Pólitísk nálykt
9.7.2022 | 16:18
Nú hefur Skipulagsstofnun og ráðherra innanríkismála staðfest breytingu á skipulagi lands, svo byggja megi vindorkuver hér á landi. Þetta er fyrsta alvöru breytingin sem á sér stað hér á landi, þar sem um er að ræða risa vindmillur. Áður hafa verið reistar tvær smá vindmillur á svokölluðu Hafi, norðan Búrfellsvirkjunar og tvær minni við Þykkvabæ, sem ekki hafa verið starfandi um nokkuð skeið. Einstaka enn minni vindmillur hafa síðan einstaklingar reyst í sínu landi, sem flestar eru orðnar óstarfhæfar.
Það er því um að ræða stóran atburð fyrir land og þjóð, þegar Skipulagsstofnun og innviðaráðherra samþykkja breytta notkun land, til hjálpar erlendum aðilum að koma hér upp risa vindmillum. Enn ljótari atburður er þetta þegar ljóst er að ráðherra í ríkisstjórninni á þarna mikilla hagsmuna að gæta. Um er að ræða jarðirnar Hróðnýjarstaði, rétt við Búðardal og Sólheima vestast í Laxárdalsheiði. En það er einmitt jörðin Sólheimar sem tengist sterkum böndum inn í ríkisstjórnina. Ásmundur Einar Daðason, barnamálaráðherra og ein stærsta stjarna Framsóknarflokks, er einmitt eigandi þeirrar jarðar. Reyndar, svo alt sé nú satt og rétt, þá er jörðin skráð á eiginkonu Ásmundar og föður hans, en sjálfur ráðherrann skrifaði undir kaupsamninginn í þeirra umboði.
Sveitarstjórn Dalabyggðar sótti stíft eftir samþykki á breyttu skipulagi þessara jarða, þrátt fyrir mikla andstöðu heimamanna. Þegar ljóst var að ráðherra gæti ekki í fyrstu staðfest breytinguna, eftir að Skipulagsstofnun hafnaði henni, var farin bakleið að breytingunni. Lítilsháttar breyting á orðalagi dugði til að Skipulagsstofnun varð að breyta afstöðu sinni og ráðherra innviðamála, sem reyndar er einnig ráðherra og formaður Framsóknar, var fljótur til að staðfesta samþykkið.
Bæði munu þessi vindorkuver hafa mikil áhrif, þar sem þau koma. Hróðnýjarstaðir eru mitt í vaxandi ferðamannaparadís Dalanna, auk þess sem sumar bestu laxveiðiár landsins eru þar nálægt. Sjónmengun, hávaðamengun og ekki síst örplastmengun, mun verða mikil í nágrenni vindorkuvera. Þetta leiðir til þess að fasteignaverð mun lækka verulega á svæðinu, ferðaþjónusta er í voða og óvíst að menn kæri sig um að veiða í laxveiðiám sem eru svo að segja undir risa vindmillum.
Enn verra er þetta varðandi fyrirhugað vindorkuver að Sólheimum, landi ráðherrans. Þar er ætlunin að reisa risa vindmillur upp á háheiðinni, rétt við austurmörk jarðarinnar. Hinu megin þeirra marka er annað sveitarfélag og íbúar þess því ekki taldir aðilar að málinu! Þar er verið að breyta landnotkun sem mun klárlega hafa áhrif á eignir þessa fólks, án þess að það sé spurt um málið eða fái að koma að ákvörðun þess á einn eða annan hátt. Yfirgangur ráðherrans er því algjör og lítilsvirðing við íbúa nágerannasveitarfélagsins.
Þess má svo geta að báðar þessar jarðir eru á svæði hafarna. Allir vita áhrif vindmilla á fugla, sér í lagi stærri fugla. Erlendis er þetta þekkt vandamál, þó vindmillur þar séu í flestum tilfellum mun minni en þær risa vindmillur er til stendur að reisa að Hróðnýjarstöðum og Sólheimum í Dölum. Svo virðist sem ekkert tillit sé tekið til verndunar hafarna, eða annarra fugla, s.s. álfta, gæsa og rjúpu, er halda sig mikið á Laxárdalsheiðinni.
Ekki ætla ég að fjölyrða um sjálft vindorkuverið og þá skelfingu sem því fylgir. Hef áður ritað mörg blogg, bæði um þetta viðkomandi vindorkuver, sem og önnur.
Þessi breyting á landnotkun, sem ráðherra samþykkir, er tímamót á Íslandi. Línan hefur verið lögð og erlendum vindbarónum er hér með hleypt inn í landið, til að framleiða orku. Orku sem ekki er sjáanleg not fyrir vegna kostnaðar við framleiðsluna. Vindorkusinnar halda því fram að mikil þróun hafi orðið í framleiðslu á vindmillum, þannig að kostnaður hafi farið lækkandi. Vissulega má taka undir það, en sú þróun hefur öll verið á einn veg, að stækka vindmillurnar. Gera þannig vandamálið enn stærra en áður var. Og þrátt fyrir þessa "þróun" á vindmillum, er enn haf og himinn milli framleiðslukostnaðar á raforku með vindi versus vatni eða gufu. Rýr rekstratími miðað við vatns/gufu virkjanir, stuttur endingatími miðað við vatns virkjanir og hár byggingakostnaður eru þar aðal orsök. Með þessar staðreyndir er farið í reiknileikfimi, til að réttlæta arðsemi vindaflsins, en til að raunverulegur ávinningur fáist af vindaflinu þarf orkuverð hér á landi að hækka verulega.
Ásmundur Einar er ein stærsta stjarna Framsóknar í dag. Hvað veldur er erfitt að segja, hugsanlega þó frægt viðtal í fjölmiðlum, skömmu fyrir síðustu kosningar. Honum tókst að vinna hug og hjörtu höfuðborgarbúa og ná fylgi Framsóknar þar vel upp, í síðustu Alþingiskosningum. Segja má að hann hafi farið með himinskautum undanfarin misseri. En þeir sem hátt fljúga eiga á hættu langt fall.
Erlendis þætti ekki góð pólitík að formaður og ráðherra stjórnmálaflokks hjálpaði öðrum samflokksfélaga og ráðherra við gróðabrask, sér í lagi ef það væri gert til að koma viðkvæmri innlendri grunnþjónustu undir erlenda aðila. Hér á landi telst slík ósvinna ekki til tíðinda!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bara ef það hentar mér
7.7.2022 | 00:25
"Bara ef það hentar mér" sungu Stuðmenn um árið. Þessi setning kom upp í hugann er ég las frétt á visir.is, um nýja túlkun ESB á orkugjöfum. Nú telst orka sem unnin er með gasi eða kjarnorku til grænnar orku.
ESB hefur verið duglegt að setja fram hinar ýmsu kvaðir á íbúa aðildarlanda sinna. Reyndar smitast þetta út fyrir ESB, því EES samningurinn virðist vera spyrtur við flestar kvaðir ESB. Loftlagsmál hafa verið fyrirferðarmikil í þessari herferð sambandsins gegn þegnum sínum. Þar hefur offorsið verið slíkt að það sem sannarlega er undirstaða lífs á jörðinni er nú skilgreint sem eitruð lofttegund, þ.e. co2.
Það er vissulega af hinu góða að berjast gegn mengun, hvaða nafni sem hún nefnist. En þá þarf að skilgreina hvað er mengun og hvað ekki. Co2 er til dæmis ekki mengun, heldur grundvöllur lífs á jörðinni, enda hefur alla jarðsöguna verið hærra hlutfall Co2 í andrúmslofti en nú. Hins vegar er klárlega hægt að tala um mengun í útblæstri, bæði bíla en þó einkum frá verksmiðjum. Reyndar eru flest mannanna verk mengunarvaldur, þó andardrátturinn sé það ekki, jafnvel þó fátt sé eins mikil uppspretta Co2 en einmitt hann. Samhliða því að fólksfjöldi jarðar hefur nærri áttfaldast frá lokum nítjándu aldar til dagsins í dag, er ljóst að mengun frá fólki hefur stór aukist. Gegn því þarf að sporna.
Undir lok tuttugustu aldar kom fáviss fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna fram með þá bábilju að Co2 væri valdur þess að hlýnað hafi á jörðinni. Vitnaði hann m.a. í tilraun sem gerð hafði verið í lokuðu tilraunaglasi, nærri öld áður. Einnig vitnaði hann í borkjarnarannsóknir vísindamanna. Loftslag jarðar er flóknara en svo að hægt sé að koma öllum breytum þess fyrir í tilraunaglasi. Og jafnvel þó vísindamenn hafi reynt af mætti að benda þessum fyrrverandi varaforseta á að þó leitni væri milli magns Co2 í andrúmslofti og hitastig þess, þá væru mun meiri líkur á að hlýnun leiddi til aukinnar losunar á Co2, frekar en hitt. En það var ekki hlustað á vísindamenn, varaforsetinn hafði talað. Brátt var svo komið að fáir þorðu að mótmæla hinum nýju fræðum, enda hætta á að missa vinnuna. Fræðunum var því kastað fyrir hina nýju trú!
Reyndar var bæði hitastig jarðar og magn Co2 í andrúmslofti í sögulegu lágmarki, undir lok nítjándu aldar, svo lágu að líf á jörðinni var komið í hættu. Jörðin stóð á þröskuldi ísaldar.
En aftur að fréttinni frá ESB. Vegna stefnu sambandsins í þessum málum var ljóst að til tíðinda myndi draga, fyrr en seinna. Orkuskortur var farinn að segja til sín löngu áður en Pútín réðst inn í Úkraínu. Covid var þá kennt um. Covid jók þó ekki eftirspurn eftir orku, þvert á móti minnkaði orkunotkun meðan á faraldrinum stóð. Hins vegar jókst hún aftur eftir að hjólin fóru að snúast aftur, þó ekki mikið meira en áður hafði verið. Orkan var hins vegar ekki til staðar, rétt eins og ráðamenn gerðu ráð fyrir að covid ástand yrði eilíft. ESB hafði einblínt á framleiðslu vind- og sólarorku. Orkugjafar sem útilokað er að treyst á sem stabíla orkugjafa. Þá er ljóst að fáar aðferðir til orkuframleiðslu eru meira mengandi en einmitt vindorkan, jafnvel þó einungis sé þar talin einn mengunarvaldur af mörgum, örplastmengun.
En nú er ESB sem sagt búið að skilgreina gas og kjarnorku sem græna orku. Það er vissulega gott. Áður var gas skilgreint sem grá orka. En það er fleira skrítið sem frá ESB hefur komið, eins og skilgreining þess á að tjákurl skuli skilgreint sem græn orka. Þetta getur átt við þegar trjákurl sem fellur til við timburframleiðslu, einkum í nánd við orkuverin, er nýtt til orkuframleiðslu í stað þess að urða það. En þegar raunveruleikinn er sá að skógar eru hoggnir í stórum stíl, vítt um heimsbyggðina og trén kurluð niður, flutt í skip með stórum flutningabílum og siglt með það um heimsins höf til Evrópu, svo framleiða megi þar orku, er ljóst að fátt umhverfisvænt er hægt að finna í þeim leik!
Vonandi verður þessi nýja tilskipan ESB, jafnvel þó hún minni á lagið sem Stuðmenn fluttu, til þess að vindmilluævintýrin taki enda. Eitt lítið kjarnorkuver getur framleitt stöðuga orku sem tæki þúsundir vindmilla að framleiða, þegar vindur blæs!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)