57 blaðsíður af litlu
29.11.2021 | 00:53
Jæja, þó höfum við fengið nýja ríkisstjórn og já, líka nýjan stjórnarsáttmála. Í stuttu máli má segja að niðurstaðan komi nokkuð á óvart. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn fá "góðu" stólana en VG fær stjórnarsáttmálann.
Varðandi stólaskiptin ber að sjálfsögðu að fagna því að umhverfisráðuneytið hefur verið heimt úr helju. Ný nöfn og ný hlutverk sumra ráðuneyta ruglar mann nokkuð í rýminu, enda erfitt að átta sig á hvar sum málefni liggja. Var þar vart á bætandi, enda kom í ljós á síðustu dögum síðustu ríkisstjórnar, að ráðherrar þar voru ekki með á hreinu hver bar ábyrgð á hverju.
Stjórnarsáttmálinn er upp á heilar 57 blaðsíður, vel og fallega orðaður en málefnalega fátækur. Orðið "loftlagsmarkmið" kemur þar oft við sögu, sennilega algengast orð stjórnarsáttmálans.
Það sker þó í augun nokkur atriði þessa nýja sáttmála. Til dæmis er tekið fram að leggja á allt land sem hefur verið friðlýst, undir þjóðgarð. Þeir kjósendur hins fámenna grenjandi minnihluta er treystu loforðum frambjóðenda Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hafa þar látið plata sig illilega. Þó umhverfisráðuneyti sé komið undan ægivaldi VG, virðist hafa verið þannig gengið frá hlutum að hálendisþjóðgarður er enn á borðinu, bara farnar aðrar leiðir en áður var ætlað. Reyndar vandséð hver aukin landvernd liggur í því að færa land úr verndun yfir í þjóðgarð, sem ekki hefur lýðræðislega kosna stjórn.
Þá er í þessum sáttmála tiltekið að sett verði sérstök lög sem hafa það markmið að einfalda uppbyggingu vindorkuvera! Þar hvarf öll umhverfisverndin í einni setningu!
Verst, fyrir almennt launafólk að minnsta kosti, er að sjá kaflann um vinnumarkaðsmál. Þar er ljóst að skerða á rétt launþega nokkuð hressilega. Salekdraugurinn er þar uppvakinn. Þetta er stórmál og mun sjálfsagt hafa meiri afleiðingar en nokkuð annað í komandi kjarasamningum. Verkfallsrétturinn er eina vopn launþega og virkjast einungis þegar samningar eru lausir. Ef ætlunin er að skerða þann rétt, er ljóst að langvarandi vinnudeilur munu herja á landið. Það er það síðasta sem við þurfum.
Þá er nýtt í þessum stjórnarsáttmála, a.m.k. mynnist ég ekki eftir að hafa séð slíkt ákvæði fyrr í slíkum sáttmála, heill kafli um aukna tekjuöflun ríkissjóðs. Aukin tekjuöflun ríkissjóðs er annað orðalag yfir aukna skatta. Nokkuð merkilegt af ríkisstjórn sem hefur Sjálfstæðisflokk innandyra. Hins vegar er ekki orð að finna um skattalækkanir eða hagræðingu í ríkisrekstri.
Sem aðrir kaflar í þessum sáttmála er kaflinn um byggðamál vel og fallega orðaður. Talað um að styðja byggðaþróun, nýsköpun, að gera Akureyri að varahöfuðborg og auðvitað að halda áfram að byggja upp háhraðanetrið. Það er kannski ekki vanþörf á vara höfuðborg, enda rekstur þeirrar gömlu ekki beysinn. Og þar sem Míla er flutt til Frakklands, þarf auðvitað aukið fjármagn til að klára uppbyggingu háhraðatengingu um allt land. Það sem hins vegar er nokkuð spaugilegt er svokallaður stuðningur við byggðaþróun í landinu. Þetta má skilja á tvo vegu, að styðja þróun til eflingar byggðar eða styðja þróun til flutninga á mölina. Í öllu falli voru verk fyrrverandi sveitastjórnarráðherra, núverandi innviðaráðherra, með þeim hætti að engu líkar væri en að hann styddi þá byggðaþróun að landsbyggðin flyttist bara á SV hornið.
