Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
Líffræðileg fjölbreytni heiðarlanda
30.3.2025 | 08:48
Ég verð að segja að Jóhann Páll kemur skemmtilega á óvart.
Vernd á viðkvæmri náttúru okkar er eitthvað sem ætti að vera sjálfsagt mál. Kuldatímabil fyrri alda og stór eldgos hafa gert landið okkar rýrra en áður var, þó heldur horfi til betri vegar nú, með hlýnandi loftslagi. Svo illa kom landið undan þessu kuldatímabili að það var nánast orðið óbyggilegt í lok þess. Af þeim sökum flúði fjórðungur landsmanna til annarra landa, undir lok litlu ísaldar. En, eins og áður segir, hefur landið tekið nokkrum stakkaskiptum síðustu áratugi. Þar sem áður voru berir melar hefur laggróður náð að festa sig vel og þau litlu og vesælu kjarrlendi sem enn tórðu gegnum kuldatímabilið, hafa sprottið upp og sumstaðar dugir þar ekki að standa upp til að finna áttir, eins og stundum hefur verið haft að gríni.
Landgræðsla, gjarnan unnin af bændum, hefur einnig skilað stóru, þó gagnrýna megi einstök verk á því sviði. Þar má kannski kenna um fáþekkingu. Sem dæmi var allt of langt gengið í notkun lúpínu a þeim vettvangi, svo fögrum melum með sinni fjölbrettu lágflóru hefur verið fórnað.
En nú stöndum við á tímamótum, stórum tímamótum.
Erlendir aðilar í samvinnu við íslensk fyrirtæki, sækja að landinu okkar og hafa nú teygt sig út fyrir landsteinana. Síðasta dæmið er tilraunir með vítissóta í Hvalfirðinum. Tilgangurinn óskýr en afleiðingarnar gætu orðið geigvænlegar.
Vel grónu landi, jafnvel berjalandi, er umbreytt í gróðurleysi svo rækta megi þar skóga. Ekki til að bæta landið okkar eða líffræðilega fjölbreytni þess. Nei, þar liggur einungis eitt að baki, fégræðgi. Að rækta skóga til sölu kolefniseining svo erlend fyrirtæki geti áfram mengað andrumsloftið, núna bara löglega. Í þessu skyni hafa jarðakaup umbreyst. Þeir sem vilja búa á bújörðum og vernda land sitt og fjölbreytni þess, fyrir komandi kynslóðir, komast ekki lengur að söluborði bújarða. Peningaöflin hafa yfirtekið það, jafnvel svo að heilu sveitirnar eru undir. Þar er engin hugsun um líffræðilega fjölbreytni, einungis hversu mikið megi græða.
Heiðarnar eru viðkvæmastar. Þar er gróður viðkvæmastur, þar viðheldur fuglalífið sér og þar eru einstök lífkerfi í tjörnum. Þangað sækja erlendir vindbarónar einna mest og skelfileg hugsun ef, þó ekki væri nema hluti þeirra áforma raungerist. Vindtúrbínur eru ekki líffræðileg fyrirbrigði, heldur stóriðja. Reyndar má með sanni segja að vindtúrbínur séu einna hættulegastar allra hugmynda um orkuvinnslu, hvað líffræði varðar, hvað þá fjölbreytni hennar. Stór svæði verða eyðilögð til að koma þessum ófreskjum fyrir, sem síðan dæla út í andrúmsloftið hinum ýmsu tegundum mengunar, s.s. örplasti, sf6 gasi og olíu, svo eitthvað sé nefnt. Reyndar ekki co2 meðan þær eru í rekstri en nægt magn af því við framleiðsluna, frá hráefnatöku til fullbúinnar vindtúrbínu. Þá er mikil co2 mengun við reisningu þessara mannvirkja, vegagerð að byggingasvæði, plön og kranar auk flutninga frá hafnasvæði að virkjanasvæði og allri steypu frá steypustóð að virkjanasvæði. Þetta veldur einnig raski á jarðvegi, sem mun stuðla að aukinni losun co2 og það sem þó er verra, að vatnasvið heiðanna breytist þannig að heiðartjarnir munu þorna upp. Því er fátt sem getur skaðað líffræðilega fjölbreytni landsins okkar meira en vindorkuver. Við höfum ekki heimild til að fórna landinu á þann hátt, okkur ber skylda til að skila því eins góðu og í mannlegu valdi stendur, til afkomenda okkar.
Því fagna ég þessari áherslu umhverfisráðherra og vona að alvara liggi þar að baki.
Náttúrunni verður ekki bjargað með því að fórna henni
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Línur farnar að skýrast - og þó ekki
25.3.2025 | 16:22
Deilt er um hvort forsætisráðherra hafi staðið rétt að málum, varðandi það leiðinlega mál sem fréttastofa ruv opnaði og leiddi til afsagnar eins ráðherra ríkisstjórnarinnar.
Fram til þessa hafa spjótin staðið að fyrrum tengdamóður barnsföður ráðherrans. Jafnvel verið reynt að koma sökinni á þingmann sjalla. Í Silfri gærkvöldsins kom sannleikurinn í ljós - og þó ekki. Fréttamaður ruv margtuggði á því að fréttin væri unnin upp úr viðtali við barnsföður ráðherrans. Spurði reyndar hvernig hægt hefði verið að vinna fréttina á annan hátt.
Auðvitað var hægt að vinna fréttina á annan hátt. Til dæmis að setja hana ekki út í loftið fyrr en búið var að ræða við alla aðila málsins og kanna hvort um raunverulega frétt hafi verið að ræða. En það er auðvitað ekki þau vinnubrögð sem Helgi Seljan þekkir. Honum er lagið að setja fyrst fram einhliða "frétt" og krydda hana vandlega. Þetta kallar hann rannsóknarblaðamennsku en er meira í ætt við slúðursagnir.
Hitt stendur svo eftir, hvernig vissi Helgi, eða fréttastofa ruv, af því að fyrrum ráðherra hafi átt barn fyrir hjónaband? Hvernig vissi hann nafn barnsföðurins? Hvernig má það vera að á skömmu eftir að fyrrum tengdamóðir barnsföðurins sendi ósk um fund með forsætisráðherra, hafi Helgi farið að grafa þetta gamla mál upp? Hvaðan fékk hann veður af málinu? Ljóst er að fyrrum tengdamóðir barnsföðurins vildi ekki blanda fjölmiðlum í málið og sendi ósk um fund til forsætisráðherra án vitneskju barnföðurins.
Böndin berast því vissulega að forsætisráðuneytinu, eða flokk forsætisráðherra. Þar innandyra eru sumir í sárum frá síðustu kosningum og svo vill til að sá sem kannski er þar sárastur er fyrrum samstarfsmaður Helga Seljan. Ekki ætla ég að fullyrða að sá hörundsári hafi lekið upplýsingunum til Helga, en einhver gerði það.
Svo mikið er víst.
Um það sem á eftir kom, hringingar og heimsókn fyrrum ráðherra til fyrrum tengdamóður barnsföðurins, er auðvitað ekki til fyrirmyndar. En þó kannski eðlileg viðbrögð þar sem séð var að forsætisráðherra ætlaði ekkert að gera. Fyrrum ráðherra vissi ekki hvaða manneskja þetta var né um erindi hennar. Þurfti að leita hana uppi á facebook eftir að hafa fengið nafn hennar. Held að flestir í hennar stöðu hefðu viljað vita hvað væri í gangi og varla hægt að álasa henni fyrir það.
Sökin liggur ekki hjá fyrrum ráðherra, heldur þeim ráðherra sem átti að skoða málið og passa að það næði ekki til fjölmiðla fyrr en séð var hvort um frétt væri að ræða eða einfalda slúðursögu.
Til að taka af allan vafa þá kaus ég ekki Flokk fólksins, þekki ekkert til Ásthildar Lóu annað en það sem komið hefur í fjölmiðla af störfum hennar fyrir Hagsmunasamtök heimilanna og síðan þingmanns og ráðherra.
Ég brenn hins vegar fyrir því að allir njóti réttlætis, hvaða skoðanir sem þeir hafa.
Pólitík sem byggir á slúðursögum er vond pólitík.
![]() |
Kristrún rengir tengdamóður á þingi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Vanhæf sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar
23.3.2025 | 01:45
Transition Labs (TL) er alþjóðlegt fyrirtæki. Þetta fyrirtæki á aftur nokkur undirfyrirtæki sem sinnir ýmsum störfum. Þau sem við kannski þekkjum best, af þeim fyrirtækjum sem TL á eru Runnig Tide (RT) og Röst auk minna þekkts fyrirtækis er nefnist Transition Park og er það sagt í sameign með Akranesbæ.
RT þekkja flestir, enda saga þess hreint með ólíkindum. Óþarfi er að tíunda þá sorgarsögu hér. Transition Park er aftur eitthvað sem fæstir þekkja og spurning hvort það tengis sorgarsögu RT eða hvort það er angi af Röst.
Þessi pistill er aftur fyrst og fremst um Röst og áætlanir þess til að dæla vítissóda í Hvalfjörðinn.
Ekki kemur fram á heimasíðum TL eða Rastar hvenær Röst var stofnuð en með nokkurri leit má sjá að fyrstu fréttir í fjölmiðlum af því fyrirtæki eru þegar tilkynning um ráðningu forstjóra þess kemur fram, eða undir lok febrúar 2024, fyrir rétt rúmu ári síðan.
Litlar fréttir eru af þessu fyrirtæki framanaf, en þó einhverjar. Það er ekki fyrr en grein um áætlanir þessa fyrirtækis kemur í blöðin, skrifuð af leigutaka Laxár í Kjós, sem alþjóð fær að vita um hvað málið snýst. Að menga eigi Hvalfjörðinn með vítissóda.
Saga þessa fyrirtækis, þó stutt sé, er hreint með ólíkindum og sýnir vel hvernig fyrirtæki vinna sem ætla að gera eitthvað sem ekki getur með nokkru móti talist eðlilegt eða skynssamlegt.
Forstjórinn er sóttur til Landverndar, oddvita Hvalfjarðarsveitar er boðin stóll í stjórn Rastar og það fyrirtæki sem á að standa vörð um hafsvæðin okkar og hafa eftirlit með að því sé ekki ógnað, er keypt til að gera umhverfismat um málið. Þannig telur fyrirtækið sig vera búið að binda alla þá enda sem hugsanlega gætu raknað upp í þeirra áætlunum. Sennilega lært eitthvað af RT ævintýrinu.
Þann 24. apríl 2024, er lagt fram erindi til sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá TL um boð til setu í stjórn Rastar. Ekki kemur fram í erindi TL að dæla eigi vítissóda í Hvalfjörðinn, einungis talað um að basa, sem vissulega er fallegra orð á sama hlut. Ekki er víst að allir hafi kveikt á hvað þarna var raunverulega verið að tala um. Alla vega var samþykkt samhljóða tillaga oddvitans um að tilnefna sjálfa sig í stjórn Rastar. Þar með er sveitarstjórnin búin aðð gera sig vanhæfa til að fjalla frekar um málefni Rastar eða ætlanir þess fyrirtækis.
Næst er rætt um þetta fyrirtæki á vettvangi sveitarstjórnar þann 26. febrúar 2025. Þar er tekið fyrir umsagnarbeiðni um leyfisveitingu utanríkisráðuneytisins til Rastar á rannsóknarleyfi. Sem fyrr er sveitarstjórn samhljóða um þá leyfisveitingu. En nú vanhæf.
Hafrannsóknarstofnun er sú stofnun sem á að sjá til þess að verja hafsvæðið umhverfis landið okkar, vera eftirlitsaðili með að því sé ekki ógnað. Eftir sem áður gerði það tilboð í rannsóknir á Hvalfirðinum, fyrir einkafyrirtækið Röst. Fyrir lá hverjar hugmyndir fyrirtækisins voru og rannsóknin miðaði að því. Röst segist hafa "valið" Hafró til verksins, en auðvitað var það gert til að losna undan afskiptum þeirra á síðari stigum. Fyrir þessa keyptu skýrslu fékk Hafró greitt 100 milljónir króna, í tvennu lagi. Eftir gerð skýrslunnar réði Röst starfsmann frá Hafró til sín.
Þarna er Hafrannsóknarstofnum einnig búið að gera sig vanhæft til að fjalla um málið, fyrst með því að taka að sér þessar rannsóknir, en ekki síður fyrir að taka háar fjárhæðir fyrir vikið.
En um hvað snúast þessar svokölluðu rannsóknir og hvers vegna hér á landi?
Röst ber því við að Hvalfjörðurinn henti sérstaklega vel til verksins vegna strauma og lífríkis. Rannsóknin á að fara fram innst í firðinum, þar sem straumur er einna minnstur. Hvað lífríkið varðar þá er hellst að sjá að tilraunin snúist um hversu mikið af því skaðist við losun vítisódans. Þessi rök halda því vart miðað við að sagt er að þetta muni ekki hafa nein áhrif á lífríkið og straumur nánast enginn innst í firðinum. Auðvitað hefði verið hægt að gera þessa tilraun hvar sem er í heiminum, en ekki víst að kostnaður við að kaupa velvildina og leyfin væru jafn ódýr og hér. Þægilegir stólar og 100 milljónir myndu duga skammt ytra.
Um sjálfa rannsóknina er erfitt að ráða. Fyrstu tölur sem nefndar voru sögðu okkur að sleppa ætti allt að 30 tonnum af 4,5% vítissódablöndu, eða um 1,35 tonni af hreinum vítissóda. Nú er rætt um 200 tonn af 4,5% vítissódablöndu, eða um 9 tonnum af hreinum vítissóda! Hvað verður þegar á hólminn er komið er enn óvitað.
Kannski gerir fólk sér ekki grein fyrir þessu magni, en svona til að setja það í smá samhengi þá er um að ræða sem svarar um 20 olíubílum fullum af blönduðum vítissóda eða sem svarar 15 áburðapokum af hreinum vítissóda. Þetta magn er því líkt að ekki er með nokkru móti hægt að fullyrða að það hafi ekki áhrif á lífríkið, reyndar nokkuð víst að stór skaði mun hljótast af.
Röst setur nokkurn varnagla fyrir þessu á heimasíðu sinni. Þar er sagt að magnið sem á að sleppa af vítissódanum í fjörðinn sé talið fyrir neðan þau mörk að það hafi áhrif á lífríkið. Það er ekki fullyrt heldur talið. Það er semsagt ekki vitað - ennþá.
Einnig kemur fram á heimasíðu Rastar að fyrirtækið sjálft ætli að sjá um vöktun, meðan rannsókn fer fram og eftir hana. Því mun sein fréttast ef eitthvað fer úrskeiðis og svo þegar skelfingin uppgötvast er bar hægt að segja "sorrý".
Það sem eftir stendur er að sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar er með öllu vanhæf til að fjalla um mál Rastar. Þar veldur sú ótrúlega heimska sveitarstjórnar að samþykkja setu oddvita í stjórn fyrirtækisins.
Náttúrunni verður ekki bjargað með því að eyða henni.
Sorglegt mál
22.3.2025 | 08:03
Það er sorglegt að hlusta á þá umræðu sem fram hefur farið, vegna þess málefnis er varð til þess að Ásthildur Lóa sagði af sér ráðherraembætti. Þetta var stór yfirsjón miðað við tíðarandann í dag, þó kannski það hafi ekki þótt tiltölumál fyrir 35 árum síðan. Þjóðfélagið breytist og hugsun manna til ýmissa mála verður önnur. Umræðan er hins vegar óvægin og svo sem ekki í fyrsta sinn sem slíkt gerist hér á landi. Virðist frekar vera orðið einhverskonar norm, þar sem keppnin birtist gjarnan í að réttlæta yfirsjón eins, með því að nefna yfirsjón annars. Þetta sést vel í athugasemdum vefmiðla í þessu máli.
Hitt er þó alveg ljóst að sá sem ákveður að fara veg stjórnmálanna og gera sig gilda á þeim vettvangi, þarf að búa við það að leitað verði í hverju skúmaskoti til að koma höggi á viðkomandi.Því þarf það fólk að opinbera allar sýnar syndir, litlar sem stórar, áður en út á þann veg er farið.
Þessi svokallaða synd Ásthildar Lóu er ekki stór miðað við margar aðrar syndir í fórum stjórnmálamanna. Það er þó ekki það sem skiptir mestu máli, heldur verk þeirra í því starfi sem við kjósum þá til. Þar er hægt að gagnrýna flesta, hvar í flokki sem þeir eru.
Það sem setur stórar spurningar við þetta einstaka mál er afgreiðsla forsætisráðherra á því. Hvers vegna vildi hún ekki fund með þeirri manneskju sem óskaði eftir honum? Hvers vegna fara þessar upplýsingar út úr ráðuneytinu, sem þó var óskað eftir leynd yfir? Hvernig komust þessar upplýsingar í hendur fréttastofu ruv? Vitað er að innan samfylkingar eru menn sem einskis svífast og eru í sárum frá síðustu kosningum.
Þetta eru spurningar sem svara þarf. Forsætisráðherra verður að svara þessum spurningum undanbragðalaust, án tafar. Það gat hún gert á fréttamannafundi í gær, en kaus að gera ekki. Kom með eitthvað yfirklór sem ekki einu sinni stóðst tímasetningar. Síðar reyndi hún að klóra yfir þá yfirsjón sína með enn meira rugli.
Sem fyrr segir þá eru það verkin sem skipta máli, ekki eldgamlar yfirsjónir. Á því prófi féll Kristrún Frostadóttir. Og reyndar má segja að á því prófi hafi einnig Inga Sæland fallið, er hún ákvað að kasta öllum loforðum til sinna kjósenda frá borði, til að fá að sitja andspænis þingmönnum í þingsal.
Áthildur ákvað að segja af sér vegna þessa máls. Það er hennar ákvörðun, vonandi. Segir af sér vegna máls sem til varð fyrir 35 árum síðan og hefði svo sem ekki talist stór yfirsjón á þeim tíma. Ekkert hefur þó verið hægt að setja út á störf hennar sem ráðherra. Hún er því frjáls.
Það verður ekki sagt um Kristrúnu Frostadóttir. Hún virðist ekki valda sínu starfi.
![]() |
Ásthildur Lóa á allan minn hug núna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íslenskur her
17.3.2025 | 13:41
Umræða um stofnun hers hér á landi hefur verið nokkuð mikil síðustu daga og nú farið að tala um íslenska leyniþjónustu. Þetta er svo sem ekki ný umræða, alltaf verið til aðdáendur James Bond og Pattons hér.
