Heimur versnandi fer
31.10.2021 | 21:41
Allt frá því ég fyrst man eftir mér, sem er reyndar lengra síðan en ég man, hefur maður heyrt talað um að heimurinn fari versnandi, að allt hafi verið svo miklu betra áður fyrr. Þó er það svo að mannskepnan hefur það alltaf betra en áður.
Á mínum ungdómsárum var það kjarnorkuváin. Manni var innprentað að kjarnorkustríð væri að skella á. Viðkvæm börn tóku þetta nærri sér og búa sum enn af þeirri ógn sem að þeim var haldið. Næst voru það skógarnir sem áttu að hverfa. Hvert pappírssnifsi skildi nýtt til hins ýtrasta, því annars myndu skógar heimsins hverfa, súrefni hverfa og við kafna. Svo kom hafísinn að landinu og miklir kuldar voru um allan heim. Þetta var talið merki um að ísöld væri að skella á og að Ísland myndi verða komið undir tveggja kílómetra þykkan ís fyrir aldamót. Loks lauk barnaskóla.
En þetta var þó ekki búið. Einhverjum snilling út í heimi datt í hug að halda því fram að olíulindir væru að tæmast og innan örfárra ára myndi skella á mikil ógn um heimsbyggðina vegna orkuskorts. Fréttamiðlar voru duglegir að endurvarpa þessari speki. Þegar ljóst var að þarna var farið fram með fleipur, tók við ógnin um að jörðin myndi steikjast, með öllu sem á henni er. Þetta er sennilega sú mantra sem lengst hefur lifað. Með reglulegu millibili er gefin út spá um hvenær heimsendir verður. Þessar spár hafa verið nánast eins nú í nærri þrjá áratugi, með þeirri einu breytingu að lokadagurinn færist örlítið aftur.
Það efast enginn um að hlýnað hefur á jörðinni síðustu áratugi. Það er hið besta mál, verra væri ef það hefði kólnað. Þarna er mið tekið af upphafi almennra hitamælinga, en vandinn er bara sá að upphaf almennra hitamælinga er í lok litlu ísaldar, kaldasta tímabils þessa hlýskeiðs. Vill fólk virkilega fá slíkt kuldatímabil aftur? Vill fólk geta gengið á ís milli Akraness og Reykjavíkur?
Hlýnun jarðar er af hinu góða, kólnun væri verri. Auðvitað mun breytt hitastig hafa áhrif á sum byggð ból, en að öllu jöfnu verða þau áhrif óveruleg. Önnur svæði verða byggilegri. Vandinn er hins vegar sá að ekki er víst að þessi hlýnun haldi áfram, hefur reyndar látið á sér standa nú síðustu ár. En vonum það besta.
Sérfræðingar í lygum, þ.e. pólitíkusar, hafa tekið þessari spá af mikilli gleði, enda óttastjórnun eitt auðveldasta stjórnarform sem til er - til skamms tíma. Þetta hefur meðal annars leitt til þess að nú er skollin á einhver mesta ógn yfir Evrópu, ekki hlýnandi loftslag, heldur orkuskortur. Orkuskortur af þeirri stærðargráðu er aldrei áður hefur þekkst. Þetta eru ekki náttúruhamfarir, þetta er að öllu leiti manngerð ógn.
Meðan sérfræðingarnir í lygum sitja saman og spjalla um hvernig þeir geta snúið á náttúruna, gera þeir ekkert til að afstýra þeirri manngerðu ógn sem þeir hafa skapað, frekar að aukið verði í! Náttúran verður aldrei tamin, einungis hægt að aðlagast duttlungum hennar. Hitt má laga, manngerð mistök!
Hafi einhvertíma verið ástæða til að halda að heimur fari versnandi er það nú. Ekki vegna náttúruhamfara, heldur vegna þeirrar ótrúlegu heimsku sumra að halda að mannskepnan geti tamið náttúruna, með því einu að auka örbyrgð og vesaldóm jarðarbúa. Hvert er þetta fólk eiginlega komið?!
Hér er örstutt myndband með Dr Patrick Moore, umhverfisfræðingi. Hann er kannski þekktastur fyrir að vera einn af stofnendum Greenpeace og forseti þeirra samtaka um skeið. Þessi maður hefur lagt sig um að sinna sinna því er hann lærði, var um tíma fulltrúi Kanada í hringborði SÞ um þessi mál. Þarna fer enginn sérfræðingur í lygum, heldur sérfræðingur í umhverfismálum.
![]() |
Allir verða að vera sammála |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
" Er ekki bara best að selja þetta"
30.10.2021 | 00:36
Það hefur ótrúlega lítil umræða átt sér stað um nýjustu vendingar Íslandspósts. Einhvern veginn eins og enginn þori.
Íslandspóstur hefur gefið út nýja verðskrá, þar sem hækkanir eru allt að 102% fyrir veitta þjónustu. Meðaltalshækkun eitthvað minni. Þegar þessi verðskrá var tilkynnt var því haldið fram að fyrirtækinu væri skylt að láta verðskrá sína endurspegla kostnað við þjónustuna. Þetta er svo sem gott og gilt, en aðferðafræðin sem notuð var er hins vegar galin.
Það liggur auðvitað fyrir að ódýrast er að bera út póst næst flokkunarstöð Íslandspóst, enda fer allur póstur þar í gegn, hvaðan sem er á landinu. Bréf sem sent er milli húsa á Ísafirði þarf að eiga viðkomu í þessari flokkunarstöð fyrirtækisins í Reykjavík. Það er væntanlega af því að þessi flokkunarstöð var dýr í uppsetningu, er reyndar nokkuð fullkomin og getur sinnt margfalt stærri markaði en til er hér á landi, en dýr framkvæmd. Því var sú regla sett hjá póstinum að öll flokkun á pósti skuli fara fram í Reykjavík. Það þarf jú að nýta fjárfestinguna, sem stór spurning er hvort var nauðsynleg.
Í nýju verðskránni er landinu skipt upp í fjögur svæði, hvert með sinni verðskrá. Höfuðborgarsvæðið, í þrengsta skilningi þess orðs, er á svæði eitt. Svæði tvö tekur yfir flesta stærri kaupstaði á landinu, svæði þrjú yfir minni kaupstaði og einstaka þorp. Svæði fjögur nær síðan yfir allt annað, þ.e. sveitir landsins og sum minni þorp. Ekki verður séð hvaða skilgreiningu pósturinn notast við þegar þorp eru valin, hvort þau falli undir svæði þrjú eða fjögur, einna hellst að sjá að þar ráði hendingin ein.
Þessi skilgreining getur ekki og mun ekki geta endurspeglað kostnað við póstburðinn. Það er t.d. vandséð að hægt sé að rökstyðja það að ódýrara sé að senda pakka frá Reykjavík til Ísafjarðar eða Egilstað, en að senda sama pakka á sveitabæ á Kjalarnesi. Að kostnaðarmunur þar á milli sé nærri 65%, Kjalarnesinu í óhag. Þannig mætti lengi bera saman ruglið í þessari verðskrá Íslandspósts, en megin málið er að fjarri er að hægt sé að halda því fram að hún endurspegli á einhvern hátt kostnað við þjónustuna. Þarna fer fyrirtækið af stað með dulbúna ástæðu til að stór hækka þjónustu sína, auk þess sem dregið er úr henni. Til dæmis ekki lengur bornir út pakkar á það svæði sem skilgreint er sem svæði fjögur, fólk verður að sækja þá á næstu póststöð. Þetta hvoru tveggja bitnar mest á landsbyggðinni, eins og svo gjarnan.
Hafi Alþingi sett lög um að gjaldskrá póstsins skuli taka mið af kostnaði við póstburð, átti einfaldlega að reikna landið sem eina heild og leggja flata hækkun á allt landið. Alþingi og fulltrúar okkar þar, hafa verið gjarnir á að tala um að bæta þurfi aðstöðumun landsbyggðarinnar. Því getur vart verið að sett hafi verið lög um að auka misréttið á þessu sviði.
Annað mál, sem reyndar var heldur meira rætt í fjölmiðlum, var salan á Mílu úr landi. Kaupandinn, franskur fjárfestingasjóður, hefur sagt að ekki sé ætlunin að hlera búnað Mílu, að ekki muni koma til verðhækkana á þjónustu fyrirtækisins og jafnvel að innspýting verði í þjónustu þess. Ja, mikið andskoti er Míla öflugt fyrirtæki, ég segi ekki annað. Ef hægt er að leggja fram yfir 70 þúsund milljónir til kaupa á því, halda gjaldskránni niðri og auka þjónustuna, hlýtur þetta fyrirtæki að vera hrein gullkú. Þegar fjárfestingasjóður, sem að eðli sínu er stofnaður til þess eins að ávaxta fé sitt og ekkert annað, getur lofað slíku, er ljóst að stór mistök voru að selja fyrirtækið.
Sá ráðherra sem með þessa málaflokka fer, póstburð og fjarskipti, er formaður Framsóknarflokks, að hans sögn eina "samvinnuflokks" landsins. Það er nokkuð langt frá því að samvinnuhugsjónin ráði þarna gerðum, hvort heldur er gjaldskrá Íslandspósts eða salan á Mílu. Þó leggur þessi ráðherra blessun sína yfir þessar gerðir og brosir bara!
