Þingmönnum ber að fara að vilja þjóðarinnar

Umræðan um orkupakka 3 frá ESB hefur tekið á sig nokkuð leiðinlega mynd að undanförnu. Menn keppast við að tefla fram ummælum hinna ýmsu stjórnmálamanna, sumum hverjum nokkuð gömlum. Leiðandi á þessu sviði og til skamms tíma sá eini sem þetta stundaði, Björn Bjarnason, lætur þar ekki deigan síga. Fylgjendur orkupakkans voru fljótir að tileinka sér þessa leiðinda umræðuhefð og það sem verra er að nú síðustu daga hafa andstæðingar pakkans einnig fetað þessa leið, sem er þó alger óþarfi þar sem næg rök eru gegn samþykkt pakkans. Látum andstæðingana um lítilmennskuna, höldum okkur sjálf við nútíðina, hvað menn segja og gera í dag. Notum rök og notum brjóstvitið!

Hvað menn sögðu eða gerði fyrir ári síðan skiptir engu máli og enn minna eftir því sem lengra er liðið. Hvað menn segja í dag, hvað menn ætla að gera í dag skiptir öllu máli, varðandi orkupakka 3. Fyrir ári voru ekki nema örfáir menn sem áttuðu sig á skelfingu þessa pakka, í dag er fólki ljóst hvaða gildi hann hefur. Hér á bloggsíðum mbl var lengi vel einungis einn maður sem skrifaði um þetta mál, Bjarni Jónsson rafmagnsverkfræðingur. Aðrir virtust ekki vita hvað hann var að fara og ekki fyrr en á haustmánuðum sem umræðan loks hófst fyrir alvöru á þessum vettvangi. Út í samfélaginu hófst þessi umræða enn síðar.

Eins og flestir ættu að vera búnir að átta sig á þá snýst orkupakki 3 fyrst og fremst um flutning orku milli landa, auk þess sem í honum eru ákvæði sem lögskilda ýmsar gerðir orkupakka 1 og 2, er voru áður valkvæð. Því hefur umræðan fyrst og fremst snúist um tvennt, sæstreng til Evrópu og einkavæðingu Landsvirkjunar. Þetta eru enda helstu ásetningssteinar orkupakka 3. Um þetta snýst málið, um þetta snýst tilskipun ESB um orkupakka 3.

Stjórnvöld hafa viðurkennt að fyrri málflutningur þeirra um að tilskipun þessi stangist ekki á við stjórnarskrá og að ákvörðun um lagningu sæstrengs færist ekki frá þjóðinni yfir til ACER/ESA. Því var farin sú leið að setja fyrirvara á tilskipunina í þeim tilgangi að komast hjá þessu. Þannig átti að setja hér innlend lög um að ákvörðun um lagningu sæstrengs yrði tekin af Alþingi og þar sem enginn tenging væri við meginlandið mætti fresta gildingu tilskipunarinnar.

Þetta er bæði barnalegt og stenst enga skoðun. Fyrir það fyrsta þá er ljóst að slíkir fyrirvarar hafa ekkert gildi gagnvart EES/ESB nema þeirra sé getið og um samið innan sameiginlegu EES nefndarinnar gagnvart ESB. Framhjá þessu verður aldrei komist, hversu mikil lög sem einstakar þjóðir setja hjá sér. Því mun sæstrengur verða lagður og tilskipunin taka gildi að fullu og öllu. Þar með mun stjórnarskrá verða brotin.

Ummæli ýmissa manna undanfarið vegna orkupakkans hafa komið manni nokkuð á óvart, sér í lagi þegar heitustu andstæðingar Sjálfstæðisflokks og menn sem vilja láta minnast sín sem náttúruverndarsinna og varðmenn þeirra sem minna mega sín, eru farnir að mæra orkupakka 3. Söngvaskáld, sem mikið hefur haft sig í frammi um stjórnmál, frá hruni og telur Sjálfstæðisflokk vera ímynd hins allra versta sem til er, hefur haft sig í frammi á athugasemdum netmiðla, þar sem hann mælir gegn þeim sem á móti tilskipuninni skrifa.   

Þingmenn Sjálfstæðisflokks sem fram til þessa hafa mælt gegn tilskipuninni eða haldið sig fjarri umræðu um hana, rita nú hver á fætur öðrum greinar í moggann, þar sem þeir réttlæta sinnaskipti sín. Ummæli vikunnar komu þó frá Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur, ferðamála- iðnaðar- nýsköpunar og dómsmálaráðherra, þegar hún sagði að henni þóknaðist ágætlega sæstrengur til meginlandsins. Þá vitum við íbúar Akraness hvaða hug hún ber til okkar og sjálfsagt að hafa það í huga í næstu kosningum. Enginn, ekki heldur ÞKG hefur mótmælt því að orkuverð muni hækka hér á landi, komi sæstrengur til framkvæmda. Hækkun raforkuverðs mun sannarlega leggja af stóriðjuna og hér á Akranesi er tilvera flestra tengd stóriðju, beint og óbeint. Þetta 7000 manna samfélag væri næsta fátæklegt ef ekki nyti við stóriðjunnar. Það er af sem áður var, þegar fiskurinn var helsta lifibrauð Akurnesinga. Sementsverksmiðjan, sem hafði nokkurn hóp fólks í vinnu og annað eins af fólki sem þjónaði hana, er horfin. Eftir stendur stóriðjan á Grundartanga, sem reyndar stendur höllum fæti eftir að Landsvirkjun ákvað að umframorka skildi ekki nýtt þar lengur. Hin ýmsu fyrirtæki á Akranesi eiga síðan tilveru sína að mestu eða öllu undir þeirri stóriðju. Verslanir og þjónusta ýmis, eins og skólarnir geta þakkað stóriðjunni fyrir gildi sitt innan samfélagsins.

Þá hefur þessi allsherjarráðherra okkar verið dugleg við að halda á lofti þeirri mýtu að vegna orkupakka 1 og 2 sé orkuverð lægra en ella og vísar þá í einhverja ímyndaða samkeppni á orkumarkaði. Þessi fullyrðing stenst auðvitað ekki, þó ekki væri nema vegna þess að enginn samanburður er til. Þó er vitað að þar sem eitt fyrirtæki var áður eru nú þrjú, með tilheyrandi aukakostnaði. Þá er einnig vitað að skuldir orkufyrirtækja hafa lækkað og rekstur þeirra batnað. Samkvæmt því má allt eins fullyrða að orkuverð ætti að vera enn lægra. Reyndar er öll umræða um orkupakka 1 og 2 tilraun til að afvegaleiða umræðuna. Við erum nefnilega að ræða hvort samþykkja eigi orkupakka 3 núna og síðan 4 og 5!  

Sömuleiðis megum við íbúar í norðvesturkjördæmi þakka fyrir grein Haraldar Benediktssonar í mogganum, þar sem hann réttlætir þægni sína við orkupakkann. Þessi fyrrum skeleggi talsmaður bænda mun sennilega ekki verða vel séður um sveitir kjördæmisins í næstu kosningum eftir þá grein, en í kjördæminu eru sennilega stærstu köldu svæði landsins, þar sem íbúar þurfa að kynda sín hús með raforku. Þá er ljóst að bændur hafa ekkert borð fyrir báru til að taka á sig hærra raforkuverð, svo illa sem með þá hefur verið farið síðustu ár og misseri.

Fleiri ummæli má telja en engin ástæða til þess. Þau skipta í raun ekki máli fyrr en næst verður gengið til kosninga. Þá verður þeim haldið á lofti. Hitt er nokkuð umhugsunarefni hvers vegna hin ýmsu hagsmunasamtök hafa þagað þessa umræðu af sér. Bændasamtökin hafa reyndar látið frá sér yfirlýsingu um málið, en hvað með samtök iðnaðarins, samtök þeirra sem stunda sjávarútveg og önnur þau samtök sem standa að fyrirtækjarekstri. Eru þau tilbúin að takast á við hærra orkuverð? Hvað með stéttarfélögin, eru þau samþykk því að kjör félagsmanna skerðist? Hvað með sveitarfélögin, er þeim sama þó fólk flosni upp og flytji burt?

Hvað með náttúrverndarsamtökin? Einungis einn yfirlýstur náttúruverndarsinni hefur tjáð sig opinberlega, Ómar Ragnarsson og er hans framtak vissulega þakkarvert. En hvað með aðra sem sveipa sig ljóma náttúruverndar? Þeir sem eiga erfitt með að sætta sig við að orkan okkar sé nýtt hér á landi til að byggja upp atvinnu fyrir þúsundir manna, hljóta að eiga erfitt með að sætta sig við að orkan sé flutt ónýtt úr landi, sér í lagi þegar ljóst er að arðurinn mun að mestu eða öllu lenda í höndum erlendra auðjöfra.

Við höfum í dag val og vald um hvort og hvar virkjað er. Til þess hefur Alþingi samþykkt svokallaða rammaáætlun, þar sem svæði eru flokkuð í verndarflokk, biðflokk og virkjanaflokk. Ef virkjanir fara yfir ákveðna stærð þurfa þær að fara í umhverfismat, þar sem kostir og gallar eru metnir. Vissulega eru ekki allir sáttir við niðurstöðurnar, en þarna höfum við þó eitthvað vopn í baráttunni við verndun landsins. Þetta mun allt falla, þegar völdin eru komin úr landi. ESB er nokkuð sama um einhverja fossa eða náttúrumyndir hér á landi. Þeir vilja orku.

Það er nefnilega barnalegt að ætla að einungis verði lagður einn strengur til meginlandsins, tveir eru lágmark en fjöldin mun að endingu ráðast af því hversu mikið verður hægt að virkja hér á landi. Þó Hörður Árnason og Bjarni Bjarnason, forstjórar stærstu orkufyrirtækjanna hér á landi, telji ekkert mál að fóðra strenginn, þá erum við að tala um mikla orku, eða sem svarar einni Kárahnjúkavirkjun fyrir hvern streng.

Svartasta sviðsmynd sem nokkrum hefur tekist að kasta fram, um afleiðingar orkupakka 3, er næsta hvít í samanburði við þann raunveruleika sem við munum sjá. Ímyndunarafl okkar er einfaldlega of takmarkað til að sjá þá skelfingu!

Staðreyndir málsins eru einfaldar. Þær snúast í raun ekki um hvort fyrirvarar standist eða ekki, sem reyndar liggur ljóst fyrir að þeir ekki gera. Þær snúast ekki heldur um hvað menn sögðu eða gerðu fyrir ári síðan eða þaðan af lengra.

Staðreyndirnar snúast um eitt og aðeins eitt, hver vilji þjóðarinnar er. Tveir stjórnarflokkanna hafa skýrann vilja sinna kjósenda í farteskinu. Treysti þeir sér ekki til að fara að þeim vilja, er einfaldast og best að fresta afgreiðslu málsins og leggja það í dóm þjóðarinnar allrar. Þannig og aðeins þannig fæst fram hvað þjóðin vill og þingmönnum BER að fara að vilja þjóðarinnar!!


Bloggfærslur 23. apríl 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband