Um hæfi, óhæfi, EES og fleira
3.2.2019 | 03:35
Sú undarlega staða kom upp á Alþingi Íslendinga fyrir rúmum mánuði síðan, að málefni sem barst forsætisnefnd var ekki hægt að afgreiða þar sem allir sjö forsetar Alþingis voru óhæfir til að taka á málinu. Þrátt fyrir þá óhæfni, ákvað forseti Alþingis, eða forsætisnefnd, að skipa nýja forseta þingsins. Ekki fundust þó fleiri en tveir, af þeim 63 sem þingið sitja, sem bæði töldust hæfir til að taka á málinu og voru tilkippilegir í þann leik. Vissulega er gleðilegt þegar kjörnir eða skipaðir fulltrúar víkja þegar hæfi þeirra þverr, ekki alltaf sem slíkt gerist hér á landi. Skugginn sem fellur þó á er sá að ekki verður annað séð en að Alþingi hafi með þessari gjörð brotið 3ju grein laga um þingsköp. Þar er skýrt kveðið á um forseta og sex varaforseta Alþingis. Ekki ætla ég að hafa þá sögu lengri núna, þó hægt væri að skrifa marga pistla um það mál.
Í lok ágúst á síðasta ári skipaði utanríkisráðherra starfshóp til að meta kosti og ókosti EES samningsins. Formaður þess hóps er Björn Bjarnason, fyrrum þingmaður og ráðherra. Með honum sitja Kristrún Heimisdóttir, fyrrum varaþingmaður Samfylkingar og framkvæmdarstjóri SI og Bergþóra Halldórsdóttir, lögmaður SA. Allt ágætis fólk sem örugglega mun gera sitt best þó erfitt sé að sjá hlutleysi þess í málaflokknum.
Reyndar er formaður hópsins þegar búinn að gera störf starfshópsins marklaus, hver svo sem niðurstaðan verður. Hlutleysi veltur á ýmsu, en þó efast enginn að þar skiptir þó mestu máli hvernig menn tjá sig. Þetta vissu allir sjö forsetar Alþingis, er þeir viku frá máli sem á þeirra borð kom. Þetta virðist hins vegar ekki formaður starfshóps um mat á kostum og ókostum EES samningsins gera.
Björn Bjarnason heldur úti eigin bloggsíðu, þar sem hann tjáir hugleiðingar sínar um hin ýmsu mál, daglega. Oft er gaman að lesa pistla Björns, enda maðurinn ágætlega stílfær.
Síðastliðinn mánuð brá Björn ekki útaf þessari reglu sinni. Einn pistill á dag, rétt eins og klukka. Í þeim mánuði fjölluðu um þriðjungur pistla hans um EES, ESB eða önnur mál því nátengdu. Björn hefur í sjálfu sér aldrei dregið dul á hug sinn til EES. Annað kemur á daginn þegar að ESB kemur. Þá virðist hellst skipta máli hver tjáir sig, hvern hann er að gagnrýna eða sannmælast. Það er t.d. öruggt þegar einhver Samfylkingarmaður hælir ESB þá er Björn andstæðingur sambandsins. Ef annar sem er honum nær í pólitík mærir sambandið, gerir Björn slíkt hið sama. Þegar hann velur að tjá sig um það án þess að vera að svar öðrum, fer hins vegar ekki milli mála að ást hans til ESB er meiri en ætla mætti. Þetta sést vel í þeim mörgu pistlum sem hann hefur ritað um Brexit, en þar gagnrýnir hann Breta hart fyrir þá ósvinnu að hafa dottið til hugar að vilja yfirgefa sambandið og síst of mikið gert hjá fulltrúum ESB í því að hefna þess.
En starfshópur Björns á ekki að fjalla um ESB og honum því heimilt að ræða það opinberlega eins og honum sýnist. Það er EES samningurinn sem starfshópurinn á að skoða og meta. Þar skiptir engu máli hver tjáir sig eða hvernig, Björn tekur ætið upp hanska EES og er ósínkur við það. Skrif hans um orkupakkann hafa verið mörg og sum hver ákaflega undarleg. Fer þar fram með fullyrðingar sem ekki standast og er ósínkur á að rangnefna menn og gera lítið úr þeim. Gengur jafnvel svo langt að nefna einhvern virtasta sérfræðin Norðmanna í Evrópurétti sem lögfræðing á þröngu siði fiskveiða, einungis vegna þess að sá maður hefur verið talsmaður þeirra sem vilja segja upp aðild Noregs að EES samningnum. Kannski er það einmitt vegna þeirrar afstöðu sinnar sem sá lögfræðingur hefur sérhæft sig í Evrópurétti, til að vinna gegn öllum þeim sem eru á launum frá Brussel og þá um leið að vinna fyrir stórann meirihluta norsku þjóðarinnar.
Jafnvel í gær tókst Birni að koma hug sínum til EES að, í pistli sínum um einkavæðingu bankanna og gagnrýni á skrif Þórðar Snæs Júlíussonar um það mál. Þar vill Björn meina að engin hætta felist í einkavæðingu nú, enda sé regluumhverfið orðið allt annað í dag, þökk sé EES samningnum. Honum láist hins vegar að geta þess að hrun bankakerfisins náði þeim skala að koma landinu nánast á hausinn, að fjöldi fjölskyldna landsins endaði beinlínis á götunni, einmitt vegna EES samningsins og ákvæða hans um frjálst flæði fjármagns.
Einkavæðing bankanna hefði sjálfsagt getað orðið, þó enginn EES samningur hefði verið til staðar, en vegna þess samnings og ákvæðis um frjálst flæði fjármagns milli landa, gat sú einkavæðing skapað þá stöðu að bankakerfið óx langt umfram getu landsins til að standa undir því og því fór sem fór. Meðan við erum aðilar að EES samningnum getur slíkt gerst aftur, alveg sama hversu mikil lög og miklar reglur eru settar. Það verður þá bara enn meira spennandi að komast framhjá þeim. Því er í raun forsenda þess að allt bankakerfið verði einkavætt, að EES samningnum og þeirri tengingu sem hann gerir okkur við markaði sem við eru okkur ofurefli, verði segja upp.
Óhæfi Björns til mats á kostum og ókostum EES samningsins er algjört og ljóst að hann mun ekki segja sig frá þeirri vinnu. Gulli ætti því að kalla hópinn til sín, uppræta hann og stofna nýjan, með fólki þar sem ekki verður efast um hæfi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Að rembast eins og rjúpan
2.2.2019 | 20:10
Enn er rambst eins og rjúpan við staurinn. Þegar reglur og lög eru ekki hagkvæm þeim sem vilja komast að ákveðinni niðurstöðu, er þeim einfaldlega breitt.
Nú ætla hinir nýju forsetar Alþingis, sá áttundi og sá níundi, að undirbúa erindi um gildissvið siðareglna þingmanna til nefndarmanna. Sem sagt, siðareglurnar ná ekki yfir það málefni sem þessum auka auka forsetum var falið að leiða í höggstokkinn. Eða eru fulltrúar í siðanefnd kannski bara ekki læsir?!
Í annarri grein siðareglana fyrir alþingismenn er fjallað um gildissvið þeirra reglna. Þar segir orðrétt:
Gildissvið.
2. gr.
Reglur þessar gilda um alþingismenn við opinbera framgöngu þeirra og snerta skyldur þeirra sem þjóðkjörinna fulltrúa.
Svo mörg voru þau orð og í raun auðskilin, en henta þó ekki þeirri niðurstöðu sem hinir nýju dómarar rannsóknarréttarins var falið að ná.
Að Halli á Reyn skuli láta leiða sig í svona forarsvað er magnað. Hann mun missa virðingu margra sveitunga og kjósenda vegna þessa. Hitt er eðlilegra, að þingmaður VG skuli vera strengjabrúða yfirvalds síns flokks, kommúnismi felst jú í því að herrann stýri og hinir hlýði.
![]() |
Undirbúa erindi til siðanefndar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Hringavitleysa
1.2.2019 | 22:03
Vegurinn um Kjalarnes er oft torsóttur og hættulegur. Hætturnar skapast þó ekki vegna hraðs aksturs og ekki vegna gatnamóta. Flest slys verða af tveim þáttum, veðri og frammúrakstri.
Veðrinu stjórnum við ekki og því lítið hægt að gera þar til bóta. Þó mætti hugsa sér að vegagerðin, í samvinnu við landeigendur, myndi standa fyrir skógrækt á um eitthundrað metra breiðu belti norðan vegarins. Þannig mætti hugsanlega minnka þá vindstrengi sem feykja bílum útaf.
Varðandi slys vegna frammúraksturs þá stafa þau í flestum tilfellum af því að einhverjum, gjarnan erlendum túristum, dettur í hug að aka þennan veg á mjög hægum hraða. Það leiðir til frammúraksturs og vegna mikillar umferðar um veginn getur það leitt til skelfilegra slysa. Oftar en ekki lendir maður í því að umferðahraðinn um Kjalarnesið er 50 - 60km/klst, þar sem hámarkshraði er 90km/klst. Það gefur sig sjálft að margir reyna frammúrakstur við slíkar aðstæður, jafnvel þó aðstæður til slíks séu vart fyrir hendi. Stundum tekst það, stundum ekki.
Því er brýnt að breikka þennan veg. 2+1 vegur mun þar ekki duga, þar sem ekki er hægt að sjá mun á því hvort menn velji að aka frekar hægt til austurs eða vesturs. Yfir sumartímann má styðjast við veglínur en á veturna stoðar slíkt lítið og hætt við að erlendir ferðamenn verði enn meira undrandi og enn meiri hætta skapist.
En vegagerðin er engu lík. Hún ætlar að leggja 1+2 veg og telur það bara yfirdrifið. Reyndar má það til sanns vegar færa, 1+1, 1+2, 2+2 eða jafnvel 3+3 skiptir bara engu máli, eftir að Kjalarnesið hefur verið fyllt af hringtorgum!
Hringtorg eru góð og gild, þar sem þau eiga við, s.s. innan íbúðabyggðar og við vissar aðstæður þar sem nauðsyn þykir að hægja á eða stöðva umferð. Út á þjóðvegum eru slík fyrirbrigði beinlínis hættuleg, auk þess sem þau valda meiri mengun og auknu sliti á bílum. Ellefta hringtorgið á leið þeirra sem ferðast frá Hvalfjarðargöngum til höfuðborgarinnar var tekið í notkun fyrir um mánuði síðan. Þar hefur þegar orðið eitt slys og umferðartafirnar sem því torgi fylgja eru farnar að nálgast Esjurætur.
Og nú ætlar vegagerðin að bæta a.m.k. þremur við, þannig að hringtorgin á þessari leið verða orðin 14! Dekkjasalar munu kætast.