Læt þetta duga í bili af þessum einstaklega fátæklega en langa stjórnarsáttmála.
![]() |
Nýtt ríkisráð fundar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fyrri talning, síðari talning eða uppkosning
21.11.2021 | 16:30
Það er aumt að hóta Alþingi, jafnvel þó menn lendi undir í kosningum. Reyndar má leiða líkum að því að sama hvernig Alþingi afgreiðir þetta mál, þá muni einhver fara með það fyrir MDE. En það er samt alveg óþarfi að vera með hótanir.
Skoðum þetta aðeins. Fallisti Viðreisnar í NV kjördæmi vill að fyrri talning verði látin gilda. Eru það réttar luktir málsins? Nei, alls ekki og ástæðan er einföld. Eftir að kjörnefnd NV kjördæmis skilaði af sér kom í ljós misræmi milli talinna atkvæða og fjölda kjörseðla. Því var ekki annað í myndinni en að telja aftur. Síðari talningin hlýtur því að gilda, annað væri í meira lagi undarlegt.
Um framkvæmd talningarinnar, gæslu á gögnum og endurtalninguna má síðan deila. Þar var margt sem ekki telst í lagi. Það breytir þó ekki því hvor talningin skuli gilda, einungis því hvort kjósa skuli aftur. Þá komum við að kosningalögunum. Þar eru skilyrði fyrir uppkosningu þau að galli á kosningu þurfi að hafa veruleg áhrif á úrslit kosninganna. Nú er það svo að endurtalningin hafði vissulega veruleg áhrif á einstaka frambjóðendur, en engin áhrif á fjölda þingmanna hvers framboðs. Því telst varla að um veruleg áhrif á úrslit kosninganna hafi átt sér stað.
Um framkvæmdina má vissulega deila, en vart verður deilt um það að síðari talningin hlýtur að gilda, svo fremi að ekki verði uppkosning. Sem eins og áður segir er vart skilyrði fyrir.
Nöldrarinn er kjósandi í NV kjördæmi.
![]() |
Vísa verði niðurstöðum kosninga til MDE |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Það er ljótt að ljúga
18.11.2021 | 23:38
Þegar op3 var samþykktur á Alþingi var því haldið fram að orkusala um sæstreng til meginlandsins væri ekki í myndinni. Ýmsir drógu þetta í efa, en ráðherrar, sérstaklega ráðherra orkumála, fyllyrtu að engar slíkar áætlanir væru á teikniborðinu. Á þeim tíma voru erlendir vindbarónar farnir að láta til sín taka hér á landi og töldu margir það skýrt merki um hvað koma skildi.
Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum var þetta mál lítið sem ekkert rætt fyrir síðustu kosningar. Vindbarónarnir héldu sig til hlés og fáir virtust muna tvö ár aftur í tímann. Þar sem stjórnmálamönnum tókst að halda þessu máli frá umræðunni, fyrir síðustu kosningar, má segja að kjósendur hafi ekki fengið að kjósa um málið.
Strax eftir kosningar vöknuðu síðan vindbarónarnir og koma nú í hópum í fjölmiðla til að útlista ágæti þess að leggja hellst allt landið undir vindmillur og að auki hafið umhverfis Ísland. Ýmis rök hafa þessir menn fært fram, eins og framleiðslu á eldsneyti og fleira. Nú er opinberað að sæstrengur sé málið, reyndar legið fyrir frá upphafi. Ef ráðherra orkumála þykist vera að heyra þetta fyrst núna, er hún verri en ég hélt. Þetta vissi hún þegar hún laug að þjóðinni!
Stjórnmálamenn eiga að vita að orðum fylgir ábyrgð og að lygar duga skammt. Sannleikurinn kemur alltaf upp á yfirborðið, sama hversu reynt er að halda honum niðri. Þá eiga stjórnmálamenn að vita að þeirra vinna á að snúast um að verja hag landsmanna og þá um leið landsins. Þeim er ekki heimilt að ganga erinda erlendra peningamanna, sama hvað í boði er. Þegar slíkt er gert og það skaðar hag landsmanna, kallast það landráð, eitthvað skelfilegasta brot sem nokkur stjórnmálamaður getur framið.
Fyrir landráð á að dæma fólk!
![]() |
Metnaðarfullar hugmyndir um vindorkugarð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
Jökull bráðnar - yfir sumartímann
11.11.2021 | 20:49
Með hlýnandi veðri hopa skriðjöklar. Það þarf engin vísindi til að átta sig á því.
Þegar menn fara að taka myndskeið af skriðjökli, frá vori til hausts og segja að bráðnun hans sé skýrt merki um að heimurinn sé að farast vegna hlýnunar, er eitthvað að í kollinum á fólki. Allt eins mætti taka slíkt myndskeið frá hausti til vors og halda því fram að ísöld sé að skella á.
Eina leiðin til að segja til um hopun skriðjökla er að taka mynd einu sinni á ári, á svipuðum tíma og bera þær saman yfir nokkur ár. Þessar myndir eru til og sýna svo ekki verður um villst að jöklar hopa, eða að minnsta kosti var svo fyrir tveim árum. Ekki hafa verið opinberaðar yngri myndir en það.
Hlýnun jarðar er staðreynd, þ.e. ef talið er frá lokum litlu ísaldar. Hiti jarðar er þó ekki nærri komin að meðalhita á þessu hlýskeiði og enn lengra frá meðalhita á því hlýskeiði sem var fyrir síðust alvöru ísöld. Jörðin er enn hársbreidd frá ísöld.
Hitt er annað mál að með aukinni hlýnun mun ýmislegt breytast á jörðinni. Maður væri nokkuð rólegri ef ráðstefnan mannmarga í Glasgow hefði verið um hvernig þjóðir heims ætla að tækla þær breytingar. Við munum ekki geta stjórnað veðrinu, en við getum búið okkur undir þær breytingar sem breytt veðurfar hefur í för með sér.
![]() |
Myndskeið af Breiðamerkurjökli vekur athygli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
"megas"
10.11.2021 | 00:03
Þessi pistill er ekki um hinn ágæta listamann Megas, þó vissulega sé hægt að skrifa langan og góðan pistil um þann dreng. Þessi pistill er um grein eftir Guðmund Pétursson, rafmagnsverkfræðing, þar sem hann segir frá hugmynd um framleiðslu á því sem hann kallar "megas". Áhugaverð grein.
Metan hefur verið framleitt og selt hér á landi um nokkuð skeið, en aldrei náð því flugi sem til var ætlast. Þar kemur fyrst og fremst til að dreifikerfi er ekki til staðar, einungis örfáir sölustaðir til og metanið þar selt undir lágum þrýstingi. Þetta veldur því að fáir hafa aðgang að sölunni og þeir sem hana hafa lenda oftar en ekki í vandræðum með áfyllingu á sína bíla.
Guðmundur bendir á að mikil mengun af CO2 kemur frá jarðgufuvirkjunum, nokkuð merkileg staðreynd þar sem manni hefur verið tjáð að slík orkuframleiðsla væri vistvæn. Þessa mengun, sem og mengun frá stóriðjuverum, mætti fanga og framleiða þannig metanrafeldsneyti. Þetta eldsneyti megi síðan þétta niður í vökva og selja þannig, bæði til nota innanlands á stór farartæki, vinnuvélar, skipaflotan og jafnvel flugflotann. Einnig er auðvelt að selja slíka afurð úr landi, til þurfandi meginlandsins.
Framleiðslugeta okkar á metani er mikil. Í dag er það einkum framleitt úr sorpi, hér á landi, en hauggas mætti vinna í stórum stíl. Þetta er þegar gert erlendis og framleiðendur vinnuvéla horfa til þessarar lausnar. T.d. eru þegar komnir á markað dráttavélar fyrir bændur sem ganga fyrir slíku gasi. Slík gasframleiðsla kostar nokkurt stofnfé og eins og staða bændastéttarinnar er hér á landi er ljóst að þeir munu seint koma slíkri framleiðslu á koppinn. Sjálf framleiðsla metan er í sjálfu sér ekki svo flókin, en að koma því í fljótandi form er nokkuð flóknara. Eftir að það hefur verið gert er hins vegar lítið mál að flytja það milli landa.
Grein Guðmundar um framleiðslu á rafeldsneyti er fróðleg. Slík framleiðsla, ásamt aukinni framleiðslu á metangasi, gæti hæglega hjálpað okkur við orkuskiptin, auk þess að bæta enn einni stoð undir gjaldeyrisöflun okkar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Landsvirkjun, fyrirtæki okkar landsmanna
8.11.2021 | 07:46
Landsvirkjun, fyrirtæki okkar landsmanna, tilkynnir um hækkun á raforkuverði. Rökin eru framboð og eftirspurn, án frekari skýringa. Einnig kemur fram í fréttinni að lægra sé í lónum fyrirtækisins en gott þykir. Rúsínan í pylsuendanum er svo að þessi hækkun sé óveruleg, nánast engin. Hvers vegna var þá verið að hækka gjaldskrána?
Það er ljóst að verðbólga í landinu er á fleygiferð uppávið, ekki vegna aukinnar framleiðni, heldur utanaðkomandi hækkana, sem stjórnvöld hér geta lítið um breytt. Stjórnvöld hafa hins vegar yfir ýmsum fyrirtækjum að ráða, m.a. Landsvirkjun. Því eiga stjórnvöld að sjá til þess að þau fyrirtækli sem þau hafa ítök í hækki ekki sínar gjaldskrár, frekar að þau lækki þær. Þannig má vega upp á móti verðbólgunni og þannig eru stjórnvöld í sterkari stöðu til að mælast til að önnur fyrirtæki haldi sínum hækkunum í skefjum. Þó verðhækkun Landsvirkjunar sé sögð "óveruleg" er það hækkun engu að síður og gefur fordæmi.
En aftur að rökum Landsvirkjunar. Framboð og eftirspurn er frekar erfitt að skilja, enda minnsti hluti raforkuframleiðslunnar sem fer á opin markað. Stórnotendur eru með fasta samninga, þannig að þessi hækkun kemur ekki á þá. Hins vegar malar Landsvirkjun gull af þeim samningum nú, þar sem þeir samningar hafa tengingar í suma af þeim þáttum erlendis, sem valda aukinni verðbólgu hér á landi. Hrávöruverð og orkuverð erlendis.
Framboð getur auðvitað verið breytilegt í framleiðslu fyrirtækisins en eftirspurnin er hins vegar nokkuð stöðug - uppávið. Ef eitthvað ójafnvægi hefur myndast milli framboðs og eftirspurnar hjá Landsvirkjun, stafar það af því einu að forsvarsmenn fyrirtækisins hafa verið sofandi á verðinum. Þeir eiga að sjá til þess að ætíð sé næg orka til fyrir landsmenn og ef ástæða þessa ójafnvægis er lág staða í lónum fyrirtækisins, er ljóst að eitthvað er að í rekstri fyrirtækisins. Það er ekki hægt að skella þeirri sök á veðurfarið og enn síður eiga eigendur Landsvirkjunar - notendur orkunnar, að taka á sig vangetur stjórnenda fyrirtækisins!
![]() |
Verð hjá Landsvirkjun hækkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)