Það sem er hinsvegar nýtt núna er að ráðamenn okkar eru farnir að gefa þessari umræðu undir fótinn og auðvitað gripa haukarnir gæsina. Fyrir nokkrum árum impraði þáverandi ráðherra sjalla á þessari hugmynd og allt ætlaði um koll að keyra í fjölmiðlum. Nú eru viðbrögðin önnur, enda sjallar fjarri góðu gamni. Nú eru flokkar sem eru vinveittir fjölmiðlum við stjórn. Þá er allt í lagi að tala um her og leyniþjónustu.
Meðan við getum ekki rekið Landhelgisgæsluna með sóma er tilgangslaust að tala um stofnun hers. Meðan við getum ekki rekið heilsugæsluna með sóma, er tilgangslaust að ræða stofnun hers. Meðan unglingar útskrifast úr skyldunámi án þess að vera skrifandi eða læs, er til lítils að ræða stofnun hers.
Þá má ekki gleyma þeirri staðreynd að við erum svo fámenn þjóð að jafnvel þó allir vinnandi menn væru teknir úr verðmætasköpun, til að sinna hergæslu, væri sá her svo lítill að hann næði ekki stærð minnsta herfylkis þeirra landa sem minnstan her hafa. Og ef ætti að manna leyniþjónustu með hæfu menntuðu fólki, mun geta okkar til að mennta ungmenni landsins verða enn minni og má það nú ekki minna vera.
Frá síðari heimstyrjöldinni höfum við verið undir verndarvæng annarra þjóða, þegar að vörnum landsins kemur, lengst af verndarvæng Bandaríkjanna en hin síðari ár einnig annarra Nato ríkja. Við eigum að efla þau samskipti, bæði til austurs sem vesturs. Þó nú um stundir sé ruglað gamalmenni við stjórn í vestri og hart unnið að eyðingu vinaþjóða okkar í austri, er það tímabundið ástand. Því mun ljúka. Við megum ekki láta einhverja eina eða tvær persónur, með völd til skamms tíma, skemma þá vináttu.
Okkar hlutverk ætti frekar að vera að bera klæði á þær tímabundnu deilur. Að vinna að því að Evrópa og Bandaríkin nái aftur saman. Þannig tryggjum við okkar varnir best.
Hitt er svo annað mál að Landhelgisgæsluna þarf að efla, rétt eins og heilsugæsluna og menntakerfið. Meðan við vorum fátæk þjóð gátum við rekið öfluga Landhelgisgæslu, með mörgum skipum, við vorum með sjúkrahús um landið þvert og endilangt og börnin okkar komu læs og skrifandi úr skyldunámi. Hvers vegna ekki núna, þegar þjóðin er margfalt auðugri?
Við höfum hins vegar ekkert við her að gera, höfum ekki efni á að reka slíka peningabræðslu og eigum ekki mannskap til að fórna í slíka endaleysu.
Trump hvað?
14.11.2024 | 00:48
Eins og skoðanakannanir nú segja þá er nokkuð víst að Samfylking muni verma ráðherrastóla eftir kosningar. Líkur eru á að Viðreisn muni einnig fá einhverja stóla. Enn sem komið er eru þessir tveir flokkar þó ekki með hreinan meirihluta, samkvæmt skoðanakönnunum og því vantar einhverja hækju undir vagninn. Miklar líkur eru á að sá ísheiti muni verða til í tuskið.
Samfylkingu er stjórnað af fyrrum bankamanni, sem afrekaði það hellst á þeim tíma er hún vann í bankanum að ávaxta örlítið eigið fé, lagði til 3 milljónir og endurheimti 100 milljónir þrem árum síðar. Ekkert að því svo sem, sumir eru heppnari en aðrir, eða þannig. Hitt var verra að þessi fjármálasnillingur taldi þann hagnað rangt fram til skatts og ætlaði að spara sér smá aur með því, eða um 25 milljónir. Sem betur fer komust skattayfirvöld að plottinu og rukkaði það sem ávantaði. Ekki fylgir sögunni hvort eða hversu mikið formaðurinn þurfti að greiða í sekt fyrir rangt framtal, svona eins og fletir þurfa að gera.
Samfylkingin fór þá leið, eins og reyndar flestir flokkar, að handvelja fólk á sína framboðslista. Þar var gengið framhjá góðum og gegnum krötum en valin þekkt andlit í staðinn. Einn af þeim sem hlutu náð formannsins ber stöðu sakbornings á bakinu og nú hefur verið upplýst að hann hafi sýnt af sér einstaka kvenfyrirlitningu á fyrri árum. Auðvitað er það svo að menn eiga að geta unnið sig frá sök sinni og gerst betri menn. En ekki er að sjá að viðkomandi hafi gert neitt í því að sanna að hann sé orðinn betri maður. Afsökunarbeiðni nú, mörgum árum síðar og einungis af því að málið komst upp, er lítt trúanlegt. Menn hafa sagt sig frá framboði fyrir minni sakir.
Formaður Samfylkingar talar mikið um planið sitt, að hún hafi plan. Virðist litlu skipta hverju hún er spurð að, hún er með plan. Loks var svo þetta plan hennar opinberað almenningi. Vissulega falleg orð þó maður hefði orðið svolítið áttavilltur við lesturinn. Planið stóa var meira í ætt við þær áherslur er aðrir flokkar, gjarnan hengdir við "hægri" hafa boðað genum tíðina. Fátt kratalegt í því plani. Algerlega á skjön við þau verk sem þessi flokkur hefur sýnt af sér hvenær og hvar sem hann hefur komist til valda. Það er nefnilega til saga og sagan segir okkur hver verkin eru. Orð og verk fara ekki alltaf saman og því eina sem hægt er að gera, er að skoða verkin. Þau segja okkur sannleikann, segja okkur hvernig þessi flokkur spilar alltaf öllu á kaf í skuldasúpu.
Það er erfiðara að meta verk Viðreisnar, enda sá flokkur lítið fengið að verma ráðherrastóla. Kannski má þó skoða verk þess flokks í sveitastjórnum, en þar er hann algerlega á plani við Samfylkingu.
Hitt er vitað að formaður Viðreisnar er ekki síður göldrótt en formaður Samfylkingar þegar kemur að eigin veski. Á einni nóttu tókst henni að forða fjölskildu sinni frá stórtapi, við bankahrunið. Tókst að láta margra milljarða króna lán hverfa. Á sama tíma voru eignir hins venjulega manns tekna miskunnarlaust af fólki, þó skuldin væri í sjálfu sér ekki há. Fólk lenti á götunni, fjölskyldur tvístruðust og sumir komust ekki lifandi frá hildarleiknum. Formaður Viðreisnar þurfti ekki að berjast við slík harðindi.
Þessir tveir formenn eru því næstum galdrakonur. Í það minnsta hefðu þeir bræður Eggert ríki og Páll í Selárdal verið fljótir til að dæma, ef þær hefðu verið uppi á þeirra dögum.
Og svo er það hækjan, þessi ísheiti. Þar fer auðvitað flokkur sem allir þekkja, enda verið við völd undanfarin ár. Hefur ísheitur safnað kringum sig jáhirð, svona eins og konungar forðum og veit því lítið hvað klukkan slær utan hennar. Helstu já menn ísheita hafa sýnt að þeirra hugur liggur helst erlendis, hjá auðmönnum. Unnið er statt og stöðugt að því að afhenda erlendum auðrónum land svo þeir fái að rústa okkar fögru náttúru með risa vindorkuverum. Nú síðast gefið land austur á Héraði undir slík ósköp. Reyndar lítill sem enginn markaður fyrir svo óstöðuga orku hér á landi, enda magnið með þeim ósköpum að varla er hægt að átta sig á umfanginu.
En það er allt í lagi, skiptir litlu hvort markaðurinn er til eða ekki, það er nægur markaður fyrir alla orku erlendis, stöðuga sem óstöðuga og þar kemur annar jámaður þess ísheita við sögu. Hún ætlar að láta Alþingi samþykkja bókun35 við EES samninginn, bókun sem vísvitandi var haldið frá samningnum í upphafi þar sem ljóst var að þessi bókun gengi of nærri stjórnarskránni. Megin tilgangur þess að fá þessa bókun samþykkt er að leysa þann vanda er upp kom er orkupakki3 var samþykktur. Til að ná meirihluta á Alþingi var sett heimatilbúin sérgrein um að Alþingi eitt gæti ákveðið hvort héðan yrði lagður raforkustrengur til Evrópu. Allir vita að þessi séríslenska viðbót mun ekki halda en til að þurfa ekki að standa í málaferlum telur Sjálfstæðisflokkur hentugra að samþykkja einfaldlega þessa bókun. Þar með fellur þetta sér íslenska ákvæði sjálfkrafa úr gildi og sú stofnun ESB sem við höfum selt okkur til, mun hafa öll ráð. Enda frumforsenda þess að virkja vind á Íslandi að strengur verði lagður til meginlandsins. Þannig og einungis þannig er einhver von til að hægt sé að reka hér á landi vindorkuver, án mikils taps.
Reyndar er það svo að í stefnuskrá Samfylkingar er ekki minnst á vindorku. Hins vegar lét formaður flokksins frá sér þau orð í netprodkasti að henni þætti ekkert að því að raforka yrði seld úr landi. Viðreisn er með skýra stefnu, vindorkuver eiga að rísa, sem flest og sem stærst. Um flokk þess ísheita þarf ekki að ræða, nægir að skoða verkin.
Svo er auðvitað annar kostur sem hækja fyrir Samfylkingu og Viðreisn, Framsóknarflokkur. Ætla ekki að eyða orðum á þann flokk.
Það yrði skelfilegt ef þessir flokkar ná meirihlutafylgi í kosningum.
Sigur Trumps bliknar í samanburðinum.
![]() |
Þórður má og á að skammast sín |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Kappræður ruv í drullupolli?
2.11.2024 | 09:50
Fyrstu kappræður ruv fyrir komandi kosningar voru haldnar í gærkvöldi. Sem fyrr stóð ekki á loforðum frambjóðenda og fagurgala. Þátturinn frekar litlaus og laus við skemmtun eða fróðleik.
Ekki minntist neinn frambjóðandi á afstöðu sína til vindorku, eitthvað stærsta mál sem þjóðin stendur frammi fyrir, spurninguna um hvort fórna eigi náttúru landsins til að gleðjast erlendum arðrónum. Ekki höfðu stjórnendur þáttarins dug til að koma þessu stóra máli á dagskrá, voru uppteknari við minni málefni.
Einræða formanns Framsóknar um innflytjendur kom eins og skrattinn úr sauðaleggnum, reyndar vel undirbúinn og lesin af blaði, en það er annað mál. Formaðurinn talaði eins og hann hefði ekki verið hér á landi undanfarin misseri og alls ekki verið í stól fjármálaráðherra undanfarnar vikur. Helst datt manni í hug að einhver ruglingur hefði orðið á ræðublöðum formanna, að hann hafi óvart fengið ræðu Pírata í hendur. En hvað um það, þetta var hressilegur lestur.
Formaður Framsóknar hefur sem sagt komist að þeirri niðurstöðu að innflytjendur séu ekki vandamál, kosti einungis um 1% af útgjöldum ríkisins. Nú veit ég ekki hver heildar útgjöld ríkisins eru, en hitt er ljóst að kostnaðurinn við þennan málaflokk nam rúmum 20 milljörðum fyrir síðasta ár. Árið í ár ekki liðið og nokkur tími þar til uppgjör liggi fyrir. Formaðurinn staðhæfði að kostnaður fari lækkandi. Vissulega er ljóst að 20 milljarðar skipta máli fyrir galtóman ríkissjóð.
Vandinn við innflytjendur liggur þó ekki í kostnaði, þó vissulega hann spili þar inní. Vandinn við innflytjendur liggur í stjórnleysi. Það er enginn að tala um að loka eigi á hjálp við fólk sem á í vanda, það er heldur enginn að tala um að loka á það fólk sem vill koma hingað og leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Það er verið að tala um stjórnleysið, þann óhemju fjölda fólks sem hingað kemur. Það er verið að tala um langan afgreiðslutíma umsækjenda. Það er verið að tala um getuleysi gagnvart þeim sem hafa fengið höfnun um dvalarleyfi hér á landi.
Þetta er vissulega vandi, vandi sem verður að viðurkenna og finna lausn á. Meðan það er ekki gert munu þeir sem virkilega þurfa vernd eða vilja hjálpa okkur að byggja upp samfélagið hér, settir undir sama hatt og hinir sem ekki eru að flýja hörmungar eða ekki vilja leggja sitt af mörkum. Innan þess eru þekkt glæpafélög sem virðist erfitt að ná tökum á.
