237 milljarðar?

Ekki er að sjá að aðgerðaráætlun stjórnvalda sé að skila miklum árangri. Nú, á rúmum sólhring, hafa um 200 manns misst vinnu hjá tveim fyrirtækjum.

Annars er þessi aðgerðaráætlun stjórnvalda ansi innihaldslaus og stendur þar vart steinn yfir steini. Mesta skrumið er þó að segja þetta aðgerðarpakka upp á 237 milljarða króna. Þá er með eindæmum að ekki skuli hafa verið unnið að honum í samstarfi við stjórnarandstöðu og jafnvel sveitarfélög landsins. Þarna sannast það fornkveðna að völd hafa oftar en ekki þann kvilla að þeir sem þau bera, ofmetnast. "Vér einir vitum".

Þegar aðgerðarpakkinn er skoðaður kemur í ljós að hann byggir á 10 atriðum. Flest þeirra eru annað hvort frestanir á greiðslum ýmissa gjald eða beinlínis að fólk noti eigið fé. Þá er svokallað fjárfestingaátak að stórum hluta byggt á því að lagðir verða aukaskattar til greiðslu þeirra framkvæmda. Eftir stendur að útgjöld ríkisins verða um eða innan við 10%af þeirri upphæð sem stjórnvöld státa sig af. Af því fé er einungis um 1,5 milljarður ætlaður til að hjálpa fyrirtækjum að halda fólki í vinnu.

Frestanir á greiðslum eru t.d. frestun á sköttum upp á um 75 milljarða króna. Þetta er frestun, ekki afnám. Því þarf að greiða þetta fé til ríkissjóðs þótt síðar verði. Ekki kemur fram hvort reiknaðir verði vextir á þetta fé meðan frestur stendur, en annað er ólíklegt.

Annað dæmi má nefna, sem ætlað er að vega 9,5 milljarða af þeim 237 sem stjórnvöld tala um, er úttekt séreignasparnaðar. Séreignasparnaður er eign þeirra sem hann eiga og varla hægt að telja hann sem kostnað ríkisins.

20 milljörðum er ætlað í það sem kallað er "viðbótarfjárfesting" í framkvæmdum. Þarna er um framkvæmdir að ræða sem sumar hverjar átti að ráðast í en aðrar sem ætlunin var að framkvæma á allra næstu árum. Stærsti liðurinn þar eru samgöngumannvirki. Megnið af þeim skal þó greiðast með nýjum sköttum.

Ein er þó sú atvinnustarfsemi sem mun fara vel út úr þessum pakka stjórnvalda, en það er bankakerfið. Þar er hvorki um að ræða frestun né nokkuð í þeim dúr. Þar er hreinn niðurskurður á skatti,  upp á litla 11 milljarða króna.

Ekkert er talað um að hjálpa fólki sem þegar hefur misst sína vinnu, það er afskrifað af stjórnvöldum. Og ekkert á að gera til að koma í veg fyrir að fólk haldi sínum hýbýlum. Nú þegar hefur gengi krónunnar fallið nokkuð gagnvart erlendum gjaldmiðlum og því mun fylgja hækkun á verði innfluttra vara. Það er verðbólga og mun hækka lánin. Ekki er enn vitað hversu illa fyrirtæki innan lands munu fara vegna veirunnar, en ljóst er að liður í að halda þeim lifandi hlýtur að vera að hækka verð framleiðslunnar. Það eykur einnig verðbólgu og hækkar húsnæðislánin. Það þarf ekki neinn fjármálasnilling til að átta sig á þessu, þó fjármálaráðherra skilji ekki svo einfalt mál.

Eftir hrun bankakerfisins, haustið 2008, var gerð rannsóknarskýrsla um hvað hefði farið úrskeiðis. Þar kom einmitt mikil gagnrýni á samráðsleysi í stjórnmálum auk þess sem gagnrýnt var að ekki skildi hafa verið sett þak á verðtryggingu húsnæðislána. Það olli því að þúsundir fólks missti sitt húsnæði og enn margt sem er í vanda, 12 árum síðar. Nú stefnir aftur í sama hryllinginn, einungis vegna vanþekkingar fjármálaráðherra á einföldustu málum.

Það stefnir í að taka eigi sömu tökum á þeim vanda sem nú herjar og notuð voru við uppbygginguna eftir bankahrunið, enda sumir þeirra sem þá voru í lykilstöðum komnir til valda á ný. Fjölskyldufólkinu skal fórnað á altari Mammons, í þágu bankanna!


mbl.is Á annað hundrað sagt upp hjá Bláa lóninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. mars 2020

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband