Að eyða lottovinningnum áður en dregið er

Enn bætist við vegskattafarsann. Nú skal byrjað á að eyða skattinum áður en hann hefur verið lagður á! Þvílíkt bull!!

Maður er eiginlega orðinn svolítið ruglaður á þessu máli öllu og erfitt orðið að fylgjast með því. Hver talar í sínu horni innan stjórnarinnar og enginn virðist vita hvað hinn er að gera. Minnir nokkuð á ævintýrið um jólasveinanna.

Oft hafa draumóramenn á Alþingi nefnt vegskatta, gegnum tíðina. Alltaf hafa þeir verið kveðnir niður, hið snarasta. Um nokkurn tíma heyrðist ekkert svona óráðshjal frá löggjafasamkomunni.

Það var svo fyrir tveim árum síðan að ný ríkisstjórn tók hér völdin, undir stjórn Sjálfstæðisflokks, þess flokks sem predikar lægri skatta og minna bákn, eða gerði það a.m.k. hér á árum áður. Það kom því eins og skrattinn úr sauðaleggnum þegar nýskipaður samgönguráðherra, Jón Gunnarsson, fór að tala fyrir vegsköttum. Satt að segja hélt maður í fyrstu að um grín væri að ræða hjá ráðherranum, að áramótagleðin væri ekki alveg farin úr kolli hans. Því miður bráði þessi vitleysa ekki af manninum og hélt hann uppteknum hætti allt þar til þessi ríkisstjórn sprakk, nokkrum mánuðum síðar. Þar sem rökstuðningur þessa ráðherra var nokkuð ruglingslegur og erfitt að henda reiður á hvað hann var raunverulega að hugsa og segja, varð þetta mál aldrei meira en einskonar bull hjá honum.

Svo komu kosningar. Fyrir þessar kosningar voru sumir kjósendur nokkuð forvitnir um hvar frambjóðendur stæðu í þessu máli. Sem von var áttu frambjóðendur nokkuð erfitt með að tjá sig um málið, enda það allt svo óljóst og í raun á engu að byggja nema röfl eins fyrrverandi ráðherra, röfl sem betur átti kannski heima á einhverri ölstofu borgarinnar. Ein frambjóðandi steig þó fram og tók skýra afstöðu, veggjöld eða vegskattar yrðu aldrei lagðir á ef hann kæmist til valda. Enginn vafi var á að maðurinn meinti það sem hann sagði, enda var sama hvar hann kom fram, á þessu hnykkti hann í hvert sinn sem hann opnaði á sér kjaftinn. Þetta var formaður Framsóknarflokks, Sigurður Ingi Jóhannesson. Víst er að mörgum stuðningsmanni þessa flokks létti mjög, þarna var maður sem þorði og engin tvímæli voru um þetta mál af hans hendi.

Eftir nokkuð jaml var mynduð var ný ríkisstjórn. Að vísu ekki alveg í samræmi við niðurstöðu kosninga, þar sem þeir flokkar sem töpuðu tóku sig saman og mynduðu meirihluta og settu þannig þá flokka sem mest unnu á varamannabekkinn. En hvað með það, íslenskir stjórnmálamenn eru svo sem ekki í neinum sérstökum tengslum við þjóðina, svo þetta kom ekkert endilega á óvart. Nú var formaður Framsóknar orðinn samgönguráðherra. Málið var því í höfn, svo lengi sem þessi ríkisstjórn tórir. Þetta áréttaði hann í sínu fyrsta viðtali sem ráðherra, þegar hann enn einu sinni afaneitaði vegsköttum.

Og svo komu aftur áramót. Eitthvað leggjast áramót illa í þingmenn, einkum ráðherra. Kannski fer skaupið svona illa í þá, kannski eitthvað annað. Í það minnsta varð hinn nýi samgönguráðherra jafn ruglaður og forveri hans, ári áður. Í fyrsta viðtali í fjölmiðlum, eftir þessi áramót, kom í ljós að hann hafði sýkst illa af sömu sótt og forveri sinn. Nú voru vegskattar komnir í stöðu þess heilaga!

Málflutningur hins nýja ráðherra var þó ekkert skárri en forverans, ævintýralegt rugl þar sem engu var líkast en að hann væri ekki alveg viss um hvað hann segði, væri haldinn einskonar andsetningu. Svo hélt fram eftir ári, sumir gerðu góðlátlegt grín að þessu, aðrir tóku þessu heldur verr. Vandinn var að framsetning ráðherrans og málflutningur var svo ruglingslegur að erfitt var að fest hönd á hann, mótmæli voru því frekar taktlaus. Svona gekk fram á haust.

Um mitt sumar varð stór dagur í lífi landsmanna, þegar gjaldskyldu um Hvalfjarðargöng lauk. Að sjálfsögðu var samgönguráðherra látinn greiða síðasta gjaldið, í beinni útsendingu fjölmiðla. Á eftir var haldinn blaðamannafundur þar sem ráðherrann ásamt bæjarstjórn Akraness fögnuðu þessum áfanga ákaft. Þarna hélt maður að eitthvað væri að brá af ráðherranum, en það var tálsýn. Verra er að bæjarstjórn hefur sennilega verið hellst til lengi í grennd við hann, þar sem hún er nú illa haldin af sjúkdómnum!

Á haustdögum urðu kaflaskil. Vegna ólöglegrar upptöku á bar í borginni, þar sem tveir þingmenn viðhöfðu frekar ljót orð, fór landinn á hliðina. Annar þessara þingmanna var formaður samgöngunefndar Alþingis og hafði verið einn helsti hemill þessa óráðshjals ráðherrans. Við tók nýr formaður þessarar nefndar, Jón Gunnarsson, fyrrum samgönguráðherra og uppvakningur vegskattadraugsins!

Nú var ekki verið að viðhafa nein vettlingatök, enda engin fyrirstaða lengur. Ekki batnaði þó röksemdin fyrir þessum sköttum, þvert á móti varð málflutningurinn nú ofsafengnari en áður og ruglstigið náði nýjum hæðum. Gjaldið var nú sagt verða  lágt, nánast ekki neitt. Hvar eða hvernig átti að innheimta þetta gjald var nokkuð á reyki. Talað um einhverskonar myndatökur og umferðamestu stofnleiðir, umhverfis borgina, allt þó óljóst. Einnig hefur heyrst að greiða skuli gegnum öll jarðgöng landsins, en það er með það eins og annað, allt eitthvað óljóst. Og allt átti að gera, hellst í gær. Varla til sú hugmynd um bót á vegakerfinu sem ekki átti að framkvæma, fyrir þennan skatt sem átti að verða svo smár að enginn yrði hans var.  

Þannig tókst þeim félögum að fífla sveitarstjórnir umhverfis höfuðborgarsvæðis og fá þær hverjar af annarri til að sýna velþóknun sína í fjölmiðlum. Þetta afrekuðu þeir pjakkar Nonni og Siggi á aðeins einni viku og geri aðrir betur. Ekki fer hins vegar sögum af líðan þessara sveitarstjórna, eftir hrekkinn!

Hvort gjaldið er hátt eða lágt fer ekki eftir grunngjaldinu, heldur hversu oft þarf að greiða það þegar ekið milli tveggja staða. Ef greiða skal gegnum hver göng og ef ekið er yfir ákveðna þverlínu á öllum stofnbrautum umhverfis borgina, mega Skagamenn búast við að greið þrisvar slíkt gjald til borgarinnar. Ljóst er að þá erum við farnir að greiða mun meira en meðan Spölur rukkaði okkur. Hversu oft ætli Akureyringar þurfi að greið, þurfi þeir að fara til Keflavíkur?

Auðvitað er það svo að slíkur vegskattur telur lítið á fáförnum vegum, yrði t.d. seinlegt að gera ökufæran veginn fyrir Vatnsnes ef umferð um hann ætti að greiða þann kostnað, gegnum vegskatt. Því er kostnaður við viðhald og endurnýjun vegakerfisins haft á einskonar samfélagslegum grunni, þó þannig að enginn greiðir til þess nema þeir sem nýta kerfið. 

Það er svo sem ekki undarlegt þó horft sé til stofnbrauta til og frá höfuðborginni, þ.e. ef menn vilja breyta þessu nú eða totta eins mikið út úr bíleigendum og hægt er og hellst nokkuð meira. Ef umferðaþyngstu leiðir landsins eiga að greiða fyrir vegakerfi landsins, nú eða safna auknu fé í ríkisbáknið, á auðvitað að setja slíkan skatt á stofnbrautir 40, 41 og 49. Það eru umferðaþyngstu stofnbrautir landsins þannig að gjald þar gæti verið mun lægra en annarsstaðar, til að ná sömu heildarupphæð, eða verið jafn hátt og safnað miklu meira fé til ríkissjóðs, allt eftir því hvernig hugsun manna er. Að vísu fylgir sá galli að borgarbúar þurfa þá að greiða gjaldið í stað dreifbýlisbúa og auðvitað væri slíkt stílbrot.

Alls óljóst er með hvernig skal innheimta skattinn. Talað um myndavélar, sem væntanlega eiga bara að vaxa sjálfar upp úr jörðinni. Ekkert verið rætt um vinnslu gagna frá þeim vélum, útsendingu reikninga og innheimtu þeirra. Allt kallar þetta á útgjöld, mikil útgjöld. Báknið mun bólgna og blýantsnögurum fjölgar, ekki kannski alveg í stíl við stefnu Sjálfstæðisflokks, fellur hins vegar vel að hugsjón vinstri flokka. Ljóst er að fljótt mun kostnaður vegna þessa verða svo yfirdrifinn að óvíst verður hvort nokkuð situr eftir til vegamála.

Og nú ætlar ráðherra að veðsetja ósómann, áður enn hann hefur verið vakinn til lífsins. Þetta er alveg nýr vinkill á málinu. Taka skal lán upp á 50 til 60 þúsund milljónir króna. Eitthvað þarf að greiða í vexti af því láni og þarf ekki djúpa hugsun til að ætla að verkefnið sé þá komið í stórann mínus fyrir ríkissjóð, nema því aðeins að skatturinn sé hafður svo hár að erfitt reynist fyrir landsmenn að ferðast yfir þær þverlínur sem skattlagðar verða á vegakerfinu!!

Því miður óttast ég að verið sé að vaða með þjóðina út í kviksyndi sem erfitt verður að komast úr aftur, vegna óráðshjals tveggja þingmanna sem komist hafa til valda, þingmanna sem vita greinilega ekkert hvað þeir segja eða gera. Sjálfstæðisflokkur er nú kominn í þá stöðu að lítið þarf útaf að bregða svo þessi höfuðflokkur Íslands verði að örflokk. Þó einn þingmaður hans ruglist í rýminu og hverfi frá stefnunni, hefur það í sjálfu sér ekki afgerandi áhrif, en ef aðrir þingmenn taka undir er þetta óráðshjal er víst að skaðinn er skeður. Formaður Framsóknar hefur þegar gengið frá sínum flokk og því verður vart breytt. Reyndar eru Framsóknarmenn einstök ólíkindatól og vel gæti svo verið að foringjadýrkun þeirra fyrirgefi óráðið!

Sú aðferð sem hingað til hefur verið notuð hér á landi, að rukka skatt til viðhalds og endurnýjunar vegakerfisins gegnum eldsneytið, er einföldust, öruggust og ódýrust. Vandinn er að orkuskipti setja strik í reikninginn, eðli málsins samkvæmt. Þann vanda á þó ekki að leysa með því að skattleggja enn frekar þá sem þegar borga, heldur leggja skatt á þá sem eru utan skatts, þ.e. leggja skatt til þessara nota á rafbíla. Þar má hugsa sér skatt sem innheimtur væri eftir eknum kílómetrum, sem í raun er jafn réttlátur og skattur gegnum eldsneyti, en eitthvað meiri kostnaður liggur í innheimtu hans. Þó mætti vel hugsa sér að þar mætti samnýta skoðunarskyldu bíla. Að lokum væru þá allir bílar landsins undir sama skatti, einhvertímann í framtíðinni, þegar rafbílar hafa yfirtekið markaðinn að fullu.

Að ætla að leggja skatt þar sem ekið er yfir ákveðnar þverlínur á vegakerfinu er svo frámunalega vitlaust að magnað er að nokkrum manni skuli láta sér detta slíkt til hugar. Að ætla að rökstyðja slíkt með því að vitna til gjaldskyldu Hvalfjarðargangna eða annarra landa sem slíkt þekkist, sýnir vanþekkingu manna á málinu. Þar er fyrst framkvæmt, síðan er lagður á tímabundinn skattur til að greiða þá framkvæmd. Hugmyndir pjakkanna Nonna og Sigga eru allt aðrar. Þeir vilja skattleggja strax og til allrar framtíðar og framkvæma einhvertímann seinna. Og nú bætist við að fyrst af öllu skal óskapnaðurinn veðsettur!!

Óska öllum lesendum gleðilegrar hátíðar.

 

 

 

 

 


mbl.is Lán Vegagerðarinnar greidd með vegtollum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. desember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband