Færsluflokkur: Umhverfismál
Þögnin ein
7.5.2025 | 11:26
Þögn fjölmiðla um stóru málin er ærandi. Eru hins vegar duglegir við að flytja okkur fréttir af því sem minna máli skiptir, eru duglegir við að róta í drullupollunum.
Þau mál sem skipta þjóðina mestu máli, til allrar framtíðar eru verkefnin sem vega að náttúru okkar lands, vega að lífsskilyrðum þjóðarinnar og vega að sjálfstæði okkar. Þar má nefna ýmis verkefni sem sögð eru til bjargar jörðinni, einkum með því að eyða lífsanda hennar, verkefni sem virðast fá meiri framgang, því sem heimskulegri þau eru. Þar má margt nefna og kem ég að sumu á eftir. Verkefni sem miða að því að skuldbinda þjóðina sem mest á erlendri grundu, s.s. að bindast fastari böndum hernaðarsamböndum. Og síðast en ekki síst verkefni er miða að því að fórna sjálfstæði okkar enn frekar til erlendra ríkjastofnana, esb.
Þessi mál fá lítinn framgang í fjölmiðlum. Reyndar hefur Heimildin stundum náð sér á strik, en jafnan þagnað fljótt aftur. Hver skýring þess er skal ekki sagt, en þó ljóst að fjölmiðlum sem berjast í bökkum er auðvelt að stjórna með fjármagn, hvort heldur þar er um að ræða skort á þeim eða aukning.
Í þessum pistli verður ekki fjallað um tvö síðari atriðin, sem þögn fjölmiðla ríkir um, auknar skuldbindingar erlendis og fórn sjálfstæðisins. Hins vegar verður hér ritað um fyrsta málaflokkinn, þann mikilvægasta. Þar ríkir nú þögnin ein meðal fjölmiðla og læðist að manni grunur um að sú þögn sé keypt.
Þau verkefni sem ógna tilveru þjóðarinnar mest eru gæluverkefnin til bjargar jörðinni. Þar er ekkert heilagt, hvorki land, náttúra né þjóð. Því fráleitari sem hugmyndirnar eru, því meiri framgang fá þær.
Það sem lengst er komið i þessari ógn eru auðvitað vindorkuverin. Fyrir það fyrsta þá er lítill munur á vindorkuveri og gasorkuveri varðandi co2 losun, ef horft er til líftíma þeirra orkukosta. Líftími vindorkuvers er mun styttri en gasorkuvers, kostnaður við uppbyggingu og mengun af þeim þætti er hærri á hverja framleidda MWst af vindorkuveri. Báðir kostir nota hlutlausan orkugjafa, vind versus gas. Gasið telst hlutlaust þar sem það er aukaafurð olíuvinnslu, var áður brennt á vinnslustað en nú nýtt til orkuframleiðslu. Kostnaður við eyðingu orkuveranna er sennilega svipaður, þ.e. miðað við að einungis sé eytt því sem ofanjarðar er. Ef hreinsa á allt draslið, verður kostnaðurinn margfaldur varðandi vindorkuverið, ef yfirleitt það er gerlegt. Þar sem líftími vindorkuversins er mjög stuttur er ljóst að gasorkuverið hefur margfaldan vinning. Og ekki má gleyma hagnaðarhlutanum. Gasorkuver eru yfirleitt rekin með ágætis hagnaði, meðan ekki virðist möguleiki að reka vindorkuver með hagnaði, hvergi. Þar kemur fyrst og fremst til stöðugleiki framleiðslunnar og geta til að stýra henni.
Hér á landi þurfum við ekki að horfa til gasorkuvera, eigum næga aðra kosti. En auðvitað þurfum við að sýna heiminum að við getum það ómöguleg, rekið vindorkuver með hagnaði. Við Íslendingar erum nefnilega svo frábæri, flottari en allir aðrir í heiminum. Munið hvað við vorum miklir fjármálasnillingar á fyrsta áratug þessarar aldar?
Annað verkefni sem alger þögn er um er losun á vítissóta í Hvalfjörðinn, þennan sem fréttir morgunsins voru um að hvalir væru komnir í fjörðinn. Reyndar búnir að vera þar um nokkurn tíma, en það er önnur saga. Ekki víst að þeir hafi mikinn áhuga á vítissótablönduðum Hvalfirðinum, eftir örfáar vikur.
Stofnað var nýtt félag um þessa gölnu hugmynd, Röst. Sagt að það væri ekki hagnaðardrifið og hygði ekki á sölu kolefnisbréfa, aflátsbréfa. En hvað með móðurfyrirtæki Rastar, er það óhagnaðardrifið. Hreint ekki. Móðurfélag Rastar er Transition Labs, kannski ekki svo mjög þekkt h#r á landi, en átti meðal annars hið fræga fyrirtæki að endemum, Runnig Tide. Þetta sem sturtað tugum þúsunda tonna af tréflís í hafið og náði að selja aflátsbréf fyrir milljarða, áður en verkefnið hætti. Þar var ekki verið að fela sig bakvið innantóm orð, eins og Röst gerir. Í öllu falli hefur öll umræða fjölmiðla um malið þagnað, var reyndar aldrei mikil. Og við íslensku snillingarnir ætlum auðvitað að sýna heiminum að vítissóti sé svo ofboðslega heilnæmur, ætlum að bjarga heiminum. Rétt rúmur mánuður er þar til eitrun Hvalfjarðar hefst.
Flutningur á gífurlegu magni af co2 til landsins og dæling á því í jörðu niður, er önnur fáviskan. Ef ekki hefði komið til einstæð samstaða íbúa Hafnartjarðar gegn þessum áformum, er víst að engir fjölmiðlar hefðu fjallað um málið og við fyrst fengið fréttir af því þegar ólánið væri skollið á, skaðinn skeður. Samstaða íbúanna lokaði fyrir þessi áform í Hafnarfirði. En þetta dugði þó ekki til að drepa málið, dugði ekki til að opna augu stjórnenda og fulltrúa eigenda Orkuveitu Reykjavíkur, dugði ekki til að opinbera fáviskuna. Nú er OR komið á fullt annarsstaðar á landinu, m.a. Húsavík. Þar taka fávísir sveitastjórnarmenn verkefninu fagnandi. Ekkert virðist ætla að stöðva það verkefni, enda fjölmiðlar þögulir sem gröfin.
Þeir sem að þessu verkefni standa fullyrða að mengandi efni frá erlendum fyrirtækjum, sem sannarlega fylgir með hingað til lands, sé svo lág prósenta. Þegar heildarmagnið er mikið skipir litlu hversu lá prósentan er, magnið mun skipta tugum, hundruðum eða þúsundum tonna eiturefna, eftir því hversu lengi verkefnið stendur. Þá er ekki enn komin viðunnandi tækni til vinnslu co2 úr útblæstri mengandi verksmiðja, tækni sem er áreiðanleg og enn síður viðunnandi tækni til að vinna eiturefnin frá lífsandanum. Því má gera ráð fyrir að magn eiturefna verði meira en sagt er, hvort heldur menn nota þar prósentur eða tonn. En O r heldur sinu striki, enda forstjórinn þekktur á þessu sviði, var bæjarstjóri á Akranesi þegar RT ruglið stoð sem hæst.
Þegar Runnig Tide ruglið stóð sem hæst voru margir sem hældu því og mældu því bót. Þar fóru hæst stjórnmálamenn með hjálp fjölmiðla. Engir menntaðir menn á þessu sviði sáust þó í þeim hóp, utan þeir sem fyrirtækið átti. Jafnvel var svo langt gengið að þegar eftirlitsstofnun sem átti að fylgjast með framkvæmdinni, stöðvaði hana vegna frávika frá leyfisveitingu, þurfti raðherraúrskurð til að fella bann eftirlitsstofnunarinnar. Sá úrskurður var auðfenginn. Við fávitarnir sem horfðum á ósköpin og fáránleikann, vorum algerlega orðlaus. Þegar svo pandóruboxið opnaðist, vildu þeir sem mest höfðu greitt veg RT, ekkert vita. Hlupu í felur.
Við Íslendingar erum miklir snillingar. Fyrst töldum við við okkur mestu fjarmalasnillinga á jarðkringlunni. Landið fór nánast á hausinn. Nú ætlum við að fórna íslenskri náttúru, bara af því erum svo ofboðslega færir að við getum það sem aðrir geta ekki. Þegar því er lokið fer almenningur á hausinn og þar með þjóðin. Engin atvinna og engin laun. Auðvitað líka bara af því við erum svo ofboðslega fær, getum ábyggilega lifað bara á loftinu.
Þá verður eftirleikurinn auðveldur, aðild að esb. Hún mun verð lausnin, eða þannig. Þegar landinu hefur verið fórnað, atvinnan farin og ekkert eftir, verður ekki lengur um val að ræða.
Kannski er leikurinn til þess gerður, að neyða þjóðina. Sannað er að ríkisútvarpið þiggur styrki frá esb og fréttaflutningur þess í samræmi við það. Hversu margir aðrir fjölmiðlar eru á þeim spena? Alla vega láta þeir sér í léttu rúmi liggja þó landinu sé fórnað, heiðum þess, fjörðum og neðanjarðar hryðjuverk.
Allt er þetta gerlegt með hjálp fjölmiðla og reyndar þeirra verk ákaflega lítilfjörlegt, þurfa bara að sleppa vinnunni sinni og fá borgað fyrir. Einstaka sinnum sést hjáróma frétt um þessi mál, í einstökum fjölmiðlum. En það stendur stutt, rétt eins og stungið sé einhverju nammi í munn þeirra.
Þá þagna þeir!
Náttúrunni verður ekki bjargað með því að fórna henni
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Að færa stöðugleika raforkunnar hálfa öld aftur í tímann
5.5.2025 | 09:36
Nýlega sló út rafmagni á öllum Íberíu skaganum. Orsökin er sögð vegna mikillar orkuframleiðslu svokallaðra grænnar orku, þ.e. vindorku og sólarorku. Þetta eru óstöðugir orkugjafar sem útilokað er að hafa stjórn á og því notast við kola- og olíuorkuver til að taka á sveiflum. Eitthvað fór þar úrskeiðis þannig að öll raforkuframleiðsla um Spán og Portúgal sló út á einu bretti. Á sama tíma var grænorkuframleiðsla í Danmörku og Þýskalandi komin að þolmörkum og víst að ef Frakkland byggði ekki sína orkuframleiðslu að stærstum hluta á kjarnorku, hefi sennilega stórum hluta Evrópu slegið út samhliða Íberíu skaganum.
Hér á Íslandi er nánast öll orkuframleiðsla græn, ekki vegna vind- eða sólarorku, heldur vatns- og hitaorku. Þeir orkugjafar eru mjög stabílir og því útilokað að sama ástand geti skapast hér á landi, vegna sjálfrar öflunar orkunnar. Hluta landsins getur slegið út ef stórnotandi verður fyrir áfalli, en ekki lengur möguleiki á að allt landið verði orkulaust samtímis. Þarna ræður fyrst og fremst stöðugleiki okkar orkuframleiðslu. Þessum stöðugleika vilja sumir fórna fyrir loforð um einhvern hugsanlegan hagnað, kannski, einhvertímann.
Yfir 40 vindorkukostir eru komnir fram hér á landi, með uppsettu afli frá rúmlega 100 MW upp í yfir 500 MW. Margföld sú orkuframleiðsla sem nú þegar er stunduð hér á landi. Þetta er auðvitað alveg galið og fáheyrt. Að það skuli vera hlustað á hugmyndir um að fórna stöðugri orkuframleiðslu fyrir óstöðuga, að það skuli vera hlustað á hugmyndir sem færa okkur hálfa öld aftur í tímann, er nánast sturlun.
Enn hefur Alþingi ekki komið sér saman um lög um vindorku, eitthvað sem ætti þó að vera fyrsta skrefið. Á meðan keppast vindorku barónar við að ná hylli sveitarstjórna, vítt um landið. Þær hafa skipulagsvaldið og þær gefa út framkvæmdarleyfin. Ef ekki dugir að spila á heimsku og undirlægjuhátt sveitarstjórnarmanna er farið á næsta stig, peningastigið. Það virkar alltaf, hversu vitlaus eða vitur hver er. Það er engin spurning hvers vegna þessir barónar sækja svona fast, þeir vilja afgreiða málið í héraði og skapa þannig stjórnvöldum skaðabótaskyldu, fari svo að Alþingi afgreiði málið þeim í óhag, setja pressu á þingmenn. Þetta er þekkt aðferð peningaaflana.
Lengst af hafa tvö erlend fyrirtæki haft sig mest í frammi á þessu sviði, Zephyr og Qair. Nú eru hins vegar fyrirtæki í eigu okkar landsmanna kominn í þennan ljóta leik, Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur. Vilja vera memm. Vilja fórna landinu okkar.
Auðvitað er það svo að ekki er til jöfnunarorka fyrir allar þessar hugmyndir um vindorku hér á landi, reyndar fjarri því. Því er eina leiðin að virkja meira vatns- og hitaorku, en það dugir ekki. Jafnvel þó allir hugsanlegir kostir vatnsorku séu virkjaðir og öll hitasvæði landsins tekin undir orkuframleiðslu vantar töluvert uppá. Það verður því einungis leyst með olíu- eða kolaorkuverum. Vindbarónarnir hafa mikið talað um að orka þeirra muni nýtast til rafeldsneytisframleiðslu. Slíkar verksmiðjur eru dýrar í uppsetningu og deginum ljósara að þær verða ekki reknar eftir því hvernig vindur blæs. Þær þurfa að ganga allan sólahringinn, alla daga ársins, svo möguleg arðsemi verði til. Því þarf jöfnunarorku, jafn mikla og vindorka hefur möguleika á að framleiða við bestu aðstæður. Annað er einfaldlega ekki í boði. Þó væri líklegt að þeir sem að hugmyndum um rafeldsneytisverksmiðjum standa myndu hugsa sig um tvisvar, vegna þess hversu óstöðug vindorkan er og hversu stór hluti raforku kemur þaðan. Að búið sé að veikja raforkuframleiðsluna svo mikið að henni verði ekki lengur treyst.
Auðvitað á að vera frumkrafa til vindorkuhugmynda að sýnt sé fram á að virkjanaaðili geti sýnt og sannað að hann hafi aðgang að jöfnunarorku, jafn mikilli of vindorkuverið getur framleitt við bestu aðstæður. Allir vita hver framleiðslan er þegar lygnir.
Hér á þessu vefsvæði hef ég skrifað mikið um vindorku, tekið fyrir hina ýmsu þætti hennar, s.s. mengunarþætti. Allir sem kynna sér þennan orkukost þekkja þá þætti sem mestri mengun skilar, en kannski gera sér ekki grein fyrir umfanginu. Gera sér ekki grein fyrir stærð vindtúrbína eða hvað þarf til einnar slíkrar. Það er í sjálfu sér eðlilegt, þar sem fjölmiðlar hafa verið ótrúlega þögulir um þetta stóra mál. Mætti jafnver ætla að þeim sé greitt fyrir þögnina og yfirskafninginn. Í mesta lagi eru fluttar fréttir unnar úr upplýsingum vindbarónanna eða þeirra launþega, eins og íslenskra verkfræðistofa. Þar virðist ein stofa bera herðar og höfuð yfir aðrar, í því að gera ásýndina og framkvæmdanna betri en raunverulega er. Á þetta hef ég bent í öllum þeim athugasemdum sem okkur landsmönnum er leyft að gera, meðan afgreiðslan er hjá eftirlitsstofnunum. Árangurinn er enginn og oftar en ekki ekkert svar. Reyndar einungis fengið svar frá Skipulagsstofnun við einni athugasemd og þó ekki beint svar, heldur staðlað sem öllum var sent.
Ég ætla ekki að ræða alla þá skelfingu sem fylgir vindorkuverum, mengun eða annað. Þó vil ég benda á einn hlut sem aldrei er minnst á og enginn virðist skilja, eða vilja skilja. Það er landraskið sem fylgir hverju vindorkuveri.
Allir horfa á þann sjónskaða sem til verður vegna "slóðagerðar" við vindorkuverin. Hann er vissulega mikill, en annar skaði er þó verri. Þetta eru auðvitað engir slóðar, heldur öflugir vegir, enda þurfa þeir að bera þunga upp á allt að 100 tonnum í ferð. Slíkir vegir verða ekki lagðir nema jarðskipti fari fram undir vegstæðinu. Flest eru þessum vindorkuverum ætlað að vera upp á heiðum okkar, viðkvæmum heiðum með flóknu dýralífi. Þar eru heiðartjarnirnar kannski viðkvæmastar, með sínu einstaka og fjölbreytta vatnalífi. Lífæð þessara tjarna er auðvitað vatnagangur milli þeirra, lækir sem neðanjarðarvatn. Þegar búið er að grafa allt landið í sundur og fylla upp með burðarefni og síðan þjappa niður með gífurlegum þungaflutningum, er ljóst að lítið rennsli verður milli þessara tjarna, hvort heldur ofan eða neðanjarðar. Tjarnirnar einangrast g allt líf í þeim þrýtur, verða fúlar tjarnir. Og fuglalíf leggst af.
Þetta er nóg að sinni.
Náttúrunni verður ekki bjargað með því að fórna henni
Af einskærri heimsku anar OR í örendið
7.4.2025 | 17:16
Orkuveita Reykjavikur ætlar ekki að gefast upp á Cabfix verkefninu. Nú virðist Hafnafjörður úr myndinni, að mest og þá er ráðist á næstu fórnarlömb, Þorlákshöfn og Húsavík.
Einhverra hluta vegna er augljósasti kosturinn ekki inn í myndinni, orkuvinnslusvæði OR á Hellisheiði. Hvers vegna? Þar er allt sem til þarf, meira að segja niðurdælingaholur og allur búnaður. Eina sem þarf er lögn frá Miðbakkanum inn á heiðina. Ætti ekki að vera mikið mál og ef þetta er bara eins og hver annar gosdrykkur, er malið einfalt.
Eða er þetta kannski eitthvað eitraðra en gosdrykkur? Eru forsvarsmenn OR tilbúnir að bergja á glundrinu? Getur verið að OR sé hrædd um að orkuvinnslan á heiðinni sé í hættu af því magni sem til stendur að dæls í jörð, að það geti leitt til jarðskjálfta eða jafnvel enn verri hamfara, svo orkuvinnslan verði í hættu?
Einhver ástæða liggur fyrir því að OR er svo umhugað um að þessi starfsemi verði einhversstaðar annarsstaðar en í grennd við það svæði sem fyrirtækinu hefur verið úthlutað, til orkuvinnslu. Helst sem lengst í burtu.
Nú þegar hefur stórum upphæðum verið sóað í þetta verkefni, þó dótturfyrirtækið sé verðlaust. Það er nokkuð sérstakt. Og enn skal sóað fé í nafni OR. Ekkert veð til hjá Carbfix. Og loks, þegar ekki verður lengra komist í foraðinu, þurfum við eigendur OR að borga brúsann.
Þegar menn, af ógætni, ana út í foraðið, er um tvennt að ræða. Að snúa til baka og komast á fast land, eða hitt að halda áfram í örendið. Það þarf fádæma heimsku til að velja síðari kostinn, þó gerir Orkuveita Reykjavíkur einmitt það!
![]() |
Carbfix svarar fyrir sig vegna áforma á Húsavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 19:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Líffræðileg fjölbreytni heiðarlanda
30.3.2025 | 08:48
Ég verð að segja að Jóhann Páll kemur skemmtilega á óvart.
Vernd á viðkvæmri náttúru okkar er eitthvað sem ætti að vera sjálfsagt mál. Kuldatímabil fyrri alda og stór eldgos hafa gert landið okkar rýrra en áður var, þó heldur horfi til betri vegar nú, með hlýnandi loftslagi. Svo illa kom landið undan þessu kuldatímabili að það var nánast orðið óbyggilegt í lok þess. Af þeim sökum flúði fjórðungur landsmanna til annarra landa, undir lok litlu ísaldar. En, eins og áður segir, hefur landið tekið nokkrum stakkaskiptum síðustu áratugi. Þar sem áður voru berir melar hefur laggróður náð að festa sig vel og þau litlu og vesælu kjarrlendi sem enn tórðu gegnum kuldatímabilið, hafa sprottið upp og sumstaðar dugir þar ekki að standa upp til að finna áttir, eins og stundum hefur verið haft að gríni.
Landgræðsla, gjarnan unnin af bændum, hefur einnig skilað stóru, þó gagnrýna megi einstök verk á því sviði. Þar má kannski kenna um fáþekkingu. Sem dæmi var allt of langt gengið í notkun lúpínu a þeim vettvangi, svo fögrum melum með sinni fjölbrettu lágflóru hefur verið fórnað.
En nú stöndum við á tímamótum, stórum tímamótum.
Erlendir aðilar í samvinnu við íslensk fyrirtæki, sækja að landinu okkar og hafa nú teygt sig út fyrir landsteinana. Síðasta dæmið er tilraunir með vítissóta í Hvalfirðinum. Tilgangurinn óskýr en afleiðingarnar gætu orðið geigvænlegar.
Vel grónu landi, jafnvel berjalandi, er umbreytt í gróðurleysi svo rækta megi þar skóga. Ekki til að bæta landið okkar eða líffræðilega fjölbreytni þess. Nei, þar liggur einungis eitt að baki, fégræðgi. Að rækta skóga til sölu kolefniseining svo erlend fyrirtæki geti áfram mengað andrumsloftið, núna bara löglega. Í þessu skyni hafa jarðakaup umbreyst. Þeir sem vilja búa á bújörðum og vernda land sitt og fjölbreytni þess, fyrir komandi kynslóðir, komast ekki lengur að söluborði bújarða. Peningaöflin hafa yfirtekið það, jafnvel svo að heilu sveitirnar eru undir. Þar er engin hugsun um líffræðilega fjölbreytni, einungis hversu mikið megi græða.
Heiðarnar eru viðkvæmastar. Þar er gróður viðkvæmastur, þar viðheldur fuglalífið sér og þar eru einstök lífkerfi í tjörnum. Þangað sækja erlendir vindbarónar einna mest og skelfileg hugsun ef, þó ekki væri nema hluti þeirra áforma raungerist. Vindtúrbínur eru ekki líffræðileg fyrirbrigði, heldur stóriðja. Reyndar má með sanni segja að vindtúrbínur séu einna hættulegastar allra hugmynda um orkuvinnslu, hvað líffræði varðar, hvað þá fjölbreytni hennar. Stór svæði verða eyðilögð til að koma þessum ófreskjum fyrir, sem síðan dæla út í andrúmsloftið hinum ýmsu tegundum mengunar, s.s. örplasti, sf6 gasi og olíu, svo eitthvað sé nefnt. Reyndar ekki co2 meðan þær eru í rekstri en nægt magn af því við framleiðsluna, frá hráefnatöku til fullbúinnar vindtúrbínu. Þá er mikil co2 mengun við reisningu þessara mannvirkja, vegagerð að byggingasvæði, plön og kranar auk flutninga frá hafnasvæði að virkjanasvæði og allri steypu frá steypustóð að virkjanasvæði. Þetta veldur einnig raski á jarðvegi, sem mun stuðla að aukinni losun co2 og það sem þó er verra, að vatnasvið heiðanna breytist þannig að heiðartjarnir munu þorna upp. Því er fátt sem getur skaðað líffræðilega fjölbreytni landsins okkar meira en vindorkuver. Við höfum ekki heimild til að fórna landinu á þann hátt, okkur ber skylda til að skila því eins góðu og í mannlegu valdi stendur, til afkomenda okkar.
Því fagna ég þessari áherslu umhverfisráðherra og vona að alvara liggi þar að baki.
Náttúrunni verður ekki bjargað með því að fórna henni
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 09:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Vanhæf sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar
23.3.2025 | 01:45
Transition Labs (TL) er alþjóðlegt fyrirtæki. Þetta fyrirtæki á aftur nokkur undirfyrirtæki sem sinnir ýmsum störfum. Þau sem við kannski þekkjum best, af þeim fyrirtækjum sem TL á eru Runnig Tide (RT) og Röst auk minna þekkts fyrirtækis er nefnist Transition Park og er það sagt í sameign með Akranesbæ.
RT þekkja flestir, enda saga þess hreint með ólíkindum. Óþarfi er að tíunda þá sorgarsögu hér. Transition Park er aftur eitthvað sem fæstir þekkja og spurning hvort það tengis sorgarsögu RT eða hvort það er angi af Röst.
Þessi pistill er aftur fyrst og fremst um Röst og áætlanir þess til að dæla vítissóda í Hvalfjörðinn.
Ekki kemur fram á heimasíðum TL eða Rastar hvenær Röst var stofnuð en með nokkurri leit má sjá að fyrstu fréttir í fjölmiðlum af því fyrirtæki eru þegar tilkynning um ráðningu forstjóra þess kemur fram, eða undir lok febrúar 2024, fyrir rétt rúmu ári síðan.
Litlar fréttir eru af þessu fyrirtæki framanaf, en þó einhverjar. Það er ekki fyrr en grein um áætlanir þessa fyrirtækis kemur í blöðin, skrifuð af leigutaka Laxár í Kjós, sem alþjóð fær að vita um hvað málið snýst. Að menga eigi Hvalfjörðinn með vítissóda.
Saga þessa fyrirtækis, þó stutt sé, er hreint með ólíkindum og sýnir vel hvernig fyrirtæki vinna sem ætla að gera eitthvað sem ekki getur með nokkru móti talist eðlilegt eða skynssamlegt.
Forstjórinn er sóttur til Landverndar, oddvita Hvalfjarðarsveitar er boðin stóll í stjórn Rastar og það fyrirtæki sem á að standa vörð um hafsvæðin okkar og hafa eftirlit með að því sé ekki ógnað, er keypt til að gera umhverfismat um málið. Þannig telur fyrirtækið sig vera búið að binda alla þá enda sem hugsanlega gætu raknað upp í þeirra áætlunum. Sennilega lært eitthvað af RT ævintýrinu.
Þann 24. apríl 2024, er lagt fram erindi til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá TL um boð til setu í stjórn Rastar. Ekki kemur fram í erindi TL að dæla eigi vítissóda í Hvalfjörðinn, einungis talað um að basa, sem vissulega er fallegra orð á sama hlut. Ekki er víst að allir hafi kveikt á hvað þarna var raunverulega verið að tala um. Alla vega var samþykkt samhljóða tillaga oddvitans um að tilnefna sjálfa sig í stjórn Rastar. Þar með er sveitarstjórnin búin aðð gera sig vanhæfa til að fjalla frekar um málefni Rastar eða ætlanir þess fyrirtækis.
Næst er rætt um þetta fyrirtæki á vettvangi sveitarstjórnar þann 26. febrúar 2025. Þar er tekið fyrir umsagnarbeiðni um leyfisveitingu utanríkisráðuneytisins til Rastar á rannsóknarleyfi. Sem fyrr er sveitarstjórn samhljóða um þá leyfisveitingu. En nú vanhæf.
Hafrannsóknarstofnun er sú stofnun sem á að sjá til þess að verja hafsvæðið umhverfis landið okkar, vera eftirlitsaðili með að því sé ekki ógnað. Eftir sem áður gerði það tilboð í rannsóknir á Hvalfirðinum, fyrir einkafyrirtækið Röst. Fyrir lá hverjar hugmyndir fyrirtækisins voru og rannsóknin miðaði að því. Röst segist hafa "valið" Hafró til verksins, en auðvitað var það gert til að losna undan afskiptum þeirra á síðari stigum. Fyrir þessa keyptu skýrslu fékk Hafró greitt 100 milljónir króna, í tvennu lagi. Eftir gerð skýrslunnar réði Röst starfsmann frá Hafró til sín.
Þarna er Hafrannsóknarstofnum einnig búið að gera sig vanhæft til að fjalla um málið, fyrst með því að taka að sér þessar rannsóknir, en ekki síður fyrir að taka háar fjárhæðir fyrir vikið.
En um hvað snúast þessar svokölluðu rannsóknir og hvers vegna hér á landi?
Röst ber því við að Hvalfjörðurinn henti sérstaklega vel til verksins vegna strauma og lífríkis. Rannsóknin á að fara fram innst í firðinum, þar sem straumur er einna minnstur. Hvað lífríkið varðar þá er hellst að sjá að tilraunin snúist um hversu mikið af því skaðist við losun vítisódans. Þessi rök halda því vart miðað við að sagt er að þetta muni ekki hafa nein áhrif á lífríkið og straumur nánast enginn innst í firðinum. Auðvitað hefði verið hægt að gera þessa tilraun hvar sem er í heiminum, en ekki víst að kostnaður við að kaupa velvildina og leyfin væru jafn ódýr og hér. Þægilegir stólar og 100 milljónir myndu duga skammt ytra.
Um sjálfa rannsóknina er erfitt að ráða. Fyrstu tölur sem nefndar voru sögðu okkur að sleppa ætti allt að 30 tonnum af 4,5% vítissódablöndu, eða um 1,35 tonni af hreinum vítissóda. Nú er rætt um 200 tonn af 4,5% vítissódablöndu, eða um 9 tonnum af hreinum vítissóda! Hvað verður þegar á hólminn er komið er enn óvitað.
Kannski gerir fólk sér ekki grein fyrir þessu magni, en svona til að setja það í smá samhengi þá er um að ræða sem svarar um 20 olíubílum fullum af blönduðum vítissóda eða sem svarar 15 áburðapokum af hreinum vítissóda. Þetta magn er því líkt að ekki er með nokkru móti hægt að fullyrða að það hafi ekki áhrif á lífríkið, reyndar nokkuð víst að stór skaði mun hljótast af.
Röst setur nokkurn varnagla fyrir þessu á heimasíðu sinni. Þar er sagt að magnið sem á að sleppa af vítissódanum í fjörðinn sé talið fyrir neðan þau mörk að það hafi áhrif á lífríkið. Það er ekki fullyrt heldur talið. Það er semsagt ekki vitað - ennþá.
Einnig kemur fram á heimasíðu Rastar að fyrirtækið sjálft ætli að sjá um vöktun, meðan rannsókn fer fram og eftir hana. Því mun sein fréttast ef eitthvað fer úrskeiðis og svo þegar skelfingin uppgötvast er bar hægt að segja "sorrý".
Það sem eftir stendur er að sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar er með öllu vanhæf til að fjalla um mál Rastar. Þar veldur sú ótrúlega heimska sveitarstjórnar að samþykkja setu oddvita í stjórn fyrirtækisins.
Náttúrunni verður ekki bjargað með því að eyða henni.
Vindorkuver í Fljótsdalshreppi
26.10.2024 | 18:35
Til umsagnar hjá skipulagsstofnun er matsáætlun um vindorkuver í Fljótsdalshreppi.
Mat þetta er á margan hátt illa unnið og í sumum tilfellum rangt. Þá er staðreyndum hnikað svo áhrif vindorkuversins geti talist minni en þau í raun eru. Ekki er tekið á öllum þáttum sem fylgja vindorkuverum.
Þarna er áætlað að byggja vindorkuver með 50 vindtúrbínum, hverri með allt að 7 MW uppsett afl, samtals uppsett afl upp á 350 MW. Hæð hverrar vindtúrbínu er sögð um 200 metrar miðað við spaða í efstu stöðu. Því er ljóst að sjónmengun mun verða töluverð. Í skýrslunni er hins vegar gert lítið úr þessari sjónmengun og einna líkast að matið hafi farið fram bak við tré. Þó verður að segja að erfiðara er að átta sig á að á Egilsstaðaflugvelli, þar sem einn matsstaður sjónmengunar er, skuli sjónmengun vera talin lítilsháttar. Á milli vindorkuversins og þess staðar eru engin tré, einungis fallegur Lögurinn. Fleira má nefna í þessum dúr, þar sem minna er gert úr áhrifum en raun verður, enda stór hluti skýrslunnar lagður undir þetta atriði. Þá er haldið þeim möguleika að hægt verði að auka afl vindorkuversins upp í 500 MW. Ekki sagt með hvaða hætti en þar koma tveir möguleikar til. Annar er að fjölga túrbínum úr 50 í 72, eða að velja stærri túrbínur, með uppsettu afli upp á 10 MW. Þær eru auðvitað mun hærri og að öllu leyti umfangsmeiri. Þar sem þessi möguleiki er nefndur og miðað við að þetta verði innan þess virkjanasvæðis sem skýrslan fjallar um er ljóst að síðari kosturinn er líklegri. Hvor kosturinn sem valinn verður, þá er þessi skýrsla marklaus.
Á mynd 3.2 er klassísk fölsun á stærðarhlutföllum sett fram. Þar er teikning af vindtúrbínu, húsi fyrir safnstöð og bíl. Ef vindtúrbínan á þeirri mynd er 200 metra há, eins og skýrslan gerir ráð fyrir, er þetta einnar hæða hús um 8 metrar á hæð og bíllinn fyrir utan það3,5 metrar á hæð. Reyndar má ætla að hlutföllin séu enn skakkari, þar sem að á myndinni er hægt að sjá að húsið og bíllinn er nokkuð fjær en sjálf vindtúrbínan. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem svona rangfærslur eru settar fram, virðast frekar regla en undartekning.
Varðandi sjálfa framkvæmdina er ljóst að áætlanir um fjölda þungaflutninga er vanáætlaður, jafnvel þó hvert æki er talið geta orðið allt að 150 tonn. Ekki er tiltekið hversu miklir flutningar verða vegna steypu í undirstöður, einungis að þær muni verða um 600 m2 undir hverja vindtúrbínu. Samkvæmt heimasíðum vindtúrbínuframleiðenda þarf sökkullinn að vera að minnsta kosti 4 metra djúpur, fyrir túrbínur af þessari stærð. Það gerir því 2000 m3, eða 5000 tonn af steypu undir hverja túrbínu. Þetta segir að það fara um 16,600 steypubílar, einungis í undirstöðurnar. Akstur þeirra má auðvitað takmarka með því að setja upp steypustöð á svæði, þó ekki sé minnst á þá lausn, en engu að síður þarf þá að aka hráefnum að þeirri stöð. Þannig mætti minnka það magn sem þarf að aka á svæðið úr 250.000 tonnum niður í 200,000 tonn, vegna steypunnar. En þessi kostur er ekki nefndur í skýrslunni.
Það er því ljóst að gífurlegir þungaflutningar munu liggja inn veg 931, sem er einungis sveitavegur. Hann er fjarri því að bera þennan þunga, reyndar engir vegir á Ísandi færir um það. Því þarf, ef þessi framkvæmd á að geta orðið, að endurbyggja veg 931 frá grunni. Hver á að gera það? Vegagerðin? Á að taka fé úr sveltandi ríkissjóð til að hægt sé að reisa vindorkuver sem liggur fyrir að muni aldrei getað borgað sig? Lítið er um þetta rætt í skýrslunni, einungis talað um að gera þurfi mat á því hvort vegurinn geti borið þessa umferð. Það má spara þann pening, það er víðs fjarri að að sá vegur geti borið þann þunga sem talað er um eða þá miklu umferð sem tengist þessari framkvæmd.
Í skýrslunni kemur fram að orkan sem þetta vindorkuver er ætlað að framleiða er ætluð til framleiðslu á rafeldsneyti. Sú verksmiðja þarf 250 MW stöðuga orku. Hvaðan á sú orka að koma, þegar rómaða lognið leggst yfir Fljótsdalinn? Ekki getur Fjarðarál verið stuðpúði fyrir það ástand og ekki er nein umframorka til í kerfinu. Því verður væntanlega að virkja vatnsorku einhversstaða svo þessi verksmiðja geti orðið að veruleika. Sú virkjun verður að getað skaffað a.m.k. 250 Mw. Engu breytir að fjölga vindtúrbínum á fljótsdalnum, sama hversu margar þær verða eða stórar. Þær stoppa allar ef ekki blæs! Það er eiginlega óskiljanlegt að einhverjum detti til hugar að ætla að byggja verksmiðju sem rekin verður á ótryggri orku. Þarna hlýtur eitthvað annað að búa að baki.
Lítið er rætt um áhrif vindorkuversins á dyralíf á svæðinu, einungis sagt að skoða þurfi betur þá þætti. Það hefði kannski verið betra að einmitt þeir þættir hefðu verið skoðaðir vandlega, áður en þessi skýrsla er lögð fram. En sennilega treysta verkkaupar skýrslunnar á að svo langt verði komið í ferlinu, þegar loks verður séð hver þau áhrif verða, að ekki verði aftur snúið. Það ætti ekki að vera mikið mál að afla upplýsinga erlendis frá um þessi áhrif. Það er t.d. vitað að það féll dómur í Noregi um loka skyldi vindorkuveri vegna áhrifa þess á hreindýr. Þá er einnig vitað að vilt dýr forðast að vera í nálægð vindorkuvera, einkum vegna lágtíðnihljóða frá þeim, hljóða sem mannseyrað nemur ekki en fjöldi annarra dýra er berstrípuð fyrir.
Það sem ekki er sagt.
Nýlega varð slys í nýlegri vindtúrbínu í Noregi. Gírkassinn tók að leka og fóru um 450 l af olíu niður í arðveginn. Hvernig er okkar viðkvæma náttúra, þar sem gróður berst við náttúruöflin, í stakk sett til að takast á við slíka ábót? Staðreyndin er að spaðar vindtúrbínu er látnir snúast sem næst 15 hringjum á mínútu. Þessu er stýrt með skurði blaðanna og ef vindur fer yfir ákveðin mörk er túrbínan stöðvuð. Þetta virðist ekki mikið, en þegar spaðarnir eru orðnir yfir 80 metrar á lengd er hraði þeirra við ytri enda orðinn geigvænlegur. En rafallinn þarf að ná a.m.k. 1800 snúningum á mínútu. Til að það sé gerlegt er notast við risastóra gírkassa, sem auka hraðann frá spöðum að rafal. Þessir gírkassar þurfa olíu og skipta þarf þeirri olíu út reglulega. Ef slys verður, annað hvort við skipti á olíunni eða ef gírkassinn sjálfur fer að leka, sér lögmál Newtons um hvert olían fer. Þá má ekki gleyma því að í hverri vindtúrbínu er spennir og hann þarf einnig olíu. Vandinn við þá olíu er að hún getur orðið geislavirk. Það er því ljóst að olíumengun frá vindtúrbínum er til, reyndar nokkuð algeng. Ekkert er minnst á þetta í skýrslunni.
SF6 gas, eða Sulfur hexafluoride, er gas sem er notað til kælingar á rofum í vindtúrbínum. Frá því vindorkuverum tók að fjölga verulega í Þýskalandi hefur orðið töluverð hækkun á mældu gildi þessarar gastegundar þar. SF6 gas er talið 26000 sinnum öflugri gróðurhúsagastegund en t.d. lífsandi okkar, Co2. Auk þess er endingatími SF6 einhver þúsund ár. Það er ekki neitt talað um þetta í skýrslunni, hvorki sjálfan vandann né hvort til standi að vakta þessi gildi. Reyndar er vöktun svo sem ekki neitt annað en að vitneskja um að skaðinn er skeður, kannski betra að láta hann ekki verða.
Nefndi áður lágtíðnihljóð frá vindorkuverum. Rannsóknir sýna að það hefur ekki einungis áhrif á þær skepnur sem heyra það, heldur getur það verið hættulegt mannskepnunni einnig. Áhrif þess hafa mælst um 15 km frá orkuveri. Þetta er orðið mikið vandamál t.d. í Hollandi, þar sem fólk er farið að flýja hýbýli sín. Ekkert er minnst á þetta í skýrslunni.
Það sem þó kemur mest á óvart er að hvergi er minnst á örplastmengun frá vindtúrbínum. Sumir reyna að gera lítið úr þeirri mengun en í þessari skýrslu er hún ekki nefnd. Örplastmengun er einhver hættulegasta mengun sem herjar nú á heimsbyggðina. Af þeirri ástæðu var t.d. skylda að festa alla plasttappa við flöskur og fernur, svo þeir skiluðu sér aftur í endurvinnslu. Spaðar vindtúrbína er að mestu gerðir úr trefjaplasti, þ.e. glertrefjar eru bundnar saman með epoxy plasti og húðaðar með sérstakri plasthúð. Þetta plast eyðist af með tímanum, misjafnt eftir veðurálagi, uns komið er inn í glertrefjarnar. Reynslan erlendis er að þetta taki kringum 10 ár, en þá er spöðum skipt út fyrir nýja. Einhver misskilningur er að glertrefjarnar séu hættulegastar. Vissulega eru þær hættulegar meðan þær eru enn glertrefjar, en síðna brotna þær niður og verða að sinni upphaflegu mynd, sandi. Það er hins vegar epoxyið og varnarlagið sem er hættulegt. Það er pjúra plast og trosnar af sem ósýnileg mengun er fellur ekki bara næst vindorkuverinu, heldur getur fokið langan veg uns það lendir. Þar fer það inn í flóruna, samlagast vatninu og skepnur og menn innbyrða það með ófyrirséðum afleiðingum.
Það verður alltaf ljósara og ljósara hversu mikill skaðvaldur vindorkuver eru fyrir náttúruna. Sjónmengun er auðvitað hlutlæg en hefur sannarlega neikvæð áhrif á ferðaþjónustu. Fasteignaverð lækkar þar sem slík orkuver rísa og fleira má nefna er tengist sjónmenguninni. Olíumengun er eitthvað sem menn setja ekki í samhengi við vindorkuver, en er þó töluverð í þeim bransa. SF6 mengun er einhver hættulegasta mengun fyrir andrúmsloftið og ekki nein leið að sjá fyrir endann á henni. Örplastmengun er einhver mesta vá er mannkynið stendur frammi fyrir og miklir fjármunir lagðir til að reyna að vinna bug á henni. Ekkert er þó öflugra að vinna gegn okkur á því sviði en einmitt vindorkan. Ekki einungis meðan spaðar eru í notkun, heldur ekki síður þegar þeim er fargað. Ekki hefur fundist raunhæf leið til endurvinnslu þeirra. Allar þær leiðir sem reyndar hafa verið byggja á enn meiri mengun, bara á öðrum sviðum. Því hefur sú leið verið valin að urða þá, þar sem plastið úr þeim leysis smám saman upp og verður að örplasti sem fer inn í lífskeðju heimsins.
Því má segja að fáar ef nokkra aðferðir til að vinna raforku sé jörðinni skaðlegri en vindorka og kannski réttnefni að tala um örplastverksmiðjur.
Við björgum ekki náttúrunni með því að fórna henni!
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 18:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Flestir læra af fortíðinni, öðrum er það fyrirmunað
24.10.2024 | 00:12
Eitt það besta í fari mannskepnunnar er að geta lært af fortíðinni. Þannig hefur okkur tekist að komast á þann stað sem við erum nú, þannig hefur þróun mannskepnunnar orðið til. En sumir hafa ekki þennan eiginleika, er fyrirmunað að nýta sér þá visku sem fortíðin gefur okkur.
Fyrir nokkrum misserum komu erlendir aðilar til Íslands, í þeim tilgangi að koma sínum draumum í verk. Sá draumur var um að bjarga heimsbyggðinni. En þetta var bara draumur og eftir að hafa flutt hingað mikið magn af tréflís frá norður Ameríku, landað henni hér, skipað aftur á pramma og flutt hálfa leið til baka aftur og sturtað þar í sjóinn, vöknuðu menn upp við að þetta var enginn draumur, heldur martröð. Þáverandi bæjarstjóri Akraness var þessum mönnum til halds og trausts og greiddi veg þeirra. Var duglegur að mæra verkefnið. Taldi það gullsígildi fyrir heiminn og ekki síst nærsamfélagið sitt.
Nú er bæjarstjórinn orðinn forstjóri Orkuveitunnar. Ekki er hægt að sjá að hann hafi lært mikið af martröðinni. Hann er enn í draumheimum, eins og ekkert hafi í skorist. Nú er það ekki 8000 manna bæjarsjóður sem hann er að gambla með, heldur fjöregg okkar hér á suðvesturlandi, sjálfa Orkuveituna. Leggur hana og lífsafkomu hundruð þúsunda að veði í nýtt tilraunaverkefni sem er engu vitlegra en flísaævintýri Running Tide.
Það efast enginn um að hægt er að binda co2 í berg, langt niður í iðrum jarðar. Þetta er þegar gert í litu mæli. Hvort hægt er að binda það mikla magn sem til stendur að dæla í iður jarðar við Hafnarfjörð er allsendis óvíst. Um það snýst þessi tilraun. Ekki er einungis um mikið magn af co2 ásamt eiturefnum frá erlendum iðnfyrirtækjum, heldur er það vatn sem nota skal til niðurdælingarinnar af þeirri stærðargráðu að með ólíkindum er ef það hefur ekki áhrif á berggrunninn. Berggrunn sem er nærri virkum eldstöðvum. Enn eru sömu rök notuð, þetta er svo gott fyrir heimsbyggðina og ekki síst nærsamfélagið. Jafnvel farið að nefna háar upphæðir í gróða og byrjað að eyða honum.
En hvers vegna að dæla CO2 niður í jörðina og umbreyta í einhverjar steineindir? CO2 er dýrmætt vara og á bara eftir að aukast að verðgildi. Vistvænt eldsneyti er eitt af því sem heimurinn kallar eftir og þar kemur CO2 sterkt inn, enda einfalt að vinna eldsneyti úr þeirri afurð. Þá er þetta eitt af grunnefnum til að auka græna matvælaframleiðslu, sem íslenskir bændur nýta til að dæla inn í gróðurhús sín. Og ekki má gleyma öllum gosdrykkjunum sem við erum svo dugleg að drekka.
Stærsti markaðurinn fyrir CO2 verður þó til eldsneytisframleiðslu. Ekki víst að Orkuveitan geti keppt við þann markað. Hvað þá? Hvað ætlar Orkuveitan að gera ef verð á þessari auðlind hækkar meira en þeir ráða við? Hverjir þurfa þá að taka skellinn? Jú, þeir sömu og þurftu að taka skellinn vegna risarækjuverkefnis fyrirtækisins, þó sá skellur væri sem blíðasta klapp miðað við Carbfix ævintýrið.
Nú er það svo að CO2 í andrúmslofti hefur hækkað um fjórðung á stuttum tíma. Hvort það er gott eða slæmt eru vísindamenn ekki sammála um. Hitt er vitað að magn þessa lífsanda var kominn hættulega neðarlega, svo neðarlega að ef það hefði lækkað að sama skapi og það hækkaði, væri líf sennilega ekki lengur til staðar á jörðinni. Hugmyndir um eldsneytisframleiðslu úr þessum lífsanda okkar eru komnar lengra en margan grunar og kannski mun það verða jörðinni hættulegast. Að svo mikið af CO2 verði unnið úr andrúmsloftinu að líf geti ekki þrifist.
![]() |
Fjögur stórverkefni OR: 350 milljarðar til Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 03:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þingmenn hafðir að fíflum
24.9.2024 | 00:28
Það eru gömul sannindi að með aldri eykst viska. Menntun eykur hins vega þekkingu og ungt fólk getur haft góða þekkingu á ákveðnum sviðum. Best er þegar þetta tvennt fer saman, en því miður er ekki alltaf svo.
Þetta skaut upp í huga minn þegar bókun 35 við EES samninginn var tekin á dagskrá. Þeir sem voru komnir til vits og ára er sá samningur var samþykktur af Alþingi, með minnsta mögulega meirihluta, vita hver aðdragandi þess samning var. Þeir vita líka hver ástæða var fyrir frestun á samþykkt þeirrar bókunar. Þar voru ekki gerð mistök, heldur var frestunin gerð með vitund og vilja. Þannig og einungis þannig var hægt að fá samninginn samþykktan af Alþingi. Hvers vegna? Jú, vegna þess að ef sú bókun hefði verið samþykkt var komið skýrt brot á stjórnarskrá Íslands. Strax í kjölfarið hófst aðförin að stjórnarskránni. Að nauðsynlegt væri að breyta henni og ýmsar ástæður nefndar, þó að baki lægi alltaf sú hugsun að hægt yrði að uppfylla EES samninginn að fullu, þ.e. að Alþingi gæti samþykkti bókun 35.
Þetta vita allir þeir sem eru komnir til vits og ára í upphafi tíunda áratug síðustu aldar. Sumir vilja hins vegar ekki kannast við það en þar spila auðvitað pólitíkin inní. Aðalhöfundur samningsins, Jón Baldvin Hannibalsson, hefur staðfest þetta.
Nú liggur fyrir Alþingi að samþykkja bókun 35 við EES samninginn. Sagan að baki virðist gleymd flestum þingmönnum, enda kannski von. Flestir þingmenn í dag voru enn á skólaskyldualdri er EES samningurinn var samþykktur og sumir jafnvel ekki fæddir. Sjálfur flutningsmaður þess að samþykkja þessa bókun var þá á leikskólaaldri og því með öllu óþekkt þeirri umræðu sem fram fór. Því þurfa þessir þingmenn að treyst á aðkeypta þekkingu um málið, viskan er ekki til staðar. Þekking er þó aldrei betri en þess er hana gefur og því miður er vilji til að hlusta á ráðgjöf þeirra sem yngri eru rík hjá yngra fólki, hlusta á ráðgjöf þeirra sem hafa ákveðna þekkingu en eiga eftir að öðlast visku. Þetta leiðir til þess að oftar en ekki getur þekking verið valkvæð, þó viskan sé alltaf sönn.
Því mun Alþingi, samansett að stórum hluta af fólki sem ekki hefur visku um málið, ákveða hvort samþykkja skal þessa bókun. Það sem kannski er óhugnanlegast við það er þó að allir þingmenn sverja eyð að stjórnarskránni okkar. Henni hefur ekki verið breytt ennþá svo hægt sé að samþykkja bókunina og því jafn brotlegt við hana nú og var árið 1992. Því er næsta víst að Hæstiréttur mun þurfa að skera úr um lögmæti samþykktarinnar. Sá úrskurður getur aldrei fallið nema á einn veg.
Sumir ráðherrar okkar hafa lýst því yfir að bókun 35 við EES samninginn muni engu breyta. Hví er þá áherslan nú svo mikil á að samþykkja bókunina?
Þegar orkupakki 3 var samþykktur af Alþingi, þurfti að setja inn ákvæði um að enginn sæstrengur yrði lagður frá landinu, nema með samþykki Alþingis. Að öðrum kosti náðist ekki samkomulag um samþykki orkupakkans. Flestir telja þetta ákvæði marklaust, þar sem öll lög og allar reglugerðir orkupakka 3 voru samþykkt. Þar á meðal að yfirráð yfir flutningi á raforku milli landa væru færð ACER, orkustofnunar ESB. Aðrir telja að þetta ákvæði standi, enda samþykkt af Alþingi, æðsta valdi hér á landi. Líklegt er að á þetta muni reyna fyrir dómstólum.
Eftir samþykkt bókunar 35 mun ekki þurfa að fara með málið fyrir dómstóla. Þá verður þetta ákvæði sjálfkrafa marklaust. Þá þarf ekki að deila um hvort lagapakkinn sem fylgdi orkupakka3 væri fullgildur hér á landi. Þá væri greið leið fyrir hvern sem er að leggja héðan sæstrengi í fleirtölu, svo flytja megi sem mest af raforku til meginlandsins.
Þetta er frumástæða þess að hér sé hægt að fara í þá gífurlegu uppbyggingu á vindorkuverum sem plön eru um. Tenging okkar við meginlandið veldur því að raforkuverð hér verður tengt orkuverði við hinn enda strengjanna, mun því margfaldast. Þannig og einungis þannig er einhver glóra í að virkja vindinn hér á landi. Það orkuverð sem hér er gerir slíkar áætlanir að engu og jafnvel þó einhverjum langi að sóa sínu fé í slíka framkvæmd er hún dauðadæmd. Þegar vindur blæs mun þvílíkt magn orku verða til að okkar lokaða kerfi yfirfyllist af rafmagni og samkvæmt rökum utanríkisráðherra fyrir samþykkt orkupakka 3, um dásemd markaðslögmálsins, mun orkuverð falla niður á núllið. Því er frumforsenda þess að hér megi fórna landinu undir vindorkuvar, að lagðir verði sæstrengir til meginlandsins.
Kannski er það einmitt ástæða þess ofsa ráðherranna að samþykkja bókun 35, að þannig verði að engu gerður sá varnagli sem stjórnvöld neyddust til að setja svo orkupakki 3 fengi samþykki sitt. Svo greiða megi leiðina fyrir vindorkuverum og fórn landsins.
Að verið sé að hafa þingmenn að fíflum!
Þjóðin ber vissulega skaðann
13.9.2024 | 23:39
Fyrir það fyrsta þá er vindorka, með þeirri tækni sem til er í dag, fjarri því að teljast "græn orka". Er mjög mengandi, bæði sjónrænt en ekki síður fyrir umhverfið. Af því mun þjóðin bera skaða!
Það er hins vegar alvarlegt þegar ráðherra hefur í hótunum, vegna þess að lögin eru honum ekki þóknanleg. Það er mjög alvarlegt mál.
Við lifum enn í lýðræðisríki og því fylgir að hver sem telur á sér brotið, eða brotið á þeim hagsmunum sem þeir vinna fyrir, geti leitað til dómstóla, þegar aðrar leiðir hafa verið fullreyndar. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps hefur á öllum stigum málsins mótmælt áformum um vindorkuver Landsvirkjunar. Á þau mótmæli hefur ekki verið hlustað né reynt að bera klæði á deiluna. Ætt áfram eins og naut í flagi. Því var einungis eitt eftir í stöðunni, að kæra.
Náttúruverndarsamtök vöknuðu loks til lífsins um skaðsemi vindorkunnar. Þaðan hafa komið athugasemdir við skipulagstillögur vindorkuvera. Enn er ekki hlustað og því síðasta hálmstráið að kæra framkvæmdina.
Allra alvarlegast er þó að enn er Alþingi ekki búið að samþykkja nein lög um hvort eða hvernig staðið skuli að vindorkumálum hér á landi. Því er ekki hægt að segja hvort farið sé að lögum við þessi áform, eða ekki. Á meðan er fráleitt að gefa leyfi til framkvæmda.
Kærurnar snúa því ekki að því hvort lög um byggingu vindorkuvera hafi verið brotin, heldur að vernd náttúrunnar. Að ráðherra skuli ætla að breyta lögum svo auðvelda megi spillingu hennar er háalvarlegt mál.
Slíkur ráðherra er sannarlega skaðlegur fyrir þjóðina og okkar fagra land!
Það er ekki hægt að bjarga náttúrunni með því að fórna henni.
![]() |
Þjóðin ber skaðann af þessari framgöngu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lægra verður vart komist
13.9.2024 | 09:47
Hvert eru stjórnvöld að leiða þjóðina?
Þegar ríkissjóður er rekin með lánum er lofað stórkostlegum upphæðum til framkvæmda sem ekki er séð fyrir hvað muni að endingu kosta og enn síður hver síðan rekstrakostnaðurinn verður. Alls hefur verið gefið loforð fyrir 311 milljörðum til gæluverkefnis á höfuðborgarsvæðinu. Hægt hefði verið að leysa þann vanda með mun ódýrari lausnum og að auki mun hraðar. Þegar loforðið um 311 milljarðana var gefið var jafnfram tekið fram að þetta yrði ekki endanleg upphæð, hún muni hækka. Hversu mikið veit enginn.
Svo virðist sem ráðamenn kikni í hnjánum ef einhver kemur með hugmyndir til bjargar heiminum. Því fáránlegri, því betri í eyrum ráðamanna. Nýlega trosnaði upp slík svikamilla er snerist um að flytja hingað tréflís frá vesturheimi og sigla með hana hálfa leið aftur til baka og sturta í sjóinn. Kannski ekki stórar upphæðir sem Íslendingar lögðu fram í því rugli, en ríkis- og sveitastjórnir gerðu allt til að styrkja þetta fráleita verkefni. Jafnvel svo að þegar eftirlitsstofnanir, sem lögum samkvæmt áttu að fylgjast með verkefninu gerðu athugasemdir, tók ráðherra fram fyrir hendur þeirra og beitti ráðherra valdi gegn þeirri stofnun. Sá ráðherra vermir nú forsætisráðherrastólinn. Þó fjárhagslegt tap okkar hafi kannski ekki verið stórt, varð trúveruleiki okkar á alþjóðavelli vart bættur.
Og nú á að fara að dæla niður co2 ´jörð undir Hafnafjörð. Til þess skal notað vatn af þeirri stærðargráðu sem erfitt er að gera sér í hugarlund. Á hverju ári magni sem nemur 7,5 metum ofaná Hafnafjarðarbæ og það skal gert í a.m.k. 30 ár. Aðstandendur þessa verkefnis segja þetta engin áhrif hafa á landið. Fyrir það fyrsta er vatn auðlind sem er takmörkuð um heiminn, þó við getum enn stært okkur af gnótt hennar. Að taka 75000 m3 af þeirri auðlind á ári, í 30 ár og dæla niður í jörðina er hrein og klár sóun, svo ekki sé meira sagt. Hitt er aftur öllu verra en það er hvaða áhrif slíkt magn hefur á jarðskorpuna. Að halda því fram að allt þetta magn af vatni, sem dælt er niður í berglögin, hafi engin áhrif á jarðskorpuna er í besta falli barnalegt. Þvílíku magni af vatni hefur aldrei verið dælt niður í berglögin, hvorki hér á landi né annarsstaðar. Þetta er því tilraunaverkefni og því útilokað að hægt sé að fullyrða um áhrif þess.
Nú er talað um að leggja nýjan gagnastreng til vesturheims, svo hægt verði að setja hér upp fleiri gagnaver. Þetta er ákveðið á sama tíma og okkur er talin trú um að orkan í landinu sé af skornum skammti. Gagnaver nærist eingöngu á raforku. Fá störf eru tengd þeirri starfsemi og afraksturinn fluttur beint úr landi, Skilja ekkert eftir sig. Eftir þessu hlaupa ráðamenn okkar, í stað þess að leitast til að nýta orkuna okkar til einhverrar verðmætasköpunar fyrir tómann ríkissjóð.
Raforka er eitthvað sem við getum stært okkur af. Hrein og tær orka, þar til orkuverin selja hreinleikann úr landi. Kringum þá vitleysu hefur orðið til heljarinnar batterí, ekki bara hreinleika orkunnar okkar, heldur hvað það sem hægt er að telja mönnum trú um að sé seljanlegur hreinleiki. Hvort heldur það kemur frá trjám eða einhverju öðru. Nú er ESB að rannsaka Kínverja fyrir blekkingaleik í þessum málum. Það gæti reynst örðugt, þar sem allt málið er einn blekkingaleikur. Það á kannski ekki hvað síst við um sölu okkar á hreinleika orkunnar til annarra landa, af þeirri einföldu ástæðu að útilokað er fyrir okkur að afhenda okkar hreina rafmagn til þeirra kaupenda. Spurning hvort ESB fari ekki að skoða þetta skjalafals eitthvað nánar.
Um vindorku hef ég skrifað oftar en mig langar til. Vildi gjarnan að sá kaleikur yrði tekinn frá mér. Það mun þó ekki gerst fyrr en slík orkuframleiðsla fær bann hér á landi. Því miður mun skaðinn þá verða skeður. Hvergi í heiminum er hægt að reka vindorkuver með hagnaði, jafnvel þó orkuverð sé margfalt hærra en hér á landi og vinnslan ríkisstyrkt með háum upphæðum. Samt vilja ráðamenn hér fara í þetta feigðarflan. Í stað þess að draga lærdóm af mistökum annarra ætla þeir freka að fylgja þeim í forarpyttinn. Nú er svo komið að flest vindorkuver sem enn lifa erlendis hafa stöðvað tímabundið eða alveg frekari stækkanir. Þar kemur einkum til hinn ævintýralegi kostnaður við þá orkuöflun. Auðvitað mun koma að þeim tímapunkti hér líka, að enginn vilji reisa hér vindorkuver, jafnvel þó ráðamenn kjósi svo. En þá verður skaðinn skeður, bara spurning hversu stór.
Landsvirkjun er komin með öll leyfi til að byggja fyrsta vindorkuverið á Íslandi. Reyndar liggur fyrir kæra á það verkefni, en Landsvirkjun hundsar hana. Þar með verður búið að stór skaða innganginn okkar að hálendinu, Sprengisandsleið og leiðinni inn á Fjallabak. Um þennan inngang fer fjöldi ferðamanna á ári hverju og ekki víst að upplifun þeirra verði jafn skemmtileg eftir að vindorkuverið rís. Annað vindorkuver er komið á lokasprettinn. Það er í landi eiginkonu barnamálaráðherrans og tengdaföður hennar. Vonandi mun vindorkuver Landsvirkjunar verða nægt til að augu almennings, en þó mun fremur augu ráðamanna opnist og það verði látið þar við sitja. Að skaðinn verði einungis bundinn við það svæði. Stór skaði en kannski óhjákvæmilegur úr því sem komið er.
Við erum fámenn þjóð í tiltölulega stóru landi, einangruðu frá stórveldum meginlandanna. Við eigum gnótt af auðlindum, Tært vatn, heitt vatn, fiskinn í sjónum umhverfis landið og síðast en alls ekki síst, fegurð landsins okkar. Þessar auðlindir ber okkur að verja og skila til afkomenda okkar.
Að nýta auðlindir er auðvitað nauðsynlegt. En það á þá ætið að gera á þann hátt að land og þjóð fái notið ávaxtanna. Okkur er talin trú um að orkuskortur sé í landinu. Má vera, en af hvaða orsökum? Skortur á orku verður auðvitað til þegar meira er selt en hægt er að framleiða. Þá vaknar sú spurning hvort verið er að selja orkuna til aðila sem litlu eða engu skila í þjóðarbúið, t.d. ganavera. Enn eigum við kosti til að auka orkuframleiðslu með vatnsafli og hitaorku. Þær aðferðir raska vissulega náttúrunni okkar en þó ekki nema brot að þeim skaða er vindorkan veldur. Og þar sem orkuauðlindin, eins og allar auðlindir, er takmörkuð, ber okkur skilda til að hugsa fyrst og fremst um framleiðslu hennar til arðbærra verkefna, verkefna sem skila aur í ríkissjóð. Þar erum við íbúar landsins auðvitað efstir á blaði og síðan fyrirtækin sem skaffa okkur vinnu og þjóðarbúinu tekjur. Aðrir eiga ekki að eiga aðgang að auðlindum okkar.
En ráðmenn okkar hugsa ekki svona. Þeim er skít sama um þjóðina. Mestu skiptir að koma vel fram á alþjóðavelli, eins og við séum eitthvert afl í umheiminum. Þvílíkur brandari. Ísland mun aldrei skipta neinu máli í heimspólitíkinni. Eigum nóg með okkur sjálf. Allar þær aðgerðir sem stjórnvöld vilja leggja peninga í. peninga sem þarf að taka að láni, skipta akkúrat engu máli, hvort heldur er til bjargar jörðinni frá stiknun, eins og fyrrum forsætisráðherra sagði á erlendri grundu, né til að afstýra einhverjum skærum eða styrjöldum milli annarra landa. Það er til lítils að aka um á rafbíl meðan farnar eru margar ferðir með flugi til útlanda. Það telst hræsni. Það dugir lítið að gleypa hvaða vitleysu sem er til að sporna gegn losun co2 í andrúmsloftið en versla sem vitfirringur vörur frá Kína, sem byggir hvert kolaorkuverið af öðru.
Ekki má gleyma þeirri staðreynd að mitt í þessu peningafylleríi og dekri við erlenda aðila, eru innviðir landsins að grotna niður. Vegakerfið er ónýtt, heilbrigðiskerfið er komið af fótum fram, skólakerfið í molum, aldraðir og öryrkjar búa margir langt undir sultarmörkum og sumir jafnvel á götunni. Ungafólki verður að búa í foreldrahúsum langt fram á aldur, vegna þess að það getur hvorki leigt né keypt sér húsnæði. Lægra verður vart komist!
Því miður er útlitið ekki gott. Stjórnvöld eru gjafmild á fé sem ekki er til, tekur erlend lán í gríð og erg sem afkomendur þurfa síðan að greiða.
Þá stefna stjórnvöld hörðum höndum að því að fórna auðlindum okkar. Náttúrunni verður aldrei bjargað með því að fórna henni.
Og hvað eigum við þá?
Hverju ætlum við þá að skila til afkomenda okkar?! Ónýtu landi án allra auðlinda og erlendar stórskuldir?
Umhverfismál | Breytt s.d. kl. 09:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)