Hvergi erlendis hef ég lent í að aka gegnum hringtorg á stofnvegi, þó þau þekkist vissulega innan íbúðahverfa. Gatnamót eru gatnamót, oftar en ekki án umferðaljósa, jafnvel þó á stundum séu allt að fjórar akreinar í hvora átt eftir stofnveginum og tvær akreinar í hvora átt á veginum sem hann þvera. Þetta er ekki talið vandamál og aldrei hef ég orðið var við umferðatafir vegna þessa, utan borgarmarka. A.m.k. engar umferðartafir í líkingu við þær sem nú eru farnar að myndast við hringtorg nr. 11 a Vesturlandsvegi. Þegar umferð nær ákveðnum fjölda og slík gatnamót anna ekki umferðinni, eru gerð mislæg gatnamót. Á leiðinni um Kjalarnesið er vissulega mikil umferð til austurs og vesturs, en lítil um þau gatnamót sem að veginum liggja.
Hringavitleysa vegagerðarinnar ætlar engan endi að taka. Það er ljóst að þar á bæ er lítt spáð í kolefnisspor eða einhverja slíka vitleysu, lítið spáð um slit bíla, lítið spáð umferðarflæði og það sem er verst, lítið spáð í umferðaröryggi. Hvaða viðmið vegagerðin notar er erfitt að sjá.
Bloggar | Breytt 2.2.2019 kl. 06:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Dýralæknar
30.1.2019 | 21:19
Dýralæknum er margt til lista lagt. Í fagi sýnu eru þeir flestir nokkuð góðir og sumir frábærir. Í öðrum störfum blómstra þeir gjarnan, sérstaklega ef um er að ræða einhver gamanmál, s.s. stjórnun þorrablóta eða réttarsöngs. Annað kemur á daginn þegar þeir ofmetnast og dettur sú fjarstæða í hug að taka þátt stjórnmálum.
Eitt sinn var dýralæknir gerður að fjármálaráðherra, landið fór á hausinn. Nokkru seinna varð annar dýralæknir landbúnaðarráðherra. Þarna var vissulega sterk tenging og mátti búast við góðu. Eitt helsta afrek hans var þó að gera samning við ESB um stór aukinn innflutning á landbúnaðarvörum. Nú er sá sami dýrlæknir orðinn samgönguráðherra og ekki beinlínis hægt að segja að hann sé að standa sig í því hlutverki.
Í kastljósi kvöldsins var viðtal við ráðherrann/dýralækninn um samgöngumál. Í stuttu máli kom lítið fram hjá honum um þau mál, nema að til stæði að skattleggja og skattleggja og skattl.....
Spurður um hvað svokölluð borgarlína væri, sem ríkið hefur nú ákveðið að taka þátt í, sagði ráðherrann að hún væri skipulagsmál. Annað fékkst ekki um þann málaflokk, nema auðvitað að leggja á skatt vegna hennar.
Um aðrar skattlagningar, þ.e. þær sem nefndar hafa verið rangnefninu veggjöld, var sama upp á teningnum, svörin fátækleg að öðru leyti en því að skatturinn yrði lagður á.
Svo til að kóróna alla vitleysuna þá vill ráðherrann/dýralæknirinn leggja á einhvern ótilgreindan skatt til að stjórna umferð, af því að þeir gera svoleiðis í Osló! Ja, mikill er máttur Dags.
Eitt lítið augnablik sperrti maður þó eyrun, þegar hann fór að tala um að skattur á eldsneyti yrði aflagður. Sú gleði stóð stutt, þar sem á eftir fylgdi að einhver annar skattur kæmi í staðinn. Hver eða hvernig vissi ráðherrann ekki, en slíkar skattabreytingar hafa ætið leitt til aukins skatts.
Ráðherrann/dýralæknirinn veit ekki hvað borgarlína er, en honum er vorkunn. Enginn veit hvað borgarlína er. Það sem verra er að enginn veit heldur hvað hún muni kosta. Þó er ráðherrann búinn að draga þar Dag að landi og lofa honum bæði fjármunum og heimild til skattlagninga. Fyrir áratug var ákveðið að leggja einn milljarð á ári úr vegafé til Reykjavíkurborgar, til að efla almenningssamgöngur. Árangurinn af þeim tíu milljörðum er akkúrat enginn. Enn ferðast sama hlutfall borgarbúa með almenningsvögnum, um 4%. Umferðateppur hafa hins vegar aukist verulega.
Álagning skatta vegna aksturs yfir ákveðnar línur á þjóðvegakerfinu er eitthvað sem ráðherrann ætti að geta útskýrt, hefur nú talað fyrir málinu í rúmt ár, eða frá áramótafagnaðinum 17/18, eftir að hafa náð kosningu inn á Alþingi nokkrum vikum fyrr vegna loforða um að aldrei skildi slíkur skattur verða meðan hann stæði vaktina. Væri sjálfsagt búinn að halda margar og harðorðar ræður gegn slíkum skatt allt síðasta ár, ef hann hefði ekki dottið í lukkupottinn og fengið ráðherrastól!!
Það sem kom á óvart í viðtalinu í kastljósi var þó hversu lítið hann gat tjáð sig um þessa skattlagningu. Vissi hvorki hvar eða hvernig slík skattheimta yrði. Óljóst muldur um myndavélar kom hann með, en virtist þó alveg út á þekju. Kannski ætti ráðherrann að hringja til Stokkhólms til að vita hvað kostar að setja slíkar vélar upp, reka þær og síðan innheimta gjaldið. Reyndar búa þrisvar sinnum fleiri í Stokkhólmi en allir íbúar Íslands, en það er bara aukaatriði. Í stuttu máli stendur sú innheimta Stokkhólms undir sér, en ekki meir en svo. Lítill sem enginn afgangur er til annarra verka, enda sú skattlagning ekki ætluð til þess.
Að ætla að stjórna umferð með skattlagningu er fráleitt. Sjálfsagt að efla og bæta almenningssamgöngur, t.d. með aukinni tíðni ferða. Vel má einnig hugsa sér að fleiri sér akreinar, eins og er t.d. með Miklubraut, verðu gerðar. Það mætti allt eins kalla Borgarlínu, fyrir brot af þeirri upphæð sem draumóramenn nefna. Það kallar ekki á eitthvað innviðagjald eða hvað menn nefna þá skatta sem Dagur er búinn að véla ráðherrann til að samþykkja. Það er alvarlegt mál þegar stjórnvöld gefa fólki sem ekki hefur hundsvit á fjármálum, opið leyfi til skattlagningar!
Mikið er rætt um mengun og sjálfsagt að halda henni eins lítilli og kostur er, hvaða ástæðu sem velja til þess rökstuðnings. Einhver mesta sókn á því svið í Reykjavík er að auka flæði umferðar. Það er nefnilega flæðið sem mestu máli skiptir, ekki endilega fjöldi akreina. Við hverja töf sem bíll verður fyrir eykst mengun hans margfalt. Slíkar framkvæmdir þurfa oft ekki að vera mjög dýrar og leiða gjarnan af sér einföldun og betra flæði gangandi og hjólandi umferðar.
![]() |
Verklegar framkvæmdir hefjist 2021 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Orðlaus
30.1.2019 | 02:08
Er búinn að velta þessari frétt fyrir mér núna í tæplega hálfann sólahring. Nokkrum sinnum hef ég sest við lyklaborðið, en ekkert kemur. Sumt er svo gjörsamlega út í hött að orðum verður ekki á það komið.
Held að tími sé kominn til að senda meirihluta borgarstjórnar í geðrannsókn. Það hlýtur eitthvað hafa slegið saman í hausnum á þessum einstaklingum.
Maður skammast sín fyrir að vera samlandi þessa fólks.
![]() |
Pálmatré í Vogabyggð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 03:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Japl, jaml og fuður
29.1.2019 | 20:28
Hafi mannskepnunni verið ætlað að þrífast á grasi og hundasúrum, hefði skaparinn látið hana fá vömb, kepp, laka og vinstur, til að vinna næringarefnin úr þeirri fæðu. Þess í stað erum við með maga, görn og þarma, rétt eins og aðrar kjötætur.
Mér er nokk sama þó einstaklingar vilji brjóta náttúrulögmálið og lifa á grasi og hundasúrum. Það er auðvitað val hvers og eins hvernig hann misbeitir sínum líkama. Og ekki amast ég við því þó fólk velji að kalla sig vegan.
Hitt verður vart við unað, þegar það fólk sem kýs að lifa á grasi og hundasúrum, vill neyða slíkum lifnaðarhætti upp á aðra. Þegar farið er að krefjast þess af ríki og sveitarfélögum að skattfé sé beitt til að halda uppi áróðri þeirra. Þegar krafist er af menntakerfinu og heilbrigðiskerfinu að venjulegur heimilismatur verði látinn víkja fyrir grasi og hundasúrum.
Flest ef ekki öll mötuneyti landsins bjóða upp á fæði fyrir svokallað vegan fólk. Yfir því amast ég ekki, enda venjulegur heimilismatur einnig í boði. Þarna getur fólk valið.
Ekki hefur nokkurn tímann heyrst að fólk sem étur venjulegan heimilismat vilji láta banna grasafæði. Hvorki hjá mötuneytum ríkisstofnanna né annarsstaðar. Ekki heldur hefur nokkrum manni dottið til hugar að krefja ríkið um að halda kjötfæði framar en grasafæði. Þarna á fólk einfaldlega að hafa val.
Við lestur þessarar undarlegu fréttar datt mér í hug kvæði vesturfarans og stórskáldsins Stephan G Stephanssonar:
Þá kvað einn: ,,Vér úrráð höfum:
Út og suður karlinn gröfum.
Ei þarf lubbinn óvandaður
Eins að liggja og dánumaður.
Eftir japl og jaml og fuður
Jón var grafinn út og suður.
![]() |
Margt sem ríki og sveitarfélög gætu gert |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 30.1.2019 kl. 02:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sekur uns sakleysi er sannað
19.1.2019 | 10:02
Hvort Jón Baldvin er sekur eða saklaus er mér nokk sama um, enda kemur mér það bara hreint ekkert við. Fjölmiðlar eru þó ekki í vafa og sumir stjórnmálamenn, bæði samherjar sem mótherjar hans, efast heldur ekki. Það segir þó ekki að hann sé sekur. Sjálfur hef ég sjaldan verið Jóni sammála í pólitík, en þar liggja einu kynni mín af honum. Hitt er ljóst að hvar sem sökin liggur, þá er þarna um skelfilegan fjölskylduharmleik að ræða, harmleik sem ekkert erindi á í fjölmiðla.
Og nú er Helga Vala orðin fórnarlamb, á að vera haldin stelsýki, að eigin sögn. Ég hafði reyndar aldrei heyrt þennan söguburð um Helgu Völu fyrr en hún sjálf nefndi hann og reyndar hef ekki getað fundið neitt um það mál síðan, nema frá henni sjálfri. Hellst dettur manni í hug að hún sé að reyna að mynda á sér einhvern samúðarstimpil og jafnvel að koma því svo fyrir að hægt verði að kenna öðrum um þann söguburð, hellst þeim sem hún nú ofsækir í nafni Alþingis.
Það er annars undarlegt hvað þetta vinstra fólk er áfjáð í að öll deilumál verði leyst á pólitískum grunni. Að dómstólum og þeim stjórnvöldum sem með rannsóknir fara, verði hellst haldið sem lengst í burtu. Fjölmiðlana hefur þetta fólk flesta á sínu bandi og fóðrar þá reglulega, til að byggja sín mál upp. Erfiðara er að fóðra lögskipaða rannsakendur og dómstóla á sögusögnum.
Í svokölluðu Klaustursmáli hafa þeir sem eru sagðir sekir, reynt að fá sitt mál rannsakað af réttum yfirvöldum, án árangurs. Helga Vala telur sig betri og vill ákæra þá í nafni pólitíkusar.
Ágúst Ólafur gerðist sekur um kynferðislegt afbrot. Því máli var haldið kyrfilega innan Samfylkingar í meira en hálft ár og lokum afgreitt á vettvangi hennar. Þar var löggiltum rannsakendum haldið utan máls og því kom ekki til kasta dómstóla að ljúka því. Niðurstaðan var enda á þann veg að fórnarlambinu og hinum seka greinir enn á um hvað gerðist og fórnarlambið því ekki fengið lausn á sínu máli.
Allir horfa á deiluna innan borgarstjórnar. Þar má ekki fela löggiltum rannsakendum málið til skoðunar, heldur skal þriggja manna hópur stjórnmálamanna, sem kominn er niður í tvo menn, útkljá málið. Annar þeirra er síðan sá sem öll spjót beinast að og talinn bera mestu ábyrgð á syndinni.
Hví er Samfylkingin og það vinstra lið sem henni að hænist, ekki vera búið að leggja fram tillögu um að sexmennirnir (átta) rannsaki bara sjálfir meint brot á Klausturbar?!
Þetta er hættuleg þróun sem hér ríkir og má segja að bylting hafi orðið í þessa vegu þegar Alþingi ákvað að hefja pólitískar ofsóknir gegnum pólitískan dómstól sem kallaður er Landsdómur, fyrirbæri sem er mun meira í ætt við Spænska rannsóknarréttinn en það réttarkerfi sem við teljum að eigi að ríkja.
Spænski rannsóknarrétturinn vann út frá þeirri hugsjón að allir væru sekir uns sakleysi var sannað og ef á þurfti að halda var sök búin til. Þetta var í raun stefið sem Landsdómur fékk fyrirmæli um að vinna eftir og gerði að hluta. Þetta er einnig stefið sem pólitíkusar nota, einkum á vinstri vængnum, og nýta til þess fjölmiðla í stórum stíl. Eina undantekningin er þegar sök beinist að samherja, rétt eins og hjá Spænska rannsóknarréttinum, þá gilda aðrar reglur!
![]() |
Segir sögurnar uppspuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Reykhólar - nafli alheims?
14.1.2019 | 13:22
Allir þekkja þá endaleysu sem vegtenging um Gufudalssveit hefur verið, vegtenging sem ætlað er að færa erfiðan fjallendisveg niður á láglendi. Það þarf svo sem ekki að fara nánar yfir þá sorgarsögu.
Á síðasta vetri voru síðan allar hindranir fyrir þessari veglagningu leystar og hreppsnefnd Reykhólasveitar, sem fer með skipulagsmál á umræddu svæði samþykkti svokallaða Þ-H leið, um Teigsskóg. Þarna hélt maður að málinu væri lokið, en því miður hafði þáverandi hreppsnefnd ekki dug til að klára málið lögformlega.
Um vorið var gengið til sveitarstjórnarkosninga. Enginn nefndi veginn um Teigskóg, enda það mál búið í hugum íbúa á svæðinu. Ný hreppsnefnd var valin og sem eftir pöntun mættu tveir efnaðir bræður úr Reykjavík á svæðið og dingluðu nokkrum seðlum frammi fyrir hinni nýju hreppsnefnd. Þessir seðlar væru falir, bara ef þeir væri nýttir til kaupa á réttri niðurstöðu frá réttri verkfræðistofu, um að betra væri að færa þennan nýja veg burtu úr Teigskóg. Hverjir hagsmunir bræðranna voru, kom ekki fram, en víst er að auðmenn leggja ekki fram peninga nema til að hagnast á því.
Og af himnum ofan datt svo niðurstaðan, þessi pantaða. Eftir áratuga jaml um veglagningu þessa, þar sem kærumál hafa gengið hvert af öðru og Vegagerðin orðið að kosta hverja áætlunina af annarri, kanna alla möguleika aftur og aftur, til þess eins að reyna af mætti að finna aðra leið en gegnum kjarrið í Teigskóg. Sama hvað reynt var, aldrei var hægt að komast að þeirri niðurstöðu að önnur leið væri viðunnandi. Ekki skorti vilja Vegagerðarinnar til að leysa málið, kostirnir voru einfaldlega ekki til staðar. En nú hafði einhverjum vel völdum Norðmönnum tekist að sýna fram á að betri leið væri til, tók þá ekki nema nokkrar vikur og nánast án allra rannsókna á svæðinu. Reyndar gerðu þeir ekki ráð fyrir vegtengingu við spottann, nema frá annarri hliðinni. Norðmenn eru ekki vanir að rasa um ráð fram og kom þessi skammi tími því mjög á óvart.
Þetta útspil bræðranna sem bláeygð hreppsnefnd gleypti, kom nú málinu á byrjunarreit og ekki enn séð fyrir endann á vitleysunni. Hreppsnefnd er kannski haldin einhverju gullæði ferðamennskunnar og sér fyrir sér miklar tekjur, fáist vegurinn færður að þeirra ósk. Slík sérhagsmunagæsla á kostnað annarra, er svívirða.