Við eigum að gera vel við þá sem leita til okkar um vernd frá vá, hvort heldur það er stríðsvá eða einhver önnur. Við gætum einnig gert mikið með hjálp til þeirra er flýja stríðssvæði, með því að hjálpa þeim nær sínu heimalandi, einkum þeim sem lengst sækja hingað. Fólk í neyð ber að hjálpa.
Það eru hinir sem taka þarf á. Skelfileg þróun á sér stað um þessar mundir hér á landi, afbrotatíðni hefur aukist verulega og jafnvel farið að líta morð sem hverdagslegan atburð. Unglingarnir okkar sem upplifa þessa þróun verða sumir samdauna henni. Þetta má til dæmis rekja til aukinnar starfsemi erlendra glæpasamtaka. Þá þróun verður að stöðva.
Það var hins vegar skýring formanns Samfylkingar sem var aumkunarverð, þó margir nota einmitt þá skýringu til að réttlæta innflytjendur. Að einhver þurfi að vinna lálaunastörfin og það vilji íslendingar ekki. Aumara getur þetta varla orðið af hálfu formanns þess flokks sem kennir sig við alþýðuna.
Meðan hægt er að flytja inn fólk til að vinna á kjörum sem ekki þykja viðunandi, munu þau kjör aldrei batna! Þá er verið að viðhalda fátæktinni.
Innflytjendamál eru vissulega vandamál, þ.e. stjórn þeirra. Upphrópanir eins og hvort við eigum þá bara að loka á alla innflytjendur og nefnt sem dæmi frá stríðshrjáðri Úkraínu, eða afsakanir að við skyldum loka á gyðinga fyrir 70 árum, þjóna engum tilgangi. Það er enginn að tala um að loka á fólk í neyð.
Vandinn er til staðar og vandann þarf að leysa. Þeir sem viðurkenna hann ekki og ekki vilja leysa hann eru á kafi í "drullupolli".
![]() |
Ræða staðreyndir en ekki róta í drullupolli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vindorkuver í Fljótsdalshreppi
26.10.2024 | 18:35
Til umsagnar hjá skipulagsstofnun er matsáætlun um vindorkuver í Fljótsdalshreppi.
Mat þetta er á margan hátt illa unnið og í sumum tilfellum rangt. Þá er staðreyndum hnikað svo áhrif vindorkuversins geti talist minni en þau í raun eru. Ekki er tekið á öllum þáttum sem fylgja vindorkuverum.
Þarna er áætlað að byggja vindorkuver með 50 vindtúrbínum, hverri með allt að 7 MW uppsett afl, samtals uppsett afl upp á 350 MW. Hæð hverrar vindtúrbínu er sögð um 200 metrar miðað við spaða í efstu stöðu. Því er ljóst að sjónmengun mun verða töluverð. Í skýrslunni er hins vegar gert lítið úr þessari sjónmengun og einna líkast að matið hafi farið fram bak við tré. Þó verður að segja að erfiðara er að átta sig á að á Egilsstaðaflugvelli, þar sem einn matsstaður sjónmengunar er, skuli sjónmengun vera talin lítilsháttar. Á milli vindorkuversins og þess staðar eru engin tré, einungis fallegur Lögurinn. Fleira má nefna í þessum dúr, þar sem minna er gert úr áhrifum en raun verður, enda stór hluti skýrslunnar lagður undir þetta atriði. Þá er haldið þeim möguleika að hægt verði að auka afl vindorkuversins upp í 500 MW. Ekki sagt með hvaða hætti en þar koma tveir möguleikar til. Annar er að fjölga túrbínum úr 50 í 72, eða að velja stærri túrbínur, með uppsettu afli upp á 10 MW. Þær eru auðvitað mun hærri og að öllu leyti umfangsmeiri. Þar sem þessi möguleiki er nefndur og miðað við að þetta verði innan þess virkjanasvæðis sem skýrslan fjallar um er ljóst að síðari kosturinn er líklegri. Hvor kosturinn sem valinn verður, þá er þessi skýrsla marklaus.
Á mynd 3.2 er klassísk fölsun á stærðarhlutföllum sett fram. Þar er teikning af vindtúrbínu, húsi fyrir safnstöð og bíl. Ef vindtúrbínan á þeirri mynd er 200 metra há, eins og skýrslan gerir ráð fyrir, er þetta einnar hæða hús um 8 metrar á hæð og bíllinn fyrir utan það3,5 metrar á hæð. Reyndar má ætla að hlutföllin séu enn skakkari, þar sem að á myndinni er hægt að sjá að húsið og bíllinn er nokkuð fjær en sjálf vindtúrbínan. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem svona rangfærslur eru settar fram, virðast frekar regla en undartekning.
Varðandi sjálfa framkvæmdina er ljóst að áætlanir um fjölda þungaflutninga er vanáætlaður, jafnvel þó hvert æki er talið geta orðið allt að 150 tonn. Ekki er tiltekið hversu miklir flutningar verða vegna steypu í undirstöður, einungis að þær muni verða um 600 m2 undir hverja vindtúrbínu. Samkvæmt heimasíðum vindtúrbínuframleiðenda þarf sökkullinn að vera að minnsta kosti 4 metra djúpur, fyrir túrbínur af þessari stærð. Það gerir því 2000 m3, eða 5000 tonn af steypu undir hverja túrbínu. Þetta segir að það fara um 16,600 steypubílar, einungis í undirstöðurnar. Akstur þeirra má auðvitað takmarka með því að setja upp steypustöð á svæði, þó ekki sé minnst á þá lausn, en engu að síður þarf þá að aka hráefnum að þeirri stöð. Þannig mætti minnka það magn sem þarf að aka á svæðið úr 250.000 tonnum niður í 200,000 tonn, vegna steypunnar. En þessi kostur er ekki nefndur í skýrslunni.
Það er því ljóst að gífurlegir þungaflutningar munu liggja inn veg 931, sem er einungis sveitavegur. Hann er fjarri því að bera þennan þunga, reyndar engir vegir á Ísandi færir um það. Því þarf, ef þessi framkvæmd á að geta orðið, að endurbyggja veg 931 frá grunni. Hver á að gera það? Vegagerðin? Á að taka fé úr sveltandi ríkissjóð til að hægt sé að reisa vindorkuver sem liggur fyrir að muni aldrei getað borgað sig? Lítið er um þetta rætt í skýrslunni, einungis talað um að gera þurfi mat á því hvort vegurinn geti borið þessa umferð. Það má spara þann pening, það er víðs fjarri að að sá vegur geti borið þann þunga sem talað er um eða þá miklu umferð sem tengist þessari framkvæmd.
Í skýrslunni kemur fram að orkan sem þetta vindorkuver er ætlað að framleiða er ætluð til framleiðslu á rafeldsneyti. Sú verksmiðja þarf 250 MW stöðuga orku. Hvaðan á sú orka að koma, þegar rómaða lognið leggst yfir Fljótsdalinn? Ekki getur Fjarðarál verið stuðpúði fyrir það ástand og ekki er nein umframorka til í kerfinu. Því verður væntanlega að virkja vatnsorku einhversstaða svo þessi verksmiðja geti orðið að veruleika. Sú virkjun verður að getað skaffað a.m.k. 250 Mw. Engu breytir að fjölga vindtúrbínum á fljótsdalnum, sama hversu margar þær verða eða stórar. Þær stoppa allar ef ekki blæs! Það er eiginlega óskiljanlegt að einhverjum detti til hugar að ætla að byggja verksmiðju sem rekin verður á ótryggri orku. Þarna hlýtur eitthvað annað að búa að baki.
Lítið er rætt um áhrif vindorkuversins á dyralíf á svæðinu, einungis sagt að skoða þurfi betur þá þætti. Það hefði kannski verið betra að einmitt þeir þættir hefðu verið skoðaðir vandlega, áður en þessi skýrsla er lögð fram. En sennilega treysta verkkaupar skýrslunnar á að svo langt verði komið í ferlinu, þegar loks verður séð hver þau áhrif verða, að ekki verði aftur snúið. Það ætti ekki að vera mikið mál að afla upplýsinga erlendis frá um þessi áhrif. Það er t.d. vitað að það féll dómur í Noregi um loka skyldi vindorkuveri vegna áhrifa þess á hreindýr. Þá er einnig vitað að vilt dýr forðast að vera í nálægð vindorkuvera, einkum vegna lágtíðnihljóða frá þeim, hljóða sem mannseyrað nemur ekki en fjöldi annarra dýra er berstrípuð fyrir.
Það sem ekki er sagt.
Nýlega varð slys í nýlegri vindtúrbínu í Noregi. Gírkassinn tók að leka og fóru um 450 l af olíu niður í arðveginn. Hvernig er okkar viðkvæma náttúra, þar sem gróður berst við náttúruöflin, í stakk sett til að takast á við slíka ábót? Staðreyndin er að spaðar vindtúrbínu er látnir snúast sem næst 15 hringjum á mínútu. Þessu er stýrt með skurði blaðanna og ef vindur fer yfir ákveðin mörk er túrbínan stöðvuð. Þetta virðist ekki mikið, en þegar spaðarnir eru orðnir yfir 80 metrar á lengd er hraði þeirra við ytri enda orðinn geigvænlegur. En rafallinn þarf að ná a.m.k. 1800 snúningum á mínútu. Til að það sé gerlegt er notast við risastóra gírkassa, sem auka hraðann frá spöðum að rafal. Þessir gírkassar þurfa olíu og skipta þarf þeirri olíu út reglulega. Ef slys verður, annað hvort við skipti á olíunni eða ef gírkassinn sjálfur fer að leka, sér lögmál Newtons um hvert olían fer. Þá má ekki gleyma því að í hverri vindtúrbínu er spennir og hann þarf einnig olíu. Vandinn við þá olíu er að hún getur orðið geislavirk. Það er því ljóst að olíumengun frá vindtúrbínum er til, reyndar nokkuð algeng. Ekkert er minnst á þetta í skýrslunni.
SF6 gas, eða Sulfur hexafluoride, er gas sem er notað til kælingar á rofum í vindtúrbínum. Frá því vindorkuverum tók að fjölga verulega í Þýskalandi hefur orðið töluverð hækkun á mældu gildi þessarar gastegundar þar. SF6 gas er talið 26000 sinnum öflugri gróðurhúsagastegund en t.d. lífsandi okkar, Co2. Auk þess er endingatími SF6 einhver þúsund ár. Það er ekki neitt talað um þetta í skýrslunni, hvorki sjálfan vandann né hvort til standi að vakta þessi gildi. Reyndar er vöktun svo sem ekki neitt annað en að vitneskja um að skaðinn er skeður, kannski betra að láta hann ekki verða.
Nefndi áður lágtíðnihljóð frá vindorkuverum. Rannsóknir sýna að það hefur ekki einungis áhrif á þær skepnur sem heyra það, heldur getur það verið hættulegt mannskepnunni einnig. Áhrif þess hafa mælst um 15 km frá orkuveri. Þetta er orðið mikið vandamál t.d. í Hollandi, þar sem fólk er farið að flýja hýbýli sín. Ekkert er minnst á þetta í skýrslunni.
Það sem þó kemur mest á óvart er að hvergi er minnst á örplastmengun frá vindtúrbínum. Sumir reyna að gera lítið úr þeirri mengun en í þessari skýrslu er hún ekki nefnd. Örplastmengun er einhver hættulegasta mengun sem herjar nú á heimsbyggðina. Af þeirri ástæðu var t.d. skylda að festa alla plasttappa við flöskur og fernur, svo þeir skiluðu sér aftur í endurvinnslu. Spaðar vindtúrbína er að mestu gerðir úr trefjaplasti, þ.e. glertrefjar eru bundnar saman með epoxy plasti og húðaðar með sérstakri plasthúð. Þetta plast eyðist af með tímanum, misjafnt eftir veðurálagi, uns komið er inn í glertrefjarnar. Reynslan erlendis er að þetta taki kringum 10 ár, en þá er spöðum skipt út fyrir nýja. Einhver misskilningur er að glertrefjarnar séu hættulegastar. Vissulega eru þær hættulegar meðan þær eru enn glertrefjar, en síðna brotna þær niður og verða að sinni upphaflegu mynd, sandi. Það er hins vegar epoxyið og varnarlagið sem er hættulegt. Það er pjúra plast og trosnar af sem ósýnileg mengun er fellur ekki bara næst vindorkuverinu, heldur getur fokið langan veg uns það lendir. Þar fer það inn í flóruna, samlagast vatninu og skepnur og menn innbyrða það með ófyrirséðum afleiðingum.
