að opna landamærin, þó nú væru takmarkanir öllu meiri en áður. Og enn á ný fór veiran af stað. Er ráðafólki þjóðarinnar algerlega ómögulegt að læra af fyrri mistökum?!
Nú er staðan þó öllu verri en áður og ljóst að leiðsögn sóttvarnarlæknis á erfiðara með að komast gegnum ríkisstjórnina. Það er nefnilega komið í ljós að innan hennar eru áttavilltir skussar!
Við búum á eyju, höfum engin landamæri á landi. Því eru möguleikar okkar til að verjast veirunni betri en flestra annarra þjóða. En það þarf kjark stjórnvalda til.
Þann kjark skortir!
![]() |
Stærri skref í afléttingum til umræðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)