Þarna er um að ræða vegtengingu til að afnema erfiða fjallvegi og betri vegtengingu fyrir sunnanverða Vestfirði, kostaða úr sjóðum allra landsmanna. Ef hreppsnefnd Reykhólahrepps ætlar að beita valdi sínu til að auka þann kostnað enn frekar, eingöngu þorpi sínu til framdráttar, eða kannski einhverjum hreppsnefndarmönnum, er einsýnt að Alþingi verður að beita sínu afli til að taka valdið af hreppnum. Í dag annar hinn malbikaði vegur niður að Reykhólum vel þeirri umferð sem þangað fer og jafnvel meira. Hins vegar mun hann ekki anna þeirri auknu umferð sem bætist við vegna sunnanverða Vestfjarða og síðan enn frekari umferð eftir að Dýrafjarðagöng opna.
Í pistli sem oddviti Reykhólahrepps sendi í fjölmiðla má sjá einfeldnina. Þar gerir hann sér að leik að kasta ryki í augu almennings, er hann leggur út frá því að vegurinn niður að Reykhólum hljóti að duga sunnanverðum Vestfjörðum, af því hann er talinn duga Reykhólum! Þarna fer oddvitinn viljandi með rangt mál, enda kom skýrt fram í því viðtali sem hann leggur út frá, að núverandi vegur um Barmahlíðina anni umferð til Reykhóla en geti alls ekki tekið við aukinni umferð sem vegtengingin er ætluð að sinna.
Þeir sem tala með slíkum hætti og fara viljandi með rangt mál, sem oddvitinn, ættu kannski að finna sér annað starf. Slíkir menn verða seint trúverðugir!
![]() |
Mótmæla R-leiðinni um Reykhólahrepp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Blessuð klukkan
11.1.2019 | 10:38
Í sakleysi mínu hélt ég að umræðan umklukkuna hefði látist samhliða andláti Bjartrar framtíðar, en svo er alls ekki. Nú hefur formaður VG tekið málið inn á sitt borð og notar afl sitt sem forsætisráðherra til að koma því lengra innan stjórnkerfisins en áður hefur tekist. Virðist sem nú eigi að taka klukkumálið framhjá Alþingi.
Klukkan er eins og hvert annað mælitæki, mælir tíma. Hún getur ekki með nokkru móti haft áhrif á neitt annað, ekki frekar en tommustokkur. Hlutur stækkar ekkert þó notaðir séu sentímetrar til mælingar hans, í stað tommu. Því er röksemdarfærslan fyrir breytingunni út úr kú.
Í umræðunni hafa fyrst og fremst verið notuð rök um lýðheilsu unglinga, líkamsklukkuna og dagsbirtu. Þeir sem halda því fram að unglingar sem vaka fram eftir öllu og vakna illa sofnir til skóla, muni breyta þeirri hegðun við breytingu klukkunnar, eru utan raunveruleikans. Sá sem ekki fer að sofa fyrr en eftir miðnætti nú, mun halda þeirri hegðun áfram þó klukkunni sé breitt.
Líkamsklukkan er flóknara fyrirbæri en svo að klukkan hafi þar áhrif. Vaktavinnufólk veit sem er að eftir ákveðinn fjölda næturvakta, nálægt fjórum til fimm, breytir líkaminn klukku sinni til samræmis við svefn. Jafn langan tíma tekur síðan að snúa líkamsklukkunni til baka eftir að törn er lokið. Þetta styðja erlendar rannsóknir, þó tíska sé að halda á lofti eldgömlum rannsóknum sem segja annað.
Undarlegust er þó rökfærslan um dagsbirtuna. Syðsti oddi landsins okkar er norðan 63 breiddargráðu. Þetta gerir að stórann hluta árs er dimmt langt fram á dag og annan hluta bjart nánast alla nóttina. Ef stilla á klukkuna þannig að allir vakni við dagsbirtu, þarf að færa hana ansi langt aftur yfir vetrartímann og fram yfir sumarið. Að klukkunni yrði þá breytt í hverjum mánuði allt árið. Seinkun klukkunnar um eina klukkustund mun litlu breyta. Hitt má skoða, hvort betra sé að hafa meiri birtu yfir þann tíma sem fjölskyldur eru tvístraðar til vinnu eða skóla, eða hvort betra sé að sameiginlegur tími fjölskyldna falli meira undir dagsbirtu.
Þó ég sé í grunninn á móti hringli með klukkuna, svona yfirleitt, hugnast mér alveg að henni sé seinkað og þá um tvo tíma. Ekki vegna lýðheilsu, líkamsklukkunnar eða dagsbirtunnar, heldur vegna þess að þá færumst við nær Ameríku og fjær Evrópu og hádegi verður þá enn nær hápunkti sólar, hvern dag. Ókosturinn er að stundum til útiveru eftir vinnu, í björtu veðri, mun fækka.
Hvert skref, þó einungis sé í tíma en ekki rúmi, sem við getum fjarlægst skelfingu ESB, er heillaskref.
![]() |
Alls ekki klukkunni að kenna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Hver er vandinn?
9.1.2019 | 13:58
Vandi Landspítalans er stór, um það þarf vart að rífast. En í hverju felst sá vandi?
Nú er sagt að opnun hjúkrunarheimilis á Seltjarnanesi og sjúkrahótels muni leysa þann vanda, að fráflæði spítalans muni batna. Í viðtali við forstjóra Landspítalans kom fram að nokkur rými innan stofnunarinnar standi auð vegna manneklu. Liggur vandinn þá ekki frekar í mönnun en plássleysi? Ef illa gengur að manna stöður svo hægt sé að nýta þau rúm sem til staðar eru innan stofnunarinnar, hvernig ætlar þá forstjórinn að manna heilt sjúkrahótel. Það verður hins vegar fróðlegt að sjá hvort betur gengur að manna hjúkrunarheimilið á Seltjarnarnesi.
Ef vel gengur að koma því í gang og manna þar allar stöður, er ljóst að eitthvað stórkostlegt er að í stjórnun Landspítalans, eitthvað sem ekki verður lagað nema með því að skipta um alla lykilstjórnendur þar. Þá er ljóst að þeir eru ekki að valda sínu starfi og að opnun á einu hjúkrunarheimili mun skammt duga.
Reyndar eru öll teikn um að vandi Landspítalans sé að stæðstum hluta stjórnunarlegs eðlis. Það er sama hversu miklu fjármagni þangað er veitt, vandinn eykst. Illa gengur að manna stöður og álag þeirra sem eftir eru komið á það stig að ekki sér fyrir endann þar. Starfsmenn brenna út í stórum stíl. Fróðlegt væri ef forstjórinn upplýsti þjóðina um hversu margir starfsmenn stofnunarinnar eru í veikindafríi, hversu mikið sá fjöldi hefur aukist hin síðari ár.
En hvers vegna veigrar fólk sér við að ráða sig til Landspítalans? Léleg laun hafa verið nefnd en er það virkileg ástæða. Má ekki mun frekar ætla að engum hugnist að ráða sig á vinnustað þar sem vinnuálag er svo mikið að búast megi við að heilsan gefi sig fyrr en eðlilegt getur talist. Þar komum við að stjórnuninni. Rétt starfsmannastjórnun leiðir af sér góðan vinnustað og öfugt.
Hitt ber að taka fram, svo enginn misskilningur megi þar flækja málin, að starfsfólk spítalans er frábært og gerir sitt besta og nokkuð langt umfram það. Það hefur undirritaður reynt á eigin skinni og gat ekki annað en dáðst að því fólki sem honum sinnti um tíma, á síðasta ári.
Hvernig væri að reyna að greina vanda Landspítalans. Hvers vegna rúm standa þar auð og starfsfólk í stórum stíl í veikindafríi. Fleiri rúm duga lítið meðan ekki er hægt að manna fyrir þau sem þegar eru til staðar og erfitt er að manna stofnun þar sem veikindi vegna vinnuálags er þekktur vandi.
Vandinn verður ekki leystur með peningum einum saman, meðan óhæf stjórnun er á stofnuninni.
![]() |
Greina þarf frekari úrræði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um Sundabraut og fleira
5.1.2019 | 21:50
Mikið hefur verið rætt um svokallaða Sundabraut og þá helst til réttlætingar á enn frekari skattpíningu bíleigenda.
Það þarf enginn að efast um að umferð um Vesturlandsveg er tafsöm á köflum og stundum erfið. Það þarf vissulega að bæta. En það eru til fleiri leiðir en lagning nýs vegar til lausnar þess vanda, önnur en sú sem kostar meira en nokkur leið er að réttlæta, sérstaklega eftir að borgaryfirvöld ákváðu að hækka þann kostnað um tug miljarð króna, með því að útiloka hagkvæmasta kostinn yfir Grafarvoginn.
Þegar horft er til umferðaþunga skiptir fleira máli en fjöldi akreina. Flæði umferðar er þar stærsti valdurinn. Vegur sem er 2+1 eða 2+2 getur flutt mikla umferð á stuttum tíma ef engar tafir eru á honum. Síðustu ár var mikið rætt um tvöföldun Hvalfjarðargangna og sú framkvæmd talin vera bráð nauðsynleg. Þeir sem um göngin þurftu að fara áttu auðvelt með að skilja þessa fullyrðingu, enda oftar en ekki sem miklar biðraðir mynduðust við norður enda gangnanna, Nú síðustu mánuði hefur þessi umræða þagnað, enda þessar tafir ekki lengur til staðar. Ástæðan? Jú, hætt var að innheimta gjald gegnum göngin og því enginn flöskuháls við norðurendann lengur!
Þannig mætti laga Vesturlandsveg og minnka tafir eftir honum. Frá Esjumelum suður að Grafarholti, á innanvið 10 km kafla, þarf að aka gegnum 8 hringtorg, með tilheyrandi töfum á umferð. Þetta er auðvitað alveg ótrúlegt. Sum þessara hringtorga eru í þannig landslagi að auðvelt er að koma fyrir mislægum gatnamótum, önnur eru eitthvað verr í sveit sett, en þó alls ekki þannig að slíkt sé útilokað. Nýjasta hringtorgið er við gatnamót að Esjumelum, á stað þar sem tiltölulega auðvelt hefði verið að koma fyrir mislægum gatnamótum. Í ofanálag er þetta hringtorg einbreitt og tafir því meira um það en önnur á þessari leið.
Kostnaður við Sundabraut liggur ekki fyrir, en heyrst hafa tölur upp á um 100 milljarða króna. Þar sem einungis eru til gömul gögn um áætlaðan kostnað þessarar framkvæmdar, er nánast víst að kostnaðurinn er nokkuð hærri en þetta. Áætlanagerð hefur sjaldan verið neitt sérstaklega áreiðanlegar hjá okkur Íslendingum, auk þeirrar tilhneigingar stjórnmálamanna að draga þær meira saman en gott þykir, til að koma verki af stað.
Hitt er nokkuð þekktara, kostnaður við gerð mislægra gatnamóta. Ólíkt við Sundabraut, hefur verið nokkuð byggt af mislægum gatnamótum hér og því komin nokkur þekking á kostnaði þeirra. Að meðaltali kostar gerð slíkra gatnamóta innan við 1 milljarð króna.
Ljóst er því að gerð átta mislægra gatnamóta ættu ekki að kosta nema um 8 milljarða, verum örlát og hækkum það upp í 10 milljarða, eða sömu upphæð og áætlanir um Sundabraut hækkuðu á einum fundi borgarstjórnar, síðasta vor. Þá eru a.m.k. eftir 90 milljarðar sem nota má til breikkunar Vesturlandsvegar frá gatnamótum Þingvallavegar að Móum á Kjalarnesi. Breikkun frá Móum að Hvalfjarðagöngum kostar alltaf jafn mikið, sama hvort valin er Sundabraut eða endurbætur núverandi vegar. Frá gatnamótum Þingvallavegar að Móum eru um 7 km. Hver kostnaður er við að breikka þann kafla veit ég ekki, en ljóst er að vænn afgangur mun verða eftir af 90 milljörðunum!!
Stundum hafa menn látið freistast til að nefna Sundabraut í tengslum við annan vanda á Kjalarnesinu, vind og ófærð. Þar mun þó engin breyting verða á, sama hvaða leið verður valin. Eina lausnin gegn vindi og ófærð á Kjalarnesi er yfirbygging alls vegarins, lausn sem ekki er raunhæf á þessari öld. Hins vegar mætti minnka vind á veginum sjálfum, ef plantað væri þéttu skógarbelti norðan vegarins, a.m.k. 50 - 100 metra breiðu, eftir öllu Kjalarnesinu.
Hitt er borðleggjandi að laga má Vesturlandsveg á núverandi stað þannig að hann beri umferð næstu áratuga með glans, fyrir fjármuni sem duga ekki nema í hluta Sundabrautar. Þegar peningar eru af skornum skammti er útilokað að réttlæta slíkan fjáraustur sem Sundabraut kallar á. Að nota síðan óþarfan veg til réttlætingar á enn frekari skattheimtu, er siðlaust og þeim til skammar er slíkt gera!!
Bloggar | Breytt 6.1.2019 kl. 01:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Rangt mat hjá varaformanninum
4.1.2019 | 05:38
Það er rangt mat hjá Jóni Gunnarssyni að vegskattur sé umdeildur, svo er alls ekki. Nánast öll þjóðin er á móti slíkum sköttum, einungis nokkrir þingmenn, einstaka ráðherra og svo nokkrir bæjarstjórar dásama þennan ófögnuð. Þetta sýna umræður í fjölmiðlum, skoðanakannanir og einnig kemur þetta skýrt fram í fréttinni sem þetta blogg er hengt við. Þar segir að 239 umsagnir séu komnar á borð samgöngunefndar vegna frumvarpsins, einungis 18 þeirra mæla með því. Það er því ekki með nokkru móti hægt að halda því fram að frumvarp um vegskatta sé umdeilt, andstaðan er skýr og óumdeild.
Hitt er aftur skuggalegra, að ekki skuli enn vera neitt farið að útsetja hugmyndina um vegskattinn, hversu hár hann verður, hvar hann eigi að vera og hvernig innheimtu skuli háttað. Þó er ljóst að þegar hafa umferðamestu stofnleiðir landsins, vegir númer 40, 41 og 49 í vegaskrá Vegagerðarinnar verið útilokaðar, stofnleiðir sem gefið gætu mestan pening í ríkissjóð með minnstu framlagi hvers einstaklings, umferðaþyngstu stofnleiðir landsins.
Og þó ekkert sé farið að spá í grunnhugsanir vegna þessa skatts, þ.e. hversu hár hann verði, hvar hann muni verða innheimtur og hvernig innheimtu skuli háttað, auk þess að frumvarpið er ekki enn orðið að lögum, er samt búið að gefa út gnótt yfirlýsinga um hvernig fénu skuli eytt og jafnvel byrjað að undirbúa lántökur upp á tugi milljarða. Eru menn alveg að tapa sér!!
Hvernig væri nú að byrja á réttum enda, svona til tilbreytingar. Höfum við ekki fengið nóg af Sandeyjarhöfnum, Vaðlaheiðagöngum og Bröggum?!! Byrjum á að kanna hversu stór hluti þjóðarinnar raunverulega vill vegskatta og höldum áfram út frá þeirri staðreynd.
Það er orðið hvimleitt hvernig dásemdarmenn þessa skatts leifa sér að líkja honum við Hvalfjarðargöng. Þetta tvennt á ekkert sameiginlegt, a.m.k. ekki samkvæmt því hvernig skatturinn hefur verið kynntur fyrir þjóðinni hingað til. Hvalfjarðargöng voru fyrst byggð og síðan innheimt gjald til að greiða þau niður. Strax við upphaf framkvæmda lá ljóst fyrir að sú gjaldheimta yrði til ákveðins tíma. Nú er hins vegar verið að ræða skattheimtu til óákveðins tíma, enginn virðist vita hversu háa, hvar hún verður né í hvaða formi. Peningunum hefur verið lofað og þá ekkert sérstaklega til þeirra vega sem helst koma til grein í skattheimtu og loforðin á að efna með lántöku. Málið allt vanbúið.
Er stjórnmálamönnum algerlega útilokað að haga sér skynsamlega? Þurfa þeir endalaust að láta eins og ekkert sé milli eyrna þeirra? Það er erfitt að trúa að þeir séu svona heimskir, eitthvað annað hlýtur að liggja að baki.
![]() |
Liggur fyrir að málið sé umdeilt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)