Það er spurning hvort slagorð Framsóknar fyrir síðustu kosningar, "Er ekki bara best að kjósa Framsókn" hefði ekki átt að vera "Er ekki bara best að selja þetta".
Fyrir ekki margt löngu voru bæði póstsamgöngur og fjarskipti talin til grunnþjónustu landsins og þannig er það víðast um heim. Einungis ESB hefur skilgreint þetta sem vöru og vara skal vera sett á markað. Gegnum EES samninginn erum við föst í vef ESB og ráðum lítt hvernig hlutir hér á landi eru skilgreindir. Ef ESB segir að eitthvað sé vara, þá verður Alþingi okkar að breyta lögum til samræmis við það. Það styttist í að menntamál og heilbrigðismál og reyndar allt sem nöfn ná yfir, verður skilgreint sem vara innan ESB. Að eini málaflokkurinn sem teljist til grunnþjónustu verði hinn nýi Evrópuher.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Síminn ekki hleraður
23.10.2021 | 13:13
Sameiginlegir sjóðir landsmanna er notaðir til að byggja upp innviðakerfi landsmanna. Síðan eru ýmsir hlutar þess selt sérvöldum aðilum, án þess að eitthvað samhengi sé milli þess verðs sem þeir greiða fyrir þá og þess kostnaðar er landsmenn lögðu til þeirrar uppbyggingar. Þér sérvöldu hafa síðan á sínu valdi þessa innviði og geta gert það sem þeim sýnist við þá, án allrar ábyrgðar. Til dæmis selt þá úr landi ef þeir sjá af því góðan hagnað.
Uppbygging ljósleiðarakerfisins um allt land var þarft verkefni, fjármagnað af ríkinu. Til þeirrar fjármögnunar var málaflokkurinn settur undir þann lið á fjárlögum er fer með samgöngur, að mestu fjármagnaður af vegafé. Því er ljóst að þessi þarfa uppbygging svelti á meðan viðhald vegakerfisins. Nú nýtur franskur fjárfestingasjóður, voru eitt sinn kallaðir hrægammasjóðir, góðs af lélegu vegakerfi á landsbyggðinni. Landsmenn sitja eftir með sárt enni, meðan Síminn telur sína milljarða.
Innviðir þjóða eru ekki oft settir á markað braskara. Þegar slíkt gerist upphefst alltaf heljarinnar brask með þá, þar sem hluturinn gengur kaupum og sölum uns blaðran springur. Eðli málsins samkvæmt eru innviðir þjóða yfirleitt engum verðmæti nema viðkomandi þjóð. Fyrir aðra eru slík verðmæti einungis froða, til þess eins að græða á meðan einhver lætur blekkjast.
Hvernig á því stóð að Síminn eignaðist Mílu veit ég ekki. Síminn var seldur á sínum tíma vegna krafna ees samningsins um aðskilnað sölu og dreifinu símakerfisins. Að Síminn, sölukerfið, skuli komist yfir Mílu, dreifikerfið, hlýtur því að vera brot á ees samningnum.
Hvað um það, nauðsynlegir innviðir sem byggðir eru upp af sameiginlegum sjóðum landsmanna, eiga að vera í þeirra eigu. Annað verður ekki við unað.
Forsvarsmenn Símans telja sig hafa fengið loforð þessa erlenda fjárfestis um að þeir muni ekki hlera strengina. Það er minnsti vandinn, enda Ísland smátt á alþjóðavettvangi og lítil verðmæti í því sem við segjum. Þá er ljóst að slík loforð frá fjárfestingasjóð eru haldlítil, auk þess sem litlar líkur eru á að þessi sjóður verði lengi eigandi að Mílu. Þessi kaup sjóðsins eru á nákvæmlega sama grunni og öll kaup fjárfestingasjóða, til þess eins að græða á þeim. Um það snýst verkefni fjárfestingasjóða, að ávaxta sitt fé. Þeirra verkefni er ekki að standa vörð samfélagsins, allra síst í öðrum löndum.
![]() |
Hefur áhyggjur af innviðum Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
N-K-P
21.10.2021 | 01:10
Í tæpa hálfa öld var starfrækt áburðarframleiðsla á Íslandi. Þar var reyndar einungis framleitt nitur, eða köfnunarefni (N), en önnur íblöndunarefni flutt til landsins. Tilbúinn túnáburður samanstendur að stærstum hluta til af nitur(N), en einnig eru í honum kalí (K) og fosfór, eða þrífosfat (P). Af þessu kemur skammstöfunin N-K-P. Auk þess eru ýmis önnur bætiefni í túnáburði s.s. kalsíum, brennisteinn og í einstaka tilfellum bór. Öll eru þessi efni til að bæta og efla gróður túna.
Nútímabóndinn lætur rannsaka tún sín og kaupir síðan þann áburð sem hentar hverju túni. Það er gert til hámarka afurðir og lágmarka kostnað, að einungis sé borið á það sem þarf. Enda tilbúinn áburður sennilega stærsti einstaki kostnaðarliður bænda.
En nú horfir illa. Framleiðsla á tilbúnum áburði, sér í lagi nitur, eða köfnunarefni, krefst mikillar orku. Eins og áður segir fór sú framleiðsla fram hér á landi í nærri hálfa öld. Eftir að EES samningurinn tók gildi reyndist ekki lengur rekstrargrundvöllur fyrir slíkri verksmiðju og var starfsemin lögð niður. Ódýrara var að flytja bara inn áburð, frá Evrópu.
Af ástæðum sem ekki verða raktar hér, er nú svo komið að raforkuverð þar ytra er orðið svo hátt að áburðarverksmiðjur loka. Verðið á tilbúnum áburði hefur þegar hækkað um 140%, en það dugir ekki til. Því munu bændur ekki bara standa frammi fyrir þeirri staðreynd að áburðarverð verði óviðráðanlega hátt fyrir þá, meiri líkur eru á að áburður muni bara alls ekki fást í vetur.
Það vekur upp spurningu um hvort ekki sé kominn grundvöllur fyrir slíkri framleiðslu hér á landi. Við eigum nægt rafmagn. Þá er nokkuð til að vinna í kolefnisspori og gjaldeyrissparnaði að framleiða áburð hér á landi. Þar sem EES samningurinn virkar jú í báðar áttir, eða svo er manni sagt, er kjörið fyrir okkur að hugsa stórt í þessu sambandi og framleiða einnig áburð fyrir lönd á meginlandinu. Engar líkur eru á að orkuverð þar ytra eigi eftir að lækka sem neinu nemur, auk þess sem sú orka sem notuð hefur verið til þessarar framleiðslu kemur að stórum hluta frá orkuverum sem knúin eru jarðefnaeldsneyti.
Það væri ekki lítil uppbót fyrir landið okkar, ef við gætum selt út hreina afurð, í stað þess að hún sé framleidd óhrein erlendis. Þá munum við ekki einungis spara gjaldeyri heldur afla hans að auki. Og bændur á meginlandinu gætu barið sér á brjóst og sagst nota hreinan áburð, án þess að þurfa að vera í einhverjum vafa um hreinleikann.
Hins vegar er ástandið graf alvarlegt eins og staðan er í dag. Þegar hefur verð hækkað langt umfram það sem nokkuð bú getur borið og líklegt að algjör skortur muni verða næsta vor, á þessari lífnauðsynlegu vöru fyrr bændur. Einhverjum gæti dottið í hug að segja að bændur hætti bara að nota tilbúinn áburð og beri bara skít á túnin. Jú, jú, það eru svo sem rök. En án tilbúins áburðar verður sprettan minni, sem þýðir að bændur þurfa þá að stækka tún sín og stækkun túna þýðir að þurrka þarf þá upp fleiri mýrar. Mýrar verða ekki þurrkaðar upp á einni svip stundu og tún verða ekki ræktuð í einni svipan. Þá er ekki alveg í takt við tíðarandann að bændur taki upp á því í stórum stíl að ræsa fram mýrar.
Þá er kannski rétt að benda á að framleiðsla á nitur, eða köfnunarefni, er í raun binding kolefnis úr andrúmslofti. Aukaafurðin sem til verður við þessa framleiðslu kallast súrefni (O2). Þannig að kolefnisbókhald þjóðarinnar mun þá njóta góðs af.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Gömul tækni og ný
20.10.2021 | 04:03
Það voru mikil mistök af stjórnvöldum að afhenda Reykjavíkurborg Keldnaland. Ríkið átti að halda þessu landi, til uppbyggingar á nýju sjúkrahúsi fyrir landsmenn. Það er þegar ljóst að svokallaður nýr landspítali mun ekki geta sinnt því sem honum er ætlað. En "shit happens" og úr því sem komið er þýðir víst lítið að gráta Björn bónda.
Skortur á húsnæði í Reykjavík er eitthvað sem virðist vera að nálgast náttúrulögmál. Og enn virðist fjúka í skjólin þar á bæ, þar sem borgarstjóri virðist ætla að nýta þennan skort til að flýta fyrir borgarlínu, einhverju fyrirbæri sem fáir vita hvað er, kostar meira en nokkurn grunar og færir samgöngukerfi borgarinnar aftur á miðja síðustu öld, á kostnað allra landsmanna. Gamaldags og úrelt fyrrbæri, á tímum tækniframfara í framleiðslu rafbíla af öllum stærðum.
Röksemd borgarstjóra er þó frekar bágborin, kannski hægt að segja barnaleg. Hann heldur því fram að ekki sé hægt að auka íbúðamagn í efribyggðum borgarinnar, þar sem umferðaræðar anni ekki þeirri umferð! Fáist ekki byggingalóðir í efri byggðum innan borgarmarkanna mun fólk einfaldlega leita út fyrir borgarmörkin. Borgarlína mun þar engu breyta og götur borgarinnar munu eftir sem áður stíflast. Fólk þarf jú þak yfir höfuðið og að komast á milli staða, hvað sem borgarstjóri segir.
Það er löngu ljóst að gatnakerfi Reykjavíkur sinnir ekki þeirri umferð sem því ber. Borgarlína mun, samkvæmt björtustu spám, fjölga fólki sem ferðast með almenningssamgöngum úr um 4% í um 10%. Það er langt frá því að duga fyrir þeirri fjölgun sem ætluð er að muni ferðast um borgina í nánustu framtíð. Fjöldinn munu áfram ferðast á einkabílnum. Reyndar eru líkur á að færslan frá almenningssamgöngu til einkabílsins muni verða mikil á næstu árum, jafnvel svo að lítil sem engin þörf verður á rekstri stórra strætisvagna á götum borgarinnar, hvað þá einhverri borgarlínu.
Ástæða þessarar fullyrðingar minnar er einföld. Tækni í framleiðslu rafbíla af öllum stærðum er mikil og á eftir að aukast. Samhliða því fer framleiðslukostnaður við þessa bíla lækkandi. Nú þegar eru komnir á markað litlir ódýrir rafbílar á ótrúlega lágu verði. Þessir bílar eru að ná vinsældum sem borgarbílar erlendis. Eftir örfá ár, löngu áður en svokölluð borgarlína verður að veruleika, mun fólk telja jafn nauðsynlegt að eiga rafbíl, af þeirri stærð sem hverjum hentar, eins og að eiga snjallsíma eða fartölvu. Jafnvel að fartölvunni verði skipt út fyrir lítinn rafbíl, séu fjárráðin af skornum skammti.
Borgarstjórn Reykjavíkur undir stjórn Dags er hins vegar föst í fortíðinni. Þar er horft til úreltrar tækni, þegar sú nýja er ekki við þröskuldinn heldur komin innfyrir hann!!
Smá sýnishorn af framtíðinni:
![]() |
Uppbygging í Keldum ávísun á stóra stopp |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Æran og orkan
18.10.2021 | 08:11
Nú held ég að sá gamli sé búinn að tapa glórunni. Sæstrengur er það síðasta sem við Íslendingar þurfum.
Aðstaða Grænlands og Íslands ansi misjöfn þegar að orkumálum kemur. Fyrir það fyrsta er Grænland utan EES og ESB, meðan við Íslendingar erum bundnir ESB gegnum EES. Þar sem ESB hefur skilgreint orku sem vöru og Alþingi okkar samþykkt þá skilgreiningu, eru orkumál okkar að stórum hluta komin undir þá deild innan ESB er kallast ACER, deild sem sér um að stýra orkumálum ESB ríkja. Meðan við erum ótengd rafkerfi ESB getum við haft einhverja stjórn sjálf á okkar málum, s.s. verði orkunnar, hvar og hversu mikið skuli virkja og þar fram eftir götum. Ef við tengjumst þessu raforkukerfi ESB með sæstreng missum við endanlega alla stjórn á þessu. Þá er ljóst að orkuverð hér á landi mun verða á sama grunni og innan þessa kerfis og sveiflast í takt við það. Þetta mun leiða til margföldunar orkuverðs hér á landi, um það þarf ekki að deila. Hins vegar geta menn deilt um hversu margföld sú hækkun verður. Fyrst finna landsmenn þetta á pyngju sinni og fljótlega einnig á atvinnuöryggi sínu.
Í öðru lagi er ljóst að rafstrengur í sjó er mun erfiðari og dýrari framkvæmd en slíkir strengir á landi, jafnvel þó þeir séu grafnir í jörðu. Þá er munur á viðhaldi þeirra geigvænlegur, eftir því hvort þeir eru djúpt í úthafinu eða uppi á þurru landi. Það þarf ekki einu sinni að líta á landakort til að átta sig á hvert hugur Grænlendinga mun liggja, þegar að slíkum útflutningi kemur. Þeir munu auðvitað velja þá leið sem styðst er yfir haf, þannig að strengurinn verði sem mest á þurru landi. Ísland er í órafjarlægð frá þeirri leið.
Blessunarlega eigum við mikla orku hér á Íslandi og jafnvel þó við séum að stórum hluta búin að hafa orkuskipti varðandi heimilin og jafnvel þó okkur takist að skipta um orku á öllum okkar fartækjum, á láði, legi og í lofti, munum við sjálfsagt verða aflögufær um einhverja orku til hjálpar öðrum þjóðum.
Þá hjálp gætum við lagt til með því að taka að okkur orkusækin fyrirtæki hér á landi og sparað þannig þeim þjóðum sem illa eru sett varðandi orkuöflun. Þannig getum við lagt okkar að mörkum til að afnema einhver kolaorkuver meginlandsins. Þessi fyrirtæki munu þá framleiða sína vöru með sannarlega hreinni orku, á lágu verði. Atvinnuöryggi landsmanna mun þá tryggt og væntanlega mun verð á raforku til neytenda haldast á viðráðanlegu verði áfram.
Að selja orkuna úr landi gegnum sæstreng, sér í lagi undir stjórn erlendra hagsmunaaðila, mun gera Ísland að þriðjaheims ríki innan fárra ára. Æra þeirra sem fyrir slíku standa mun verða lítt metin.
![]() |
Sæstrengur góð leið til að nýta hreina orku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
Minningin sem hvarf
12.10.2021 | 16:44
Drottningarviðtal ruv var við Birgi Þórarinsson, þennan morguninn. Skemmst er frá að segja að eftir þetta viðtal sat maður hljóður, vissi í raun ekki hvað maður átti að halda. Því hlustaði ég aftur á þetta viðtal, til að fullvissa mig um að ég hafi heyrt rétt. Það breytti engu, enn var ég agndofa.
Birgir lýsir þarna mjög illri vist innan Miðflokksins, síðustu rúm þrjú ár. Þá telur hann vistina hafa versnað til muna eftir síðustu áramót. Hann getur þó ekki bent á neitt sérstakt atvik máli sínu til stuðnings, einungis eigin tilfinningar. Reyndar sumt af því sem hann heldur fram í viðtalinu í andstöðu við ummæli fjölda annarra. Virðist taka hverjum hlut á versta veg, sem árásir á sig sjálfan, jafnvel þó alls ekki sé verið að ræða hans verk eða ábyrgð.
Aðspurður um hvers vegna hann hafi þá ekki sagt sig úr flokknum fyrr, svaraði hann að það hefði verið ábyrgðarhlutur, svo skömmu fyrir kosningar (hann hafði jú þrjú ár til þess). Telur hann meiri ábyrgð felast í að bjóða sig fram á fölskum forsendum og blekkja kjósendur?
Vel mátti skilja á máli Birgis að hatur hans til sumra flokksfélaga er djúpt. Jafnvel svo djúpt að hann telur sig ekki geta unnið með þeim. Er hugsanlegt að svo djúpt hafi þetta hatur rist, að hann hafi gert sér það að leik að bjóða sig fram fyrir Miðflokkinn, í þeim eina tilgangi að geta skaðað hann eftir kosningar?
Það er erfitt að trúa slíku en stundum er sannleikurinn lyginni líkari.
Í það minnsta er ljóst að Birgir mun ekki geta látið jafn mikið til sín taka á Alþingi eftir þessi vistaskipti. Þegar svo hentar, mun hann geltur til jafns við aðra þingmenn Sjálfstæðisflokks, þegar á þarf að halda. Slík gelding stundaði flokkurinn á síðasta kjörtímabili, m.a. í orkupakkamálinu sem og í umræðum um koma þriðjungi landsins undan lýðræðislegri stjórn, í hendur embættismanna. Orkupakkamálinu er ekki lokið, fjórði pakkinn liggur á borðinu og fari sem sýnist, mun hálendið enn vera í hættu. Hvernig ætlar Birgir að komast hjá geldingu Sjálfstæðisflokks í þessum málum?
Í síðasta bloggi mínu ræddi ég sama mál og nú. Kallaði þá grein "Minning um mann". Enda mun minning þessa næstum fyrrum stjórnmálamanns verða lítil.
Kannski er rétt að kalla þessa grein "Minningin sem hvarf". Eftir viðtal hans á ruv í morgun er ekki lengur neins að minnast!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Minning um mann
9.10.2021 | 08:23
Það hefur verið ljóður á þingræði okkar að þingmenn geti skipt um flokka eins og nærbuxur. Um þetta þarf þó ekki að deila, þingmenn hafa þennan rétt og sífellt fleiri sem nýta sér hann. Það segir þó ekki að þetta sé réttlátt gagnvart kjósendum, enda í raun enginn þingmaður kosinn í eigin nafni, heldur í skjóli einhvers stjórnmálafls. Réttur kjósandans á kjörstað til að velja sér ákveðna persónu, nú eða hafna henni, er slíkur að útilokað er að virkja hann. Fólk kýs flokk, með þeim frambjóðendum sem þeim flokki fylgir.
Eins og áður segir, þá færist sífellt í aukanna að þingmenn flakki milli flokka á milli kosninga. Nánast eingöngu hefur það verið vegna málefnalegs ágreinings innan flokks, sem kemur upp á kjörtímabilinu. Að fólk hefur ekki verið tilbúið að fylgja flokkslínunni, nú eða að þingmenn telji að meirihluti síns flokks hafi svikið eigin flokkslínu. Við þær aðstæður hafa sumir þingmenn talið æru sinni vegna, að betra sé að yfirgefa flokk sinn. Sumir starfað sem óháðir á eftir en flestir þó gengið til samstarfs við annan flokk. Sjaldan hefur þó slíkt flokkaflakk orðið þingmanni til framdráttar.
En nú ber alveg nýtt við. Einungis eru örfáir dagar frá kosningum og þingmaður ákveður að yfirgefa flokk sinn, ekki vegna málefnalegs ágreinings, enda störf Alþingis vart hafin, ekki heldur vegna þess að þingflokkur hans sé að svíkja eigin stjórnmálastefnu. Nei, þingmaðurinn yfirgefur flokk sinn vegna málefnis sem skeði snemma á síðasta kjörtímabili, utan starfa Alþingis. Ja, betra seint en aldrei, myndu sumir segja!
Heiðarlegra hefði verið, þar sem gamalt mál hrjáir samvisku þessa þingmanns, að gefa bara alls ekki kost á sér fyrir þann flokk sem hann nú yfirgefur. Gefa frekar kost á sér í framboð fyrir þann flokk sem hann nú dáir.
Það er full ástæða til að óska Sjálfstæðisflokki til hamingju með þennan nýja öflugan þingmann, sem þeir fengu svona í bónus. Ekki ónýtt að eflast með þessum hætti. Hitt ætti hinn skeleggi þingmaður að átta sig á að allar þær ræður og öll sú vinna er hann lagði á sig til að standa vörð sjálfstæðis og til varnar að hálendið yrði tekið og lagt undir embættismenn í 101 Reykjavík, hefði verið honum ómöguleg ef hann hefði setið á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokk á síðasta kjörtímabili.
Þá væri minningin um Birgir Þórarinsson önnur.
![]() |
Birgir skilur við Miðflokkinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Rétt og rangt hjá Ólafi
1.10.2021 | 16:34
Það er rétt hjá Ólafi að í 31. grein stjórnarskrár er talað um að jafna eigi þingsæti milli kjördæma, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þetta er einnig tekið fyrir í lögum um kosningum til Alþingis.
Hitt er rangt hjá honum og kemur það verulega á óvart hjá einum mesta stjórnmálaspeking landsins, að það sé verkefni Alþingis að jafna þennan mun. Bæði í stjórnarskránni sem og lögum um kosningar til Alþingis, er skýrt tekið á um að þetta vald sé í höndum landskjörsstjórnar.
Í 31. grein stjórnarskrár segir; Ef kjósendur á kjörskrá að baki hverju þingsæti, að meðtöldum jöfnunarsætum, eru eftir alþingiskosningar helmingi færri í einu kjördæmi en einhverju öðru kjördæmi skal landskjörstjórn breyta fjölda þingsæta í kjördæmum í því skyni að draga úr þeim mun.
Og í 9. grein laga um kosningar til Alþingis segir; Eftir hverjar alþingiskosningar skal landskjörstjórn reikna út hvort kjósendur á kjörskrá að baki hverju þingsæti, að meðtöldum jöfnunarsætum skv. 2. mgr. 8. gr., séu helmingi færri í einu kjördæmi en kjósendur að baki hverju þingsæti í einhverju öðru kjördæmi, miðað við kjörskrá í nýafstöðnum kosningum, sbr. 5. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar. Ef svo er skal landskjörstjórn breyta fjölda kjördæmissæta í kjördæmum þannig að dregið verði úr þessum mun. Sú breyting má þó aldrei verða meiri en þörf krefur hverju sinni til þess að fullnægja fyrirmælum þessa stjórnarskrárákvæðis.
Það liggur því nokkuð ljóst fyrir að Alþingi á ekki neina aðkomu að þessu verkefni. Nú vill svo til að fjöldi kjósenda á kjörskrá í einu kjördæmi er um það bil helmingi færri en í öðru, er alveg á mörkum þess að landskjörstjórn geti beitt þessu ákvæði. Um er að ræða það kjördæmi sem fæsta þingmenn hafa og það sem flesta hafa. Það myndi þá fækka um enn einn í því sem fæsta hefur og fjölga um einn í því sem flesta hefur. Þetta er vand með farið og spurning hvort ekki væri betra að jafna þennan mun með breytingu á þeim þrem kjördæmum sem eru á suð vestur horninu, þ.e. Reykjavíkurkjördæmunum og Kraganum. Að baki hvers þingmanns í Reykjavíkurkjördæmunum liggja mun færri kosningabærir einstaklingar en að baki hvers þingmanns í Kraganum. Þar þarf Alþingi aftur að koma að málum, því ekki má breyta kjördæmaskipan nema á Alþingi, að undanteknum Reykjavíkurkjördæmunum tveim. Þar hefur landkjörstjórn heimild til að breyta kjördæmaskipan, innan þeirra tveggja.
Það er því ekki Alþingis að framkvæma ákvæði 31. greinar stjórnarskrár, eða 9. greinar laga um kosninga til Alþingis. Það verkefni er í höndum landkjörstjórnar og eiginlega nokkuð undarlegt að stjórnmálafræðingurinn skuli ekki vita það.
![]() |
Segir Alþingi vanrækja skyldu sína |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kosningar
1.10.2021 | 01:45
Það var vissulega óheppilegt hvernig staðið var að talningu atkvæða í NV kjördæmi og vissulega má taka undir að þar hefði betur mátt fara. Hitt er undarlegra, að lögfróðir menn, sumir jafnvel sem voru í framboði og fengu ekki næg atkvæði, skuli bera fyrir sig brotum á stjórnarskrá og kosningalögum í þessu sambandi. Þessu fólki væri hollt að lesa stjórnarskránna og kosningalögin.
Það er fljótlesið hvað stjórnarskrá segir um kosningar til Alþingis, þar er í raun einungis rætt um kjördæmaskipan og hverjir eru kjörgengir. Að öðru leyti er vísað til kosningalaga. Í þeim er aftur að finna hvernig skuli farið með kjörgögn, hvernig skuli staðið að talningu og annað er snýr að kosningunni sjálfri, auk ákvæða um kjördæmaskipan og kjörgengi.
Skemmst er frá að segja að samkvæmt þeim lögum er talað um að kjörkassar skuli innsiglaðir á kjörstað, á leið frá kjörstað til talningarstöðvar og á leið frá talningarstöð í geymslu, þar sem þau eru geymd í ákveðinn tíma en síðan eytt. Ekki segir að kjörkassar þurfi að vera innsiglaðir meðan þeir eru á talningarstað. Ekki segir að kjörgögn skuli flutt til geymslu strax að lokinni talningu, einungis að talningarstaður skuli vera í innsigluðu rými. Ekkert segir til um hvernig skuli staðið að flutningi kjörgagna, til og frá kjörstað, hvort einn eða fleiri eigi að vinna það verk.
Varðandi viðurlög við brotum á kosningalögum er ansi fátæklegt um að litast í þeim. Meint vald Alþingis virðist vera ofmetið. Það hefur einungis vald til að skoða hvort hver sá er hlýtur kjör þangað inn sé með löglegt umboð þjóðarinnar. Til að Alþingi geti ákveðið nýjar kosningar þarf annað tveggja að vera fyrir hendi, að ágallar séu svo miklir að veruleg áhrif það hafi á fylgi flokka og ef ágallar leiði til að heill þingflokkur telst vera án umboð þjóðarinnar.
Nú liggur fyrir að þessi skekkja sem varð í talningu atkvæða í NV kjördæmi breytti ekki fylgi stjórnmálaflokka, hafði einungis áhrif á uppbótarþingmenn innan hvers flokks. Því er ljóst að fyrra atriðið er ekki fyrir hendi. Hvort þeir uppbótarþingmenn er komu inn í stað þeirra sem fóru út, hafi umboð þjóðarinnar, má kannski deila um. Ljóst er þó að einungis er þar um að ræða fjóra þingmenn frá fjórum flokkum.
En upphlaupið sýnir kannski kjarna málsins. Þeir þingmenn sem duttu út láta mikinn, þó flokkar þeirra hafi ekki borið neinn skaða. Horfa fyrst og fremst á eigin hag.
Svo má auðvitað deila um hvort stjórnarskrá og lög um kosningar séu sanngjörn. Það er bara allt önnur saga.
Um meint vantraust er það eitt að segja að þeir sem velja að túlka og snúa lögum sér í hag eru þeir menn sem grafa undan trausti til stjórnsýslunnar. Sorglegt að þar skuli lögfræðingar vera á bekk. Mistök geta hins vegar alltaf átt sér stað. Þegar þau uppgötvast er það merki um styrk að ráðast strax í að leiðrétta þau.
Þá er rétt að nefna að enginn hefur tjáð sig um að kosningasvindl hafi átt sér stað.
![]() |
Innsiglað alls staðar nema í Norðvesturkjördæmi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)