Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
Margt er líkt með .....
9.5.2025 | 08:55
Þegar Trump lagði á ofurtollana, kallaði hann þá leiðréttingu.
Þegar íslenska ríkisstjórnin hækkar skatta, kallar hún það leiðréttingu.
Leiðrétting er auðvitað eitthvað sem rangt er og fært til betri v3gar. Hvorki tollar, skattar né önnur gjöld sem stjórnvöld setja á, getur kallast leiðrétting. Þar er einungis um að ræða aukna innheimtu stjórnvalda, innheimtu sem alltaf lendir á almenningi, með einum eða öðrum hætti, alltaf.
Tollar, sem geta verið af tvennum hætti, til varnar ákveðinni starfsemi innan viðkomandi lands, þ.e. verndartollar, eða tollar sem settir eru í þeim eina tilgangi að auka tekjur ríkisins. Flöt hækkun tolla fellur undir síðari kostinn, enda ekki tiltekið hvað nákvæmlega eigi að verja. Svo eru til faldir tollar, mjög vinsælir hér á landi, tollar sem kallaðir eru öðrum nöfnum.
Það sama má segja um skatta. Þeir eru ætlaðir til að fjármagna samneysluna, velferðarkerfið. En stundum eru skattar notaðir sem stýring á eitthvað, þá gjarnan undir öðrum nöfnum. Sykurskattur var eitt sinn lagður á okkar þjóð, sagður til að auka heilsu landmanna. Kolefnisgjöld eru sennilega þekktust stýriskatta í dag, sögð til björgunar heimskringlunnar. Fleiri slíka skatta má tiltaka, skatta, stundum undir öðrum orðum en alltaf skattar, sem stjórnvöld setja á í einhverjum tilgangi, að okkur er sagt, en eru einungis auknar álögur á almenning.
Allt tal um leiðréttingu tolla, skatta eða annarra gjalda er auðvitað út í hött. Skattar og gjöld eru sett á samkvæmt lögum og því er væntanlega innheimta þeirra samkvæmt sömu lögum. Annað er lögbrot. Ef vilji stjórnvalds til hækkunar skatts, verður því að breyta lögum. Það getur vissulega verið réttlætanlegt í einhve4jum tilfellum, en aldrei hægt að kalla slíkt leiðréttingu, heldur er um breytingu að ræða.
Öll gjöld, hvaða nafni sem þau nefnast, lenda á léttri pyngju almennings, ýmist með beinni aukinni innheimtu, hækkandi vöruverði eða minni atvinnu. Aldrei hefur aukin skattinnheimta verið greidd af arði fyrirtækja, alltaf velt niður á almenning.
Það verða alltaf meiri og meiri líkindi með málflutningi gamalmennisins sem stjórnar Ameríkuhreppi og íslensku ríkisstjórnarinnar. Það sem kannski verra er, er að athafnirnar eru einnig farnar að líkjast stjórnarathöfnum Trump. Ætt áfram með offorsi, án tillits til eins né neins. Óvirðingin gegn lýðræðinu alger!
Trump hvað?!
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 08:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
RIP Isavia
2.5.2025 | 00:18
Það er allt á eina höndina hjá Isavia, ekkert gert af viti. Spurning hvort ekki sé kominn tími til að slíta því ohf. hlutafélagi og færa reksturinn undir ríkið aftur. Fyrirtækið virðist geta klúðrað öllum málum sem það kemur nálægt og ráðherrann sem heldur á hlutabréfi okkar í þessu ohf. hlutafélagi, virðist ekki þora að taka á málunum, þó óumdeilt sé að hann hafi valdið. Því er þessi stofnun sem ríki í ríkinu, fer sínu fram hvað sem hver segir.
Fyrir skemmst var rekstur fríhafnarinnar boðinn út og hlaut þýska fyrirtækið Heinemann hnossið. Skemmst er frá að segja að það fyrirtæki ætlar sér að græða sem mest á þessum rekstri, hefur sett íslenskum aðilum sem eru með starfsemi í fríhöfninni afarkosti, annað hvort lækkið þið ykkar verð eða farið burtu. Þetta er einstakt og auðvitað með öllu ólíðandi. Því mun svo verða að fyrsta upplifun þeirra sem til landsins koma muni vera eins og þeir séu komnir til Þýskaland, ekki Íslands. Huggulegt eða hitt þá heldur.
Stóra klúður Isavia er þó kaffiskúramálið. Það hefur þó nokkuð langan aðdraganda, eða frá breytingu á lögum um leigubílaakstur. Fyrir samþykkt þeirrar lagabreytingar á Alþingi var sterklega varað við því hvað hugsanlega gæti farið úrskeiðis. Ekki leið langur tími þar til þær aðvaranir urðu að veruleika og hafa landsmenn þurft að fylgjast með fréttum af þeim ósköpum í allt of langan tíma og margir upplifað þau. Slagsmál milli leigubílstjóra við innganginn inn í landið okkar er ekki beinlínis besta upplifum sem við getum boðið gestum okkar. Okurverð fyrir smáskutl er ein afleiðing þessarar lagabreytingar, enda leigubílstjórum ekki lengur skylt að vera með gjaldmæli. Sjálfur upplifði undirritaður að þurfa að greiða tugi þúsunda fyrir ferð yfir að Ásbraut, auk þess sem bílstjórinn rataði ekki. Ætlaði að reka okkur út úr bílnum við enda götunnar, kominn langt framhjá þeim stað sem við ætluðum á . Þurfti nánast að beita valdi til að fá hann til að snúa við og skila okkur á réttan stað. Þetta er ekkert einsdæmi, fjöldi svona dæma til, frekjuháttur, okur, og þekkingarleysi á staðháttum.
Engum datt til hugar, þegar varað var við þessari lagabreytingu, að kaffiskúr leigubílstjóra yrði gerður að bænahúsi. Það var og er eitthvað svo fjarstætt. Hvernig það gat gerst og af hverju það var ekki kæft í fæðing er með öllu óskiljanlegt. Nú þegar málið er komið í fjölmiðla er svar Isavia að leita til fjölmenningarfræðings! Hvern andskotann kemur þetta fjölmenningu við? Þarna er verið að ræða fasteign í eigu okkar landsmanna, ætlaðri til ákveðinnar notkunar, fasteign sem ákveðinn hópur yfirtekur og breytir í bænahús!
Málið er ekki flókið, ef einhver eignar sér eitthvað sem hann á ekki er einfaldlega kölluð til lögregla sem handtekur viðkomandi. Síðan er málið fært fyrir dómstóla. Í þessu tilfelli, þegar kaffiskúr ætlaður öllum leigubílstjórum er yfirtekinn af takmörkuðum hóp, gerður að bænahúsi og öðrum meinaður aðgangur, ætti Isavia að hafa kjark til að leysa. Sá kjarkur virðist ekki vera til staðar svo eina ráð þess ráðherra sem með umboð okkar fer gagnvart stofnuninni, er að skipta út allri stjórninni, ráða nýja stjórn sem getur skipt út öllu því starfsfólki sem ekki sinnir vinnu sinni. Og auðvitað kalla til lögreglu til að rýma húsið.
Það má auðvitað telja fleiri dæmi um óstjórn Isavia. Þessi tvö ættu þó að duga til að íhuga alvarlega hvort ekki sé rétt að slita félaginu. Það virðist ekki með neinu móti geta sinnt sínu starfi eins og lög gera ráð fyrir! Hagur eigenda er fyrir borð borinn á öllum sviðum!
![]() |
Ráðherra hjólar í Isavia: Nyrsta moska í heimi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Galdrar í Svörtuloftum
23.4.2025 | 16:14
Ekki þarf að efa að bankarnir séu kerfislega mikilvægir, eins og seðlabankastjóri segir í viðhendri frétt. Við vitum áhrifin af því þegar bankarnir fara á hausinn, af hvaða ástæðum sem það er. Vonandi eru þó eitthvað heilbrigðara fólk sem nú stýrir bankakerfinu, en var á árunum fyrir hrun, þegar fjárglæframenn höfðu náð tökum á því. Þó er maður farinn að efast og óttast.
Það verður að segjast eins og er, að þó ekki séu fjárglæframenn að skara að sinni köku innan bankakerfisins nú, er rekstur þeirra fráleitt í anda þess að þar fari einhverjir sem telji sig þurfa að huga að samfélaginu, sýni einhverja samfélagslega ábyrgð, eins og kerfislægt kerfi ætti auðvitað að gera. Ævintýralegur hagnaður þeirra er þvílíkur að undrun sætir, langt umfram allt annað í þjóðfélaginu. Bara á síðustu fjórum árum hefur hagnaðurinn tvöfaldast, og hafði þó náð svimandi háum hagnaði fyrir þann tíma. Þessi hagnaður er sóttur í vasa fólksins í landinu og fyrirtækjanna sem fólkið vinnur hjá. Þetta eru ekki peningar sem vaxa á einhverju peningatré. Þetta eru peningar sem sogast út úr hagkerfinu inn í bankana.
Það eru ekki bara svimandi háir vextir sem bankakerfið tekur, heldur er sennilega leitun að eins miklum vaxtamun inn og útlána og hér á landi. Þá er rukkað fyrir hvert minnsta verk sem bankinn er beðinn um og svo komið að maður þorir vart inn fyrir dyr þeirra, af ótta við að fá sendan feitan reikning. Gjaldskrá bankanna er hreint með ólíkindum.
En seðlabankastjóri er rólegur. Segir 3 vera galdratölu en að tveir útiloki samkeppni. Hvaða samkeppni?! Það er engin samkeppni í bankakerfinu hér á landi. Allir á sama róli og þegar einn hækkar eða lækkar vexti, fylgja hinir strax á eftir. Sömu lánakjör hjá þeim öllum og enginn sem gerir greinarmun á hversu gott veð liggur að baki láns. Hvort þar er um að ræða fasteign sem heldur verðgildi sínu eða bifreið sem tapar verðgildi sínu á ofurhraða. Háir vextir rukkaðir af lánum fyrir fasteigninni og örlítið hærri fyrir lán fyrir bíl. Jafnvel neyslulán, sem ekkert veð hefur í raun að baki sér, er verðlagt í vöxtum á svipuðu róli. Þetta er algerlega sér íslenskt fyrirbrygði, sem hvergi þekkist annarsstaðar. Og varla þarf að ræða verðtryggðu lánin, sem tryggja bankana að fullri endurgreiðslu, sama hvað gerist. Þau lán bera líka háa vexti og greiða þarf þar ýmis gjöld sem áður töldust vera inn í vöxtunum. Og ef fólk vill síðan greiða þau lán niður, er því refsað með uppígreiðslugjaldi!
Hvort bankarnir eru 2, 3 eða tuttugu skipir litlu máli hér, einokunin er alltaf söm. Þar er engin galdratala til. Eini galdurinn er að plata fólk upp úr skónum, ná sem mestu fé af því.
Einokun leiðir alltaf til hörmunga og einokun bankakerfis leiðir þjóðir til hörmunga.
Við erum örþjóð sem býr að miklum auðlindum. Svo líti þjóð að fjöldi okkar kæmist fyrir í einu hverfi í stórborgum erlendis, en búum að auðlindum sem fáar þjóðir geta stætt sig af. Ef bankakerfið væri heilbrigt hér á landi, væri ekki að soga til sín sífellt stærri hlut þeirra köku sem við búum að, værum við rík þjóð. Þá gætum við borið höfuðið hátt.
Galdrar seðlabankastjóra hjálpa hins vegar lítið!
![]() |
Bankarnir þrír kerfislega mikilvægir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Miðvikudagurinn 21.8.2024, svartur dagur í sögu þjóðarinnar
23.8.2024 | 08:10
Síðastliðinn miðvikudag kom enn einn dómur Seðlabankans. Vextir skulu haldast óbreyttir og enn skal hert á sultaról landsmanna. Ástæðan er að lítið gengur í baráttunni við verðbólgudrauginn.
Það merkilega var að þann sama dag var "endurskoðaður" samgöngusáttmáli kynntur af stjórnvöldum og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Endurskoðunin fólst einungis í því að uppfæra tölur sáttmálans, eða nærri tvöfalda þá upphæð sem ætlað er til verksins. Kostar nú 310.000.000.000 kr. og mun koma í hlut ríkissjóðs 262.500.000.000 kr., eða 262.5 milljarðar króna. Væn upphæð, sem mun þó víst ekki vera endanleg. Ekki ætla ég að rita um þennan sáttmála núna, en bendi þó á að sumir samþykktu þessa breytingu með óbragði í munni, töldu þetta skásta kostinn. Henni til fróðleiks þá hafa margir aðrir kostir verið kynntir, til liðkunar fyrir umferð og betri möguleikar á almenningssamgöngum. En það verður hún auðvitað að eiga við sig sjálf.
Málið er að Seðlabankinn er að berjast við verðbólgudrauginn og virðist ekki hafa aðra kosti til þess en að svelta hinn vinnandi mann, svelta þann sem skapar verðmætin. Ríkisstjórnin hefur hins vega gott verkfæri til að hjálpa Seðlabankanum við verkið, en það er sjálfur ríkiskassinn. Með því að draga úr fjárútlátum sem kostur er og fresta öllum þeim aðgerðum sem hægt er að fresta, stuðlar ríkisstjórnin að lækkun verðbólgunnar. En því miður er ekki hæfara fólk við stjórnvölin en svo að það er unnið þvert á þessi sannindi, drauginn fóðraður enn frekar. Reyndar voru ummæli fjármálaráðherra, einmitt þennan sama dag á þann veg að maður spyr sig hvernig slíkt fólk kemst til valda, svona yfirleitt.
Þá verður að segjast eins og er að algjört stjórnleysi virðist ríkja í fjármálum ríkisins. Þar virðast sumir geta vaðið í fé án nokkurra fjárheimilda og svo þegar ekki verður lengra komist er sest niður og hlutir "uppfærðir". Þetta á ekki einungis við um samgöngusáttmálann á höfuðborgarsvæðinu, heldur einnig mörg önnur verkefni. Í dag er stjórnlaust verið að moka fé í varnargarða vegna eldsumbrota á Reykjanesi, vissulega þarfra framkvæmda en ekki þar með sagt að fjárausturinn til verksins geti verið stjórnlaus. Bendi á að allar stærri framkvæmdir á ríkið að bjóða út, samkvæmt lögum. Látum vera að gripið sé til örþrifaráða í neyð, en þegar neyðin er hjá má skoða hvernig hagkvæmast skuli að verki staðið. Annað verkefni á vegum ríkisins er veglagning yfir Hornafjarðarós. Þar var farið af stað samkvæmt ákveðinni formúlu um fjármögnun. Þegar sú formúla gekk ekki upp var verkinu ekki frestað, heldur haldið áfram sem ekkert væri og ríkiskassinn opnaður upp á gátt. Þetta hefur leitt til þess að aðrar vegaframkvæmdir eru settar á bið. Þessi framkvæmd mun sannarlega stytta nokkuð veginn milli Reykjavíkur og Hafnar, en ekki er þarna verið að leggja af neinn sérlega hættulegan kafla eða fjallveg. Getur verið að að þarna skiptir máli að þetta verkefni er í kjördæmi þáverandi innviðaráðherra, núverandi fjármálaráðherra.
Svona lagað gengur ekki. Það er með öllu fráleitt að hægt sé að ganga í ríkissjóð eftir vilja hvers og eins og gera síðan bara "uppfærslu" á orðnum hlut, án þess að nokkur beri ábyrgð. Það er bein ávísun á aukna verðbólgu.
Þegar menn lenda í ófærri keldu eru tveir möguleikar í stöðunni, að snúa til baka og finna betri leið eða halda áfram að spóla í sama farinu þar til örendi þrýtur. Stjórnvöld velja síðari kostinn, því miður.
Er gróði banka þeim ofviða
22.3.2024 | 21:15
Það er eitt og annað sem er athugasemdarvert við þessa fréttatilkynningu Landsbankans.
Þar kemur fram að bankinn hafi fyrir tæpu ári upplýst bankasýslu ríkisins um áhuga á kaupum bankans á tryggingarfélagi. Einnig kemur fram að bankinn hafi upplýst BS, skömmu fyrir jól að óskuldbindandi tilboð hafi verið gert í þetta tryggingafélag. Ekki kemur hins vegar fram að bankinn hafi upplýst BS um að hann ætlaði að gera skuldbindandi tilboð upp á þrjá tugi milljarða í tryggingafélagið. Bar bankanum ekki að fá samþykki fyrir þeirri gjörð? Bar bankanum ekki að tilkynna BS um að hann ætlaði að binda þrjá tugi milljarða í skuldbindandi tilboði í tryggingafélag?
Þá er stóra spurningin, hvers vegna vill bankinn færa sig yfir í áhætturekstur tryggingafélags? Von um meiri gróða, segir bankastjórinn. Í hverju fellst sá gróði? Fylgir ekki rekstur tryggingafélags mikil áhætta? Það getur gengið ágætlega í nokkur ár, en síðan þarf ekki nema eitt stórt bótamál til að þurrka út gróðann. Og ekki er hægt að skilja bankastjóra á annan veg en svo að stórann hluta gróðans, í góðærum, eigi að greiða sem arð. Það verður þá lítið til skiptanna þegar áföllin ríða á.
Landsbankinn skilar alveg ágætis hagnaði og væntanlega arðgreiðslum líka. Enda vaxtakjör lána hvergi hærri en hér á landi. Þetta er nokkuð tryggur hagnaður og þá einnig tryggar arðgreiðslur. Engin fyrirtæki hafa hagnast jafn mikið og bankar, allt frá hruni. Þar kemur hæfi við stjórnun bankann lítið við sögu, gæti hvað fáviti rekið banka á Íslandi. Það er því með öllu óskiljanlegt að bankinn sé svo æstur í áhættusækinn rekstur. Er góðærið honum ofviða?
Önnur skýring bankastjóra á kaupum á tryggingafélagi er að aðrir bankar hafi verið að færa sig yfir í slíka áhættu. Hvers vegna þarf Landsbankinn að apa ósómann eftir einkareknum bönkum? Og hvers vegna er Kvika að losa sig við þetta tryggingafélag?
Það er nokkuð víst að bankastjórn Landsbankans hefur gögn um samskiptin við BS, bæði á vordögum og fyrir jól. Færi vart að senda slíka fréttatilkynningu að öðrum kosti. Það segir okkur að BS hefur logið að þjóðinni og ber að víkja strax. Bankastjórn Landsbankans verður einnig að víkja, þar sem hún getur ekki sýnt fram á heimild til að skuldbinda þrjá tugi milljarða í tryggingafélagi. En kannski þó frekar vegna fávisku og hroka.
![]() |
Segja Bankasýsluna hafa vitað um kaup á TM |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Að eiga banka - eða ekki
19.3.2024 | 16:37
Okkur landsmönnum er talin trú um að við eigum Landsbankann og vissulega er ríkið skráð fyrir nánast öllum hlutum hans. Fjármálaráðherra er síðan með yfirumsjón yfir þessum hlut, sem þjóðin á.
En málið virðist nokkuð flóknara en þetta. Til að slíta tengsl milli pólitíkur og bankans, að ráðherra hafi ekki beint umboð til afskipta af rekstri hans, var stofnuð Bankasýsla ríkisins. Henni er ætlað að vera fulltrúi eigenda bankans. Reyndar ekki kosin af eigendum, heldur skipuð af ráðherra. Því kannski ekki hægt að tala um slit milli pólitíkur og reksturs bankans.
En þetta dugir þó ekki. Bankastjóri og bankaráð telur sig eiga þennan banka okkar. Að afskipti ráðherra eða bankasýslunnar skipti bara engu máli. Bakastjóri Landsbankans hefur sagt að bankinn muni halda áfram við fyrirhuguð kaup á TM, þrátt fyrir mótmæli eigandans, þ.e. ráðherra.
Þegar þetta er skoðað verður maður virkilega efins um hver á Landsbankann. Klárlega ekki almenningur, enda hefur hann enga aðkomu að bankanum aðra en að greiða til hans okurvexti og óheyrileg þjónustugjöld af minnsta tilefni. Ekki virðist ráðherra ráða miklu, eins og orð bankastjóra bera með sér. Og bankasýslan, jú henni hefur tekist að fresta aðalfundi bankans um einn mánuð, en mun sjálfsagt ekki hafa kjark til að rifta kaupunum. Enda ekki séð að BS sé með hugann við verkið. Lætur afskiptalaust að bankastjóri og bankaráð stundi vafasöm viðskipti, viðskipti sem kemur bankarekstri ekki við á nokkurn hátt.
En fátt er svo með öllu illt að ei boði gott. Það fyrirkomulag sem um þennan banka ríkir, banka sem sannarlega er í eigu landsmanna, þó erfitt sé að sjá það á framkvæmd eða stjórnin hans, er kjörið að endurskoða við þessi tímamót. Ef um einkafyrirtæki væri að ræða myndu eigendur hans reka samstundis alla þá er telja sig vera æðri en eigandinn, bankastjóra, bankaráð og Bankasýsluna og taka yfir reksturinn með nýju fólki.
Þannig gæfist gullið tækifæri til að endurskipuleggja rekstur bankans. Að hætta að reka hann sem gróðafyrirtæki, eða jafnvel okurstofnun og gera hann að samfélagsbanka. Slíkt bankaform er þekkt víða, þó sennilega þekktast í Þýskalandi. Þar er bankastarfsemi að stærstum hluta rekin sem samfélagsbankar og það voru þessir samfélagsbankar sem björguðu Þýskalandi frá hruni, haustið 2008. Banki sem rekinn er eftir lögmáli Mammons er veikari fyrir ef áföll skella á. Áhætturekstur er eitt aðalsmerki þeirra. Banki sem rekinn er eftir þörfum samfélagsins og ekki er drifinn áfram af græðgi, er fastari fyrir og þolir betur utanaðkomandi áföll.
Eftir bankahrunið hér haustið 2008, þegar landinu var steypt í fen skulda og hörmunga, ætti fólk að vita að einkavæðing bankakerfisins er ekki að ganga. Slík einkavæðing er átrúnmaður á Mammon. Ekkert að því að einhverjir einkavæddir bankar séu starfandi hér, ef einhver vill reka þá og bera ábyrgð á þeim. En samfélagsbanki verður að vera til staðar í landinu, þó ekki sé til annars en að halda niðri þeirri óheyrilegu okurstefnu sem bankakerfið stundar og er að draga lífið úr þjóðinni, hvort heldur þar er um einstaklinga eða fyrirtæki að ræða.
Framkvæmdin á stofnun slíks samfélagsbanka er einföld. Öllum hlutum hans sem ríkið hefur undir höndum, væru einfaldlega deilt á hvert mannsbarn í landinu. Ekki væri heimilt að selja þá hluti, heldur myndu þeir erfast til afkomenda. Allar meiriháttar ákvarðanir, s.s. ráðning bankaumsjónar og jafnvel bankastjóra færu fram með rafrænni kosningu þjóðarinnar. Frambjóðendur þyrftu auðvitað að standast eitthvað mat til þátttöku. Þeir sem hlytu kosningu hefðu enga heimild til að taka ákvarðanir um breytingu á rekstri bankans. Jafnvel þó þeir teldu að það væri "til haga fyrir eigendur".
Þannig færi ekkert á milli mála að við ættum öll Landsbankann og sennilega myndu flestir færa sín viðskipti yfir í hann.
![]() |
Aðalfundi Landsbankans frestað um mánuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Diet coke og land tækifæranna
28.2.2024 | 16:30
Ísland er sannarlega land tækifæranna. Menn geta náð að vaxa frá örbyrgð til álna á stuttum tíma. Einn okkar "dáðadrengja" sagðist fyrir tæpum fimmtán árum eiga fyrir einni diet coke og taldi það nóg fyrir sig. Í dag er þessi "dáðadrengur" orðinn einn af umsvifamestu kaupsýslumönnum landsins. Hefur frá engu náð að komast yfir miklar eignir.
Reyndar náði þessi sami maður að falla úr sínu hásæti kaupsýslunnar á Íslandi, niður í eina diet coke, á enn styttri tíma og draga landið niður í svaðið með aðstoð sinna kumpána. Margir eru enn að berjast við að ná fótum eftir þá meðferð þessara manna. Það á þó ekki við um "dáðadrengina". Þeir blómstra sem aldrei fyrr. Enda er Ísland land tækifæranna, er það ekki?
Það sem kannski varð þessum diet coke-ista að falli, var að hann veðjaði á rangann stjórnmálaflokk. Þegar mest á reið og mesta þörfin á aðstoð stjórnmálakerfisins reyndi, sveik flokkurinn sem hann hafði veðjað á. Kom ekki diet coke-istanum til hjálpar. Það er sjaldnast hægt að treysta Samfylkingu, en menn gera jú ráð fyrir einhverri hjálp eftir mikinn austur fjár inn í sinn stjórnmálaflokk.
En coke-istinn hefur lært á þessu. Nú stefnir hann á annan og tryggari flokk fyrir gróssera, Sjálfstæðisflokkinn. Réð til sín ráðherrabróðir. Væntanlega hafa ættartengsl ráðið þar meiru en gjörvileiki bróðurins, enda von til að ráðherrann verði nýr formaður flokksins. Það væri nú ekki ónýtt fyrir diet coke-istann að eiga góð tök í formanni Sjálfstæðisflokksins!
Svo er fólk að halda því fram að hér á Íslandi grasseri spilling. Þvílík ósvinna að nefna slíkt.
Ísland er bara land tækifæranna, eða þannig!
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 16:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dýrt gæluverkefni
15.2.2024 | 08:23
Mr. Mathiesen vill kenna því um að áætlanir hafi ekki verið í lagi þegar Alþingi samþykkti samgöngusáttmálann. Þess vegna séu svo miklar hækkanir í áætlunum nú. Svo sem engin ný sannindi, en hins vegar spurning hvort þessi sáttmáli hefði yfir höfuð verið lagður fyrir þingið, ef þær upphæðir sem nú eru ræddar hefði fylgt með honum.
Hitt er aftur rétt að benda á, að jafnvel þó sáttmálinn hafi verið hressilega vanáætlaður, verður ekki séð annað en að áætlanir Betri samgangna ohf. eigi erfitt með að standast. Hækka í sumum tilfellum um milljarða milli mánaða. Ekki beint merki um að þar sé hæft fólk í starfi. Sorgarsagan um Fossvogsbrúnna segir þar alla sögu.
Samgöngusáttmálinn, sem er að stærstum hluta um borgarlínuna svokölluðu, var samþykktur af Alþingi út frá ákveðnum forsendum. Ein aðal forsendan var að þessi sáttmáli myndi kosta um 160 milljarða króna og ber ríkið ábyrgð á 75% þeirrar upphæðar. Nú eru áætlanir komnar í um 300 milljarða króna, eða nærri tvöfaldast. Af þeirri upphæð þarf ríkið að taka á sig um 225 milljarða. Til að setja þetta í samhengi þá kostaði ríkissjóð, árið 2022: sjúkratryggingar, atvinnuleysistryggingasjóður, bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, fæðingarorlof, barnabætur og húsnæðis og leigubætur, samtals um 170 milljarða króna. Vantar enn um 55 milljarða króna til að jafna kostnað ríkisins við samgöngusáttmálann, eins og hann reiknaðist út síðast.
En þessu er ekki lokið. Sáttmálinn á eftir að hækka enn frekar. Ef við nefnum aftur Fossvogsbrúnna þá er talið að endanlegur kostnaður við hana verði mun hærri en nýjustu áætlanir segja til um, jafnvel helmingi hærri. Því er ekki ótrúlegt að ætla að samgöngusáttmálinn eigi einnig eftir að hækka í heild sér, kannski tvöfaldast eins og brúin.
Það yrði dýrt gæluverkefni. Hvenær er nóg, nóg. Alþingi samþykkti verkefni upp á 160 milljarða króna. Verðmiðinn stendur nú í 300 milljörðum og því í raun sáttmálinn fallinn. Hver endanlegur kostnaður verður er svo einungis skrifað í skýin.
![]() |
Áætlanir voru ekki í lagi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Lélegir stjórnendur?
29.11.2023 | 00:24
Eru íslenskir stjórnendur fyrirtækja almennt lélegir?
Við þekkjum öll söguna af því þegar nokkrir einstaklingar komust yfir bankakerfið okkar og settu það á hausinn svo fjölskyldum landsins blæddi. Sumir töldu að þar hefðu menn fyrst og fremst verið að sanna þá kenningu að besta leiðin til að ræna banka, væri að ræna hann innanfrá. Eða voru þessir menn kannski bara svona lélegir stjórnendur?
Mörg fyrirtæki voru stofnuð í kjölfar hrunsins, flest þeirra farið á hausinn. Má þar nefna flugfélög og fjárfestingafélög. Þar er greinilegt að stjórnun var léleg.
Íslenskt lyfjafyrirtæki, sem rekið er um allan heim, er rekið með gríðarlegu tapi. Lyfjanotkun hefur þó aldrei verið meiri, hvort heldur er hér á landi eða öðrum löndum hins vestræna heim. Ber það merki þess að hinn íslenski stjórnandi þess fyrirtækis sé góður stjórnandi?
Og nú þarf íslenskt flugfélag að breyta hjá sér afkomuspá, vegna jarðhræringa á Reykjanesi. Ekki vegna þess að farþegum hafi fækkað svo mikið, einungis pöntunum með skömmu fyrirvar fækkað örlítið og að sögn forstjórans merki um að það sé að ganga til baka. Aldrei hafa verið fleiri ferðamenn sem heimsækja Ísland og þetta ár. Er þetta merki um góða stjórnun?
Þeir sem ekki geta rekið lyfjafyrirtæki með sóma, þegar lyf eru brudd sem sælgæti um allan heim og þeir sem ekki geta rekið flugfélag þegar farþegafjöldi er í hæstu hæðum, ættu kannski að skoða stöðu sína. Kannski hentar þeim betur eitthvað annað starf en stjórnun.
![]() |
Breyta afkomuspá vegna jarðhræringanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stórmennskan söm við sig
10.10.2023 | 00:28
Það hefur aldrei skort stórmennskuna í okkur landsmenn. Eitt sinn áttum við mestu og bestu fjármálasnillinga heims. Landinn dýrkaði þessa menn sem nýja guði, stjórnmálamenn, listafólk, menntafólk og bara hver sem vildi láta að sér kveða, kepptust við að komast í mjúkinn hjá þessum snillingum. Erlendis var hlegið að okkur, enda vissu menn þar að þetta gæti aldrei gengið upp. Það fór líka svo, þessir snillingar voru bara alls engir snillingar. Voru bara skúrkar sem komust yfir bankakerfið og öll stærstu fyrirtæki landsins, sem landsmenn höfðu byggt upp í sveita síns andlits. Þessu offruðu hinir svokölluðu snillingar og settu landið nánast á hausinn. Ætla mætti að þetta hefði kennt okkur eitthvað. Svo er þó ekki að sjá.
Stórmennskan er enn söm. Að vísu fer minna fyrir fjármálasnillingunum, sem fórnuðu auð landsins. Þeir vinna nú á bak við tjöldin, eru hægt og sígandi að leggja undir sig því sem bjargað var og byggt upp, af því sem þeir sóuðu. Þá eru þessir menn duglegir við landsölu til erlendra auðmanna, og ráðast þar gegn sjálfri náttúrunni.
En stórmennskan er víðar á ferð. ekki hvað síst innan stjórnmálastéttarinnar. Þar er okkur landsmönnum talin trú um að við getum verið svo ofboðslega mikið leiðandi og góð fyrirmynd á erlendri grundu, í því verkefni að bjarga heimsbyggðinni! Ráðherrar keppast við að lofa því sem útilokað er að standa við, væntanlega til að koma sér í mjúkinn hjá einhverjum erlendum stórmennum. Sendar eru fjölmennir hópar fólks til útlanda að taka þátt í hinum ýmsu ráðstefnum. Þar telur þetta fólk sig hafa einhver áhrif. Enn á ný verðum við aðhlátursefni á erlendri grundu.
Hvenær ætlar fólk að átta sig á því að við erum örþjóð sem býr á afskekktri eyju við ystu mörk þess byggilega? Hvenær ætla ráðamenn að skilja það að við eigum nóg með okkur sjálf, getum ekki fórnað neinu til erlendra afla nema því aðeins að herða sjálf verulega sultarólina? Þar er ekki mikið borð fyrir báru hjá almenningi!
Við eigum nóg með okkur. Gætum lifaða ágætu lífi hér á landi ef stórmennskunni er hafnað. Þekking er almennt ágæt, en fjarri því að við getum verið að segja að við höfum einhverja afburða þekkingu, umfram aðrar þjóðir. Þjóð sem skilar stórum hluta barna út úr skyldunámi, ólæsu, getur ekki státað sig af afburðaþekkingu á einhverjum sviðum. Og ekki er menntakerfið neitt sérlega hátt metið á alþjóðavísu, þegar að framhaldsmenntun kemur. Háskólar hér komast vart á blað í þeim samanburði. Allt sem við þekkjum og vitum er vitað erlendis. Það er fyrir löngu búið að finna upp hjólið.
![]() |
Við erum og getum verið öflug fyrirmynd annarra þjóða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)