Það verður alltaf ljósara og ljósara hversu mikill skaðvaldur vindorkuver eru fyrir náttúruna. Sjónmengun er auðvitað hlutlæg en hefur sannarlega neikvæð áhrif á ferðaþjónustu. Fasteignaverð lækkar þar sem slík orkuver rísa og fleira má nefna er tengist sjónmenguninni. Olíumengun er eitthvað sem menn setja ekki í samhengi við vindorkuver, en er þó töluverð í þeim bransa. SF6 mengun er einhver hættulegasta mengun fyrir andrúmsloftið og ekki nein leið að sjá fyrir endann á henni. Örplastmengun er einhver mesta vá er mannkynið stendur frammi fyrir og miklir fjármunir lagðir til að reyna að vinna bug á henni. Ekkert er þó öflugra að vinna gegn okkur á því sviði en einmitt vindorkan. Ekki einungis meðan spaðar eru í notkun, heldur ekki síður þegar þeim er fargað. Ekki hefur fundist raunhæf leið til endurvinnslu þeirra. Allar þær leiðir sem reyndar hafa verið byggja á enn meiri mengun, bara á öðrum sviðum. Því hefur sú leið verið valin að urða þá, þar sem plastið úr þeim leysis smám saman upp og verður að örplasti sem fer inn í lífskeðju heimsins.
Því má segja að fáar ef nokkra aðferðir til að vinna raforku sé jörðinni skaðlegri en vindorka og kannski réttnefni að tala um örplastverksmiðjur.
Við björgum ekki náttúrunni með því að fórna henni!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Flestir læra af fortíðinni, öðrum er það fyrirmunað
24.10.2024 | 00:12
Eitt það besta í fari mannskepnunnar er að geta lært af fortíðinni. Þannig hefur okkur tekist að komast á þann stað sem við erum nú, þannig hefur þróun mannskepnunnar orðið til. En sumir hafa ekki þennan eiginleika, er fyrirmunað að nýta sér þá visku sem fortíðin gefur okkur.
Fyrir nokkrum misserum komu erlendir aðilar til Íslands, í þeim tilgangi að koma sínum draumum í verk. Sá draumur var um að bjarga heimsbyggðinni. En þetta var bara draumur og eftir að hafa flutt hingað mikið magn af tréflís frá norður Ameríku, landað henni hér, skipað aftur á pramma og flutt hálfa leið til baka aftur og sturtað þar í sjóinn, vöknuðu menn upp við að þetta var enginn draumur, heldur martröð. Þáverandi bæjarstjóri Akraness var þessum mönnum til halds og trausts og greiddi veg þeirra. Var duglegur að mæra verkefnið. Taldi það gullsígildi fyrir heiminn og ekki síst nærsamfélagið sitt.
Nú er bæjarstjórinn orðinn forstjóri Orkuveitunnar. Ekki er hægt að sjá að hann hafi lært mikið af martröðinni. Hann er enn í draumheimum, eins og ekkert hafi í skorist. Nú er það ekki 8000 manna bæjarsjóður sem hann er að gambla með, heldur fjöregg okkar hér á suðvesturlandi, sjálfa Orkuveituna. Leggur hana og lífsafkomu hundruð þúsunda að veði í nýtt tilraunaverkefni sem er engu vitlegra en flísaævintýri Running Tide.
Það efast enginn um að hægt er að binda co2 í berg, langt niður í iðrum jarðar. Þetta er þegar gert í litu mæli. Hvort hægt er að binda það mikla magn sem til stendur að dæla í iður jarðar við Hafnarfjörð er allsendis óvíst. Um það snýst þessi tilraun. Ekki er einungis um mikið magn af co2 ásamt eiturefnum frá erlendum iðnfyrirtækjum, heldur er það vatn sem nota skal til niðurdælingarinnar af þeirri stærðargráðu að með ólíkindum er ef það hefur ekki áhrif á berggrunninn. Berggrunn sem er nærri virkum eldstöðvum. Enn eru sömu rök notuð, þetta er svo gott fyrir heimsbyggðina og ekki síst nærsamfélagið. Jafnvel farið að nefna háar upphæðir í gróða og byrjað að eyða honum.
En hvers vegna að dæla CO2 niður í jörðina og umbreyta í einhverjar steineindir? CO2 er dýrmætt vara og á bara eftir að aukast að verðgildi. Vistvænt eldsneyti er eitt af því sem heimurinn kallar eftir og þar kemur CO2 sterkt inn, enda einfalt að vinna eldsneyti úr þeirri afurð. Þá er þetta eitt af grunnefnum til að auka græna matvælaframleiðslu, sem íslenskir bændur nýta til að dæla inn í gróðurhús sín. Og ekki má gleyma öllum gosdrykkjunum sem við erum svo dugleg að drekka.
Stærsti markaðurinn fyrir CO2 verður þó til eldsneytisframleiðslu. Ekki víst að Orkuveitan geti keppt við þann markað. Hvað þá? Hvað ætlar Orkuveitan að gera ef verð á þessari auðlind hækkar meira en þeir ráða við? Hverjir þurfa þá að taka skellinn? Jú, þeir sömu og þurftu að taka skellinn vegna risarækjuverkefnis fyrirtækisins, þó sá skellur væri sem blíðasta klapp miðað við Carbfix ævintýrið.
Nú er það svo að CO2 í andrúmslofti hefur hækkað um fjórðung á stuttum tíma. Hvort það er gott eða slæmt eru vísindamenn ekki sammála um. Hitt er vitað að magn þessa lífsanda var kominn hættulega neðarlega, svo neðarlega að ef það hefði lækkað að sama skapi og það hækkaði, væri líf sennilega ekki lengur til staðar á jörðinni. Hugmyndir um eldsneytisframleiðslu úr þessum lífsanda okkar eru komnar lengra en margan grunar og kannski mun það verða jörðinni hættulegast. Að svo mikið af CO2 verði unnið úr andrúmsloftinu að líf geti ekki þrifist.
![]() |
Fjögur stórverkefni OR: 350 milljarðar til Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
ESB drottningin
16.10.2024 | 19:07
ESB drottningin vill leiða Sjálfstæðisflokkinn. Velji flokksmenn svo segi ég bara, verði ykkur að góðu!
Við kjósendur í norð- vestur kjördæmi getum hins vegar glaðst yfir að hún hefur ákveðið að yfirgefa okkur.
Fátt er svo með öllu illt ....
![]() |
Tilbúin að leiða Sjálfstæðisflokkinn inn í framtíðina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |