Ævintýrahöfundurinn Silja Dögg

Það verður vart skafið af Silju Dögg haturshugur til síns fyrrum formanns.

Það ættu flestir landsmenn að vita að salur Alþingis er einungis formlegur afgreiðslustaður mála. Stefna þeirra, undirbúningur og eiginleg afgreiðsla fer fram annarsstaðar. Þar ráða auðvitað mestu þeir flokkar sem eru í stjórn, en aðrir geta með lagni komið sínum málum á framfæri og ná stundum árangri. Því er ekki hægt að meta kjark og dugnað manna eftir setu í sal Alþingis, heldur hvernig þeim gengur að koma fram sínum stefnumálum. Það starf er því unnið á öðrum vettvangi. Kannski má segja að þeir sem eru þaulsetnastir í sal Alþingis, séu einmitt þeir kjarklausustu, í það minnsta verklausustu. 

Silja nefnir aðförina að SDG, með tilstilli ruv, sem eitthvað kjarkleysi af hans hálfu. Líkja má stjórnmálum við einskonar herför, þar sem fylkingar safnast saman og berjast fyrir sínum málstað. Það hefur seint þótt mikill kjarkur falin í því þegar hersveitin hleypur burt með skottið milli fóta sér, þegar að yfirmanninum er sótt. Þingmenn Framsóknar á þeim tíma voru þó ekki lengi að láta sig hverfa, einmitt þegar þeir áttu að standa að baki formanni sínum. Kjarkurinn var ekki meiri en svo að þeir létu blekkjast af dómstól götunnar, eins og hverjir aðrir kjarkleysingjar. Sagan á eftir að dæma þá þingmenn hart, er reyndar þegar farin að gera slíkt. Kannski öðlast þeir einhvern tímann nægan kjark til að biðja sinn fyrrum formann afsökunar.

Þá vill Silja eigna þingmönnum og embættismönnum þá baráttu sem SDG leiddi í kjölfar hrunsins. Vissulega stóðu flestir þingmenn flokksins að baki sínum formanni meðan mesta orrustan á því sviði stóð, en sú orrusta var ekki síst gegn embættiskerfinu, sem allt vildi samþykkja sem koma frá fjármálaelítunni.

Framsóknarflokkur var ekki beinlínis beysinn, þegar SDG tók við honum og nokkuð víst að hann hefði þurrkast út vorið 2009 ef gamla flokksklíkan hefði haldið þar völdum. Það var síðan fyrir elju og baráttu hins nýja formanns sem flokkurinn náði fræknu fylgi vorið 2013. Sumir þingmenn Framsóknar á þeim tíma voru duglegir við að halda uppi málstaðnum með sínum formanni, aðrir höfðu sig lítt í frammi og sumir jafnvel unnu gegn honum. Hitt er þó víst að það var fyrir tilstilli SDG og fyrir hans dugnað og kjark, sem flokkurinn náði að lifa af vorið 2009 og fá síðan það fylgi sem hann fékk vorið 2013. Þar bar lítið á Silju Dögg, eða þeim þingmönnum flokksins sem nú verma stóla Alþingis!

Varðandi landfundinn sem Silja velur að nefna er það rétt að SDG gekk af fundi eftir kosningar, enda sá hann að hann átti ekkert erindi þar lengur. Gamla flokksklíkan hafði aftur tekið völdin og hans nærveru því ekki lengur óskað. Eftir sem áður yfirgaf hann ekki flokkinn strax og reyndi að leita sátta. En kjarkleysingjarnir sem nú sátu í umboði gömlu flokksklíkunnar fengu ekki heimild til sátta.

Sjálfur var ég alin upp við Framsóknarflokk, sem svo margt annað landbyggðafólk. Þann flokk kaus ég alla tíð og var lengi stoltur af. Síðan fór stoltið þverrandi þó enn væri merkt við XB á kjörseðli og að lokum hætti maður að setja Xið. Ekki gat ég þó kosið aðra flokka, að svo stöddu. Í nokkrar kosningar skilaði ég því auðu, enda enda hafði minn gamli flokkur verið yfirtekinn að fólki sem ekki vildi lengur fylgja gömlu stefnunni. Þessi klíka sem yfirtekið hafði flokkinn afrekaði það helst að fylgið féll hratt og síðust árin sem hún réði voru formannaskipti orðin nær regluleg, svo erfitt var fyrir flokksfélaga að henda reiður á hver sat þann stól hverju sinni.

Með tilkomu SDG, snemma vetur 2009, breyttist þetta, enda aftur horft til þeirrar stefnu sem flokkurinn var stofnaður fyrir. Hinir gömlu kjósendur, sem voru í sömu sporum og ég, voru þó ekki allir tilbúnir að kjósa flokkinn strax, þó nægilega margir til að flokkurinn lifði af kosninguna vorið 2009. Fjórum árum síðar var séð að hinn nýi formaður hélt uppi merki hins gamla flokks og að þeir sem nánast höfðu náð að koma flokknum í gröfina, voru orðnir valdlausir innan hans. Þetta skilaði sér í fylgi vorið 2013 og gömlu kjósendurnir voru aftur komnir með traust til flokksins.

Popúlismi er skilgreining á því þegar fólk velur að taka staðlausar staðreyndir, sem hafa verið eyrnayndi fólks og fjölmiðla og nýta slíkt í sinn málflutning. Því verður vart annað sagt en þessi skrif Siljar séu einmitt skólabókardæmi um popúlisma. Hún velur að taka hvert málefnið af öðru í sinn málflutning, málefni sem voru á sínum tíma dásamleg í eyrum þeirra sem hötuðust sem mest við SDG. Málefni sem síðan hafa verið gerð afturreka og send til föðurhúsanna.

Um traust og trúgirni er það eitt að segja að ég vorkenni þingmönnum Framsóknar fyrir trúgirni þeirra á sínum herrum og víst er að traust þeirra byggir á því einu að hlítt sé!

Silja Dögg er auðvitað traust sínum herrum og lætur sig hafa það að skrifa ævintýri á facebook, ævintýri sem fjölmiðlar gleypa auðvitað. Ævintýri geta verið skemmtileg, þar sem þau eiga við og sjálfsagt verða í framtíðinni sögð ævintýri um þær prinsessur og prinsa sem hlýddu sínum herrum í Framsóknarflokknum, út í forina sem sökkti þeim!!


mbl.is „Stórskotahríð úr glerhýsi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 5. nóvember 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband