Færsluflokkur: Menntun og skóli

Þjóðernissinninn Ég

Það er alveg sama hvernig á þetta mál er litið, það er útilokað fyrir Verslunarskólann að afsaka það. Þá skiptir engu máli hvort glæran er gömul eða ný, henni var varpað upp á vegg fyrir nemendur Verslunarskólans. Það kallast innræting og ekkert annað. Hvað halda kennarar skólans annars að þeirra verkefni sé, annað en að koma kennsluefni sínu inn í hugarheim nemenda?

En skoðum aðeins þessa mynd. Þarna eru Adolf Hitler, Benító Mussólíní og svo Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Hvað eiga þessir menn sameiginlegt? Akkúrat ekki neitt. Tveir þeirra einræðisherra og glæpamenn og sá þriðji þingmaður og um stuttan tíma forsætisráðherra Ísland.

Myndin sett saman og varpað á vegg fyrir nemendur í stjórnmálafræði, til að skapa umræðu um þjóðernisstefnu, segir skólastjórinn. Hvernig er eiginlega þjóðernisstefna skilgreind í þessum skóla? Hvað eiga Hitler og Mussolini skylt við þjóðernisstefnu? Einræðisherra getur aldrei orðið þjóðernissinni, hann hugsar það eitt að halda völdum, með öllum ráðum. Fórnar jafnvel þjóð sinni í þeim tilgangi. Hvernig er hægt að skilgreina slíka menn sem þjóðernissinna? Jafnvel Sigmundur Davíð kallast vart þjóðernissinni, þó hann sé kannski næstur þeirri stefnu af þeim íslensku þingmönnum sem nú sitja Alþingi. Flestir aðrir kikna í hnjánum og roðna þegar þeir eru ávarpaðir á erlenda tungu og eru tilbúnir að fórna bæði landi og þjóð fyrir það eitt að fá að snerta hönd þeirra er þannig tala. Þar skiptir einu hvort um stórklikkaða einræðisherra er að ræða eða ekki.

Það væri fróðlegt að vita hvernig þjóðernisstefna er kennd í skólum landsins í dag, sér í lagi Verslunarskólanum. Mér var kennt að þjóðerniskennd væri eitthvað sem tengdist því að þykja vænt um land sitt og þjóð, vilja standa vörð um þá eign. Er það glæpamennska? Eru það einræðistilburðir? Eða er kannski allt tal sem ekki þóknast ESB þjóðernistal?

Það er einn þjóðernissinni sem af ber í íslenskri sögu og sá maður var til langs tíma dáður af þjóðinni og skólar landsins, einkum á hærra menntastigi, héldu nafni hans á lofti. Mikil hátíð haldin á þeirra vegum á þeim degi er við kennum við hann. Þessi maður hét Jón Sigurðsson, sá er manna ötulast vann að sjálfstæði lands okkar og því að við gætum talist þjóð en ekki hjáleiga. Nú má helst ekki nefna hans nafn, án þess að vera kallaður þjóðernissinni og ekki má heldur hampa þjófánanum, án þess að fá sama stimpil.

Kallist þetta þjóðernisstefna þá er ég stoltur þjóðernissinni.

Þjóðernisstefna er ekki og á ekki að vera neikvætt hugtak, hún er jákvætt hugtak sem gerir þjóð að þjóð.


mbl.is „Enginn pólitískur áróður í skólanum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grímufólkið

Þjóðin virðist vera að skiptast í tvær fylkingar, þeir sem bera grímur og hinir sem ekki vilja bera grímur. Sjálfur er ég grímukall og skammast mín ekkert fyrir það. Er búinn að fá þrjár sprautur gegn covid og mun þiggja þá fjórðu strax og hún býðst.

Ástæðan er einföld, þegar að smitvörnum kemur þá treysti ég þeim læknum sem sérhæfa sig í smitsjúkdómum, rétt eins og ég treysti best heilaskurðlækni til að kroppa í heilann á mér, lögreglumanni til að hjálpa mér að fylgja lögum, lögfræðingi til að hjálpa mér frammi fyrir dómstólum, hagfræðingi til að segja mér til um hagfræði, loftlagsfræðingi til að segja mér um loftslag og svo framvegis. Eina stéttin sem ég ekki treysti eru stjórnmálamenn, enda eru þeir sem vindpoki á flugvöllum. Þegar vel blæs í þjóðfélagsumræðuna blása þeir út, eftir þeim áttum er umræðan blæs, þess á milli lyppast þeir niður og snúast í hringi. Vita ekki hvernig þeir eiga að haga sér. Hér á landi verður þó að hrósa þeim fyrir það að hafa borið gæfu til að fara eftir tillögum smitsjúkdómalæknis í þeim faraldri sem um heiminn geisar. Alla vega fram undir þetta, þó sjá megi kannski brotalöm þar á eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum.

Í siðuðu þjóðfélagi er ekki annað hægt en að treyst þeim sem menntun hafa á hverju sviði. Ef það er ekki gert má allt eins leggja niður menntastofnanir landsins. Það myndi sennilega engum detta til hugar að fá lækni til að flytja fyrir sig mál fyrir dómstóli, eða loftlagsfræðing til að krukka í heilann á sér. Hví ætti fólk Þá að treyst betur lögfræðingi en smitsjúkdómalækni, þegar að smitsjúkdómi kemur?

Úr hófi gengur þó þegar, í nafni frelsis, unnið er gegn smitvörnum. Frelsi er ekkert einkamál einstakra aðila, hvorki í orði né á borði. Frelsi er ekki hægt að túlka eftir behag hverju sinni og frelsi fylgir ábyrgð.

Frelsi getur aldrei orðið algert. Til að frelsi virki verður að setja einhvern ramma, sem samfélagið kemur sér saman um. Auðvitað eru ekki allir sammála öllu sem slíkur rammi tilgreinir, en allir sem einhverja örlitla skynsemi hafa fara þó eftir honum. Hver sá er út fyrir þann ramma fer, brýtur frelsið og stofnar því í voða, gerist lögbrjótur. Bréf varaþingmannsins er hreint brot á þessum ramma, þar sem hann hvetur fólk til að hundsa þær reglur sem settar eru, auk þess að reyna að færa einhverja ímyndaða ábyrgð á fólk sem ekki skal þá ábyrgð bera. Þetta er ljótur leikur sem hvorki varaþingmanni né lögfræðingi er samboðin.

Menn geta haft hverja þá skoðun á sóttvörnum sem þeir vilja, en enginn hefur meiri menntun eða getu til að leggja fram aðgerðir á því sviði, en sóttvarnarlæknir.

Það er auðvelt að vera á móti. Það hlýtur að vera lágmarks kurteisi, þegar einhver telur ekki vera rétt að málum staðið, að koma þá með einhverjar tillögur um hvernig betur skuli fara. Það ber lítið á slíkum tillögum frá því fólki sem felur sig bak við frjálshyggju. Enda erfitt fyrir lögfræðing eða hagfræðing að koma með tillögur í smitvörnum, ekki satt?

Fyrir síðustu kosningar vonaði ég satt og innilega að Arnar Þór Jónsson kæmist á þing. Virtist vera skynsamur og málfastur, auk þess sem mörg þeirra mála er hann talaði fyrir fyrir kosningar, mér nokkuð hugleikin. Eftir þennan afleik hans og hvernig hann hefur hagað sér eftir kosningar, þakka ég svo sannarlega fyrir að hann fékk ekki fylgi inn á Alþingi.

Sannarlega má segja að stundum fela refir sig undir sauðagæru!


mbl.is Hissa á Arnari „að spila þennan leik“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband