Don Kíkóti

Stjórnvöld vilja taka þriðjung landsins undir þjóðgarð, setja yfir hann skipaða stjórn án aðkomu kjósenda. Ekki verður séð hver tilgangurinn er í raun, annar en einhverskonar minnisvarði fyrir ákveðna stjórnmálamenn. Náttúruvernd mun fórnað með þessum garði, enda hugmyndir um stjórnun hans með öllu óverjandi. Auk þess liggja engar áætlanir fyrir um kostnað eða fjármögnun þessa ævintýris.

Þeir sem að þessu standa bera gjarnan fyrir sig orðinu náttúruvernd, eins og það orð eitt og sér geti réttlætt allt. Náttúruvernd er meira en bara orðið eitt, náttúruvernd byggir á að vernda náttúruna. Ekki verður séð að tilgangur þess að taka einn þriðja af landinu undan lýðræðislegri stjórn og setja undir skipaða stjórn embættismanna stuðli með neinum hætti að frekari náttúruvernd. Enda fer ekki saman hljóð og mynd hjá þessu fólki, þar sem að á sama tíma og talað er um náttúruvernd, er einnig sagt að erlendu ferðafólki muni fjölga á svæðinu. Fyrir cóvið var verið að berjast við of mikinn fjölda erlendra ferðamanna á viðkvæmustu svæðunum!

Á sama tíma og þetta fólk skreytir sig með orðinu náttúruvernd fitlar það við hugmyndir um stórfellda "ræktun" vindmilla á landinu. Fara þar fyrir erlendum fjórplógsmönnum sem hugsa um það eitt að græða sem mest og láta aðra taka afleiðingunum. Varla er til sá dalur eða fjall á landinu þar sem ekki hefur sést til manna vera að mæla vindhraða og meta aðstæður fyrir vindmillur.

Nokkrir staðir eru lengra komnir, búnir að gera plön og sumir fengið þau samþykkt af viðkomandi stjórnvöldum hér á landi. Þegar þessi plön eru skoðuð er víðast verið að tala um vindmillur sem skaga meir en 200 metra upp í loftið, nærri þrisvar sinnum hærri en vindmillur Landsvirkjunar, sem sumum þykja þó nógu háar! Þessar vindmillur eru hreint út sagt ófreskjur á að líta og framleiðslugeta þeirra um 4,5mw, þegar vindur er hagstæður. En þróun vindmilluframleiðslu er hröð, enda líftími þeirra nokkuð stuttur og allir vilja stækka við sig. Í dag eru til vindmillur sem framleitt geta allt að 16mw, við bestu vindskilyrði. Spaðar þeirra eru yfir 100 metra langir svo heildar hæð slíkra milla fer nokkuð vel á þriðja hundrað metra. Ljóst er að eftir að erlendu vindmillibarónarnir hafa fengið tilskilin leyfi hér, mun krafa þeirra um "örlítið" stærri millur koma upp. Ekki verður séð að neinn sveitarstjórnarmaður eða stjórnvöld muni lyfta hönd gegn því.

Náttúruvernd er meira en orðið sjálft, eins og áður segir. Þetta virðast stjórnmálamenn hins vegar ekki skilja. Þeir líta þetta orð sem skrautfjöður í hatt sinn, til nota þegar við á en skipta síðan um hatt þegar skrautfjöðrin er til trafala.

Don Kíkóti barðist við vindmillur og þóttist mikill hermaður. Íslenskir stjórnmálamenn berjast fyrir villum og þykjast miklir menn. Sýn íslensku stjórnmálamannanna er söm og Don Kíkóta, þó baraáttan sé öfug.

 


Bloggfærslur 23. febrúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband