Hoggið í sama knérunn

Þeir tveir ráðherrar sem bera mesta ábyrgð á innleiðingu þriðja orkupakka ESB eru Guðlaugur Þórðarson, utanríkisráðherra og Þórdís K Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- nýsköpunar- og dómsmálaráðherra. Hefur þeim báðum mistekist fullkomlega að útskýra fyrir þjóðinni hvers vegna svo mikilvægt sé að innleiða þessa tilskipun hér á landi.

Nú, þegar styttist í atkvæðagreiðslu um málið á Alþingi er ljóst að enn er stór meirihluti landsmanna á móti þessari tilskipun og skiptir þar engu hvaða flokka fólk hefur kosið. Óánægjan er þverpólitísk, þó kannski kjósendur Sjálfstæðisflokks hafi verið fremstir í flokki þeirra sem tjá sig opinberlega gegn málinu.

Því hefði mátt ætla að þessir tveir ráðherrar legðu sig fram um að fræða kjósendur sína um málið, a.m.k. reyna að koma fram með rök sem væru trúanleg. Síðustu daga hafa þau bæði tjáð sig opinberlega um málið, Guðlaugur í útvarpsviðtali og Þórdís með bréfi til kjósenda á facebook síðu sinn. Bæði voru við sama heygarðshornið, héldu uppteknum hætti og komu fram með rök sem ekki halda vatni. Guðlaugur lagði út frá því að andstæðingar op3 væru í samstarfi við norðmenn um að koma EES samningnum fyrir kattarnef og Þórdís talaði um neytendavernd sem einungis fælist í frelsi.

Varðandi fullyrðingu Guðlaugs, þá er hún vart svara verð, svo fádæma vitlaus sem hún er. En samt, skoðum þetta örlítið. Hingað til lands koma ráðherrar frá Noregi síðasta vetur og í viðtali við þá segjast þeir hafa gert íslenskum ráðherrum grein fyrir mikilvægi þess að Ísland samþykki op3. Hvað þar var sagt eða hverju hótað fáum við kjósendur ekki að vita, en ótrúlegt var að sjá hvernig þeir stjórnarþingmenn sem mælt höfðu gegn op3, fram til þess tíma, snerust.

Nú er það svo að í EES samningnum er skýrt tekið fram hvernig farið skuli með mál sem aðildarríkin hafna að taka upp. Þá skal viðkomandi tilskipun fara aftur fyrir sameiginlegu EES nefndina og leitað leiða til að fá niðurstöðu þar. Því er ljóst að ekki gátu norsku ráðherrarnir hótað neinu varðandi þá efnismeðferð, hins vegar gátu þeir hótað því að Noregur myndi ganga úr EES og gerast aðildarríki að ESB. Hugsanlega myndi það gera EES samninginn nánast ómerkan, en þó, hann yrði jú í fullu gildi áfram gagnvart þeim löndum sem eftir sitja. Sé það svo að norskir ráðherrar hafi hótað þessu, eða einhverju öðru sem skaðað gæti Ísland, eiga íslenskir ráðherrar að vera menn til að segja þjóðinni það. Og meira en það, þeir eiga að hafa kjark til að gera erlendum ráðherrum, sama frá hvaða landi þeir koma, grein fyrir að ekki sé hlustað á slíkar hótanir!

Fullyrðingu utanríkisráðherra um að andstæðingar op3 vinni ljóst og leynt að því að EES samningnum skuli sagt upp og njóti leiðsagnar norskra aðila við slíkt, þá er ráðherrann þar í einhverjum draumaheimi. Vissulega eru til andstæðingar við EES samninginn meðal þeirra sem eru á móti op3, þverhausar eins og ég og fleiri, sem frá upphafi verið andstæðingar þess samnings. Einkum vegna þess hvernig staðið var að samþykkt hans hér á landi, þegar Alþingi samþykkt samninginn með minnsta mögulega meirihluta og kjósendum haldið frá þeirri ákvarðanatöku. Stærsti fjöldi andstæðinga op3 eru þó ekki á sama máli, vilja halda EES samningnum. Sjá hins vegar það sem öllum ætti að vera ljóst, að verði op3 samþykkt af Alþingi mun andstaðan við EES aukast verulega og að unnið verði þá að fullum krafti við að honum verði sagt upp. Þetta kemur ekkert Noregi við, heldur er þar fyrst og fremst um að ræða að eina leið okkar til að ná aftur yfirráðum yfir orku okkar, uppsögn EES.

Þórdís K Gylfadóttir sendi frá sér bréf á facebook. Þar talar hún einkum um hversu góðir op1 og 2 voru þjóðinni og að op3 sé beint framhald af þeim gæðum. Einkum vegna þess að allir þessir orkupakkar miða að sem mestri einkavæðingu raforkukerfisins og að einkavæðing sé svo ofboðslega góð fyrir neytendur. Aumingja manneskjan!

Þarna ruglar hún eitthvað saman neytendum og seljendum, en vissulega er einkavæðing raforkukerfisins þeim sem komast yfir það, hagstæð. Neytendur munu hins vegar tapa, eins og þegar hefur sýnt sig. Sem dæmi nefnir hún að vegna op 1 og 2 geti neytendur nú valið sér seljendur, þurfi bara að opna tölvuna og eftir nokkur klikk sé hægt að fá orku á spott prís! Hún lætur vera að nefna að mesti sparnaður sem hægt er að ná fram með þeim hætti, fyrir eitt heimili, liggur einhversstaðar innan við fimm hundruð kallinn( þennan rauðleita) á mánuði!! Upphæð sem fæstum munar um.

Auðvitað getur enginn fullyrt hvort orkan hafi hækkað eða lækkað vegna op1 og 2. Við höfum einfaldlega ekki samanburðinn. Hitt liggur ljóst fyrir að vegna þeirra orkupakka hefur margt skeð. Fyrir það fyrsta þá var orkustefna fyrir Ísland lögð niður, orkustefna sem sett var af Alþingi við stofnun Landsvirkjunar og upphaf stórsóknar í orkuvinnslu í landinu. Í þeirri stefnu var neytendavernd mjög skýr, þegar búið væri að greiða upp kostnað við byggingu virkjanna, skildi ágóða þeirra skilað til eigenda, þ.e. landsmanna, í formi lægra orkuverðs. Þetta eitt og sér segir að orkuverð hér væri lægra ef op1 og 2 hefðu ekki verið samþykktir. Þá er ljóst að samkvæmt þeim pökkum bar að skilja milli orkuframleiðslu, flutnings, heildsölu og smásölu. Það sem eitt fyrirtæki sá um áður er nú fjöldi fyrirtækja að gera. Hverju fyrirtæki fylgir stjórn, forstjóri og framkvæmdastjórn, með tilheyrandi aukakostnaði. Þann kostnað borga neytendur. Því má ætla að orkuverð nú sé mun hærra hér á landi, vegna op1 og 2.

Ekki má svo gleyma þeirri staðreynd að með fyrri orkupökkum var skilgreiningu á orku breytt í vöru, svo frámuna vitlaust sem það er. Skilgreining vöru er einhver hlutur eða eitthvað sem hönd er á festandi, eitthvað sem hægt er að skila ef menn telja hana gallaða. Ef skilgreina á orku sem vöru er fátt eftir sem ekki er hægt að skilgreina á þann hátt.

Þórdísi er gjarnt að ræða op1 og 2 þegar hún talar fyrir op3. Slíkur samanburður er þó fjarstæður. Op1 og 2 sneru að orkumálum hér innanlands meðan op3 snýr fyrst og fremst að flutningi orku og stjórnun hans milli landa. Því er ráðherra hér að blanda saman málum sem eru í raun alls óskyld, þó tengingin sé vissulega ljós núna. Víst er að aldrei hefði náðst samkomulag um EES samninginn á Alþingi ef menn hefðu grunað að orkumál ættu eftir að verða hluti þess samnings og víst er að aldrei hefði náðst samþykki á Alþingi um op1 og 2, ef einhverjum hefði grunað hvert stefndi, hefði haft hinn minnsta grun um að með því væri verið að leggja grunn að yfirráðum ESB yfir íslenskri orku. Megin málið er þó að ekki var um neitt valdaafsal að ræða með op1 og 2, ólíkt því sem op3 felur í sér og þó einkum op4, sem hlýtur að vera rökrétt framhald af op3. 

Meðan þessir tveir ráðherrar, sem mesta ábyrgð bera á op3, höggva í sama knérunn, meðan þeir færa þjóðinni ekki einhver ný rök fyrir því að nauðsyn sé að samþykkja þessa tilskipun, mun ekki nást sátt. Það fólk sem samþykkir op3 á Alþingi mun þurfa að svara fyrir þá gerð!!

Þau svik við þjóðina, þannig einræðistilburði, munu þjóðin ekki láta átölulaus!!


mbl.is „Bendir til örvæntingar ráðherrans“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 14. ágúst 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband