Þingmenn Sjálstæðisflokks og stjórnarsáttmálinn

Fréttastofa ruv hefur farið hamförum eftir að Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðisráðherra sat hjá við atkvæðagreiðslu á þingi. Minna fer þó fyrir upphlaupinu á síðum Moggans, helsta málgagni sjálfstæðismanna.

Fréttamenn ruv hafa verið duglegir að elta uppi ráðherra og þingmenn Sjálfstæðisflokks vegna þessa máls. Þessum fréttamönnum hefur tekist að ná ýmsum lítt hugsuðum ummælum frá þessu fólki, ummælum sem sjálfsagt margir hverjir sjá eftir. Jafnvel formaður þess flokks hefur látið frá sér undarleg ummæli um málið og minna þau nokkuð á hið "ískalda mat" sem sá maður lét falla í aðdraganda kosningar um icesave lögin, forðum daga. Þá helfraus heili Bjarna og engu líkara en það hafi einnig gerst í viðtali við fréttamann ruv, vegna "Eyglóar málsins".

Ekki þarf svo að tala um "eðlileg" viðtöl fréttastofunnar við stjórnarandstæðinga og hina venjubundnu "sérfræðinga". Þar er allt á sömu bókina lagt, sem áður.

Ekki er ég sérstakur aðdáandi Eyglóar, sem stjórnmálamanns. Tel hana frekar litlausa og hafa verið máttlaus við að koma sínum málum gegnum ríkisstjórnina. Því hefur hvorki verið efni til að mæra hana né lasta, þó hið síðarnefnda komi kannski oftar upp í hugann og þá fyrir skort á drifkrafti gegn þingmönnum samstarfsflokksins.

Þegar ríkisstjórn er mynduð er gerður sáttmáli um hvernig vinna skuli út kjörtímabilið. Hvaða málefni skal taka á og áherslur. Auðvitað verða flokkar stundum að fórna einhverjum málum sem þeir tala fyrir í kosningabaráttunni, þegar slíkur sáttmáli er gerður. Það er síðan þessi stjórnarsáttmáli sem er leiðandi í störfum ríkisstjórnarinnar, út kjörtímabilið.

Við myndun núverandi ríkisstjórnar var gerð þessa sáttmála einstaklega auðveldur, enda málflutningur beggja stjórnarflokka ótrúlega samhljóða fyrir kosningar. Því tók það verk stuttan tíma og flest áherslumál beggja flokka rúmuðust innan sáttmálans.

En hver hefur svo framkvæmdin verið?

Í megin atriðum hefur tekist að koma flestum málum í framkvæmd. Eftir standa þó einstök málefni, einkum þau mál sem Framsókn hafði talað fyrir. Má þar helst nefna afnám frítekjumarks bóta aldraðra og öryrkja, afnám verðtryggingar og flugvöllur í Vatnsmýrinni.

Skýrt er tekið fram í stjórnarsáttmálanum að afnema skuli frítekjumark bóta aldraðra og öryrkja. Þetta mál er á hendi félagsmálaráðherra en með einhverjum óskiljanlegum hætti hefur henni ekki tekist að standa við þessa samþykkt. Má þar kenna andstöðu ákveðinna þingmanna Sjálfstæðisflokks.

Ekki er eins skýrt ákvæðið um afnám verðtryggingar. Þó kemur skýrt fram að stofnuð skuli nefnd um slíkt afnám og að henni beri að skila af sér fyrir áramótin 2013/2014. Nefndin var skipuð og hún skilaði af sér, héraumbil á réttum tíma. Vandinn var hins vegar, að flestir nefndarmenn misskildu sitt hlutverk, rugluðu saman orðunum "hvort" og "hvernig". Einungis einn nefndarmaður skildi skipunina rétt og skilaði séráliti.

Þessum ruglingi meirihluta nefndarmanna tóku sjálfstæðismenn fagnandi og hafa náð að þvæla málinu fram og til baka, þar til loks einhver óskapnaður var svo kynntur, nú í lok starfstíma þessarar ríkisstjórnar. Óskapnaður sem er í engum takt við stjórnarsáttmálann og tekur ekki með neinu móti á þeim vanda sem verðtryggingin hefur á almenning, þjóðina og þjóðarbúið í heild sinni!

Í kaflanum um samgöngumál, í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, er skýrt tekið fram að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni skuli standa óhaggaður. Ekki var langt liðið á stjórnarsamstarfið þegar Sjálfstæðismaður í embætti innanríkisráðherra, staðfesti dánarvottorð flugvallarins, með samningsgerð við Reykjavíkurborg. Formaður flokksins hefur síðan afhent Reykjavíkurborg afsal að lóðum við enda neyðarbrautar, samkvæmt samningi sem gerður var á síðasta kjörtímabili, milli tveggja samherja í Samfylkingunni, fyrir stóru landsvæði við suð vestur enda neyðarbrautarinnar! Því er ljóst að nú er svo komið að engin neyðarbraut er fyrir sjúkraflug á suð vestur horni landsins og innan tíða mun næsti varaflugvöllur fyrir utanlandsflugið vera í Skotlandi!

Hvergi í stjórnarsáttmálanum er þó tiltekið að gerð skuli fjármálaáætlun til ársins 2021. Gerð slíkrar áætlunar, undir lok kjörtímabils, er eins vitlaust sem frekast getur verið, sér í lagi þegar nánast er ljóst að núverandi ríkisstjórn missir umboð sitt og til valda kemur fjölflokka stjórn þar sem hver höndin mun verða upp á móti hver annarri og hrossakaup um öll málefni látin ráða. Undir slíkri fjölflokka ríkisstjórn, sem að auki hefur sagt að hún hugnist ekki þessi fjármálaáætlun, er ljóst að verið er að leggja mikla fjármuni og vinnu í tilgangslaust plagg. Að auki er ekki gert ráð fyrir að þau málefni sem ríkisstjórnin hefur ekki fullnægt, samkvæmt núverandi stjórnarsáttmála, einkum í félagslegum málum, er ekki innan þessa plaggs, er ekki undarlegt að ráðherra sem með þau málefni fer, sjái sér illfært að samþykkja það.

Eygló Harðardóttir er því ekki að brjóta upp stjórnarsamstarfið á neinn hátt. Þó henni hafi ekki tekist að fullnægja stjórnarsáttmálanum að fullu, er ekki við hana að sakast í því efni. Þó hún samþykki ekki einhverja tilgangslausa vinnu utan stjórnarsáttmálans, eru það engin svik við stjórnarsamstarfið!

Hins vegar væri hollt fyrir þingmenn Sjálfstæðisflokks, þá einkum formanns flokksins, að lesa stjórnarsáttmálann yfir. Þá kæmust þeir að því hverjir hafa verið duglegastir við að fara framhjá þeim sáttmála, hverjir hafa verið ógn við tilveru þessarar ríkisstjórnar, allt þetta kjörtímabil. Að taka svo "ískalt mat" að hausinn frjósi, hefur aldrei verið til lukku. Því miður virðist það henda formann Sjálfstæðisflokks æ oftar!

Það sorglega, fyrir okkur sem ekki getum sætt okkur við vinstra afturhald í ríkisrekstri, er deginum ljósara að ef núverandi ríkisstjórn hefði staðið við stjórnarsáttmálann og unnið eftir honum, væru þessir flokkar að ganga til kosninga svo sterkir að enginn vafi væri um áframhaldandi velmegun í landinu.

Þá væru aldraðir og öryrkjar búnir að fá sína leiðréttingu og væru ánægðari. Þá væri fjármálakerfið orðið heilbrigt, með einn gjaldmiðil í landinu og lækkandi vexti á lánum til húsnæðiskaupa. Þá væri búið að treysta tilveru flugvallarins í Vatnsmýrinni, bæði sem neyðarflugvöll þegar vá ber að og einnig sem varaflugvöll fyrir utanlandsflugið. Svona mætti lengi telja, því þó heilt yfir hafi þessari ríkisstjórn tekist að vinna eftir stjórnarsáttmálanum, betur en áður hefur þekkst, þá eru það einmitt þau mál sem snúa beint að kjósendum, sem hafa orðið útundan.

Því munu kjósendur ekki endurnýja umboð þessarar ríkisstjórnar. Þar má sannarlega sakast við þingmenn og ráðherra Sjálfstæðisflokks. Þeir hafa á kjörtímabilinu grafið gröf þessarar ríkisstjórnar, þeir hafa séð til þess að hér mun ríkja nánast stjórnleysi vinstri aflanna, á næstu árum, með tilheyrandi skelfingu fyrir þjóðina!


mbl.is Ræddu ekki ákvörðun Eyglóar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Maður getur rétt ýmyndað sér hvort þingmenn flokkanna fjögurra,(var við það að skrifa fjörugra) liggi ekki á ýmsu forvitnilegu hverjir um aðra,eftir að hafa unnið saman í ríkisstjórn um árabil.-Nema kannski var Framsóknarflokkurinn orðinn afturbata,þegar ungur sprækur formaður kom og leiddi flokkinn til met fylgis 2013'öðrum til mikillar arðmæðu.- Þess vegna lítur það illa út hjá kjósendum að Sigmundur fengi ekki stuðning frá Sjálfstæðisflokknum,þegar vegið var að honum á andstyggilegan hátt,þar var fréttastofa RÚV í hamfarakasti og er löngu orðinn grímulaus áróðursmaskína ættjarðar okkar,veit ekki hvort það er vinstri/hægri hrærigrautur. Gott að sjá þig aftur Gunnar,Mb.KV.

Helga Kristjánsdóttir, 20.8.2016 kl. 00:21

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

 Á að vera áróðursmaskína gegn ættjörð okkar. leiðr.

Helga Kristjánsdóttir, 20.8.2016 kl. 00:23

3 Smámynd: Steindór Sigurðsson

Já nú þarf Bjarni að passa vel uppá að aldraðir og öryrkjar fari ekki með meira en hundrað milljónir í hverja Spánarferð.

En verði það bara best sem vitlausast.

Steindór Sigurðsson, 20.8.2016 kl. 03:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband